Laugardagur 13.11.2010 - 09:00 - 2 ummæli

Sjálfstæðara og sterkara Alþingi takk!

Alþingi á að vera sterkara og sjálfstæðara en það hefur verið hingað til. Það gengur ekki að alþingismenn sætti sig við að Alþingi sé undirstofnun ríkisstjórna á hverjum tíma eins og tíðkast hefur allan lýðveldistímann. Það er óþolandi hvernig Alþingi er og hefur verið nánast eins og afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið – ríkisstjórnina – núverandi og þær sem áður hafa setið.

Almenningur á rétt á því að Alþingi og alþingismenn sinni hlutverki sínu sem ábyrgt löggjafarvald í þágu þjóðarinnar óháð framkvæmdavaldinu!

Ráðherraræði undanfarinna þriggja áratuga og foringjaræði leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna í ríkisstjórnum undanfarinna tveggja áratuga verður að linna. Enda átti foringjaræðið stóran sök á hruninu, aðdraganda þess og mistökum í kjölfar hrunsins. Leiðtogar allra hefðbundinna stjórnmálaflokka eiga þar hlut í máli.

Því verður í nýrri stjórnarskrá að tryggja aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavald.

Þess vegna er það forgangsatriði að í nýrri stjórnarskrá verði ráðherrum gert að segja af sér þingmennsku meðan þeir gegna ráðherraembætti og kalli inn varamenn til setu á Alþingi meðan þeir gegna ráðherraembætti ef ráðherrar eru valdir úr hópi þingmanna.

Þess vegna er það forgangsatriði í nýrri stjórnarskrá að fullkomið sjálfstæði Alþingis verði tryggt og að þingmönnum verði gert kleift að vinna sjálfstætt fyrir þjóð sína án þess að vera undir járnhæl framkvæmdavaldsins og einstakra ríkisstjórna.

Þess vegna á í stjórnarskrá að heimila þinginu að setja á fót sértakar þingnefndir til að skoða einstök mál er upp kunna að koma – án aðkomu framkvæmdavaldsins.

Fyrir öllu þessu hef ég talað í hartnær tvo áratugi.

Nú hef ég fengið tækifæri að fylgja þessum baráttumálum mínum eftir – ef ég fæ stuðning til setu á stjórnlagaþingi!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.11.2010 - 12:00 - 2 ummæli

Frjálst val um búseturéttarleið, eignarleið og leiguleið

Íslensk stjórnvöld eiga að  leggja áherslu á að landsmenn hafi raunhæft frjálst val um þrjár meginleiðir í húsnæðismálum. Búseturéttarleið, eignarleið og leiguleið.   Á það lagði ég áherslu í síðasta pistli.“Ö ryggi og jafnrétti í húsnæðismálum“

Mikilvægt er að hafa í huga að unnt er að samþætta leiguleið og búseturéttarleið innan húsnæðissamvinnufélaga, en núverandi búseturéttarfélög eru lögum samkvæmt húsnæðissamvinnufélög.

Í síðasta pistli boðaði ég nokkrar tillögur sem gætu orðið grunnur að faglegri umræðu um húsnæðismál í þeirri vinnu sem nú er að hefjast um framtíðarskipan húsnæðismála á  Íslandi.  Hér eru tillögurnar:

Núverandi vaxtabótakerfi og húsaleigubótakerfi verði lagt af en þess í stað sett á fót nýtt húsnæðisbótakerfi sem taki mið ef tekjum fólks, óháð búsetuformi og eignarhlut hverju sinni.

  • Félagslegum markmiðum um hóflegan húsnæðiskostnað lægri tekjuhópa verði fyrst og fremst mætt með niðurgreiðslu gegnum húsnæðisbótakerfi.

Lesa áfram »

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.11.2010 - 21:23 - Rita ummæli

Öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum

Öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum er kjölfestan í tilgangskafla núverandi laga um húsnæðismál:

 „Tilgangur laga þessara er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

1.gr. laga nr. 44/1998

Ég tel afar mikilvægt að í stefnumótun húsnæðismála til framtíðar sem nú er að hefjast í afar breiðum og fjölbreyttum vinnuhóp að áfram verði lagt til grundvallar að stjórnvöld tryggi það öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum  sem kveðið er á um í núverandi lögum.

Því miður hefur markmiði um öryggi og jafnrétti ekki verið náð þrátt fyrir oft á tíðum góða viðleitni stjórnvalda. Séreignastefna hefur verið ráðandi og þrátt fyrir aukna áherslu stjórnvalda á uppbyggingu faglegs leiguhúsnæðis á undanförnum árum er ljóst að langt er í land að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti á leigumarkaði.

Það sama á við um búseturéttarformið. Þótt búseturéttarformið hafi náð fótfestu, ekki hvað síst í búseturéttarfélögum eldri borgara, þá er enn langt í land að búseturéttarformið standi jafnfætis eignarforminu sem raunhæfur valkostur fyrir þorra almennings.

Mér finnst að húsnæðiskerfi landsmanna eigi almennt að byggja á þremur stoðum, eignarforminu, búseturéttarforminu og leiguíbúðaforminu.

En til að tryggja landsmönnum öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum er ljóst að stjórnvöld þurfi að styrkja verulega bæði búseturéttarformið og leiguformið. 

Stjórnvöld verða að leita raunhæfra leiða til þess að fjölskyldur sem nú eiga í erfiðleikum með að standa undir afborgunum af íbúðarhúsnæði sínu örugga leið inn í búseturéttarformið eða inn á tryggan leigumarkað.

Kaupleiguleið sú sem núverandi stjórnvöld leggja ofuráherslu á á fullkomlega rétt á sér í ákveðnum tilfellum, en aðrar leiðir, eins og leið húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttarformið er miklu vænlegri leið bæði fyrir fjölda einstakra fjöldskyldna og fyrir samfélagið í heild.

Í næsta pistli mun ég birta nokkrar tillögur að leiðum sem ég tel að geti orðið góður grunnur að faglegri umræðum um framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.11.2010 - 11:10 - Rita ummæli

Þjóðin ákveði samband ríkis og þjóðkirkju

Kirkjan er afar mikilvægur þáttur í menningu og trúarlífi Íslendinga. Íslenska þjóðkirkjan er og verður þjóðkirkja í þeim skilningi að lunginn úr íslensku þjóðinni tilheyrir henni og þykir vænt um kirkjuna sína.

Að mínu viti á hin evangelíska lúterska kirkja ekki að vera ríkiskirkja enda hef ég talað fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju frá því fyrir fermingu. Kaus því að láta ferma mig í Óháða söfnuðinum sem er evangelísk lútersk kirkja utan þjóðkirkjunnar.

Ég hef því miklar efasemdir um 62. grein stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“

Ég sækist þó ekki eftir setu á stjórnlagaþingi til að breyta þessari grein stjórnarskrárinnar sérstaklega.

Mín skoðun er sú að þjóðin sjálf eigi að ákvarða tilhögun framtíðarsambands ríkis og þjóðkirkju í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef þjóðin kýs að þjóðkirkjan haldi stöðu sinni gagnvart ríkisvaldinu þá mun ég styðja þá niðurstöðu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.11.2010 - 22:14 - 1 ummæli

Stjórnarskrá Íslands byggi á frjálslyndi og umburðarlyndi

Stjórnlagaþing þjóðarinnar er eðlilegt og nauðsynlegt skref í endurreisn Íslands. Á það benti ég í kjölfar hrunsins í pistli mínum þann 12. janúar 2009 Þjóðkjörið stjórnlagaþing móti stjórnskipan framtíðarinnar Ég hef barist fyrir þessari hugsjón minni æ síðan. Því var það eðlilegt af minni hálfu að gefa kost á mér til setu á stjórnlagaþingi.

Stjórnarskrá Íslands á að byggja á frjálslyndi og umburðarlyndi, tryggja þegnum landsins örugg mannréttindi og beint lýðræði, skilvirka og lýðræðislega stjórnskipun, réttlátt og óháð dómskerfi og að landsmenn njóti allir ávaxtanna af nýtingu náttúruauðlinda landsins.

Í stjórnarskrá vil ég helst tryggja:

Persónukjör og rétt til þjóðaratkvæðagreiðslna

Raunverulegan aðskilnað löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds.

Að dregið verði úr miðstýringu ríkisstjórnarvaldsins.

Nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Þessi baráttumál mín eru ekki ný af nálinni eins og sjá má á pistlum mínum Stjórnlagaþing, persónukjör og auðlindirnar í þjóðareigu og Sterk og miklu stærri sveitarfélög eru framtíðin .

Að sjálfsögðu eru stefnumál mín fleiri og fjölbreyttari. Til að kynna þau hef ég ákveðið að rjúfa árslanga bloggþögn mína og er því nú byrjaður að blogga á Eyjunni

Þeir sem vilja kynna sér afstöðu mína til hinna ýmsu þjóðmála einnig geta gluggað í gamla Moggabloggið mitt

Ég bloggaði nær daglega og stundum oft á dag á þessari bloggsíðu um landsins gagn og nauðsynjar frá því í marsmánuði 2007 fram í septembermánuð 2009 alls 1292 færslur.

Því hafa þeir sem vilja kynna sér stefnumál mín og skoðanir úr drjúgum potti að veiða. Til að auðvelda aðgang að fyrri pistlum mínum á Moggablogginu hef ég komið fyrir leitarvél á síðunni.

Yfirlit yfir starfsferil minn, nám og þátttöku í félagsstörfum er einnig að finna hér

Ábendingum og athugasemdum er unnt að koma til mín á netfangið hallur@spesia.is auk þess sem athugasemdakerfi á bloggsíðu minni á Eyjunni er að sjálfsögðu öllum opið.

Ég hlakka til að taka þátt í þeirri umræðu og þeirri kosningabaráttu sem framundan er og óska eftir stuðningi í kosningunum til stjórnlagaþings 27. nóvember.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur