Laugardagur 12.3.2011 - 22:03 - 8 ummæli

Gnarr í núlláfanga?

Maður hefði ætlað að stjórnmálaafl sem náði flugi á öldu lýðræðisbyltingar þar sem almenningur í Reykjavík reis gegn hefðbundnum stjórnmálaflokkum í lýðræðislegum kosningum hefði lokið einnar einingar áfanganum „101 lýðræði“.

Svo er ekki.

Almenningur í Grafarvogi tók Gnarr og bakhjarl hans í borgarstjórn í núlláfanga í lýðræði í dag.

Á sama hátt og gömlu flokkarnir áttu ekki séns í lýðræðislega mótmælabylgju almennings í síðustu borgarstjórnarkosningum – þá á Bezti og bakhjarl hans í borgarstjórn ekki séns í lýðræðislega hreyfingu fólksins í borginni.

Lýðræðið gefur – og lýðræðið tekur – ef  með þarf.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.3.2011 - 09:19 - 10 ummæli

Flækjan að byrja í pólitík

Þegar ég var að velja mér stjórnmálaflokk að starfa með fyrir nærri þremur áratugum síðan – þá gekk ég kerfisbundið til verks. Kynnti mér stefnur og sótti fundi. Var svag fyrir Kvennaframboðinu – en hóf vegferðina með það að markmiði að koma hugmyndum mínum á framfæri og taka virkan þátt í pólitísku starfi. Þar sem ég var ekki stelpa var ljóst að pólitísk framtíð mín innan Kvennaframboðsins var takmörkunum háð.

Íhaldið kom aldrei til greina á þessum tíma – enda últra frjálshyggan allsráðandi í Heimdalli – og forysta flokksins frekar óaðlaðandi fyrir ungan frjálslyndan félagshyggjumann.

Alþýðubandalagið var líka út úr myndinni – eftir að hafa hlustað á leiðtoga ungliðahreyfingar þess ágæta bandalags í 4 ár í MH – vini mína Árna Þór Sigurðsson, Ástráð Haraldsson, Svandísi Svavarsdóttur, Jón Ólafsson og fleiri ágæta róttæka vinstri menn – halda eldheitar sjarmerandi ræður – sem bara gengu ekki upp í raunveruleikanum.

Þá voru eftir miðjuflokkarnir tveir.

Alþýðuflokkurinn – sem reyndar var fyrsti flokkurinn sem ég starfaði fyrir í  kosningum 10 – 12 ára eða svo – enda kominn af gallhörðum krötum gegnum móðurömmu mína.

… og Framsóknarflokkurinn.

Ein ástæða þess að ég valdi Framsóknarflokkin var sú að á þeim tíma voru Kratarnir hvað heitastir og ómálefnalegasti í heiftarlegri – nánast hatursfullri – aðför að bændastéttinni á Íslandi.  Málflutningur Kratanna á þeim tíma var að orðið  „bóndi“ var nánast verra í munni en „andskotinn“. Nánast allt sem ekki var gott var sett í samhengi við bændur og bændastétt.

Ég – ungur maður að drepast úr baráttuvilja og réttlætiskennt – gat ekki sætt mig við að unnt væri að úthúða einni stétt manna – einungis fyrir að tilheyra atvinnustétt.

Niðurstaðan var því sú að taka þátt í starfi Framsóknarflokksins – sem var reyndar að stærstum hluta með stefnu sem hugnaðist mér – frjálslyndum félagshyggjumanninn.  Þurfti að vísu að kyngja óbragðinu af SÍS – sem byggði á hugmyndafræði sem mér hugnaðist – en hafði að mínu mati yfirgefið heilbrigða hugmyndafræði samvinnuhugsjónarinnar á altari Mammons.

Ég var flokksbundinn Framsóknarmaður í rúman aldarfjóðrung. Sé ekki eftir því.

Nú er ég á sama reit og í upphafi. Minn eigin herra í pólitík með algjört pólitíkst fullveldi. Og líður vel yfir því.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.3.2011 - 07:51 - 8 ummæli

Sjávarútvegi borgið innan ESB?

Evrópusambandið virðist hafa tekið ómakið af íslensku samninganefndinni hvað varðar að tryggja hagsmuni íslensks sjávarútvegs með nýrri reglugerð sem kveður á um að aðildarríki Evrópusambandsins geti ákvarðað einhliða hámarksafla úr stofnum sem eru alfarið nýttir af viðkomandi ríki.

Allir staðbundnir fiskistofnar við Ísland eru einungis nýttir af Íslendingum og munu ekki verða aðgengilegir öðrum þótt við göngum í Evrópusambandið.

Helsta röksemd andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu innan LÍU er því að falla.

Vissulega er einungis um reglugerð að ræða – og reglugerðir breytast.

Því er nauðsynlegt að samninganefnd Íslands leggi áherslu á að ákvæðið verði tekið inn í aðildarsamning Íslands – ekki sem undanþága – heldur sem varanlegt ákvæði.

Þá getum við farið að snúa okkur að því að tryggja ásættanlega stöðu íslensks landbúnaðar í aðildarviðræðunum.

Þar hef ég bent á leið td. í pistlinum: „Landbúnaður sem umhverfismál í ESB“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.3.2011 - 08:24 - 23 ummæli

Trúarleg afstaða bændaforystunnar

Afstaða bændaforystunnar til Evrópusambandsins hefur yfir sér sterkan trúarlegan blæ.  Trúarsetningin er „Ísland utan ESB“ og trúarbragðastríðið felst í því að berjast gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Fyrir trúarleiðtogana skiptir engu hvert innihald aðildarsamnings verður.  Aðildarsamningurinn er af hinu illa hvernig sem hann verður .

Trúarleiðtogarnir berjast gegn mögulegum jákvæðum niðurstöðum á sama hátt og í öðrum trúarbrögðum. Það séu einungis um að ræða blekkingar hins illa. 

Þessi afstaða og hegðan bændaforystunnar skaðar hagsmuni bænda og hagsmuni Íslendinga almennt.

Það getur vel verið að niðurstaða aðildarviðræðna verði óásættanlega fyrir bændur og Íslendinga.  Þá er einfalt að fella slíkan aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Trúarleg afstaða bændaforystunnar mun reyndar ekki hjálpa til í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin vill haldbær rök – ekki trúarsetningar. Haldbær rök bændaforystunnar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu gætu verið afgreidd sem trúarsetning – ekki rök.

En það getur einnig verið að aðildarsamningurinn verðu góður og styrki stöðu íslenskra bænda. Bændaforystan vill ekki láta reyna á það. Hún vill ekki nýta þau tækifæri sem aðildarviðræður geta orðið fyrir bændur. Enda nánast trúarhreyfing. Um trúnna má ekki efast.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.3.2011 - 19:08 - 1 ummæli

Um herrans Kristí útgang í grasgarðinn

Í dag hefst fastan. Sú skemmtilega hefð hefur skapast á Íslandi að á föstunni eru Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir. Það er hollt fyrir okkur nútímafólkið að lesa þennan merka skáldskap og margir viskumolar sem ættu að vekja okkur til umhugsunar.

Í tilefni dagsins ákvað ég að birta fyrsta sálm Passíusálmanna – „Um herrans Kristí útgang í grasgarðinn“.

1. sálmur: Um herrans Kristí útgang í grasgarðinn

1
Upp, upp, mín sál og allt mitt geð,
upp mitt hjarta og rómur með,
hugur og tunga hjálpi til.
Herrans pínu ég minnast vil.
2
Sankti Páll skipar skyldu þá,
skulum vér allir jörðu á
kunngjöra þá kvöl og dapran deyð,
sem drottinn fyrir oss auma leið.
3
Ljúfan Jesúm til lausnar mér
langaði víst að deyja hér.
Mig skyldi og lysta að minnast þess
mínum drottni til þakklætis.
4
Innra mig loksins angrið sker,
æ, hvað er lítil rækt í mér.
Jesús er kvalinn í minn stað.
Of sjaldan hef ég minnst á það.
5
Sál mín, skoðum þá sætu fórn,
sem hefur oss við guð, drottin vorn,
fordæmda aftur forlíkað.
Fögnuður er að hugsa um það.
6
Hvað stillir betur hjartans böl
en heilög drottins pína og kvöl?
Hvað heftir framar hneyksli og synd
en herrans Jesú blóðug mynd?
7
Hvar fær þú glöggvar, sál mín, séð
sanna guðs ástar hjartageð,
sem faðir gæskunnar fékk til mín,
framar en hér í Jesú pín?
8
Ó, Jesú, gef þinn anda mér,
allt svo verði til dýrðar þér
uppteiknað, sungið, sagt og téð.
Síðan þess aðrir njóti með.
9
Að liðinni máltíð lofsönginn
las sínum föður Jesús minn.
Síðasta kvöldið seint það var.
Sungu með hans lærisveinar.
10
Guðs sonur, sá sem sannleiks ráð
sjálfur átti á himni og láð,
þáði sitt brauð með þakkargjörð,
þegar hann umgekkst hér á jörð.
11
Þurfamaður ert þú, mín sál,
þiggur af drottni sérhvert mál,
fæðu þína og fóstrið allt.
Fyrir það honum þakka skalt.
12
Illum þræl er það eilíf smán,
ef hann þiggur svo herrans lán
drambsamlega og dreissar sig.
Drottinn geymi frá slíku mig.
13
Eftir þann söng, en ekki fyrr,
út gekk Jesús um hússins dyr.
Að hans siðvenju er það skeð.
Til Olíufjallsins ganga réð.
14
Lausnarans venju lær og halt,
lofa þinn guð og dýrka skalt.
Bænarlaus aldrei byrjuð sé
burtför af þínu heimili.
15
Yfir um Kedrons breiðan bekk
blessaður þá með sveinum gekk.
Sá lækur nafn af sorta ber.
Sýnir það góðan lærdóm mér.
16
Yfir hörmungar er mín leið,
æ meðan varir lífsins skeið.
Undan gekk Jesús, eftir ég
á þann að feta raunaveg.
17
Horfi ég nú í huga mér,
herra minn Jesú, eftir þér.
Dásamleg eru dæmin þín.
Dreg ég þau gjarnan heim til mín.
18
Þú vildir ekki upphlaup hart
yrði, þegar þú gripinn vart.
Út í grasgarðinn gekkstu því.
Gafst þig í manna hendur frí.
19
Af því læri eg að elska ei frekt
eigin gagn mitt, svo friður og spekt
þess vegna raskist. Þér er kært
þolinmæði og geð hógvært.
20
Sorgandi gekkstu sagða leið.
Særði þitt hjarta kvöl og neyð.
Hlæjandi glæpa hljóp ég stig.
Hefur þú borgað fyrir mig.
21
Vort líf er grasgarðs ganga rétt.
Gröfin er öllum takmark sett.
Syndugra leið ei leik þér að.
Lendir hún víst í kvalastað.
22
Iðrunartárin ættu vor
öll hér að væta lífsins spor.
Gegnum dauðann með gleði og lyst
göngum vér þá í himnavist.
23
Þá Jesús nú á veginum var,
við postulana hann ræddi þar,
henda mundi þá hrösun fljót.
Harðlega Pétur þrætti á mót.
24
Frelsarinn Jesús fyrir sér
þá fall og hrösun er búin mér.
Hann veit og líka lækning þá,
sem leysa kann mig sorgum frá.
25
Aldrei, kvað Pétur, ætla ég
á þér hneykslast á nokkurn veg
þó allir frá þér falli nú. –
Fullkomleg var hans lofun sú.
26
Sú von er bæði völt og myrk
að voga freklega á holdsins styrk.
Án guðs náðar er allt vort traust
óstöðugt, veikt og hjálparlaust.
27
Gef mér, Jesú, að gá að því,
glaskeri ber ég minn fésjóð í.
Viðvörun þína virði eg mest,
veikleika holdsins sér þú best.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.3.2011 - 00:30 - 3 ummæli

EVA í burðarliðnum

Evrópuvettvangurinn – EVA – verður heiti nýs þverpólitísks samstarfsvettvangs áhugafólks sem vilja opna og lýðræðislega umræðu í tengslum við aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Boðað var til fyrsta undirbúningsfundar þann 22. febrúar og mættu þá á fjórða tug fólks sem lagði línurnar fyrir framhaldið.

Undirbúningshópar voru myndaðir og hafa þeir unnið ötullega að undirbúningi stofnunar samstarfsvettvangsins.

Niðurstaða um heiti vettvangsins fékkst á undirbúningsfundi í gærkvöldi. Hópurinn var sammála um að leggja til heitið Evrópuvettvangurinn – skammstafað EVA.

Á vinnufundinum var gengið frá tillögu um stofnskrá og lögum Evrópuvettvangsins.

Þá vinnu leiddi Grétar Mar Jónsson fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins sem ásamt Kristjáni Degi Gissurarsyni átti mestan þátt í að vinna grunntillögu að markmiðum og lögum EVA.

Vinnuhópur um markmiðasetningu og lög hins nýja vettvangs vann síðan úr fyrirliggjandi tillögu þeirra félaga og sameinaðist um að leggja til við stofnfund samtakanna eftirfarandi stofnskrá og lög:

EVRÓPUVETTVANGURINN – EVA – Tillag að stofnskrá og lögum: 

1. grein 

Nafn samtakanna er Evrópuvettvangurinn – EVA

2. grein

Heimili samtakanna og varnarþing er í Kópavogi.

3. grein

Evrópuvettvangurinn er þverpólitískur samstarfsvettvangur áhugafólks sem vilja opna og lýðræðislega umræðu í tengslum við aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Samtökin taka ekki fyrirfram afstöðu með eða á móti aðild að Evrópusambandinu en leggja áherslu á vandaða málsmeðferð og að Ísland nái sem hagstæðustum aðildarsamningi sem þjóðin taki afstöðu til í þjóðaratkvæðagreiðslu.

4. grein

Hlutverk samtakanna er að:

  • skapa upplýsinga- og umræðuvettvang fyrir fólk sem telur að fram þurfi að fara upplýst og gagnrýnin umræða um samningsmarkmið og samningaviðræður um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu
  • stuðla að upplýstri og málefnalegri umræðu um kosti og galla þess að Ísland gerist aðili með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósiü afla og koma á framfæri upplýsingum um samningaviðræðurnar, áhrifa aðildar að Evrópusambandinu fyrir land og þjóð og stuðla að gagnrýnni þjóðfélagsumræðu á grunni vandaðra upplýsinga
  • þrýsta á skilvirka upplýsingagjöf frá hinu opinberaü stuðla að því að ná fram hagstæðum samningum við Evrópusambandið á grundvelli þess að farið hafi verið yfir á gagnrýnin hátt alla þætti samningsins.

Evrópuvettvangurinn mun leggja mat á hvern kafla samingsins fyrir sig og kynna niðurstöðu sína áður en gengið er til þjóðaratkvæðagreiðslu.

5. grein

Markmiðum sínum hyggjast samtökin ná með því að:  

  • Stofna umræðuhópa sem fjalla um hin ýmsu kafla samningsgerðarinnar og standa fyrir upplýsingagjöf til almennings þar sem lýst er kostum og göllum, agnúum og tækifærum
  • Standa fyrir opnum fundum, málþingum og ráðstefnum. Áhersla verði lögð á samstarf við önnur samtök, stjórnvöld og aðra sem vilja málefnalega umræðu. Tryggt verði að öll sjónamið og rök komi fram. Fá leikmenn og sérfræðinga til að fjalla um alla þætti í samningsferlinu 
  • Tryggja miðlun upplýsinga og um starf félagsins með uppbyggingu tengsla við fjölmiðla.
  • Hvetja til og standa að útgáfu eftir því sem aðstæður leyfa og stuðla að samfélagslegri umræðu um einstaka kafla aðildarviðræðnanna

 

6. grein.

Félagar geta orðið:

  • Allt áhugafólk um framtíð Íslands og málefni tengd Evrópusambandinu.Ø
  • Styrktarfélagar

7. grein

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok apríl ár hvert. Til aðalfundar skal boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara og skulu þar kynntar tillögur að lagabreytingum ef einhverjar eru.  Tölvupóstur telst lögleg boðun.

8. grein

Heimilt er að ákveða árgjald á aðalfundi og  það þá innheimt sem fast gjald á hvern félaga.

9. grein

Á aðalfundi er kosið Evrópuráð skipað 21 einstaklingi. Evrópuráð skiptir með sér verkum og ber ábyrgð á starfi Evrópuvettvangsins milli aðalfunda.

Evrópuráð velur sér oddvita, málsvara, skrifara og féhirði.

Hlutverk oddvita er að kalla til funda Evrópuráðs og stýra þeim, málsvara að vera í fyrirsvari fyrir Evrópuvettvanginn út á við, skrifara að færa fundargerð til bókar og halda félagaskrá og féhirði að sýsla með fé samtakanna.

Ráðið skal leita eftir fólki til að starfa fyrir samtökin samkvæmt því sem fram kemur í stofnskrá og lögum þessum.

10. grein

Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi, tillögufrelsi og atkvæðisrétt eiga allir skráðir félagar samtakanna. Aðrir áhugasamir eiga rétt til setu á aðalfundi með mál- og tillögufrelsi. Unnt er að ganga í samtökin á aðalfundi og öðlast full réttindi.

11. grein

Stofnfélagar eru: Sjá meðfylgjandi stofnfélagaskrá.

12. grein

Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

1. Fundarsetning.

2. Kosning starfsmanna fundarins, fundarstjóra og fundarritara. 

3. Skýrsla Evrópuráðs fyrir síðusta ár kynnt og rædd.

4. Endurskoðaðir reikningar kynntir og afgreiddir.

5. Drög að starfsáætlun og langtíma stefnumörkun.

6. Lagabreytingar kynntar, ræddar og afgreiddar.

7. Tillaga að árgjaldi kynnt, rædd og afgreidd.

8. Ályktanir kynntar, ræddar og afgreiddar.

9. Kosningar:

a) Kosning Evrópuráðs

b) Kosning tveggja skoðunarmanna.

10. Önnur mál.

11. Fundarslit.

13. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi með 2/3 meirihluta atkvæða. Tillögur um lagabreytingar þurfa að berast stjórn fyrir aðalfund. Hægt er að slíta samtökunum á aðalfundi ef 2/3 fundarmanna samþykkja það. Ef samtökin eiga eignir við þær aðstæður skulu þær renna til Rauða kross Íslands.

14. grein

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.3.2011 - 18:23 - Rita ummæli

Styðjum egypskar konur!

Egypskar konur voru áberandi í baráttunni fyrir alvöru lýðræði í Egyptalandi – baráttu sem varð til þess að Mubarak hrökklaðist frá völdum og ný ríkisstjórn tók við völdum – til bráðabirgða þó.

Það er áhyggjuefni að í nýju ríkisstjórninni er einungis ein kona – og embætti hennar er ráðuneyti alþjóðlegra þróunarmála.

 Á alþjóðadegi kvenna er ljóst að „stóru strákarnir“ ætla að taka við af baráttukonunum í Egyptalandi – nú þegar Mubarak og fjölskylda hans er fallin. Hlutverki kvennanna er lokið í hugum karlanna.

Það er áhyggjuefni.

Við eigum að styðja við bak egypskra kvenna og beita hinum nýju egypsku yfirvöldum þrýstingi til að tryggja hlut kvenna í framtíð lýðræðislegs Egyptalands.

Hvernig við gerum það veit ég ekki alveg – og óska því eftir tillögum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2011 - 21:38 - 2 ummæli

Stelpurnar okkar!

Alveg er það frábært að fylgjast með hraðri þróun kvennafótboltans á Íslandi – og ekki hvað síst sterku landsliði sem hefur á nokkrum dögum lagt nokkrar sterkustu knattspyrnuþjóðir heims.

Nú er það úrslitaleikurinn við Bandaríkin á miðvikudag!

Silfrið á Algarver mótinu er tryggt. Gullið möguleiki!

Frábær árangur.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2011 - 12:48 - 5 ummæli

Trúverðug bændaforysta?

Það er eðlilegt og nauðsynlegt að bændur og samtök þeirra hafi efasemdir um mögulega inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er eðlilegt og nauðsynlegt að bændur og samtök þeirra leggi áherslu á að staða og framtíð íslensks landbúnaðar sé tryggð – hvort sem Ísland gengur í Evrópusambandið eða ekki. Það er eðlilegt og nauðsynlegt að bændur byggi afstöðu sína til mögulegrar inngöngu á hlutlægu mati og sem réttustu upplýsingum.

Því miður vantar dálítið á að bændaforystan  nálgist verkefnið á eðlilegan og nauðsynlegan hátt. Tökum nokkur dæmi um sérkennileg vinnubrögð formanns bændasamtakanna:

Formaðurinn aftekur að tryggja hagsmuni íslenskra bænda við mögulega aðild að Evrópusambandinu með því að skilgreina eðlileg samningsmarkmið íslenskra bænda og  leggja samninganefnd um aðildarviðræður að Evrópusambandinu þannig lið. Með öðrum orðum. Formaðurinn vill ekki tryggja hag bænda í aðildarviðræðunum.

Formaðurinn lætur hringja í nokkra skráða meðlimi bændasamtakanna og lætur sem fræðileg viðhorfskönnun hafi verið gerð. Á grunni símtala bændaforystunnar við nokkra kunningja sína í bændastétt staðhæfir formaðurinn að 92% bænda sé á móti aðild að Evrópusambandinu. Sú afstaða byggir reyndar ekki á hlutlægum upplýsingum né vitneskju um hvort aðildarsamningur sé íslenskum bændum hagstæður eða ekki.

Formaðurinn situr fundi með leiðtogum finnsku bændasamtakanna og embættismönnum finnska landbúnaðarráðuneytisins.  Sú mynd og niðurstaða sem formaðurinn kynnir í fjölmiðlum á Íslandi af fundunum er allt önnur en sú mynd og niðurstaða sem félagar finnsku bændasamtakanna og embættismenn finnska landbúnaðarráðuneytisins höfðu af fundunum.  Á meðan Finnarnir ræddu kosti og galla aðildar Finna að Evrópusambandinu og koma með ábendingar um æskilegar áherslur Íslendinga – þá ræðir formaður íslensku bændasamtakanna einungis um neikvæða þætti aðildar Finna.

Formaðurinn rekur ritstjóra ríkisstyrkta fjölmiðilsins Bændablaðsins vegna þess að á grunni þekkingar sem ritstjórinn hefur aflað sér sem ritstjóri Bændablaðsins hafði ritstjórinn komist að þeirri niðurstöðu að það ætti að klára aðildarviðræður að Evrópusambandinu og að það kynni að vera að staða bænda versnaði ekki við aðild.

Væri ekki eðlilegra að bændaforystan legði áherslu á að samninganefnd næði sem allra bestum samningi fyrir íslenska bændur og byggðirnar í landinu í aðildarviðræðum við Evrópusambandið – í stað þess að taka þá áhættu að hagur bænda verði fyrir borð borinn í aðildarsamningi sem samt kynni að vera samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Já, væri ekki eðlilegra að bændaforystan ynni að hagsmunum bænda – en ekki gegn þeim?

PS:

‘Eg hef fengið upplýsingar um að bændaforystan hafi staðið faglega að viðhorfskönnun meðal bænda. Fengið Félagsvísindastofnun í verkið, unnið 600 manna úrtak og að svörun hafi verið ásættanleg.  Mér er nokkuð létt – því miðað við sumt annað í vinnubrögðum bændaforystunnar – þá óttaðist ég að viðhorfskönnunin hefði ekki verið unnin faglega.

Því miður vantar faglega vinnubrögð á örðum sviðum – eins og sjá má á athugasemd fyrrum ritstjóra Bændablaðsins:

„Af því þú nefndir Finnland þá gerðist það árið 2009 að formaður og framkvæmdastjóri ákváðu að rétt væri að senda blaðamann til Finnlands. Haft var samband við finnsku bændasamtökin (þetta var áður en fundurinn sem þú vitnar í var haldinn) og þau beðin að útvega blamaðanni viðmælendur úr bændastétt. Það skilyrði var hins vegar sett að viðkomandi bændur yrðu að vera andvígir aðild Finnlands að ESB. Það tæki því ekki að tala við aðra, enda væru nógir til þess hér á landi að tala vel um Evrópusambandið.“

Ég geri ekki athugasemd við andstöðu bænda – en því miður er deginum ljósara að sú andstaða er ekki byggð á þekkingu – heldur tilfinningum –  auk þess sem bændaforystan vinnur gegn aðildarviðræðum á fölskum forsendum sbr. tilvitnun í athugasemd ritstjora Bændablaðsins hér á ofan.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.3.2011 - 20:22 - 1 ummæli

Sjálfhverfir júristar og sægreifar!

„Sjálfhverfir júristar og sægreifar hafa verið áberandi í líflegri umræðu um sameign þjóðarinnar á auðlindum Íslands.  Sægreifarnir sjálfhverfu hafa látið sem fiskurinn í sjónum sé eina náttúruauðlind Íslendinga og að þeir hafi nánast yfir að ráða þinglýstu afsali af hverri einustu styrtlu innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Sjálfhverfu júristarnir hafa látið sem þeir ættu sjórnarskránna.

Hvoru tveggja er fjarri sanni.“

Svo hljóðaði upphaf fyrsta bloggpistils mína á Moggablogginu í marsmánuði 2007 – en í tilefni þess að hafa byrjað að blogga fyrir réttum 4 árum síðan – ákvað ég að renna yfir fyrstu pistlana og sjá hvort eitthvað hefði breyst.

Í pistlinum í marsmánuði 2007 hélt ég þannig áfram:

„Stjórnarskrá Íslands er sameign þjóðarinnar en ekki séreign lögfræðingastéttarinnar eins sjálfhverfir júristar vilja vera láta. Hún er pólitísk stefnuyfirlýsing sem leggur grunn að fullveldi Íslands og því stjórnarfari og lagasetningu sem Íslendingum er ætlað að búa við.

Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli. Hugtakið sameign þjóðarinnar hefur ótvírætt gildi sem pólitísk yfirlýsing sem alþjóð skilur og sem slíkt mun ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum Íslands hafa bein áhrif á lagasetningu eftir að það tekur gildi í stjórnarskrá.

Fiskurinn í sjónum er sameign þjóðarinnar en ekki séreign útvegsmanna sem hafa yfir tímabundnum fiskveiðikvóta að ráða eins og sjálfhverfir sægreifar vilja vera láta. Kvótaeigendur eiga skilgreindan, tímabundinn afnotarétt af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það er allt og sumt.

En ákvæðið um að auðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar á ekki einungis um fiskinn í sjónum. Það á við allar auðlindir landsins sem ekki eru þegar skilgreindar sem einkaeign. Því er ekki nóg að hafa ákvæði um að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar í lögum um stjórn fiskveiða því sem betur fer er fiskurinn einungis brot af auðlindum Íslands.

Þótt skiptar skoðanir kunni að vera á lofti um hvernig ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins sé best fyrir komið í stjórnarskrá Íslands, þá hefur fyrirliggjandi frumvarp forsætisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að stjórnarskránna ákvæði um að auðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar ótvírætt mikilvægt gildi. Það að stjórnarskrárbinda hugtakið sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins hefur svo sterkt pólitíst vægi sem stefnuyfirlýsing íslenskrar þjóðar, að vangaveltur um lagatæknileg atriði því tengdu eru hjóm eitt.

Svo er nú það!“

Það er ljóst að umræðan í dag er ekki ólík umræðunni fyrir fjórum árum – en það hefur hins vegar mikið vatn runnið til sjávar varðandi umræðu um stjórnarskrána og þörfina á breytingum á henni. Frá þessum tíma hafa farið fram kosningar til stjórnlagaþins, þær kosningar úrskurðarðar ógildar – og stjórnlagaráð í farvatninu í staðinn!

Reyndar tók ég virkan þátt í að koma hugmyndinni um stjórnlagaþing á dagskrá um áramótin 2008/2009 – en ég hafði tekið þátt í umræðu um nauðsyn stjórnlagaþings í grasrót Framsóknarflokksins í nóvember og desember 2008.

Í bloggpistli mínum þann 12. janúar 2009 sem bar heitið „Þjóðkjörið stjórnlagaþing móti stjórnskipan framtíðarinnar“ skrifaði ég eftirfarandi:

„Íslenska þjóðin á að kjósa sér stjórnlagaþing sem endurskoði stjórnarskránna og geri tillögu um stjórnskipan framtíðarinnar. Tillögu sem síðan verði lögð fyrir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Á stjórnlagaþinginu sitji ekki alþingismenn né ráðherrar – heldur fulltrúar sem kjörnir eru beint af íslensku þjóðinni.

Hugmyndin um þjóðkjörið stjórnlagaþing hefur lengi verið til umræðu í „gufuklúbbnum“ mínum og löngu ljóst meðal þeirra sem þar sitja að brýn þörf sé á slíkri stjórnlagaþingsvinnu á þingi sem sæki umboð sitt beint til þjóðarinnar.

Þá er jafn ljóst að stjórnarskránna þarf að endurskoða.

Sú endurskoðun þarf að klárast og tillaga lögð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagan sýnir að endurskoðun stjórnarskrárinnar á vegum Alþingis gengur ekki upp. Þar næst sjaldan heildstæð niðurstaða um tillögu vegna flokkspólitískra hagsmuna.  Því er ástæða til þess að kjósa sérstakt stjórnlagaþing til að sjá um verkið, enda miklu eðlilegra að þjóðin velji sér beint fulltrúa til að sjá um endurskoðun stjórnarskrár og leggja línurnar fyrir stjórnskipan framtíðar.

Það hefur verið þörf á slíkri endurskoðun um nokkurt skeið.  

En núverandi ástand, þar sem orðið hefur kerfishrun, ráðherraræði ríkisstjórnar náð nýjum víddum og niðurlæging Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu aldrei verið meiri, þá er stjórnlagaþing kosið beint af þjóðinni orðið algjör nauðsyn.“

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur