Þriðjudagur 30.11.2010 - 19:04 - 1 ummæli

Óþarfa 33 milljarðar til ÍLS?

Það er algjör óþarfi hjá ríkinu að leggja Íbúðalánasjóði til 33 milljarða á fjáraukalögum til að hífa eiginfjárhlutfall sjóðsins yfir 5 í CAD. Sérstaklega þegar ríkið er í blóðugum niðurskurði og nánast að leggja heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni í rúst. Væri nær að veita þessum peningum í þarfari verkefni.
 
Auðvitað er sjóðurinn miklu betur settur með þess 33 milljarða í eigið fé til viðbótar þeim 8,4 milljörðum sem sjóðurinn hafði í eigið fé 30. júní síðastliðinn. Þessir 33 milljarðar eru reyndar rúmum 10 milljörðum hærri fjárhæð í eigin fé en eigið fé sjóðsins var hæst fyrir hrun.
 
Mér sýnist þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar vera pólitískur hráskinnaleikur til að láta svo líta út að Íbúðalánasjóður hafi ekki staðið af sér efnahagshrunið einn stóru fjármálastofnanna á Íslandi, en eins og alþjóð veit fóru allir stóru bankarnir á hausinn og Seðlabankinn varð tæknilega gjaldþrota.
Íbúðalánasjóður er hins vegar ekki tæknilega gjaldþrota þótt því hafi verið haldið fram á opinverum vettvangi – væntanlega líka í pólitískum tilgangi.
 
Reyndar er talan 33 milljarðar svolítið skemmtileg í sögulegu samhengi því tæknilegt gjaldþrot og neikvætt eigið fé Byggingarsjóðs var að núvirði kring um 33 milljarðar í ársbyrjun 1999 þegar Íbúðalánasjóður var settur á fót. En Íbúðalánasjóður þurfti 1. janúar 1999 að taka það 33 milljarða tap á sig án aðkomu skattgreiðenda.
Reyndar var eigið fé sjóðsins um mitt árið 2010 var 8,4 milljarðar eða 1,5 milljörðum hærra en við stofnun Íbúðalánasjóðs.

 

Þótt reglugerð um fjárstýringu Íbúðalánasjóðs geri ráð fyrir að langtímamarkmið sjóðsins sé að eiginfjárhlutfall sé 5 CAD, þá er engin sérstök fjárhagsleg ástæða til þess að halda því marki. Reglugerðin kveður á um að CAD hlutfall sé tvisvar sinnum hærra en sérfræðingar Deutsche Bank töldu að þyrfti þegar breytingar voru gerðar á fjármögnunarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs árið 2004.

Deutsche Bank taldi æskilegt að eiginfjárhlutfallið væri 2,5% CAD til lengri tíma, en að kröfu fjármálaráðuneytisins var langtímamarkmið í reglugerð haft 5% CAD til að minnka líkurnar á að ríkissjóður þyrfti að leggja Íbúðalánasjóði til fé til að standa undir skuldbindingum sínum.

Því skýtur það skökku við nú þegar við þurfum að velta hverri krónu fyrir okkur að fjármálaráðuneytið vilji leggja til tugi milljarða úr ríkissjóði til að ná markmiði um CAD hlutfall sem sett var til að koma í veg fyrir að það þyrfti að leggja sjóðnum til fé úr ríkissjóði!

Við skulum hafa í huga að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs var 2,1% CAD við 6 mánaða uppgjör í sumar – örlítið lægra en ráðlegging Deutsche Bank.

Reynar er sjálfu sér ekkert sem krefst þess að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs sé jákvætt meðan sjóðurinn nýtur ríkisábyrgðar, þótt staða og kjör sjóðsins styrkist eftir því sem eiginfjárhlutfall er hærra. Það eina sem þarf að tryggja er að sjóðurinn geti staðið undir afborgunum af fjármögnunarbréfum sínum. Ekkert bendir til þess að greiðslufall sé framundan hjá Íbúðalánasjóði.

Því er óskiljanlegt að ríkissjóður skuli leggja til á fjáraukalögum að bæta skuli 33 milljörðum í eigið fé sjóðsins þegar ekki þarf í sjálfu sér að leggja til sjóðnum aukið fé. Ef stjórnvöld vilja styrkja stöðu sjóðsins í fegurðarskyni þá hefðu 10 milljarðar verið mikið meira en nóg.

… nema stjórnvöld séu að auka eigið fé í 8 CAD svo unnt sé að afnema ríkisábyrgð og einkavæða sjóðinn!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.11.2010 - 12:04 - Rita ummæli

Bændur saka Jón Bj. um embættisglöp

Ég fæ ekki betur séð en að forysta bændasamtakanna sé að saka Jón Bjarnson landbúnaðarráðherra um alvarleg embættisglöp!

Malbiksbændurnir við Hagatorg fóru af saumunum þegar Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og formaður viðræðunefndar Íslands við Evrópusambandið benti réttilega á að afstaða bændaforystunnar til aðildarviðræðna við ESB gæti skaðað samningsstöðu Íslands.

„Ráðuneytið neitar allri vinnu en ber raunverulega ábyrgð á að fylgja eftir hagsmunum atvinnuvegarins, ekki við,“ segir Haraldur Benediktsson formaður Bændastamtakanna. 

Haraldur segir að bændasamtökin hafi tekið að sér verk í tengslum við aðildarviðræðurnar sem hafi í raun átt að vera á herðum stjórnvalda en landbúnaðarráðuneytið ekki getað sinnt sökum andstöðu Jóns Bjarnasonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, við aðildarviðræður Íslands um inngöngu í ESB.

Það kann að vera en samtökin hafa ekki fylgt eftir hagsmunum íslensks landbúnaðar.

Malbiksbændurnir vita upp á sig sökina og reyna því að fela sig á bak við Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra sem reyndar er enn forstokkaðri en bændaforystan í að skaða samingsstöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu.

Vandamálið er að embættisglöp Jóns Bjarnsonar og óábyrg afstaða bændaforystunnar til aðildarviðræðna að Evrópusambandinu gætu endað með skelfingu fyrir íslenskan landbúnað. Við gætum setið uppi með afar slakan samning fyrir hönd íslensks landbúnaðar í aðildarsamningi sem íslenska þjóðin gæti allt eins samþykkt ef aðrir þættir hans eru ásættanlegir. Tala nú ekki um ef sjávarútvegsþátturinn er í lagi.

Malbiksbændurnir við Hagatorg ættu því að gera bændastéttinni og almenningi á Íslandi þann greiða að koma af fullum krafti í undirbúning aðildarviðræðna að Evrópusambandinu og halda þar hagsmunum íslensks landbúnaðar hátt á lofti.

Það er sérstaklega brýnt nú þegar landbúnaðarráðherrann sjálfur vinnur af fullum krafti gegn stefnu eigin ríkisstjórnar og gerir allt sem í hans valdi stendur til að skaða framtíð íslensks landbúnaðar með hryðjuverkastarfsemi gagnvart aðildarviðræðum að ESB.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.11.2010 - 12:22 - Rita ummæli

Forsætisráðherra utan flokka í þjóðstjórn

Það er því miður deginum ljósara að ríkisstjórnin er ekki að valda verkefni sínu. Þrátt fyrir einstaka þokkalega spretti. Það er einnig deginum ljósara að stjórnarandstaðan er ekki að valda verkefni sínu. Þrátt fyrir einstaka þokkalega spretti.

Við þurfum að stokka upp. Við þurfum nýja ríkisstjórn sem vinnur skipulega að ákveðnum grundvallaratriðum með það að markmiði að ná sem breiðastri þjóðarsátt um framtíð Íslands.

Það hefur lítið upp á sig að kjósa núna. Það er mér erfitt að segja það þar sem ég trúi á lýðræðið og þjóðina. Vil því gefa Alþingi kost á að endurheimta trúverðugleika sinn.

Stjórnmálahreyfingarnar sem eiga fulltrúa á Alþingi ættu að taka sig saman og mynd breiða þjóðstjórn til 18 mánaða. Þjóðstjórn um að skapa atvinnu, leysa sárasta skuldavandann, leysa IceSave og verja velferðina eins og kostur er.

Stjórnmálahreyfingarnar sem eiga fulltrúa á Alþingi eiga að skipa ráðherra í ríkissjórn í takt við þingstyrk sinn. Það er í lagi tímabundið þótt ráðherrar þurfi að vera 15 til að tryggja rétt jafnvægi í ríkissjórn. Óvenjulegir tímar kalla á óvenjuleg úrræði.

Forsætisráðherra í slíkri þjóðstjórn verður að vera utan stjórnmálahreyfinganna og starfa sem verkstjóri þjóðstjórnarinnar á grundvelli skýrt skilgreindrar verkefnaáætlunar þessa 18 mánuði.

Stjórnmálahreyfingarnar sem eiga fulltrúa á Alþingi eiga að óska eftir því við forseta Íslands að hann velji forsætisráðherrann.

Þessi leið er sú farsælasta í boði út úr þeim vanda sem við erum í.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.11.2010 - 20:15 - Rita ummæli

Skíða geimverur?

Ég átti afar góðan dag með drengjunum mínum á skíðum í Bláfjöllum í dag. Færið gott og fjallið fullt af fjölskyldufólki sem naut dagsins saman á skíðum, fullorðnir, börn og unglingar.

Skíðamennska er nefnilega ein af fáum íþróttum sem allir í fjölskyldunni geta stundað saman.

Einungis geimveru sem ekki skíðar dytti í hug að loka skíðasvæðinu í Bláfjöllum og ganga þannig frá dýrmætum vettvangi fyrir fjölskylduna að njóta sín saman í hollri hreyfingu og útivist.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.11.2010 - 13:16 - 3 ummæli

Ég legg hugsjónir mínar í þjóðardóm

Ég er stoltur af því að vera einn hinna rúmlega 500 Íslendinga sem voru reiðubúnir að leggja sig, stefnumál sín og framtíðarsýn í dóm þjóðarinnar með því að bjóða sig fram til stjórnlagaþings.

Ég er ánægður yfir því hve fjölbreyttur hópurinn er og sérstaklega hve stór hluti frambjóðendanna eru venjulegt fólk víðs vegar úr samfélaginu og af öllum stéttum.

Það er nefnilega meira en að segja það að leggja sig, hugðarefni sín og vonir í dóm þjóðarinnar. Því það að vilja taka þátt í sköpun nýrrar stjórnarskrár er að leggja vonir sínar um framtíð Íslands og Íslendinga sem þjóðar í dóm þjóðarinnar.

Ég gleðst yfir því hve kosningabaráttan hefur verið hófsöm, jákvæð og uppbyggjandi. Þvert á kosningahefð þjóðarinnar þar sem átök, neikvæðni og niðurrif hefur verið fyrirferðarmeiri en jákvæðni og uppbyggjandi umræða.

Mér líður vel í því frelsi sem felst í því að bjóða mig fram alfarið á mínum eigin forsendum, með mínar skoðanir og stefnumál ómenguð. Sú upplifun treystir enn þá trú mína að viðhafa skuli persónukjör í kosningum á Íslandi.

Þótt ég berjist af alefli fyrir mínum hugsjónum og vil veg þeirra sem mestan þá finnst mér mikilvægt að á stjórnlagaþing verði kjörnir fulltrúar mismunandi sjónarmiða og mismunandi hugsjóna. Því stjórnlagaþing á að vera stjórnlagaþing þjóðarinnar en ekki stjórnlagaþing einstakra hugmynda og hópa.

Stjórnlagaþing þjóðarinnar verður stjórnlagaþing þjóðarinnar með því að fulltrúar með mismundandi bakgrunn og mismunandi hugmyndir takist á í uppbyggilegum umræðum og komi sér saman um meginreglur stjórnskipunar Íslands í tillögu til nýrrar, sterkrar stjórnarskrár. Traustri stjórnarskrá sem þjóðin geti í þjóðaratkvæðagreiðslu sammælst um að geti orðið leiðarljós þjóðarinnar á 21. öldinni.

Ég legg mínar hugsjónir, mínar áherslur og mína krafta í dóm þjóðarinnar undir auðkenninu #9541 í kosningum til stjórnlagaþings þjóðarinnar.

Kveðja

Hallur Magnússon

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.11.2010 - 16:50 - Rita ummæli

Frjálslyndi og umburðarlyndi á stjórnlagaþing

Stjórnarskrá Íslands á meðal annars að byggja á frjálslyndi og umburðarlyndi, tryggja þegnum landsins örugg mannréttindi og beint lýðræði, skilvirka og lýðræðislega stjórnskipun, réttlátt og óháð dómskerfi og að landsmenn njóti allir ávaxtanna af nýtingu náttúruauðlinda landsins.

Frjálslyndið byggir á hugmyndafræðinni frelsi með félagslegri ábyrgð. Það þýðir að stjórnarskrá búi einstaklingum og samtökum þeirra frelsi til athafna innan þess ramma að frelsi þeirra skerði ekki frelsi annarra og skaði ekki samfélagið í heild. Samhliða sé tryggð félagsleg ábyrgð þannig að samfélagið tryggi að allir fái notið sín og þeir sem þurfa til þessa samfélagslega hjálp verði tryggð sú hjálp.

Örugg mannréttindi þýða að jafn réttur allra sé tryggður, óháð kyni, uppruna, aldri, trú, kynhneygð og skoðunum. Einnig að virðing sé borin fyrir viðhorfum og rétti minnihlutahópa og eðlilegt jafnvægi ríki í samfélaginu.

Beint lýðræði þýðir að almenningur hafi bein lýðræðisleg áhrif á samfélag sitt á sem flestum sviðum – sérstaklega í nærumhverfinu. Persónkjör er mikilvægt skref í þá átt.

Skilvirk og lýðræðisleg stjórnskipun þýðir að valdið liggi sem næst fólkinu og byggðunum og að stjórnskipunin sé smiðin að þörfum fólksins í landinu. Gagnsæji og lýðræði innan hennar sé tryggð.

Óháð dómskerfi þýðir meðal annars að dómarar séu ekki skipaðir af einum dómsmálaráðherra heldur leggi dómsmálaráðherra fram tillögu um hæstaréttardómara og Alþingi samþykki tilnefninguna með 2/3 hluta atkvæða. Tryggt sé að dómskerfið taki ekki við fyrirmælum frá stjórnvöldum. Einnig með stjórnsýsludómstól eða ígildi stjórnsýsludómstóls,

Það að landsmenn allir njóti ávaxtanna af nýtingu náttúruauðlinda landsins þýðir að eignarréttur þjóðarinnar á náttúruauðlindunum sé tryggður í stjórnarskrá og tryggt sé að afgjald vegna nýtingu auðlindanna renni til fólksins í landinu.

Ég býð mig fram sem talsmanns frjálslyndis og umburðarlyndis til stjórnlagaþings.

Auðkenni mitt er #9541.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.11.2010 - 01:42 - 2 ummæli

Tabula rasa stjórnlagaþings

Í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings hafa margir beint sjónum sínum að því hvaða greinum stjórnarskrárinnar ætti að breyta og hversu mikið. Sumar spurningar sem við frambjóðendur til stjórnlagaþings höfum fengið frá ýmsum hagsmunasamstökum hafa einmitt beinst að einstökum greinum núverandi stjórnarskrá.

Eðlilega.

Stjórnarskráin okkar er að mörgu leiti góð. Þar er að finna margar góðar greinar. Greinar sem mér þykir vænt um.

En ég er ekki á því að stjórnlagaþing eigi að nálgast verkefnið á þennan hátt þótt þessi aðferðarfræði eigi fullan rétt á sér.

Stjórnlagaþingið á að hefjast tabula rasa. Sem autt blað. Eins og hugur barns sem reynslan fyllir út. Umræðurnar á stjórnlagaþinginu eru ígildi reynslu barnsins sem fyllir út hugann  með tímanum og auknum þroska.

Fulltrúar á stjórnlagaþingi munu vissulega koma hver og einn með sínar skoðanir og áherslur í umræðuna og vinnuna. Og fylla út tabula rasa  – hið auða blað – hinn ómótaða hug stjórnlagaþingsins – og skila þjóðinni tillögu að nýrri stjórnarskrá.

Margar áherslur og margar skoðanir byggja á núverandi stjórnarskrá. Aðrar áherslur og aðrar skoðanir hafa ekkert með núverandi stjórnarskrá að gera. Umræðan skapar nýja stjórnarskrá.

Við eigum að nálgast verkefnið algerlega frá grunni. Við eigum að vinna skýra og einfalda stjórnarskrá fyrir 21.öldina, með áherslum fyrir 21. öldina og á tungutaki fyrir 21. öldina. Það er verkefnið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.11.2010 - 16:50 - 15 ummæli

Afnemum Jón Gnarr!

Stjórnlagaþing á að afnema Jón Gnarr. Ekki sem persónu og listamann. Heldur sem borgarstjóra. Stjórnlagaþing á að leggja niður Borgarstjórn Reykjavíkur. Eins og aðrar núverandi sveitarstjórnir í landinu.

Þess í stað á stjórnlagaþing að leggja til ákvæði í stjórnarskrá sem gerir ráð fyrir að grunnstjórnsýslueiningar landsins verði í formi 6 til 8 lýðræðislegra héraðsþinga og héraðsstjórna sem taki við eins stórum hluta núverandi ríkisvalds og unnt er. Ríkisvaldið sjái þannig einungis um þau verkefni sem nauðsynlegt er að vinna miðlægt fyrir landið í heild.

Með slíkri breytingu yrði Reykjavík ekki ein stjórnsýslueining á sveitarstjórnarstigi heldur hluti af afar öflugri stjórnsýslueiningu höfuðborgarsvæðisins sem stýrt væri af lýðræðislega kjörnu héraðsþingi og héraðsstjórn. Héraðsþingi sem kosið væri til með persónukosningu og þar sem iðkað yrði beint lýðræði.

Á sama hátt væri 5 til 7 aðrar stjórnsýslueininingar á landsbyggðinni sem gegndu sama hlutverki.

Með þessu er dregið úr miðstýringarvaldi Reykjavíkurvalds ríksisins.  

Höfuðborgarsvæðið eflist gagnvart ríkisvaldinu og landsbyggðin styrkist gagnvart höfuðborgarsvæðin og ríkisvaldinu. Eðlilegu jafnvægi og dreifstýringu náð.

Já, afnemum Jón Gnarr!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.11.2010 - 07:30 - Rita ummæli

Eflum landsbyggðina!

Landsbyggðin á Íslandi verður að dafna og blómstra ef við ætlum að halda stöðu okkar sem öflug þjóð í einu landi. Það hefur hallað á landsbyggðina á meðan borgríkið Reykjavík hefur þanist út og lengst af eflst til mikilla muna. Það verður að vera heilbrigt jafnvægi milli landsbyggðarinnar og borgríkisins á suðvesturhorninu.

Það hefur hallað á landsbyggðina á undanförnum áratugum á flestum sviðum nema í atkvæðavægi til Alþingiskosninga. Ástæðan er margþætt.

Mikilvægur þáttur er sú miðstýring ríkisvaldsins og embættismannakerfisins í Reykjavík sem tók í raun yfir Kaupmannahafnarvaldið 1904 og kom því aldrei áfram til þjóðarinnar.

Einnig sú staðreynd að lunginn úr skatttekjum landsbyggðarinnar renna til Ríkissjóðs í Reykjavík þar sem aðeins hluti þeirra er aftur dreift til fólksins í landinu og það á forsendum Reykjavíkurvaldsins. Þá hefur engu skipt hvort fjármálaráðherrar hafi komið úr Þingholtunum eða Þistilfirði eða heilbrigðisráðherrar af Seltjarnarnesi eða af Skaganum.

Það þarf því færa völd, verkefni og skatttekjur á lýðræðislegan hátt heim í héruðin og nær fólkinu. Líka nær fólkinu í borgríkinu á suðvesturhorninu. Borgríkið á höfuðborgarsvæðinu er nefnilega hérað í sjálfu sér.

Því eigum við að leggja niður núverandi sveitarfélög og setja þess í stað á fót nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi 6 – 8 öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsþinga og héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga hver í sínu héraði.

Ekki gleyma að höfuðborgarsvæðið yrði hérað með sitt héraðsþing og með aukið vægi gagnvart ríkisvaldinu og Alþingi.

Hinar nýju lýðræðislegu héraðsstjórnir eiga að sjái um stærsta hluta skattheimtunnar, ráðstafi henni til verkefna heima fyrir á grundvelli ákvarðanna héraðsþinga, en greiði eins konar útsvar til ríkisins til reksturs þess.

Til að tryggja virkt lýðræði og aðhald bæði í kosningum til héraðsþinga og til Alþingis verður að festa ákvæði um persónukjör í stjórnarskrá. Það þarf einnig að tryggja jafnt vægi atkvæða hvort sem um kosningar til héraðsþinga eða Alþingis er að ræða.

Reynslan sýnir að ójafnt vægi atkvæða hefur ekki verið landsbyggðinni til framdráttar. Því er engin ástæða fyrir landsbyggðina að vinna gegn því að Ísland verði eitt kjördæmi vegna Alþingiskosninga. Það þarf bara jafnframt að tryggja að persónukjör verði viðhaft í slíkum kosningum. Slíkt tryggir eðlilega dreifingu þingmanna yfir landið.

Hallur Magnússon minnir á stjórnlagaþingsnúmerið #9541.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.11.2010 - 14:50 - Rita ummæli

Heggur sá er hlífa skyldi!

Norræna velferðarstjórnin á Íslandi hyggst nú svipta skuldsettar millistéttarfjölskyldur vaxtabótum vegna þess að fjölskyldurnar hafa gripið til þess úrræðis að frysta íbúðalánin sín til að geta staðið í skilum annars staðar eða eru í þeim aðstæðum að geta ekki staðið í skilum með húsnæðislánin sín.

Heggur sá er hlífa skyldi!

Norræna velferðarstjórnin afnam reyndar fyrra fyrirkomulag þar sem vaxtabótum var skuldajafnað á móti vanskilum íbúðalána Íbúðalánasjóðs. Það var gert í kjölfar hrunsins til þess að fólk gæti nýtt vaxtabæturnar í annað og brýnna en að greiða af íbúðalánunum sínum.

Nú vill fjármálaráðherra Norrænu velferðarstjórnarinnar hvorki treysta almenningi að nýta vaxtabæturnar að eigin vali né að skuldajafna vaxtabótunum á móti vanskilum eins og áður var gert og létta þannig skuldsettum fjölskyldum greiðslubyrðina. Fjármálaráðherra er þar að auku með þessu að auka vanskil við Íbúðalánasjóð að óþörfu. Er það skynsamleg fjármálastjórnun norrænnar velferðarstjórnar?

Auðvitað á að skuldajafna vaxtabæturnar. Það er allra hagur. Vænti þess að Alþingi taki fram fyrir hendurnar á fjármálaráðherranum og

Frysting lána hefur lengi verið greisluerfiðleikaúrræði hjá Íbúðalánasjóði. Við frystingu leggjast ársvextir vegna lánanna við höfuðstól lánsins um áramót. Hingað til hefur verið litið á það sem uppgjör vaxtaþáttar – og því talið að fólk ætti rétt á að telja vextina fram til stofns vaxtabóta.

Frysting lána Íbúðalánasjóðs miðaði yfirleitt að því að fólk gæti greitt niður aðrar fjárskuldbindingar sínar með því fé sem annars hefði farið til greiðslu afborgana ÍLS lána – með það að markmiði að lækka skuldabyrði svo unnt væri að standa í skilum við Íbúðalánasjóð í kjölfarið. Vaxtabætur var hluti þess fjár sem fór í að greiða niður aðrar skuldir og koma fólki á rétt ról.

Norræna velferðarstjórnin er með þessari breytingu að kippa grundvellinum undan fjölda fólks til að koma fótunum undir sig – svo fólkið geti staðið í skilum við Íbúðalánasjóð.

Ef Norræna velferðarstjórnin treystir ekki almenningi að nýta vaxtabæturnar til að greiða niður skuldbindingar sínar – þá á Norræna velferðarstjórnin að láta vaxtabæturnar renna beint til greiðslu hluta vaxtanna á ÍLS lánunum. Það er hagur lántakendanna og það er hagur Íbúðalánasjóðs.

Reyndar ætti fyrir löngu að vera búið að leggja niður vaxtabótakerfið og taka upp almennt húsnæðisbótakerfi sem taki mið af stöðu fólks hverju sinni og geri ekki greinarmun á því hvort fólk býr í eigin húsnæði, leiguhúsnæði eða búseturéttarforminu. Fyrir því hef ég lengi talað – og mun fjalla um það nánar síðar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur