Miðvikudagur 7.12.2011 - 08:48 - 12 ummæli

Vigdís duglegur þingmaður

Vigdís Hauksdóttir er með eindæmum kröftugur og duglegur þingmaður.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.12.2011 - 17:09 - 1 ummæli

Tíminn liðinn?

Mér þykir vænt um Tímann. Þótt ég hafi byrjað blaðamannaferil minn á Morgunblaðinu þá var ég lungan úr mínum fjölmiðlaferli á Tímanum. Hjá snillingunum Indriða G., Ingvari Gíslasyni og fleirum.  Ég hafði hugmyndir um að endurreisa Tímann sem annars vegar mánaðarrit og hins vegar sem vefrit. Vildi taka heitið „Tíminn“ á leigu af Framsóknarflokknum.

Ég lagði nokkra vinnu í undirbúning verkefnisins. Lagði fram tillögur innan Framsóknarflokksins enda var ég þá í þeim annars ágæta flokki. Sem var þá ennþá frjálslyndur. Þær fengu ekki hljómgrunn. Því miður.

Hins vegar var annað hljóð komið í skrokkinn þegar vinir og félagar núverandi forystu vildi fá Tímaheitið fyrir vefrit. Framsóknarflokkurinn lét þeim heitið „Tíminn“ í té. Eftir smá slagsmál  Framsóknar við Eyjuna og Illuga Jökulsson.

Mér fannst uppbygging vefritsins Tímans spennandi. Landshlutafréttir áttu að skipa veglegan sess miðað við uppbyggingu vefsíðurnnar. Minna varð hins vegar um efndir.

Nú virðist Tíminn liðinn. Allavega þagnaður í bili. Síðasta frétt í Tímanum hins nýja Framsóknarflokks virðist vera skrifuð 22. október.  Tímans tákn?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.12.2011 - 18:42 - 9 ummæli

Árni Páll ER að styrkja sig!

Þvert á það sem andstæðingar Árna Páls Árnasonar innan Samfylkingarinnar töldu þá hefur spuni þeirra gegn efnahagsráðherranum styrkt stöðu Árna Páls. Þá styrkti Árni Páll sjálfur stöðu sína með yfirvegaðri og málefnalegri framkomu sinni í Silfri Egils. Árni Páll er að stimpla sig inn sem raunverulegur valkostur fyrir Samfylkingarfólk þegar Jóhanna hættir. Sem gerist væntanlega fyrir næstu kosningar.

Þá styrktist Árni Páll enn frekar í dag þegar Steingrímur J. gat ekki dulið óánægju sína með þróun helgarinnar og svaraði ólundarlega að hann teldi að efnahagsmálin ættu að vera á einum stað í ríkisstjórn og engum duldist að hann vildi þau til sín í fjármálaráðuneytið. Mér var dulítið hugsað til Pútíns 🙂

Ástæða þess að ég get staðhæft að Árni Páll sé að styrkja sig er sú að eins og svo oft áður hef ég fengið bein viðbrögð við pistli mínum frá því fyrir helgi „Árni Páll með pálmann í höndunum“ þar sem fólk er mér sammála.  Því það er nefnilega svo sérstakt að mjög oft treystir fólk sér ekki til að ræða málin í athugasemdakerfi bloggsins mín – þar sem það getur orðið fyrir aðkasti – heldur hefur samband við mig beint.

Flestir eru mér sammála – og allir þeir sem ég hef talað við eftir Silfur Egils – eru sammála um styrkingu Árna Páls.

… en það sem skemmtilegra er – ég hef fengið margar skemmtilegar tilgátur um af hverju reynt er að hnekkja á Árna Páli þessa dagana!

Meira um það síðar…

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.12.2011 - 07:59 - 9 ummæli

Spilling eykst á Íslandi

Það var spilling í gangi á Íslandi fyrir hrun. Það er klárt. En spillingin er síst minni eftir hrun. Á mörgum sviðum er hún enn meiri en fyrir hrun. Við virðumst lítið hafa lært.  Þetta er staðfest í árlegum lista Transparency International, samtaka sem berjast gegn spillingu.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.12.2011 - 21:32 - 40 ummæli

Ömurlegur vælandi DV bloggari!

Miðlungs íslenskur bloggari í Svíþjóð sem þekktur er fyrir sorakjaft og oft á tíðum tilhæfulausar og meiðandi áskanir í garð nafngreinds fólks vælir nú eins og stunginn grís yfir því að hann sæti málsókn vegna meiðyrða. Ofan í kaupið gerir hann málsóknina sér að féþúfu sem er reyndar í takt við fyrri tilraunir hans til að fá Alþingismenn til að styrkja sig fjárhagslega.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess meiðyrðamáls sem þessi miðlungs bloggari reynir nú að verjast – en verð að segja að vælið í manninum yfir því að þurfa að standa fyrir máli sínu – er aumkunarvert með eindæmum!

Ég veit hvað ég er að tala um í því samhengi.

Ég skammast mín ennþá fyrir forsíðu aprílheftis Þjóðlífs árið 1989 sem ég prýddi með ákæru ríkissaksóknara undir fyrirsögninni: „Ég er fórnarlamb.“ Ritskoðun!“. Mér var illilega misboðið því forsíðan gaf í skyn að ég væri að væla yfir stöðu minni þegar ég í viðtali við Þjóðlíf taldi mig hafa lagt áherslu á að ég taldi ákæru ríkissaksóknara í minn garð vegna meintra meiðyrða ekki persónulega árás heldur tilraun valdamanna til að þagga niður í blaðamönnum sem ættu að veita stjórnvöldum og embættismönnum eðlilegt aðhald.

„-Ég er fórnarlamb ritskoðunar. Ég lít á mig sem fórnarlamb tilhneygingar til ritskoðunar í þjóðfélaginu, ég vek athygli á því að þetta mál er rekið sem sakamál, þar sem ég á yfir höfði mér allt að þriggja ára fangelsi. Hótun um slíkar refsingar fyrir gagnrýni á embættismenn hlýtur að fæla menn  frá eðlilegu aðhaldi að embættismönnum fólksins, sagði Hallur Magnússon blaðamaður á Tímanum í spjalli við Þjóðlíf.“

Þetta sagði ég á sínum tíma. Taldi mig vera að standa í fæturna gagnvart „Aðför að prentfrelsinu“ eins og Indriði G. Þorsteinsson ritsjóri Tímans orðaði það bæði í yfirheyrslum hjá rannsóknarlögrelgunni og í viðtali við Þjóðlíf.

Ég var ekki að væla yfir minni stöðu per se – enda verð ég að játa að ég var dálítið stoltur yfir því að vera talinn það hættulegur embættismannakerfinu að vararíkissaksóknari vildi knjésetja mig enda sagði hann í viðtali við Þjóðlíf  „Ritstóða og ærumorðinga vaða uppi“  og „Það verður að stöðva þá.“

Mér fannst forsíða Þjóðlífs ekki gefa rétta mynd af því sem ég vildi halda fram og taldi mig vera að berjast fyrir. Það er ekki minn stíll að væla yfir því sem yfir mig gengur. Þess heldur finnst mér ömurlegt hvernig þessi miðlungs íslenski bloggari í Svíþjóð sem þekktur er fyrir sorakjaft og oft á tíðum tilhæfulausar og meiðandi áskanir í garð nafngreinds fólks vælir nú eins og stunginn grís yfir því að hann sæti málsókn vegna meiðyrða. Og að ofan í kaupið geri hann málsóknina sér að féþúfu í takt við fyrri tilraunir hans til að fá Alþingismenn til að styrkja sig fjárhagslega.

Ég greiddi minn málskostnað þegjandi og hljóðalaust. Ég greiddi mína sekt í ríkissjóð þegjandi og hljóðalaust. Ég greiddi miskabæturnar þegjandi og hljóðalaust.

Þótt ég hafi verið dæmur á grundvelli lagagreinar sem hljóðaði svo: „Hver sem hefur í frammi skammaryrði, aðrar móðgangir í orðum eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, eða við hann eða um hann út af því, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að þremur árum“ þá datt mér ekki í hug að væla yfir því. Ég stóð mína plikt og greiddi það sem íslenskir dómstólar ákvörðuðu.

Ég og sá maður sem ég hafði gagnrýnt og verið dæmdur fyrir sættumst síðar fullum sáttum.

Vegna þessa fer óumræðanlega í taugarnar á mér vælið í Gautaborgarbloggaranum. Hvers vegna getur hann ekki tekið þessu eins og maður? Það er ekki eins og meiðyrðamál dúkki upp úr þurru …

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.12.2011 - 13:32 - Rita ummæli

Öryggið úti í Eyjum?

Það eru ákveðin lágmörk sem unnt er að lifa við í heilbrigðisþjónustu í einstökum byggðalögum svo fjölskyldufólk treysti sèr til að búa þar. Nú stefnir í að þessu lágmarki hafi víða verið náð.

Mögulega stefnir í það í Vestmannaeyjum.

Er það ásættanlegt?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.12.2011 - 22:55 - 5 ummæli

Árni Páll með pálmann í höndunum!

Árni Páll Árnason verður með pólitíska pálmann í höndunum ef Jóhanna og Steingrímur J. henda honum út út ríkisstjórn eins og kjaftasögur segja að sé á döfinni!  Áframhaldandi „efnahagsstefna“ Steingríms og Jóhönnu mun nánast gefa íslensku efnahagslífi náðahöggið.

Sök Árna Páls mun vera sú að segja sannleikann. Gagnrýna Steingrím fyrir skort á aðhaldi í ríkisfjármálum og klúðri í málefnum sparisjóðanna. Vilja raunhæfa efnahagsstefnu. Ekki þá glansmynd „a la Kim Il Sung“ sem Steingrímur og Jóhanna hafa viljað sýna almenningi í stað sannleikans.

Ef Árna Páli verður hent úr ríkisstjórninni þá mun hann verða með gullpálmann í höndunum fyrir næsta landsfund Samfylkingarinnar þegar efnahagslífið verður í rúst vegna vangetu Steingríms og Jóhönnu í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins. Þá mun Samfylkingin leita í örvæntingu einhvers sem getur bjargað því sem bjargað verður. Sá einhver verður Árni Páll sem hent var úr ríkisstjórn og getur sagt: „I told you so“.

http://eyjan.is/2011/12/01/vilja-faekka-radherrum-um-tvo-og-arna-pal-ut-ur-rikisstjorninni/

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.12.2011 - 18:13 - 2 ummæli

Gefur forstjóri FME Hæstarétti línuna?

Er  forstjóri Fjármálaeftirlitsins – sem margir telja gersamlega óhæfan sem slíkur vegna vafasamrar fortíðar á fjármálamarkaði – að gefa Hæstarétti línuna í máli Lýsingar? Sérkennilegt að forstjórinn leggi sig fram um að draga fram afleiðingar dóms héraðsdóms fyrir fyrirtækið nú þegar ljóst er að Hæstiréttur mun fjalla um málið.

Hefði ekki verið rétt að „halda kjafti“ þar til Hæstiréttur kláraði málið?

Voru einhver tengsl milli forstjóra Fjármálaeftirlitsins og Lýsingar þegar forstjórinn starfaði „án beinna afskipta“ á fjármálamarkaði?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.12.2011 - 08:48 - 1 ummæli

…fyrirgefum vorum skuldunautum?

Stjórnmálaflokkarnir flestir eru skuldum vafnir eins og skrattinn skömmunum. Það er gömul saga og ný að skuldunautar eru háðir þeim sem þeir skulda. Völd lánveitenda yfir skuldunautum eru mikil. Þeir geta sett skuldunautum sínum skilyrði meðan skuldir eru ekki greiddar.

Hvar er staða stjórnmálaflokkanna gagnvart þeim aðiljum sem flokkarnir skulda fé?  Er staða þeirra sem eiga stjórnmálaflokk sem skuldunaut ekki sterkari en staða þeirra sem veita stjórnmálaflokki beina fjárstyrki?  Hverjum skulda stjórnmálaflokkarnir?  Er ekki ástæða til þess að það komi fram opinberlega?

… því staðreyndin er nefnilega sú að við förum ekki alltaf eftir bæninni sem Kristur kenndi okkur:  „… svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum“ 

Allra síst ef við eigum hagsmuna að gæta og höfum tak á stjórnmálaflokkum í krafti ógreiddrar skuldar …

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.11.2011 - 15:14 - 4 ummæli

Stærri Framsókn en minni VG?

Þær væringar sem nú eru innan ríkisstjórnarinnar og VG skyldu þó ekki leiða til þess að Framsókn stækki en VG minnki?  Ég heyrði Vigdísi Hauksdóttur bjóða Jóni Bjarnasyni og fylgismönnum hans velkomna í Framsóknarflokkinn og halda því fram að stór hluti VG fólks væri „framsóknarmenn“. 

Það væri kannske heppilegast fyrir íslensk stjórnmál að hinn nýji Framsóknarflokkur Vigdísar og Ögmundararmurinn í VG sameinist í nýjum stjórnmálaflokki á vinstri vængnum. Þá gæti frjálslyndi hluti Framsóknarflokksins sem enn er þar flokksbundinn tekið þátt í stofnun nýs frjálslynds stjórnmálaflokks á miðju íslenskra stjórnmála.

Steingrímsarmurinn getur þá gengið í Samfylkinguna og upp úr þessu orðið nýtt og betra fjórflokkskerfi!

Reyndar kynni þessi draumsýn Vigdísar að stangast aðeins við þá áráttu Sigmundar Davíðs formanns Framsóknarflokksins undanfarið um að vilja Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn eins og ég benti á í síðasta pistli.  Nema Jón og Ögmundur séu til í stjórn með íhaldinu!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur