Almenningur á rétt á því að Alþingi og alþingismenn sinni hlutverki sínu sem ábyrgt löggjafarvald í þágu þjóðarinnar óháð framkvæmdavaldinu!
Ráðherraræði undanfarinna þriggja áratuga og foringjaræði leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna í ríkisstjórnum undanfarinna tveggja áratuga verður að linna. Enda átti foringjaræðið stóran sök á hruninu, aðdraganda þess og mistökum í kjölfar hrunsins. Leiðtogar allra hefðbundinna stjórnmálaflokka eiga þar hlut í máli.
Því verður í nýrri stjórnarskrá að tryggja aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavald.
Þess vegna er það forgangsatriði að í nýrri stjórnarskrá verði ráðherrum gert að segja af sér þingmennsku meðan þeir gegna ráðherraembætti og kalli inn varamenn til setu á Alþingi meðan þeir gegna ráðherraembætti ef ráðherrar eru valdir úr hópi þingmanna.
Þess vegna er það forgangsatriði í nýrri stjórnarskrá að fullkomið sjálfstæði Alþingis verði tryggt og að þingmönnum verði gert kleift að vinna sjálfstætt fyrir þjóð sína án þess að vera undir járnhæl framkvæmdavaldsins og einstakra ríkisstjórna.
Þess vegna á í stjórnarskrá að heimila þinginu að setja á fót sértakar þingnefndir til að skoða einstök mál er upp kunna að koma – án aðkomu framkvæmdavaldsins.
Fyrir öllu þessu hef ég talað í hartnær tvo áratugi.
Nú hef ég fengið tækifæri að fylgja þessum baráttumálum mínum eftir – ef ég fæ stuðning til setu á stjórnlagaþingi!