Laugardagur 29.10.2011 - 10:36 - 13 ummæli

Lúpínuskaðræðið

Nú er komið í ljós að lúpínan er ekki einungis skaðræði í náttúru Íslands vegna ruðningsáhrifa sinna og lýta í landinu heldur er hún einnig stórhættuleg vegna eldhættu í þéttbýli! Hvenær ætli holtin á höfuðborgarsvæðinu fari að loga?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.10.2011 - 11:57 - 12 ummæli

Stórstjörnuhrap!

Íslendingar hafa horft upp á algert stjörnuhrap virtra álitsgjafa um efnahagsmál undanfarna daga. Menn sem við höfum tekið mark á. Ég geri ekki athugasemdir við skoðanir þeirra – en er afar hugsi að menn geti komið í skjóli frægðar sinnar og haldið fram einu og öðru um íslenskt efnahagslíf – án þess að hafa kynnt sér sérstöðu íslensks fjármálakerfis ofan í kjölinn.

Mennirnir virðast ekki gera sér grein fyrir því hvernig íslenska verðtryggingin virkar. Þeir virðast ekki átta sig á því að 80% allra langtímalána heimilanna eru verðtryggð.  Þeir virðast ekki átta sig á að breytingar í gengi erlends gjaldeyris kemur fram í íslensku verðlagi og verðtryggingu að 40% næstu 18 mánuði.  Þeir virðast hafa gleymt hlut íslensku krónunnar í íslensku bankaþenslunni og hruninu.

Þetta kemur sossum ekkert mjög á óvart eftirá að hyggja.

Ég hitti árlega í nokkur ár fulltrúa AGS sem höfðu á vörunum þá möntru að það ætti að einkavæða Íbúðalánasjóðs. Af því bara.  Á hverju ári þurfti ég að rifja það upp fyrir þessu ágæta fólki að það væri verðtrygging á Íslandi. Að 80% íslenskra heimila væru með skuldbindingar sínar í verðtryggðum lánum. Hvernig „pass through effect“ gjaldmiðlabreytinga hefðu áhrif á skuldastöðu heimilanna vegna mikilla áhrifa þeirra á neysluvísitöluna.

Þeim fannst þetta alltaf jafn merkilegt. En virtust búin að gleyma því á næsta ári. 

Enda skiptir ekki öllu að vita mikið um litla krúttlega Ísland til þess að láta frægðarsól sína þar skína. Þetta skrítna land þar sem fasistar skipa ríkisstjórn sem sýnir erlendum fjárfestum löngutöngina og er með þess krúttlegu krónu sem væri eftirsjá af í alþjóðlegri myntflóru. Hvort sem hún gerir gagn eða ekki.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.10.2011 - 14:11 - 2 ummæli

Kirsuberjagarðurinn Ísland

Við lifum í Kirsuberjagarðinum Íslandi. Eftir Tsékhov. Það er vandamálið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.10.2011 - 20:11 - 12 ummæli

Mannréttindi útigangsfólks

„Á undanförnum árum hefur heilbrigðisástandi útigangsfólks; drykkjufólks og annarra fíkla hrakað. Síðasta vetur urðu nokkrir úti á götum borgarinnar. HIV grasserar meðal sprautunotenda og veikari og veikari einstaklingar leita til heilbrigðisþjónustunnar. Útskúfun þessa fólks úr mannlegu félagi er alvarlegt mannréttindabrot. Nauðsynlegt er að koma upp neyðarskýlum fyrir fólk sem ekki er tilbúið til að hætta neyslu og veita því eðlilega heilbrigðis- og sálfræðiþjónustu, án kröfu um bindindi.“

Þannig hljóðar mikilvæg færsla Péturs Þorsteinssonar á samfélagsvefnum „Betri Reykjavík“ sem er ein merkasta lýðræðistilraun undanfarinna missera. Meira um það síðar en áfram með málefni útigangsfólks.

Það er hárétt hjá Pétri að það þarf sérstaklega að gæta að mannréttindum útigangsfólks. Þessi hluti samfélags okkar er því miður ekki í standi til þess að verja mannréttindi sín ein og sér. Þau þurfa við það aðstoð.

Það er rétt sem Pétur segir. Þessi hópur þarf á aukinni aðstoð að halda.

Ekki það að Reykjavíkurborg hafi ekki unnið að málefnum útigangsfólks. Þvert á móti. Frá því árið 2008 hefur Reykjavíkurborg einmitt stóraukið stuðning við útigangsfólk – ekki síst á heilbrigðissviðinu. Það þekki ég sjálfur sem fyrrverandi varaformaður Velferðarráðs – en málefni útigangsfólks var okkur í Velferðarráði afar hugleikin og við lögðum sérstaka áherslu á að bæta hag þessa fólks.  

En betur má ef duga skal.

Ég er þess fullviss að Velferðarráð og Reykjavíkurborg mun ekki láta staðar numið í stuðningi við útigangsfólk – enda eitt helsta kosningamál Bezta stuðningur við þennan hóp Reykvíkinga. Reyndar fattaði bezti ekki hvað hafði verið gert mánuðina á undan – en það er aukaatriðið 🙂

En hlutirnir gerast ekki af sjálfum sér.

Þess vegna er áminningar eins og sú sem Pétur Þorsteinsson hefur sett á samfélagsins „Betri Reykjavík“ svo mikilvægar. hafðu þökk fyrir Pétur!

Fyrri færslur mínar um málefni útigangsfólks:

Jón Gnarr og rónarnir

Munið Herópið fyrir jólin

Aðgerður fyrir utangarðsmenn í burðarliðnum!

Aðgerðaráætlun útigangsfólks í framkvæmd!

Iðjuþjálfun fyrir utangarðsmenn í Reykjavík

Smáhýsi fyrir heimilislausa tilbúin til notkunar

Hjálpræðisherinn og Velferðasvið vinna saman að bættum hag utangarðsmanna

Áfram, ekkert stopp í málefnum utangarðsfólks í Reykjavík!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.10.2011 - 08:01 - 19 ummæli

Pólitísk lögregla?

Það hafa margir fagnað beinum afskiptum hápólitískra Alþingismanna af því sem lög gera ráð fyrir að vera fagleg stjórn og réttilega skipuð af framkvæmdavaldinu sem vann vinnuna sína í samræmi við lög og reglur.

Þessi óeðlilegu afskipti hápólitískra Alþingismanna sem þoldu ekki að hæfur einstaklingur sem hafði sér það eitt til sakar unnið að vera úr öðrum stjórnmálaflokkin en þeir sjálfir er að mínu mati pólitísk spilling – en því miður pólitísk spilling sem allt of margir fagna – enda líklega ekki búnir að hugsa málið til enda. Gera sér ekki grein fyrir alvarleika þessara beinu afskipta pólitískra Alþingismanna.

Um þetta fjallaði ég í síðasta pistli mínum „Nýtt tákn pólitískrar spillingar“ .

Sumir reyna að gera gagnrýni mína tortryggilega með því að benda á að ég hafi eitt sinn verið í sama stjórnmálaflokki og sá maður sem hrakinn hefur verið úr starfi sínu sem hann hafði verið ráðinn í á málefnalegan og lögmætan hátt af þar til bærri stjórn.  En málið snýst ekki um það heldur lýðræði, þrískiptingu valds og því að fram að þessu hefur þjóðin viljað stöðva pólitísk afskipti af faglegum ráðningum innan ríkisfyrirtækja.

Það er nefnilega enginn eðlismunur á beinum pólitískum afskiptum alþingismanna af opinberri ráðningu sem fellur ekki undir valdsvið þeirra en beinum pólitískum afskiptum alþingismanna af starfi lögreglunnar.

Viljum við að pólitískir alþingismenn hafi afskipti af daglegri starfsemi lögreglunnar og beiti henni fyrir sér í pólitískum tilgangi? Jafnvel til að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína?

Hélt ekki!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.10.2011 - 19:35 - 21 ummæli

Nýtt tákn pólitískrar spillingar

Samfylkingarmaðurinn Helgi Hjörvar er nýr holdgervingur pólitískrar spillingar. Hann stendur framar gömlu pólitísku spillingarhundunum. Pólitísk spilling og vinaráðningar gamla íhaldsins og gömlu Framsóknar var innan gildandi laga og reglna.  Löglegar en siðlausar. Einnig pólítískar ráðningar Samfó eftir að hún komst í ríkisstjórn með íhaldinu og VG þegar þau komust í þá stöðu að ráða fólk pólitískt.

En Samfylkingarmaðurinn Helgi Hjörvar hefur náð nýjum hæðum í pólitískri spillingu. Fyrir honum skipta lög og reglur engu máli. Fyrir honum skiptir engu máli að ýta lögum og reglum til hliðar í pólitískum tilgangi.  Fyrir Helga Hjörvari helgar pólitískur tilgangur hans meðalið. Hann er ólöglegur og siðlaus.

Helgi Hjörvar hefði sómt sér vel með Jónasi frá Hriflu varðandi pólitískar mannaráðningar!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.10.2011 - 20:07 - 3 ummæli

Vélaður í nafni Halldórs Laxness

Ég get sagt frá því núna. Ég var fyrir rúmum 20 árum vélaður í nafni Halldórs Laxness. Hef skammast mín fyrir það alla tíð. En ákvað að segja frá því eftir umfjöllun um Halldór í sjónvarpinu i kvöld.

Þótt ég væri ferlega blankur þá ákvað ég að taka tilboði sölumanns sem var að selja bækur Halldórs Laxness. Ein bók í mánuði. Enda var ég hrifinn af mörgu því sem Halldór hafði skrifað.

Keypti 23 bækur. Sagði þá upp áskriftinni.

Ástæðan?

Ég hafði þrisvar keypt sömu bókina dýrum dómum.

Fyrst „Þættir“. Sú bók inniheldur smásögur Halldórs. Allar þær sem eru að finna í „Smásögur“ sem ég fékk senda og borgaði fyrir nokkrum bókum síðar.  Ákvað hins vegar að segja upp þessari glæpaáskrift þegar ég fékk í hendur „Sjö stafa kverið“ sem ég átti fyrir í bókunum „Þættir“ og Smásögur“.

Vildi ekki bíða eftir og  borga á ný „Nokkrar sögur“, „Fótatak manna“ og „Sjö töframenn“ sem allar eru í „Smásögum“.

Nóg að hafa 8% af 23 bókum sömu bókina í þremur bókum!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.10.2011 - 20:09 - 26 ummæli

Jóhanna klúðraði

Jóhanna Sigurðardóttir hafði um helgina sögulegt tækifæri til að ná áður óþekktum hæðum í íslenskum stjórnmálum. En hún klúðraði því. Líklega vegna þess að hún er gamaldags pólitíkus!  Skilur ekki ákall nýrra tíma.

Ekki frekar en Samfylkingin. Eða Sjálfstæðisflokkurinn. Eða Framsóknarflokkurinn. Eða VG. Eða Hreyfingin sem heldur að hún hafi einkarétt á búsáhaldabyltingunni.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa lagt fram ítarlega og ágætlega ígrundaðar tillögur í efnahags og arvinnumálum. Samfylkingin hefur einnig unnið að slíkum tillögum eftir  hafa verið fjarstýrt af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í meintum efnahagsaðgerðum.

Jóhanna gat náð nýjum hæðum í íslenskri pólitík með því að bjóða Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki til viðræðna um mótun breiðrar heiildstæðrar efnahags- og atvinnustefnu sem stutt yrði af lunganum af Alþingismönnum og meirihluta þjóðarinnar.

En í stað þess að nota tækifærið féll hún í skotgröf gömlu stjórnmálanna og fann hugmyndum pólitískra andstæðinga sinna allt til foráttu. Sagði meira að segja ekki satt – þegar hún hélt því fram að „loksins nú“ leggi þessir gömlu flokkar fram efnahagsáætlanir og áætlanir um uppbyggingu atvinnulífsins.

Það vita nefnilega allir að Framsóknarflokkurinn lagði fram ítarlegar efnahagstillögur í upphafi þegar Framsóknarflokkurinn gerði Jóhönnu að forsætisráðherra. Þá hafði Samfylkingin ENGIN úrræði í efnahags og atvinnumálum. En fékk síðar slíka stefnu í kornflekspakka frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.  Jóhanna sló á efnahagslega sáttarhönd Framsóknar þá – og nú sló hún aftur á útrétta sáttarhönd Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Þess vegna mun Jóhanna í sögunni verða dæmd sem síðasta risaeðlan í gamaldags íslenskri pólitík. Þegar hún hafði möguleika á að vera guðmóðir nýrrar heilbrigðrar pólitíkur framtíðarinnar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.10.2011 - 22:48 - 10 ummæli

Hin heilögu hreindýr

Ég fann verulega til með hreindýratörfunum tveimur sem hanga saman á hornunum í víraflækju austur í Flatey á Mýrum. Sá þá berjast hatrammlega á mánudagskvöldið þegar við félagarnir vorum að undirbúa gæsaveiðar í rokinu á gullnum ökrunum undir björtum skriðjöklunum við Hornafjörð. Við höfðum samband við hreindýraeftirlitsmanninn og létum vita – en fengum þau svör að tarfarnir hefðu verið hangandi saman í víraflækjunni „í einhverja daga“.

Eftir árangursríka gæsaveiði á þriðjudeginum litum við á hreindýrahjörðina sem var á friðsamri beit á sléttunum við Flatey og fundum hreindýrstarfana tvo – ennþá hangandi saman á hornunum – hættir að slást en reyndu máttfarnir að bíta gras með ekkert allt of góðum árangri.

Ákváðum nú að síma til Umhverfisstofnunnar. Takmörkuð viðbrögð. Tarfarnir skyldu áfram hanga saman á hornunum.

Okkur var ekki alveg sama – en héldum þó með gæsafenginn upp að Smyrlabjörgum þar sem við höfðum gist við góðan kost.

Ég fattaði svo í morgun af hverju enginn á Hornafirði vill nálgast hreindýrin tvö. Las nefnilega um ríkissaksóknara sem hefur ákært lögregluþjón á Hornafirði fyrir að hafa fellt skaddað hreindýr sem sat fast í girðingu austur í Lóni.

Lögregluþjónninn batt endi á þjáningar dýrsins þótt hann væri á frívakt – enda búið að skera fjárframlög og vinnu lögreglunar niður við trog – með skotvopni í eigu lögregluembættisins – og það sem verra var í augum ríkissaksóknara – ók á lögreglubifreið austur yfir Almannaskarð og það á frívakt! 

Ofan í kaupið þá gróf lögreglumaðurinn ekki hræið af hreindýrinu í jörðu með húð og hári – heldur ákvað – fyrst það varð að aflífa dýrið – að taka með sér hryggvöðva sem annars hefðu rotnað í jörðu í lögreglunnar nafni!

Fyrir þennan stórglæp hefur ríkissaksóknari dregið lögreglumanninn á frívaktinni fyrir dóm.

Á meðan þorir enginn Hornfirðingur að snerta tvo hreindýrstarfana tvo sem berjst fyrir lífi sínu hangandi saman á víraflækju.

Mér sýnist að óbreyttu að tarfarnir tveir muni veslast upp af hungri – í boði ríkissaksóknara.

Hreindýrstarfar fastir saman í víraflækju á hornunum. Mikil átök.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.10.2011 - 08:16 - 11 ummæli

IceSave 2 ?

Landsbankinn. Húsnæðislán á niðurgreiddum vöxtum. Fjármögnuð með innlánum. Fær enginn hnút í magann?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur