Sunnudagur 4.5.2014 - 17:06 - 10 ummæli

Misskilningurinn með Bjarta framtíð

Það er með ólíkindum hversu víðtækur misskilningur er í gangi með Bjarta framtíð. Óskhyggja frústreraðra vinstri sinna virðist ofaná í umræðunni. Þá langar svo mikið að Björt framtíð sé vinstri flokkur. Trúa áróðri hefðbundinna miðhægrimanna sem reyna að telja fólki trú um að Björt framtíð sé útibú frá Samfylkingunni. Það er bara misskilningur. Ef kafað er ofan málefnin og hvað Björt framtíð hefur lagt áherslu á Alþingi þá ætti hver einasti Íslendingur sem klárað hefur FÉL 102 og Stj 102 í framhaldsskóla að átta sig á að Björt framtíð er frjálslyndur miðjuflokkur sem frekar hallast til hægri en vinstri …

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.3.2014 - 18:57 - 5 ummæli

Möguleg fjármögnun húsnæðiskerfisins

Á vormánuðum árið 2010 skilaði starfshópur á vegum félagsmálaráðherra tillögum að umræðuskjali um framtíð íslenska húsnæðiskerfisins. Þeim ráðherra var reyndar sparkað uppá við til að losna við hann úr félagsmálaráðuneytinu og síðan út úr ríkisstjórninni.  Umræðuskjalinu var jafnframt hent í ruslið af arftakanum og embættismanni í félagsmálaráðuneytinu sem var því ekki alveg sammála.

En tillögurnar fólust í því að íslenska húsnæðiskerfið byggðist á þremur stólpum.  Búseturéttarhúsnæði. eignarhúsnæði og leiguhúsnæði. Í þeim var gert ráð fyrir sérstökum stuðningi við búseturéttarformið og leiguformið.

Með tillögunum var í viðauka umfjöllun um mögulega fjármögnun ríkisins á húsnæðismálum.  Það er vert að rifja upp þá greiningu.

„Aðkoma íslenskra stjórnvalda að þremur stoðum íslenska húsnæðiskerfisins er mismunandi bæði hvað varðar fjármögnun og beinan stuðning, enda er stjórnvöldum skylt að hafa skipan húsnæðismála á þann veg að þau rúmist innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Stjórnvöld hafa fyrst og fremst um þrjár meginleiðir að velja hvað fjármögnun húsnæðiskerfisins varðar. Endanleg útfærsla á eignarleið, leiguleið og búseturéttarleið mun taka mið af því hvaða aðferðafræði verður höfð við fjármögnun kerfisins.

  1. a.      Þröng leið ríkisábyrgðar
  • Skuldabréfaflokkar með ríkisábyrgð eingöngu til fjármögnunar íbúðalána til húsnæðis sem fellur undir heimild EES samningsins.
  • Aðkoma hins opinbera að fjármögnun annarra lána engin.

Þröng leið ríkisábyrgðar tryggir einungis fjármögnun til þess húsnæðis sem fellur klárlega undir skilyrði EES samningsins um heimila ríkisaðstoð. Þeir sem ekki falla undir þá skilgreiningur þurfa að leita sér lána annars staðar, það er hjá bönkum, sparisjóðum og mögulega beint til lífeyrissjóða.

Ríkisábyrgð tryggir almennt hagstæðari ávöxtunarkjör.

Vaxtakjör til þeirra sem falla undir félagslega skilgreiningu EES kann að verða ásættanleg, en vegna mögulegrar smæðar ríkistryggðu skuldabréfaflokkanna kann ávinningur ríkistryggingarinnar að vera sambærilegur eða minni en ávinningur í stórum, viðskiptahæfum skuldabréfaflokki án ríkisábyrgðar.

Vaxtakjör þeirra sem ekki geta nýtt sér ríkistryggð lán verða hins vegar nokkuð há, ekki hvað síst ef hver banki og hver sparisjóður þarf að fjármagna íbúðalán sín með útgáfu tiltölulega lítilla skuldabréfaflokka.

  1. b.      Blönduð leið ríkisábyrgðar og almennrar fjármögnunar
  • Skuldabréfaflokkar með ríkisábyrgð eingöngu til fjármögnunar íbúðalána til húsnæðis sem fellur undir heimild EES samningsins.
  • Almennir skuldabréfaflokkar án beinnar ríkisábyrgðar til fjármögnunar íbúðalána sem ekki falla undir heimild EES samnings um ríkisábyrgð

Vaxtakjör til þeirra sem falla undir félagslega skilgreiningu EES kann að verða ásættanleg, en vegna mögulegrar smæðar ríkistryggðu skuldabréfaflokkanna kann ávinningur ríkistryggingarinnar að vera sambærilegur eða minni en ávinningur í stórum, viðskiptahæfum skuldabréfaflokki án ríkisábyrgðar.

Aðkoma hins opinbera að fjármögnun  íbúðalána án ríkisábyrgðar á þau lán sem falla utan félagslegrar skilgreiningar EES samningsins þar sem tryggðir verða stórir viðskiptahæfir skuldabréfaflokkar myndi að líkindum  lækka verulega ávöxtunarkröfu almennra íbúðalána.

  1. c.       Almenn fjármögnun
  • Almennir skuldabréfaflokkar án beinnar ríkisábyrgðar til fjármögnunar íbúðalána til allra.
  • Möguleg aðkoma ríkisins með ríkisábyrgð sem komi ekki beint að grunnfjármögnun heldur tryggi ríkið greiðslur af lánum til skilgreinds húsnæðis sem uppfyllir skilyrði EES.

Kjör á lánum til þess hóps sem fellur undir félagslega skilgreiningur EES og má þar af leiðandi njóta ríkistryggðra lána kann að verða jafn góð eða jafnvel betri ef sú leið er farin að fjármagna stærsta hluta íslenskra íbúðalánas án ríkisábyrgðar í tiltölulega fáum, stórum skuldabréfaflokkum skráðum á alþjóðlegum fjármálamarkaði þar sem uppgjör er tryggt gegnum öflug uppgjörshús.

Jafnframt kann sú leið að tryggja öllum almenningi hagstæðari vaxtakjör en ella.

Mögulegt væri að ríkisvaldið tryggi greiðsluflæði af hluta eða öllu því húsnæði sem fellur undir skilgreiningu EES samningsins um félagslegt húsnæði. Slík ríkistrygging á greiðsluflæði styrkir heildarstöðu skuldabréfaflokkana og ætti að tryggja lægri ávöxtunarkröfu á alla fjármögnun íbúðalána.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.2.2014 - 14:36 - 3 ummæli

Afnám þrepaskiptingar?

Hvenær ætlar Bjarni Ben að afnema þrepaskiptinguna í skattakerfinu?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.2.2014 - 22:33 - 3 ummæli

Ég vil konur!

Mér finnst að hið opinbera eigi að setja það skilyrði að á næstu fjórum árum verði að minnsta kosti önnur hver stjórnendastaða sem skilgreind er sem opinbert embætti skipuð konu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.2.2014 - 22:01 - 2 ummæli

Inn í ESB eða út úr EES?

Núverandi staða Íslands gagnvart Evrópu er klúður. Þótt EES samningurinn hafi verið okkur lengst af góður þá gengur ekki að Alþingi sé áhrifalaus afgreiðslustofnun fyrir tilskipanir frá Evrópusambandinu. EES samningurinn skerti fullveldi Íslands þótt hann hafi veitt þegnum landsins miklar réttabætur á mörgum sviðum og tryggt efnahagslega stöðu þess!

Íslendingar þurfa að velja hvora leiðina þjóðin vill fara til að auka fullveldi sitt að nýju. Hvort Íslendingar eigi að hætta alfarið aðildarviðræðum að Evrópusambandinu og taka stefnuna á að segja sig frá EES samningnum eða hvort Ísland eigi að klára aðildarviðræður að Evrópusambandinu!

Þetta eru hinir raunverulegu kostir því EES samningurinn mun ekki halda lengi óbreyttur.

Hvernig væri að þjóðin tæki ákvörðun um hvor leiðina skuli fara – og það fyrr en síðar?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.2.2014 - 15:26 - 4 ummæli

Árlegar þjóðaratkvæðagreiðslur!

Það á að kjósa einu sinni á ári. Að vori. Til Alþingis á 4 ára fresti. Alþingi á ekki að vera unnt að rjúfa frekar en bæjarstjórnir. Þess vegna er unnt að hafa Alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar á fastsettri dagsetningu.

Samhliða Alþingiskosningum og samhliða sveitarstjórnarkosningum á að gefa kost á þjóðaratkvæðagreiðslum um hin mismunandi mál. Nú í vor um hvort eigi að halda áfram viðræðum um mögulega inngöngu Íslands í ESB.

Ef ekki í vor – þá á sama tíma að ári!

Það á að vera eðlilegur hluti lýðræðisins á Íslandi að unnt sé að greiða þjóðaratkvæði um einstök mikilvæg mál. Einu sinni á ári.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.1.2014 - 20:10 - 1 ummæli

Traust Samfylkingarfólk!

Mér finnst Dagur B. Eggertsson tvímælalaust eiga að leiða lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ég veit að hann getur orðið góður borgarstjóri. Reyndar finnst mér hann nú vera orðinn fullþroska stjórnmálamaður sem getur tekið að sér hvaða hlutverk sem er á sviði stórnmálanna. Það er ekki þar með sagt að ég ætli að kjósa hann eða berjast fyrir því að hann verði borgarstjóri.  Bara alls ekki!

En ég veit að það er best fyrir borgarbúa að hann leiði lista Samfylkingarinnar og ég veit að það er best fyrir borgarbúa að það er einmitt hann sem gæti orðið borgarstjóri ef Samfylkingin mun „fá“ borgarstjórann.

Mér finnst líka frábært að Björk Vilhelmsdóttir skuli að líkindum verða öruggur borgarfulltrúi sem annar maður á lista Samfylkingarinnar. Ég þekki Björku vel eftir frábært samstarf við hana í Velferðarráði Reykjavíkurborgar þar sem ég var varaformaður í meirihluta og hún öflugur samherji í minnihluta. Björk er í hópi þess fólks sem ég hef starfað með og vildi svo gjarnan starfa með aftur. Heiðarleg, beinskeitt og gagntekin af því að vinna þeim gagn sem minna mega sín.

Mér finnst líka að Heiða Björg Hilmisdóttir eigi að skipa þriðja sæti lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ekki vegna þess að ég vilji endilega sterkan og sigurstranglegan lista Samfylkingarinnar í Reykjavík Samfylkingarinnar vegna.

Nei.

Heldur vegna þess að ég vil að það fólk sem að líkindum mun eiga öruggt sæti í borgarstjórn gegnum Samfylkinguna sé fólk sem ég get 100% treyst að vinni Reykvíkingum sem mest og best gagn.  Hvort sem það verður í meirihluta eða minnihluta. Óháð því hvort ég kjósi það eða ekki.

Ég treysti þessu fólki til þess.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.1.2014 - 18:56 - 2 ummæli

RÚV og afar góðir menn!

Það er mikil eftirsjá af Pétri Gunnarssyni úr útvarpsráði.   Það að gagnrýna Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn fyrir að breyta samsetningu útvarpsráðs á þennan hátt sem gert var er réttmætt.  Það má fella þetta undir valdníðslu.

Þeir sem telja þenan gjörning rangan eiga að sjálfsögðu að gagnrýna þann gjörning.

En ráðast að þeim sem tekur sæti í hans stað – það er rangt og hreinlega aumingjalegt.

Það kemur allt öðruvísi maður inn í stað Péturs.

Geri orð hins áður ástsæla útvarpsmanns á RÚV – Páls Ásgeris Ásgeirssonar – sem hann lét falla á facebook síðu minni – að mínum:

„Gulli er frábær. Hann er stórkostlegur fulltrúi alþýðunnar og litla mannsins hvar sem hann fer. Þótt hann sé Framsóknarmaður.“

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.1.2014 - 20:54 - 4 ummæli

Verðtryggjum launin!

Það er einfalt að verðtryggja launin gagnvart húsnæðislánum. Með því að taka upp evru.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.1.2014 - 20:04 - 2 ummæli

Ólögmætt uppgreiðslugjald

Húsnæðislán eru neytendalán. Það kemur margoft fram í umfjöllun um verðtryggingu húsnæðislána. Enda skilgreindi Alþingi húsnæðislán sem neytendalán á sínum tíma þegar Evróputilskipun um slík lán var útfærð á Alþingi.  Uppgreiðslugjald á neytendalán er því óheimilt nema á því sé sérstaklega tekið í sérlögum.  Sem gert er sérstaklega um heimild félagsmálaráðherra til að setja á tímbundið uppgreiðslugjald í lögum um húsnæðismál. Ein af forsendum vaxtalækkunar bankanna á íbúðalánunum sem sprengdu  íslenska hagkerfið í loft upp var slíkt uppgreiðslugjald.  Ólögmætt.

Ekki það breyti miklu fyrir okkur í dag að bankarnir hafi farið á svig við lög þegar þeir keyrðu upp þenslu og sprengdu efnahagslífið í loft upp.

… en svona er þetta nú samt!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur