Miðvikudagur 20.7.2011 - 13:22 - 5 ummæli

Samvinnufélög lausn í húsnæðismálum

Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við fyrirkomulag leiguíbúðalána Íbúðalánasjóðs. Stjórnvöld hafa 6 vikur að bregðast við athugasemdunum. Stjórnvöld hafa lausnin í höndum og hafa haft hana í höndum rúmt ár – en lausnin kemur fram í skýrslu vinnuhóps „Húsnæði fyrir alla“.
Þar er ekki lögð til leið sértæks félagslegs húsnæðis eins og því miður virðist vera nánast trúarbrögð margra innan ríkisstjórnarflokkana.
 
Af þessu tilefni endurbirti ég pistil um húsnæðismál sem ég ritað fyrr í vetur – og á vel við nú þegar ESA hefur tekið stjórnvöld á beinið:
Leið sértæks félagslegs leiguhúsnæðis er óþörf.  Þörfinni er unnt að mæta innan húsnæðissamvinnufélaganna.
 
Búseti, Búmenn og fleiri húsnæðissamvinnufélög hafa fest sig í sessi á Íslandi með búseturéttarfyrirkomulagi sínu. Húsnæðissamvinnufélögin hafa verið mikilvægur hlekkur í húsnæðismálum á Íslandi og gætu orðið lykillinn að farsælli framtíðarlausn.
 
Húsnæðissamvinnufélög sem reka bæði búseturéttarhúsnæði og leiguhúsnæði gætu orðið kjarninn í húsnæðisstefnu stjórnvalda á næstu árum. Þannig hefðu landsmenn val um þrjár raunhæfar leiðir í húsnæðismálum, hefðbundna leið eigin húsnæðis, búseturéttarleið og leiguleið.
 
Krafa ESA um takmörkun á íbúðalánum með ríkisábyrgð

Ljóst er að breytingar þarf að gera á núverandi fyrirkomulagi lánveitinga Íbúðalánasjóðs vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Eftirlitsstofnun EFTA – ESA – hefur gert athugasemdir við að Íbúðalánasjóður veiti öllum búsettum á Íslandi ríkistryggt grunnlán til íbúðakaupa óháð efnahag og stærð húsnæðis. ESA hefur kallað eftir takmörkunum. ESA leggur íslenskum stjórnvöldum ekki til regluverk – heldur kallar eftir tillögum Íslendinga.

Lán til húsnæðissamvinnufélaga gjaldgeng

Íslenskum stjórnvöldum er heimilt samkvæmt EES samningi að veita húsnæðissamvinnufélögum íbúðalán með ríkisábyrgð og veita húsnæðissamvinnufélögum sértæka ívilnun. Því gætu stjórnvöld einskorðað sérstækan stuðning í húsnæðismálum við húsnæðissamvinnuformið. Þar með talin lán með ríkisábyrgð.

Stuðningur við eignarformið og við almenn leigufélög verði almennur í formi húsnæðisbóta sem taki mið af stöðu hvers og eins, efnahagslegri og eftir fjölskyldustærð.

Leiguleið innan húsnæðissamvinnufélaga

Markmiði stjórnvalda um eflingu leigumarkaðar er einfalt að ná innan vébanda húsnæðissamvinnufélaga. Ekkert er því til fyrirstöðu að húsnæðissamvinnufélög bjóði upp á leiguhúsnæði samhliða búseturéttarhúsnæði. Sértækur stuðningur ríkisins til uppbyggingar leiguhúsnæðis verði þá til húsnæðissamvinnufélaga en ekki almennra leigufélaga.

Félagslegar lausnir innan húsnæðissamvinnufélaga

Stjórnvöldum er í lófa lagið að ná fram félagslegum lausnum í húsnæðismálum innan húsnæðissamvinnufélaganna. Sveitarfélög geta lagt félagslegt húsnæði sitt inn í húsnæðissamvinnufélög og öðlast yfirráð yfir búseturétti í takt við framlag sitt. Sama máli gegnir um félagasamtök eins og Öryrkjabandalagið.

Sveitarfélög og félagasamtök geta einnig átt þátt í uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaganna og bætt við sig búseturéttum sem skjólstæðingar sveitarfélaganna geta fengið leigt á félagslegum kjörum og síðan keypt þegar þeirra félagslegu aðstæður breytast til batnaðar.

Leið sértæks félagslegs leiguhúsnæðis er óþörf.  Þörfinni er unnt að mæta innan húsnæðissamvinnufélaganna.
Félagslegar kvaðir á húsnæðissamvinnufélaga

Á grundvelli sértæks stuðnings stjórnvalda við húsnæðissamvinnufélögin geta stjórnvöld sett ákveðnar félagslegar kvaðir á húsnæðissamvinnufélögin. Til að mynda að ákveðið hlutfall húsnæðis taki mið af þörfum hreyfihamlaðs fólks. Það hefur húsnæðissamvinnufélagið Búmenn reyndar alltaf haft að leiðarljósi.

Stórheimili húsnæðissamvinnufélaga

Lausnir á borð við stórheimili Búmanna í Vogum henta vel víða um land. Stjórnvöld og sveitarfélög geta stutt við uppbyggingu slíkra stórheimila með sértækum aðgerðum. Hugmyndin byggir á því að tengja saman íbúðaálmur við þjónustukjarna. Íbúar og sveitarfélög eiga búseturétt og greiða rekstrarkostnað tengdum sínum eignum.

Húsnæðissamvinnufélög sem úrlausn í skuldamálum

Húsnæðissamvinnufélög geta hæglega orðið mikilvægur hlekkur í úrlausn í skuldamálum heimilanna. Æskilegt er að gefa þeim heimilum sem það kjósa að í kjölfar skuldaniðurfærslu í 110% að leggja húsnæði sitt inn í húsnæðissamvinnufélög og eignast búseturétt. Einnig að húsnæðissamvinnufélögin taki yfir húsnæði sem Íbúðalánasjóður eignast. Útfærsla á slíku fyrirkomulagið liggur fyrir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.7.2011 - 10:21 - 17 ummæli

Óþroskað stjórnarskrárfrumvarp

Stjórnlagaráð hefur nú birt frumvarpsdrög að nýrri stjórnarskrá. Drögin er afrakstur vinnu stjórnlagaráðs hingað til en ráðið mun fjalla um frumvarpsdrögin á næstu dögum þar sem teknar verða fyrir breytingartillögur. Stjórnlagaráð hefur því ekki skilað af sér frumvarpi til stjórnarskrá í endanlegri mynd.

Stjórnlagaráð hefur staðið sig með ólíkindum vel í vinnu sinni og hin gegnsæja aðferðarfræði ráðsins til fyrirmyndar.

En þrátt fyrir það er stjórnarskrárfrumvarpið enn óþroskað og mun einnig verða það eftir þær umræður og atkvæðagreiðslur sem fram munu fara á næstunni. Þrátt fyrir gagnsæjið og greiðan aðgang almennings með tillögur til stjórnalagaráðs þá verður umræða um stjórnarskrárfrumvarpið meðal almennings, stjórnmálaflokka og stjórnsýslu að verða miklu meiri.

Stjórnarskráin er ekki skyndiréttur – heldur á hún að standa fyrir sínu næstu áratugina.

Stjórnlagaráð mun brátt skila Alþingi frumvarpi að stjórnarskrá. Óþroskuðu frumvarpi.

Alþingi getur tryggt að stjórnarksrárfrumvarpið fái þann þroska sem nauðsynlegur er.

Ég legg til eftirfarandi feril – feril sem Alþingi getur ákveðið að fara:

  1. Alþingi fjalli eingöngu um fyrirliggjandi frumvarp í að minnsta kosti eina viku áður en það er sent til nefndar.
  2. Frumvarp stjórnlagaþings verði sent stofnunum, stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum til umsagnar.
  3. Alþingi fjalli aftur um frumvarpið eingöngu í að amk. eina viku.
  4. Alþingi sendi Stjórnlagaráði frumvarpið aftur til úrvinnslu og gefi ráðinu 8 vikur til að vinna endanlegt frumvarp.
  5. Endanlegt frumvarp verði lagt fyrir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  6. Alþingi taki frumvarpið til lokaumfjöllunar í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu og afgreiði frumvarpið.
  7. Ný stjórnarskrá verði lögð í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða Alþingiskosningum eða sveitarstjórnakosningum og taki gildi í kjölfar þess.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.7.2011 - 16:46 - 2 ummæli

Fótboltaþrekvirki unnið nær vikulega!

Það eru unnin þrekvirki í íþróttastarfi barna víðs vegar um land á hverju sumri þegar frábærlega tekst til með framkvæmd knattspyrnumóta yngri flokka þar sem fjölmargir sjálfboðaliðar og foreldrar vinna ómetanlegt starf í þágu æskunnar.

Þessa helgina var það Breiðablik sem hélt eitt stærsta íþróttamót sumarsins þar sem stelpur á aldrinum 5 – 12 ára spiluðu fótbolta í einmuna veðurblíðu. Það var ekki bara góða veðrið sem gerði Breiðabliksmótið svona gott. Skipulag og framkvæmd mótsins var Blikum til mikils sóma – en mótið gekk snurðulaust fyrir sig á fjölda valla – og tímasetningar héldu með ólíkindum.

Mér sýnist sjálfboðaliðarnir sem héldu öllu gangandi ekki skipta tugum – heldur hundruðum – allir með bros á vör og gerðu sitt besta. Yfirstjórnin greinilega góð og orðin sjóuð í að halda mót sem þetta.

Eina sem skyggði ánægju mína var sú aðferðafræði sem Breiðablik ákvað að beita – í takt við reglur KSÍ – þar sem hlutkesti er látið ráða um úrslit í riðlum þar sem stigatala er jöfn – ekki markatala. Um það skrifaði ég í pistlinum: „Að forsmá árangur barna“ 

Blikar – við Gréta 6  ára þökkum fyrir mótið 🙂

En Breiðabliksmótið er ekki það eina vel heppnaða. Ég fylgdist með frábæru móti á Sauðárkróki þar sem Tindastóll hélt ótrúlega skemmtilegt mót fyrir stelpur á sama aldri og Breiðablik hélt nú um helgina. Þar var öll framkvæmd einnig til mikillar fyrirmyndar – og greinilegt að foreldra- og sjálfboðaliðsstarf á Króknum er gott.

Við Gréta þökkum líka fyrir það 🙂

Þá var N1 mótið á Akureyri fyrir 5. flokk drengja ótrúlega vel heppnað – en þar spilaði hann Magnús minn. Þriðja skipti sem fjölskyldan er á því móti – og „fengið“ að upplifa bæði skin og skúrir – sól og blíða í ár – rigning í fyrra – og sól og blíða fyrir 2 árum þegar Styrmir var að keppa.

Þá er að fara að undirbúa sig undir mót næstu viku – Rey Cup – þar sem Styrmir fær að spreyta sig!

Vonandi verður það jafn vel heppnað og þau mót sem við höfum tekið þátt í í sumar – veit að Þróttararnir standa sig vel – því fyrsta mót sumarsins hjá Grétu var einmitt Þróttaramótið –  þegar flestir nema við fengu stöðumælasekt 🙂

Já, og þá verð ég að þakka Ólafsfirðingum fyrir skemmtilegt Nikulásarmót sem við höfum í tvígang sótt – og svo að sjálfsögðu Eyjamönnum fyrir pollamótið – sem við höfum líka í tvígang sótt.

Ergo: Frábært starf unnið víða um land í barnaboltanum!

Ég get ekki annað en tekið ofan fyrir skipuleggjendum og starfsfólki

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.7.2011 - 21:39 - 9 ummæli

Að forsmá árangur barna

Það er merkilegt hvað íþróttahreyfingin er reiðubúin að forsmá árangur barna með misskilinni jafnaðarmennsku og innleiða lögmál og aðferðir fjárhættuspilara gagnvart 6 ára börnum. Upplifði enn og einu sinni slíka forsmán á Símamóti Breiðabliks í dag. Það er í sjálfu sér ekki sök Breiðabliks sem fer eftir reglum KSÍ.

Misskilningur íþróttaforystunnar felst í því að halda að börn séu aular sem skilji ekki einfalda stærðfræði og eigin og annarra árangur.

Ég er búinn að horfa upp á eldri drenginn minn „missa“ af tveimur íþróttatitlum og bikurum í teningaspili (lesist fjárhættuspili) íþróttaforystunnar. Tapað á hlutkesti – af því það mátti ekki leika til þrautar. Í bæði skiptin eftir að hafa átt miklu betri árangur í riðlum og undanúrslitum en andstæðingurinn í úrlistaleiknum – en því miður gert jafntefli í úrslitaleik.

Í bæði skiptin reyndar – fyrir algera tilviljun fyrir heimaliðum móta – þar sem heimaliðin sáu um að manna dómgæslun – en látum það vera.

Þessi staða með fjárhættuspilið sem réði úrslitum hefði kannske verið í lagi ef BÁÐUM liðunum hefði verið hampað sem sigurvegurum – þótt annað liðið hefði hvorki fengið gullpening né bikar. En það var bara alls ekki gert. Í hvorugu tilfellinu. Það komu myndir af  „sigurvegurunum“ í blöðum – eðlilega glaðhlakkalegum með bikar í hönd. Enda „sigurvegararnir“ dregnir upp á verðlunapall sem „sigurvegarar“ þrátt fyrir að hafa átt lakari árangur að baki á leið í úrslitaleikinn en liðið sem „tapaði“ í fjárhættuspilinu – og var algerlega gleymt.

Í dag horfði ég enn og einu sinni upp á sama bullið.  Ég ætla ekki að nafngreina hin liðin en staðan var eftirfarandi eftir hefðbundnum aðferðum:

Lið A       Víkingur         3 stig.         Markatala    3:2.

Lið B.      Ónefnt lið        3 stig.       Markatala  2:2

Lið C       Heimalið          3 stig.       Markatala  1:2.

Eftir fjárhættuspil liðshaldara sem vörpuðu hlutkesti að óþörfu – eftir reglumKSÍ – þar sem klárlega var ljóst hver vann riðilinn raðaðist riðillinn svona:

1. sæti     Lið B                                            3 stig.       Markatala  2:2.

2. sæti     Lið A –  Víkingur                     3 stig.       Markatala  3:2

3. sæti     Lið C – heimalið                       3 stig.       Markatala  1:2

Auðvitað vita öll börnin hver raunverulega vann riðilinn. En fjárhættuspilararnir í íþróttaforystunni pæla ekki í því.

ATH.

Í fyrri blogfærslu var niðurstaða hlutkestis talin önnur – þannig að heimalið sem augljóslega varð neðst í riðlinum var talið hafa hlotið 1.sæti í hlutkesti – en lenti í 3. sæti í hlutkesti.

Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvað varðar aðferðafræðina.

Niðurstaða fjárhættuspilsins varð sú að liðið sem varð augljóslega í 2. sæti í riðlinum raðaðist í 1. sæti – liðið sem varð augljóslega í 1. sæti raðaðist í 2. sæti – en liðið sem varð í 3. sæti lenti í 3. sæti. Sú niðurstaða hefði þess vegna geta orðið allt önnur.

Forráðamenn UBK hafa haft samband við mig og óskað eftir því að það komi fram að félagið farið eftir leiðbeiningum KSÍ um hlutkesti og því berið að gagnrýna KSÍ en ekki UBK vegna aðferðarfræðinnar.

Í pistli mínum kemur greinilega fram að ég er að gagnrýna íþróttaforystuna almennt fyrir þessa aðferðafræði  – ekki UBK sérstaklega.  Ég vil því ítreka að gagnrýnin beinist ekki að UBK sérstaklega heldur að aðferðafræðinni sem víða er notuð eftir forskrift KSÍ- OG ER RÖNG!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.7.2011 - 10:47 - 16 ummæli

ESB að ganga í Ísland

Evrópusambandið hefur tekið fyrsta skrefið í aðlögunarferlinu að Íslandi – svo ég noti þekktan frasa stækra andstæðinga aðildarviðræðna Íslands að ESB.  Evrópusambandið undirbýr nú að taka upp sjávarútvegsstefni í anda þeirrar stefnu sem ríkt hefur á Íslandi um nokkurt skeið.

Um þetta segir á vef RÚV:

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnir í dag tillögur sínar til úrbóta á sjávarútvegsstefnu sambandsins

Samkvæmt þeim verður fiskveiðikvótum úthlutað til skipa til að minnsta kosti fimmtán ára. Þá er brugðist við gegndarlausu brottkasti sjávarafla með því að heimila flutning kvóta á milli tegunda. Breska ríkisútvarpið hefur eftir Maríu Damanaki, fiskveiðistjóra ESB, að róttækar breytingar séu nauðsynlegar á stefnunni þar sem í núverandi kerfi séu 75 prósent tegunda ofveiddar. Umhverfissamtök hafa hins vegar gagnrýnt þessar hugmyndir mjög og segja að með þeim sé verið að einkavæða höfin.“

En fyrst ég er farinn að ræða aðildarviðræðurnar – þá verð ég að hrósa Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra fyrir framgöngu hennar á fundi með Angelu Merkel kanslara Þýskalands – en Jóhanna gerði Angelu skýra grein fyrir því að forsenda inngöngu Íslands í Evrópusambandið væri ásættanleg niðurstaða í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. 

Ég tel allar forsendur fyrir því að ásættanleg niðurstaða muni nást – ekki síst ef Þjóðverjar styðja við bak okkar í viðræðunum. En ekkert er hægt að fullyrða um það fyrr en að aðildarviðræðum loknum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.7.2011 - 00:12 - Rita ummæli

Fjallabaksleið í dýrðina

Nú er tækifærið fyrir alla þá sem ekki hafa farið hinar eiginlegu Fjallabaksleiðir að nota tækifærið og skella sér austur í Skaftafellssýslur og njóta lífsins. Það er frábær upplifun að aka Fjallabaksleið nyrðri og á á Klaustri eða í Skaftafelli – halda áfram á Höfn eða inn í Lónsöræfi daginn eftir.  Njóta náttúrunnar – og matarins á fjölmörgum veitingastöðum fyrir austan – og nýta það gistirými sem losnaði við hóstan úr Kötlu.

Ef bíllinn er góður – taka Fjallabaksleið syðri til baka 🙂

Þjóðvegur 1 austur um er skemmtileg leið – en af hverju ekki að fara gömlu Fjallabaksleiðina og njóta þess að brýrnar á Skeiðarársandi eru enn uppistandandi!  Fá smá smjörþef af gamla tímanum í bland við þægindi nútímabifreiðarinnar! 

Nú er tækifærið að framkvæma – ekki bara eins og hingað til að hugsa á malbikinu undir Eyjafjöllum: „Einhvern tíma ætti ég að fara Fjallabaksleiðina“.

Það er enginn Íslendingur alvöru Íslendingur fyrr en hann hefur farið hina eiginlegu Fjallabaksleið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.7.2011 - 10:32 - 11 ummæli

Sjávarútvegsstefnu ESB í aðildarsamning

Ef gengið er frá því í aðildarsamningi að regla Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika í sjávarútvegi muni gilda um Ísland þótt breytingar verði á þeirri meginreglu annars staðar í Evrópu þá er það rétt hjá Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra að Ísland þurfi ekki sérstakar undanþágur í sjávarútvegi.

En ef reglan um hlutfallslegan stöðugleika sem tryggir Íslendingum einum rétt til veiða á staðbundnum stofnum innan íslenskrar efnahagslögsögu er ekki hluti aðildarsamnings þá er mögulega unnt að breyta þeirri reglu síðar án samþykkis Íslendinga.

Því mæli ég með því við Össur að hann leggi áherslu á að reglan verði hluti aðildarsamings að Evrópusambandinu.

Reyndar verða menn að hafa í huga að sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandins er ekki eins sameiginleg og halda mætti.  Þær eru margar og svæðisbundnar þótt stefnan um hlutfallslegan stöðugleika sé meginregla.

Það má því gera ráð fyrir að Evrópusambandið setji upp sérstaka sjávarútvegsstefnu vegna veiða í Norður-Atlantshafi. Stefnu þar sem tekið verður á veiðum úr deilistofnun.

Samningsmarkmið Íslendinga í viðræðum við Evrópusambandið hlýtur að vera  að tryggja stöðu og hag Íslendinga í slíkri sjávarútvegsstefnu. Gjarnan með því að lykilatriði er snerta fiskveiðar Íslendinga verðu hluti aðildarsamnings.

Þar getum við horft til sérákvæða Evróopusambandsins sem þegar eru til staðar vegna veiða við Azoreyjar, Kanaríeyjar og Madeira.  Það er ástæða til þess að taka mið af þeim fordæmum – þótt Össur segi að það þurfi ekki sérákvæði fyrir Ísland.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.7.2011 - 10:09 - Rita ummæli

Er bæjarstjóri á Akureyri?

Var á Akureyri. Er bæjarstjóri þar. Hef ekki heyrt um það. Hvað heitir hún? Hverra manna er hún? Er hún skyld einhverjum í meirihlutanum?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.6.2011 - 15:18 - 5 ummæli

Loks friður og jafnrétti í VG?

Á undanförnum misserum hefur ekki ríkt mikill friður og jafnrétti í VG. Þessu ætlar nýr formaður Ungra Vinstri Grænna greinileg að breyta.

Í frétt visir.is segir um hinn nýja formann UVG:

„Snærós leggur í sínu starfi mesta áherslu á friðarmál og jafnréttismál, og finnst blasa við að aukið jafnrétti leiði til aukins friðar og öfugt.“

Ég óttast að það verði á brattan að sækja hjá Snærósu við að tryggja frið og jafnrétti innan VG. En ég óska henni allra heilla í erfiðu starfi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.6.2011 - 12:02 - 13 ummæli

Árni Páll leiðréttir kúrsinn

Ég heyri mikla ánægju meðal fjölmargra Samfylkingarmanna með málflutning Árna Páls Árnasonar efnahagsráðherra í sjávarútvegsmálum, en Árni Páll tekur ekki í mál að fórna arðsemi íslensks sjávarútvegs og tekur  heildarhagsmuni íslensku þjóðarinnar fram fyrir pólitíska sérhagsmuni Jóns Bjarnasonar og Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hinir ánægðu Samfylkingarmenn vilja breytingar á fyrirkomnulagi sjávarútvegsins en eru – eðlilega – afar ósáttir við illa unnin frumvörp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra.  Eitt sé að gera nauðynslegar breytingar á núverandi kerfi – annað að rústa íslenskum sjávarútvegi.

Reyndar heyri ég eðlilega líka í fjölmörgum utan Samfylkinguna sem eru enn ánægðari með að Árni Páll hafi blandað sér í umræðuna með þessum hætti.

Það verður athyglisvert að sjá hver þróun mála verður í ríkisstjórninni og í þingflokkum hennar varðandi sjávarútvegsmálin í sumar og hvernig sjávarútvegsfrumvarpið mun líta út í haust.

Þá verður einnig athyglisvert að sjá hvernig átökum Árna Páls og Jóhönnu lyktar – því það er deginum ljósara að Árni Páll er ekki einungis að taka slaginn í sjávarútvegsmálunum – hann er einnig að bjóða formanni Samfylkingarinnar birginn. 

Allavega túlka sumir Samfylkingarvinir mínir málflutning Árna Páls þannig – og eru afar ánægðir með það – því stór hópur innan Samfylkingarinnar er allt annað en ánægður með hvert Jóhanna hefur leitt flokkinn.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur