Mánudagur 20.5.2013 - 10:41 - FB ummæli ()

USA: Skuldir og skattar í tíð ólíkra forseta

Skuldavandi bandaríska ríkisins þykir vera mikið vandamál nú og horfurnar slæmar. Gert er ráð fyrir áframhaldandi halla á fjárlögum til a.m.k. 2020. Skuldirnar eru því eitt heitasta átakamálið í stjórnmálunum þar vestra.

Skuldir eru líka mikið vandamál á Íslandi – fyrir ríkið, heimilin og fyrirtækin.

Skoðum nánar skuldaþróunina í Bandaríkjunum og það sem að baki býr. Myndin sýnir skuldir bandaríska ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu (brúna línan) og heildarupphæð skuldanna á núvirði (bláa og gula línan, skipt eftir flokki sitjandi forseta).

Skuldirnar náðu hámarki í seinni heimsstyrjöldinni (sem % landsframleiðslu) en lækkuðu jafnt og þétt fram til um 1980. Þá urðu umskipti, einkum með valdatíma Ronalds Reagans, sem fylgdi frjálshyggjustefnu í ríkari mæli en áður hafði tíðkast.

Hann hóf að lækka skatta, einkum á fyrirtæki, hátekjufólk og stóreignafólk. Það kom niður á tekjum ríkisins og þar eð ekki voru skorin niður útgjöld í sama mæli jukust skuldirnar. Verulega. Bush eldri bætti í skuldastabbann til 1993.

Þá tók Bill Clinton við og hækkaði skatta á hærri tekjuhópa og snéri skuldasöfnuninni við. Skuldir lækkuðu þar til Bush yngri tók við (2001) og hóf að lækka skatta á ný, mest á hátekjufólk.

Viti menn, þá tóku skuldir ríkisins aftur að aukast!

Slide2

Síðan jukust skuldirnar enn frekar og mjög ört í tíð Obama, vegna kreppuáhrifanna, eins og alltaf gerist í fjármálakreppum.

Lexían er þessi: Skattalækkanir til hátekjuhópa og eignafólks auka skuldir ríkisins, ef ekki eru samsvarandi lækkanir á útgjöldum. Vúdú-hagfræðin um að skattalækkanir auki skatttekjurnar sjálfkrafa virkar ekki.

Aftur til Íslands: Spurningin er þá hvort skattalækkunarstefna Sjálfstæðisflokksins verður sett í framkvæmd á næsta kjörtímabili?

Skattalækkanir einar og sér myndu auka skuldir ríkisins enn frekar og hækka vaxtagreiðslurnar (sem eru geigvænlegar fyrir). Ef gripið yrði samhliða til mikils niðurskurðar opinberra útgjalda til að forðast auknar skuldir gæti hægt á hagkerfinu, atvinnuleysi aukist og kjör versnað umtalsvert.

Það yrði ekki til vinsælda fallið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.5.2013 - 22:52 - FB ummæli ()

Eurovision fyrirbærið

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva  er að mörgu leyti stórt fyrirbæri, þó hún skipi misháan sess í hugum fólks.

Keppnin er stór hvað snertir fjölda þátttökuþjóða og umgjörðin öll er skrautleg í meira lagi. Í keppninni má auðvitað finna alla flóruna í sjóbísness, frá smekkleysu til ágætrar kvöldskemmtunar, auk þess sem lesa má sitthvað út úr fyrirbærinu.

 

Smekkleysa

Sumir sjá í Eurosivion hápunkt „kitch“ áhrifa, eins konar fjöldaframleidda list fyrir lágreistan neytendamarkað. Svona eins og lýðskrum er í stjórnmálum. Í einu orði: smekkleysu.

Mér fannst HvítaRússland (Belarus) toppa í „kitchinu“ þetta árið. Þau voru með sérstaklega ýkt framlag, þar sem allt krydd var tvöfalt eða þrefalt það sem hefði verið heppilegt.

Belarus glímdi að vísu við harða keppinauta í smekkleysu. Svisslendingarnir með afa gamla sem þóttist spila á kontrabassa voru billegir – og sömuleiðis Ukraínumenn sem tróðu upp með risa úr þarlendum sirkus Geira Smart, svona til skrauts! Eða Þjóðverjar sem reyndu að kópera sigurlagið frá í fyrra, án þess þó að brjóta augljóslega höfundarréttarlögin. Það var ódýrt!

 

Meinlaus kvöldskemmtun

Aðrir sjá í söngvakeppninni saklausa skemmtun í nokkrar kvöldstundir í vorstemmingunni. Samkeppni um sönglög, sem veitir í leiðinni smá innsýn í fjölbreytta menningarheima nútímaþjóða í Evrópu. Í einu orði: Kvöldskemmtun.

Það er auðvitað ágætt.

Ég þekki hins vegar fólk sem af fræðilegum áhuga skoðar svona fyrirbæri eins og Eurosvision, sem eins konar glugga að sálarlífi nútímans í Evrópu.

 

Sameiginlegur vettvangur

Þá spyrja menn: hvað segir Eurovision okkur um hugarfar fólksins í Evrópu í dag? Hvað segir Eurovision um breytingar samfélaganna í Evrópu?

Um daginn sagði ég að Eurovision hefði hlutverk sem mótunarafl sameiginlegrar ímyndar Evrópuþjóða, svona á almennan hátt. Kjörorð keppninnar núna er “We are one”!

Þetta er sameiginleg sena, sameiginlegur fókus. Þjóðir Evrópu koma saman og mæla sig á stiku alþýðutónlistar, oft með miklum metnaði.

Þetta er vettvangur til að vera þjóð meðal þjóða – ekki síst þegar vel gengur.

Það gildir um menningarsamskipti, eins og viðskipti, að þjóðir sem gera eitthvað saman eru ekki eins líklegar til að murka lífið hver úr annarri í fánýtu stríði. Það er einhvers virði. Aukin tengsl eru þannig verðmæt á marga vegu.

Með hugann við breytingar var til dæmis stórkostlegt að sjá og heyra frábæra sönglistamenn frá Rússlandi syngja á ensku og spyrja, hvernig það væri ef við öll kæmum sama sem eitt.

Sem augnablik í nútímanum er það kanski lítill hljóðbiti, en fyrir okkur sem lifðum ógnir kalda stríðsins þá er þetta tákn þeirra gríðarlegu framfara sem orðið hafa eftir 1990. Rússland var hálf lokað land og af því þótti stafa mikil ógn. Það er hreint ekki svo langt síðan.

Rússar standa okkur nú nær og það er frábært.

 

Íslendingar í Eurovision

Íslendingar hafa meiri áhuga á Eurovision en margar Evrópuþjóðir. Í ljósi þess hversu margir háværir og heiftúðugir andstæðingar Evrópusambandsins eru hér á landi gæti það virst undarlegt.

Það er þó kanski skiljanlegt í ljósi þess, að við erum fjarlæg eyþjóð sem fékk sjálfstæði fyrir ekki svo löngu. Við erum sennilega nokkuð föst í fullveldishugsun gamla tímans, sem þó er orðin úrelt í hnattvæddum heimi aukinnar samvinnu og tengsla.

Í ár áttum við sérstaklega álitlega fulltrúa í Eurovision, þá Jesús og Pétur postula, með Örlyg Smára í farteskinu. Frábær flutningur Eyþórs Inga á ljúfu lagi sem hafði sérstöðu í þessari flóru alþýðutónlistar í Evrópu gladdi augljóslega fjölda Íslendinga – ef ekki alla.

Það er auðvitað einhvers virði fyrir sjálfsmynd þjóðar að geta átt álitlega fulltrúa í keppnum þjóða, af hvaða toga sem er.

Ekki síst þegar okkar fólk stendur mörgum þeim bestu ágætlega á sporði.

Svo er rétt að minna á að lögmál smekksins er þannig, að bestu lögin sigra ekki alltaf! Það er vegna þess að þeir smekklausu eru oft duglegri að kjósa…

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.5.2013 - 10:33 - FB ummæli ()

Bylting á hafnarsvæðinu

Tilkoma Hörpu og ýmsar aðrar breytingum á umhverfi gömlu hafnarinnar í Reykjavík eru afar vel heppnaðar. Raunar hefur orðið bylting á þessu svæði á síðustu árum.

Endurnýjun á Grandagarði og við slippinn, fjölgun matstaða, hvalaskoðunin og mannlífið við Hörpu hafa heppnast vel, þó enn eigi margt eftir að bætast við þarna.

Hafnarsvæðið er orðið einn athyglisverðasti staðurinn í Reykjavík, fyrir ferðafólk jafnt sem okkur innbyggjana. Þetta er einnig áhugaverður staður fyrir íbúabyggð sem gæti vaxið hratt í nágrenninu.

Í gær var þessi skemmtilega og frumlega opnun listahátíðarinnar með stórhljómsveit íslenska flotans. Frábær hugmynd.

Hér er myndband af því, sem Halldór Sigurðsson tók.

 

Síðasti pistill: OECD um ójöfnuð – Ísland með sérstöðu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 15.5.2013 - 22:01 - FB ummæli ()

OECD um ójöfnuð – Ísland í sérstöðu

OECD samtökin voru að senda frá sér nýja greiningu á þróun ójafnaðar fyrir og eftir kreppu í aðildarríkjunum (meira hér).

Þeir staðfesta margt sem ég og samstarfsmaður minn, Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur, höfum áður sýnt varðandi þróunina á Íslandi, fyrir og eftir hrun.

Þeir birta líka athyglisverðar upplýsingar um hvernig kreppan lagðist misjafnlega á ólíka þjóðfélagshópa í aðildarríkjunum. Þær upplýsingar sýna að Ísland er í sérstöðu og fór aðra leið í kreppuviðbrögðum en flestar kreppuþjóðir. Hér var lágtekjufólki hlíft.

Ójöfnuðurinn jókst óvenju mikið á Íslandi á áratugnum fram að hruni, samanborðið við OECD-ríkin almennt. Samt vantar í tölur OECD stóran hluta fjármagnstekna sem renna fyrst og fremst til allra hæstu tekjuhópanna (mat þeirra á ójöfnuði hér er því mjög hóflegt, raunar vanmat – en mynstrið er rétt).

Síðan snérist þróunin við á Íslandi eftir hrun og úr ójöfnuði dró hratt á ný.

Í flestum kreppuhrjáðum ríkjum jókst ójöfnuður eftir hrun, en ekki á Íslandi. Ísland er því undantekning í hópi helstu kreppuríkjanna.

  • Víðast lagðist kreppan með mestum þunga á lágtekjufólk, en ekki á Íslandi. Samt var kreppan hér dýpri en annars staðar.
  • Mest kjaraskerðing lagðist á lágtekjufólk í helstu kreppulöndum, eins og Grikklandi, Írlandi, Spáni, Ungverjalandi, Eistlandi, Ítalíu, Bretlandi og Bandaríkjunum.  Á Íslandi lagðist hlutfallslega meiri þungi af kreppunni á tekjuhærri hópana.
  • Samkvæmt þeim mælingum sem OECD notar til að meta fátækt (afstæð fátækt) þá dró heldur úr fátækt á Íslandi eftir hrun, en í flestum ríkjum jókst fátækt. Það þýðir að tekjur lágtekjufólks minnkuðu minna en tekjur miðhópa á Íslandi. Hér tókst sem sagt að milda áhrif kreppunnar á fólk í lægri tekjuhópum umfram hærri tekjuhópa. Þarna staðfestir OECD það sem var niðurstaða okkar Arnaldar Sölva fyrir ári síðan.
  • Í OECD-ríkjunum fækkaði eldri borgurum undir fátæktarmörkum að jafnaði úr 15% í um 12%, en á Íslandi fækkaði þeim mun meira.

Ósannindamenn frjálshyggjunnar, t. d. Hannes Hólmsteinn og Birgir Þór Runólfsson, höfnuðu því að ójöfnuður hefði aukist á áratugnum fram að hruni. Þeir gerðu líka lítið úr því að jöfnuður hefði aukist á ný eftir hrun. Þeim fannst það ómerkilegt að lágtekjufólki hefði verið hlíft við kreppunni hér á landi og reyndu að afbaka staðreyndirnar með vúdú-hagfræði sinni.

Þess vegna er ágætt að fá skýrar niðurstöður frá OECD.

Sjá gögn OECD hér.

Sjá ítarlegri og fyllri niðurstöður hér og hér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 14.5.2013 - 09:44 - FB ummæli ()

Þjóðarsátt um lág laun næstu 3-4 árin?

Nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var í fjölmiðlum í gær. Hann vill nýja þjóðarsátt í haust og segir að til að ná stöðugleika þurfi litlar kauphækkanir næstu 3-4 árin. Það taki tíma að undirbyggja kaupmáttinn.

Í millitíðinni vill hann örva fyrirtækin til fjárfestinga með skattalækkunum, einföldun skattakerfisins og einföldun eftirlitskerfisins – og aðhaldi í ríkisfjármálum. Það á að draga úr ríkisafskiptum – eins og á bóluárunum.

Það er ekkert nýtt í þessu. Svona hefur stefna SA verið lengi.

Það sem er með öðrum hætti nú er að með hruninu gekk mesta kaupmáttarskerðing sem orðið hefur í Evrópu yfir íslensk heimili, með um 20% rýrnum ráðstöfunartekna. Það kom að mestu fram með hruni krónunnar á árinu 2008. Með aukinni skuldabyrði varð kjaraskerðingin enn meiri, í reynd ein sú mesta hér á landi frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Kaupmátturinn hefur batnað lítillega, einkum á árinu 2011, en alltof hægt 2012 og 2013. Við erum enn of nálægt botni kjaraskerðingarinnar. Þess vegna eru allir óhressir með kjör sín.

Nú vilja atvinnurekendur framlengja það ástand um þrjú til fjögur ár til viðbótar – til að auka „stöðugleika“. Ef það gengi eftir væri búið að festa þjóðina á láglaunakjörum í hátt í áratug.

Það þarf ekki slíka láglaunastefnu í grannríkjunum til að ná stöðugleika eða samkeppnishæfni – eða hagvexti.

Raunar hefur Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, lagt áherslu á að hækkun launa (ekki þó hæstu launa) sé góð leið út úr kreppu. Þegar heimilin eru á kafi í afborgunum of mikilla skulda hjálpar kauphækkun við að auka eftirspurnina í hagkerfinu. Hún örvar einkaneysluna og hagvöxtinn. Snýr hjólum atvinnulífsins hraðar. Býr til störf.

Við sáum það gerast hér á Íslandi á árinu 2011. Þá var góður hagvöxtur í tengslum við góða kaupmáttaraukningu.

Skyldu ASÍ og önnur launþegasamtök vera til í slíka þjóðarsátt um láglaunastefnu til lengri tíma?

Varla. Það er hvorki góð kjarastefna fyrir launafólk né góð hagvaxtarstefna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 12.5.2013 - 23:16 - FB ummæli ()

Samráð gegn landsbyggðinni?

Samráðsvettvangur um aukna hagsæld skilaði áfangaskýrslu um daginn með tillögum, sumum mjög afgerandi. Í einstaka tilfelli eru þarna villandi staðreyndatilvísanir, t.d. um málefni öryrkja. Þarna eru þó margar góðar hugmyndir, aðrar hæpnar og einhverjar beinlínis hættulegar.

Mér finnst þetta framtak sem sagt mjög virðingarvert – en takmarkað.

Framtakið er framhald skýrslu McKinsey ráðgjafarfyrirtækisins, sem lagði höfuðáherslu á að framleiðni væri lítil á Íslandi.

Helsta ástæða fyrir lítilli framleiðni á Íslandi hefur lengi verið of langur vinnutími. Vinnutími er of langur vegna þess að grunnlaun eru of lág, svo fólk sækir í yfirvinnu til að bæta tekjurnar. Þessu er hægt að taka á og bæta í senn hagkvæmni í atvinnulífinu og lífsgæði fjölskyldna. Þetta er hins vegar hvergi nefnt í skýrslunni.

 

Meginhugmyndin – aukin stærðarhagkvæmni

Markmið samráðsins er að auka hagvöxt og hugsunin er svolítið í anda gamalla hugmynda iðnríkisins um fjöldaframleiðslu, með megináherslu á aukna stærðarhagkvæmni – fækkun og stækkun eininga. Sú leið á stundum rétt á sér, en ekki alltaf.

Þarna liggja helstu annmarkar verksins eins og það stendur núna – óklárað að vísu. Þetta eru ekki tillögur um að bæta samfélagið eða lífsgæði almennings. Þetta eru fremur einhliða tillögur um aukningu hagvaxtar, með hagræðingu í opinbera geiranum og auðveldara rekstrarumhverfi í einkageiranum, m.a. með minni ríkisafskiptum í anda markaðshyggjumanna.

Það er of þröngt sjónarhorn.

Menn hafa þegar risið upp á afturfæturna vegna einstakra tillagna, eins og til dæmis á sviði menntamála. Þar er lagt til að fækka stórlega skólum, stytta námstíma í grunnskólum og framhaldsskólum, stækka bekki og fjölga kennslustundum kennara. Sumt af þessu er gott (stytting námstíma), annað ekki (fækkun skóla og stækkun bekkja).

Þarna er einkum litið til aukinnar stærðarhagkvæmni, þegar vandinn á þessu sviði er sagður vera ófullnægjandi námsárangur og of mikið brottfall úr framhaldsskólum.

Er aukin fjöldaframleiðsla í kennslu besta leiðin til að bæta úr því?

 

Er landsbyggðin helsti bagginn?

Tillögur um gríðarlega fækkun sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, framhaldsskóla, löggæslustofnana og sýslumanna eru af sama toga. Aukin stærðarhagkvæmni.

Gert er ráð fyrir að fækkunin komi mest fram á landsbyggðinni. Samt er að mörgu leyti nærtækara að fækka t.d. sveitarfélögum á höfuborgarsvæðinu!

Að því leyti eru þessar tillögur samráð gegn landsbyggðinni!

Svona tillögur gjörbreyta samfélaginu. Þær færa stjórnendur lengra frá almenningi, draga úr samskiptamöguleikum og draga hugsanlega úr þjónustustigi. Landsbyggðarmenn munu þurfa að fara mun lengra eftir þjónustu og hugsanlega verða beinlínis af þjónustu sem þeir njóta nú.

Þá er ónefnd sú afleiðing slíkra breytinga að störfum faglærðs fólks, háskólamenntaðra sérfræðinga og stjórnenda, myndi stórfækka á landsbyggðinni. Störfum við stjórnsýslu, heilbrigðisþjónustu og menntun. Með slíkum breytingum yrðu samfélög landsbyggðarinnar víða í meiri mæli vettvangur ófaglærðs þjónustufólks og verkafólks en nú er. Einhæfari og fábreyttari. Brottflutningur myndi aukast.

Hvaða áhrif mun svo veruleg fækkun franhaldsskóla á landsbyggðinni hafa á menntastig ungmenna þar, sem hefur verið lægri en á höfuðborgarsvæðinu?

Ein af skýringum þess að menntastig er lægra á landsbyggðinni er að aðgengi að framhaldsskólum í heimabyggð hefur verið ófullnægjandi. Einnig að framboð starfstengds náms sé ófullnægjandi. Það tengist líka brottfalli úr skólum.

Þarna er ýmsum spurningum ósvarað.

Ég ítreka að í tillögum samráðsins er þó margt gott og þess virði að skoða nánar – en sjónarhornið er of þröngt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.5.2013 - 22:48 - FB ummæli ()

Verður Eurovision bönnuð á Íslandi?

Hvergi hefur hugmyndin um samvinnu Evrópuríkja risið hærra en í Eurovision söngvakeppninni.

Það er einn stærsti sjónvarpsviðburður heims.

Þar koma saman ólíkar Evrópuþjóðir og sýna getu sína á sviði popptónlistar – á sameiginlegu sviði Evrópu, fyrir framan augu og eyru hundruða milljóna Evrópubúa.

Þátttakendur í keppninni eru “tákn sameiningar Evrópuþjóða um fjölbreytileika” (sem var kjörorð Evrópusambandsins um tíma).

Þjóðverjar greiða stærstan hluta kostnaðarins – eins og í Evrópusambandinu.

Athygli hefur vakið hversu mikla áherslu þjóðir Austur Evrópu lögðu á þátttöku sína í Eurovision eftir fall Berlínarmúrsins. Þátttaka í Eurovision var fyrir sumar þessara þjóða fyrsta skrefið að inngöngu í ESB. Tækifæri þeirra til að sýna að þær væru “alvöru Evrópuþjóðir” – en ekki eitthvert austrænt dót aftan úr forneskju!

Aðildarríkjum og áhugasömum umsóknarþjóðum Eurovision og ESB stórfjölgaði í framhaldinu.

Munið þið hversu mikið var lagt í keppnina í Bakú í fyrra? Þetta var fyrir Azera eins og að fá að hýsa heimsmeistarakeppnina í fótbolta eða Ólympíuleikana. Byggðu sérstaka höll undir keppnina og sýndu að þeir voru menn með mönnum – á vettvangi Evrópu.

Þátttaka með glæsibrag er tækifæri til að vera þjóð meðal þjóða – fullgildir meðlimir í Evrópu. „Alla leið…“

Framhjá því verður sem sagt ekki horft að Eurovision keppnin er mikilvægur þáttur í mótun evrópskrar sjálfsmyndar og sameiningar.

Nú þegar Jón Bjarnason og liðið á sauðskinnsskónum hefur náð yfirhöndinni í sjálfstæðis- og einangrunarbaráttunni á Íslandi gætu orðið breytingar á sjónvarpsdagskránni.

Menn heimta nú lokun Evrópustofu og menningarsamskipta við ESB-ríkin.  Vilja banna Ungsinfóníu Evrópusambandsins og Evrópsku óperustofnunina, sem Evrópustofa flutti hingað til lands og bauð uppá ókeypis tónleika  í Hörpu. Hvílík ósvinna!

Frethólkarnir á Evrópuvaktinni hrósa samt sigri og segja þetta svanasöng Evrópustofu á Íslandi.

Einnig skal banna svokallaða “mútustyrki” frá ESB, sem þó var meira en ásættanlegt að þiggja í mun stærri skömmtum frá Bandaríkjunum á gullárum hermangsins og helmingaskiptanna á Keflavíkurflugvelli. Og hjá Íslenskum aðalverktökum og Menningarstofnun Bandaríkjanna.

Stöðvun aðildarviðræðna skal það vera og ekkert meira daður við Evruna eða annan ósóma sem tíðkast í Evrópu. Við ætlum bara að vera fullvalda vísundar á þessum útnára túndrunnar – laus við yfirgang Evrópu. Hamingjusöm með okkar hlægilegu krónu.

Bráðum munu svo almannatenglar afturhaldsins fara að benda talsmönnum forneskjunnar á þetta mikilvægi Eurovision fyrir mótun evrópskrar sjálfsmyndar. Þá getur dregið til tíðinda fyrir Eurovision aðdáendur á Íslandi.

Söngvakeppnin er náttúrulega farvegur fyrir miðlun sameiginlegra evrópskra gilda og úrkynjunar – hvað sem menn vilja kalla þetta allt saman.

Liggur þá ekki beint við að banna næst þátttöku Íslands í söngvakeppninni?

 

Síðasti pistill: Íslenska efnahagsundrið var engin bóla!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.5.2013 - 21:05 - FB ummæli ()

Íslenska efnahagsundrið var engin bóla!

Það var margt ævintýralegt sem gerðist hér á Íslandi á frjálshyggjutímanum – svo ekki sé meira sagt.

Landið var tekið yfir af fjárplógsmönnum, í krafti pólitískra valda og peninga. Frjálshyggjudindlar voru klappstýrur þeirra og seldu almenningi hugmyndina – með blekkingum og vúdú-brellum. Fyrir þeim fór Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

Hér má heyra vitring frjálshyggjunnar útskýra hvaðan fé kom til útrásarinnar. Hann bendir á ýmsar vúdú-hirslur frjálshyggjunnar, segir þá t.d. hafa vakið til lífsins mikið fé sem svaf athafnalaust í fjóshaugum um land allt. Hann nefnir ekki það sem mestu máli skipti: erlent lánsfé!

Það var ekki bara ein fjölskylda sem tók Ísland yfir og rak það í þrot, eins og talsmenn frjálshyggjunnar prédika. Það var öll fjármálaelítan, hægri pólitíkin og hagsmunasamtök atvinnulífsins sem voru helstu dansararnir á ballinu í Hruna.

Áratugurinn fram að hruni var hápunktur bóluhagkerfisins, sem drifið var áfram af lánsfé. Fyrirtæki og fjármálamenn tóku mestu lánin. Heimilin voru einungis með um áttunda hluta þess sem fyrirtæki og bankar skulduðu við hrun.

Ríkasta eitt prósent þjóðarinnar var meira og minna virkt í spákaupmennsku með lánsfé og græddi gríðarlega á árunum frá 1998 til 2007.

Menn töluðu um bóluhagkerfið sem “Íslenska efnahagsundrið”. Allt virtist ganga vel á meðan lánsféð flæddi. Þetta var veisla, einkum þó hjá hátekjufólki.

Skondið er að formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) sagði eftirfarandi í formlegri yfirlýsingu frá SA þann 3. september 2008, rétt rúmum mánuði fyrir hrun bankanna: “Íslenska efnahagsundrið er engin bóla!

Nú eftir hrun vita hins vegar allir að “íslenska efnahagsundrið” var stærsta bóla heimssögunnar, í hlutfalli við stærð þjóðarbúsins. Hvorki meira né minna.

„Íslenska efnahagsviðundrið“ var réttara heiti!

Þetta var sem sagt risabóla, blásin út með lánsfé. Svona villandi getur það verið sem virðuleg samtök senda frá sér! Og þetta var kallað „efnahagsundur“ af fólki sem átti að heita vel menntað…

Hugmyndafræðingar frjálshyggjutilraunarinnar eru aftur komnir í gírinn og vilja nú ryðja brautina fyrir ný ævintýri á vegum auðmennskunnar. Hólmsteinn segir nú græðgina vera góða (eins og braskarinn Gordon Gekko forðum) og að hrunið hafi bara verið smá óhapp! Ekkert sem talandi er um.

Frjálshyggjumenn vilja aftur græða á daginn og grilla á kvöldin.

Spurningin er bara hvort þjóðin, hin 99 prósentin, verði aftur sett á grillið? Það var nefnilega almenningur sem var grillaður á kvöldin, á skulda-grilli frjálshyggjunnar!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.5.2013 - 09:49 - FB ummæli ()

Út að hjóla

Það vorar. Sól í dag.

Tímabært að taka út hjólið.

Hér er einn í umferðinni – með allt á hreinu!

Á hjóli í umferðinni

Smellið á myndina fyrir stærri útgáfu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Síðasti pistill: Rökvillur HHG um hrunið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 6.5.2013 - 12:31 - FB ummæli ()

Rökvillur HHG um hrunið

Ég benti á það í síðustu grein minni að Hannes Hólmsteinn hefði í umfjöllun sinni horft framhjá algengustu skýringum fræðimanna á íslenska fjármálahruninu, þ.e. frjálshyggjuáhrifum, afreglun, lausatökum í eftirliti og aðhaldi (afskiptaleysisstefnu), vafasamri hegðun bankamanna og gríðarlegri skuldasöfnun.

Því til viðbótar má benda á rökvillur sem eru í málflutningi Hannesar þegar hann hafnar algengum skýringum á hruninu. Þær snerta fjögur atriði.

Skoðum þau nánar:

1. Fullyrðing Hannesar: Bankarnir voru ekki of stórir, heldur Ísland of lítið. Rekstrarsvæði bankanna var EES en verndarsvæðið var Ísland. Þetta var “kerfisvilla”.

Villa 1: Um íslensku bankana giltu eftir sem áður lög og reglur og stjórnvöld, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið áttu að tryggja fjárhagslegan stöugleika og verja þjóðina gegn áföllum. Ef ógn stafaði af frelsi bankanna erlendis (kerfisvillu) átti að bregðast við því á Íslandi, með reglun, aðhaldi eða t.d. með flutningi höfuðstöðva þeirra til einhvers ESB lands. Það stóð hvergi að bankarnir hefðu frelsi til að steypa Íslandi í glötun. Eftirlitið og aðhaldið brást: Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og stjórnsýslan opinbera – auk einkabankanna sjálfra sem voru reknir eins og spilavíti með lánsfé. Bankarnir íslensku voru vissulega of stórir – m.a. vegna þess að þeir voru spilavíti.

2. Fullyrðing Hannesar: Ha Joon Chang hafði rangt fyrir sér um að hér hefði verið gerð frjálshyggjutilraun, sem brást.

Villa 2: Hannes sjálfur hefur gert grein fyrir hinni miklu frjálshyggjutilraun sem hér var gerð eftir 1995 (sjá hér). Hannes hefur að vísu fullyrt að tilraunin hafi gengið vel til 2004, en farið afvega vegna Baugs-klíkunnar eftir það! Eftir stendur að hér var gerð frjálshyggjutilraun (aukið frelsi á fjármálamarkaði án viðeigangi eftirlits og aðhalds) sem mistókst herfilega, með hruni fjármálakerfisins. Þegar árið 2004 var Ísland orðið skuldugasta þjóðarbú Vesturlanda, með tilheyrandi áhættu. Það versnaði síðan stórlega alveg að hruni.

3. Fullyrðing Hannesar: Bankamennirnir voru aular. En bankamenn annarra landa voru þá líka aular og fóru ekki  síður gáleysislega en þeir íslensku.

Villa 3: Vera má að bankamenn séu alls staðar eins. En hér var umhverfið þannig að þeir komust lengra afvega en í flestum öðrum vestrænum löndum. Hér var lengra gengið í skuldasöfnun og áhættu, lausatök voru meiri vegna meira frelsis og minna aðhalds og eftirlits. Þó hér hafi gilt almennt regluverk EES umhverfisins þá var framfylgnin lausari, t.d. varðandi skattaframkvæmd og aðgengi að erlendum skattaskjólum, krosseignartengsl og starfshætti bankanna sem urðu á köflum sviksamlegir og tilefni margra ákæruefna.

4. Fullyrðing Hannesar: Seðlabankinn gerði ekki mistök. Hann segir Robert Wade, sem færði rök fyrir því, hafa farið ranglega með nokkur atriði í grein sinni (missagnir hans snérust flestar um annað en starfshætti seðlabankans í aðdraganda hrunsins).

Villa 4: Eins og Hannes segir sjálfur, þá voru íslensku bankarnir án virks tryggingaverndarsvæðis, þó Seðlabankinn ætti að tryggja fjárhagslegan stöðugleika á Íslandi. Það voru því mistök hans að bregðast ekki við þeim göllum sem fólust í kerfisáhættunni sem HHG nefnir. Það eru líka niðurstöður flestra sem fjölluðu um orsakir hrunsins (Karlo Jänneri, Rannsóknarnefndar Alþingis og ýmissa erlendra og innlendra fræðimanna). Meira að segja erlendir frjálshyggjumenn komust að þeirri niðurstöðu að Seðlabanki Íslands hafi gert mikil og afdrifarík mistök (hér).

Rök Hannesar gegn algengum skýringum fræðimanna og erlendra hagsýslustofnana eru því léttvæg.

Mjög léttvæg!

 

Síðasti pistill: Uppgjör Hannesar Hólmsteins við hrunið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 4.5.2013 - 21:25 - FB ummæli ()

Uppgjör Hannesar Hólmsteins við hrunið

Hannes Hólmsteinn Gissurarson flutti í gær fyrirlestur á ráðstefnu í háskólanum á Bifröst, sem hann kallar uppgjör sitt við hrunið. Fyrirlesturinn var sundurlaust samtíningur sem hafði það megin markmið að fría frjálshyggjuna og Davíð Oddsson af allri ábyrgð á hruninu.

Þó maður skilji vel að frjálshyggjumenn vilji komast hjá því að svara til saka fyrir áhrif sín á áratugnum fram að hruni, þá var þetta heldur þunnur þrettándi, því frjálshyggjan, Hannes sjálfur og Davíð Oddsson voru í lykilhlutverkum við mótun þeirrar þróunar sem endaði með hruninu.

Hannes byggði umfjöllun sína ekki á neinum viðurkenndum fræðilegum skýringum á fjármálakreppum og horfði framhjá sumum af stærstu og augljósustu áhrifavöldunum.

Skoðum þetta nánar.

 

Það sem erlendir fræðimenn segja um fjármálakreppur

Mikilvægt er að orsakir og afleiðingar hrunsins verði kannaðar til hlítar og gerðar upp til fulls. Þannig lærum við af mistökum og verjumst slíkum óförum í framtíðinni.

Erlendis hefur mikið verið fjallað um alþjóðlegu fjármálakreppuna og settar fram skýringar á orsökum hennar, af fræðimönnum sem sérfróðir eru um þennan málaflokk.

Mikill samhljómur er í helstu umfjöllunum alþjóðastofnana (IMF, OECD o.fl.) og sérfræðinga um orsakir fjármálakreppunnar, svo sem hjá Reinhart og Rogoff, Rubini, Krugman, Stiglitz, Aliber og Kindleberger – og jafnvel hjá frjálshyggjumanninum Richard Posner, svo nokkrir séu nefndir (sjá hér).

Sumir frjálshyggjumenn (ekki síst á Íslandi) reyna þó að færa rök fyrir því að fjármálakreppan hafi orðið vegna of mikilla ríkisafskipta, en það er mjög langsótt og raunar fráleitt, vegna þess að ríkisafskipti af fjármálaheiminum hafa víðast stórminnkað frá um 1980. Fræðimenn eru flestir sammála um það.

Fjármálakreppan kom í kjölfar bóluhagkerfis, þar sem stóraukin spákaupmennska með lánsfé var í lykilhlutverki. Flestir rekja orsakir spákaupmennskunnar og bóluhagkerfisins til aukins frelsis á fjármálamörkuðum, sem stafaði af auknum frjálshyggjuáhrifum eftir 1980.

Þeim tengdust afreglun (de-regulation), aukin afskiptaleysisstefna er byggði á oftrú á sjálfstýringu fjármálamarkaðarins, og ýmis nýmæli á markaðinum sem juku lausatök hvers konar.

Þessi auknu lausatök auðvelduðu meiri áhættuhegðun og leiddu til of mikillar skuldasöfnunar. Reinhart og Rogoff sýna glögglega hvernig hin aukna skuldasöfnun var lykilþáttur aukinnar áhættu sem svo brast á endanum. Þau benda á að Ísland og Írland hafi verið í sérflokki hvað varðar gríðarlega öra skuldaaukningu í aðdraganda hrunsins.

 

Fjármálakreppan á Íslandi

Þróunin á Íslandi var þannig, að hér jókst frelsi á fjármálamarkaði, fyrst rólega frá og með níunda áratugnum en síðan með stigvaxandi hraða frá 1995. Aðild að EES opnaði fyrir frjálst flæði fjármagns og einkavæðing bankanna hleypti nýjum aðilum að bönkunum, sem gjörbreyttust strax í kjölfarið úr viðskiptabönkum í áhættusækna fjárfestingabanka.

Stjórnvöld voru algerlega andvaralaus gagnvart nýjum hættum fyrir þjóðarbúið sem þessum breytingum fylgdu.

Á Íslandi tóku erlendar skuldir að aukast með stigvaxandi hraða frá 1998 (eftir að einkaaðilar komu að eignarhaldi helstu bankanna) og tóku svo stökk uppávið frá og með byrjun árs 2003. Í lok árs 2004 var Ísland orðið skuldugasta þjóðarbú Vesturlanda. Skuldirnar áttu eftir að aukast stórlega til viðbótar í framhaldinu, raunar margfaldast.

Einkenni bóluhagkerfisins og fjármálahrunsins á Íslandi eru að mestu leyti svipuð og í klassískum lýsingum fræðimanna á fjármálabólum og fjármálakreppum. Sérstaða Íslands felst einkum í því, að hér varð þróunin örari og ýktari en annars staðar. Hér gekk þetta allt lengra: lausatökin og afskiptaleysisstefnan, áhættusæknin, braskið, skuldasöfnunin, ójöfnuðurinn og andvaraleysi eftirlitsaðila og stjórnvalda.

 

Uppgjör stjórnanda frjálshyggjutilraunarinnar

Þegar Hannes Hólmstein Gissurarson, sjálfur hugmyndafræðingur “Íslenska efnahagsundursins”, flytjur fyrirlestur um uppgjör sitt við hrunið þá vill maður gjarnan heyra hvað hann ber á borð. Hann var sjálfur meðal helstu skipuleggjenda hrunadansins kringum gullkálfinn.

Þetta “uppgjör” hans olli hins vegar miklum vonbrigðum.

Hannes byggði í engu á skipulegum fræðilegum umfjöllunum um viðfangsefnið, hvorki erlendum né innlendum. Í staðinn tíndi hann til sundurlausa mola héðan og þaðan til að styðja þann fyrirframgefna boðskap sinn, að frjálshyggjan og Davíð Oddsson bæru enga ábyrgð á því sem gerðist hér á Íslandi. Það var söguþráðurinn – en ekki leit að skýringum á hruninu eins og boðað var!

Á máli Hannesar mátti skilja að ekkert hefði verið óeðlilegt við framvinduna á Íslandi eftir 1995, nema helst framferði einnar auðmannaklíku – og virtist hann þá einungis eiga við Baugsveldið. Í lokin sagði Hannes að helsta orsök hrunsins hefði verið óheppni og óvild erlendra þjóða.

Í sundurlausu erindi Hannesar gætti ýmissa mótsagna og skorts á skilningi á lykiláhrifaþáttum, eins og fram koma í umfjöllunum erlendra fræðimanna á sviðinu.

Hann sagði t.d. að bankarnir hefðu ekki verið of stórir, heldur Ísland of lítið! Erlendir fræðimenn og úttektaraðilar (t.d. Jänneri úttektin, Rannsóknarnefnd Alþingis o.fl.) gera áhættusækni og of hröðum vexti bankanna og endanlegri ofurstærð þeirra hins vegar mjög hátt undir höfði sem einum af orsakavöldum hrunsins. Þar brugðust stjórnvöld og eftirlitsaðilar því að verja þjóðina gegn aukinni áhættu sem þessum mikla vexti fylgdi, ekki síst Seðlabanki Davíðs Oddssonar.

Síðan eru mótsagnirnar skrautlegar: á einum stað sagði Hannes að hér hefði verið um að ræða aukin frjálshyggjuáhrif en á öðrum að þetta hefðu engin sérstök frjálshyggjuáhrif verið! Í einn stað sagði Hannes að aukin ríkisafskipti væru ein af helstu orsökum kreppunnar (eða hefðu gert illt verra) en í annan að stjórnartími Davíðs Oddssonar hefði ekkert haft með þetta allt að gera, hvorki í ríkisstjórnum né Seðlabanka.

Sérstaklega sagði Hannes að allt hafi verið hér í fínasta lagi til 2004 (á meðan Davíð Oddsson var forsætisráðherra). Þá horfir Hannes framhjá því að Davíð stýrði þjóðarskútunni inn í það frjálsræðis- og afskiptaleysisástand sem gerði auknu lausatökin möguleg, auk þess sem Ísland náði þeim vafasama heiðri að verða skuldugasta þjóðarbú Vesturlanda á vakt Davíðs í forsætisráðuneytinu, þegar á árinu 2004 (sjá hér).

Hannes hefur raunar sjálfur áður þakkað Davíð fyrir slíka róttæka frjálshyggjuvæðingu íslenska samfélagsins í erlendri blaðagrein, sem hann sagði hafa verið á pari við þekktar tilraunir með frjálshyggju í Chile Pinochets, Nýja Sjálandi og í Bretlandi Thatchers (sjá hér)!

Einnig horfir Hannes framhjá því að frá 2005 varð Davíð Oddsson aðalbankastjóri Seðlabankans og þar með æðsti yfirmaður íslenska fjármálakerfisins. Hann varð yfirmaður ríkisafskipta af fjármálakerfinu! Þar átti hann að vernda stöðugleika þess og gjaldmiðilsins. Fjármálakerfið bólgnaði út með svo fordæmalausum hætti á vakt Davíðs í Seðlabankanum að bólan sprakk haustið 2008 – í einu stærsta fjármálahruni sögunnar.

Seðlabankinn sjálfur varð gjaldþrota. Kanski einhver mistök hafi verið gerð á vakt Davíðs í Seðlabankanum, sem hefði verið þess virði að nefna ef menn væru í alvöru að leyta skýringa á því sem afvega fór á Íslandi? Það gera einmitt ýmsir erlendir fræðimenn (t.d. þessir, sem eru raunar frjálshyggjumenn).

Svo má auðvitað rifja upp að Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að seðlabankastjórarnir allir hefðu gerst sekir um alvarlega vanrækslu í starfi sínu, ásamt forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins.

En menn missa af slíkum lykilatriðum í framvindunni þegar markmiðið er að fría ábyrgðarmennina ábyrgð, eins og var í erindi Hannesar.

 

Dómari í eigin sök?

Raunar er Hannes einnig að fría sjálfan sig af ábyrgð á því sem hér gerðist, enda var hann helsti hugmyndafræðingur og klappstýra frjálshyggjutilraunarinnar og fjármálamiðstöðvarinnar, sem Davíð og Sjálfstæðisflokkurinn komu í framkvæmd.

Það verður auðvitað léttvæg “fræðimennska” þegar Hannes gerist dómari í eigin sök. En skrif Hannesar eru oftast því marki brennd, að vera áróður fyrir róttækri frjálshyggju og réttlæting þess sem henni fylgir, rétt eins og var í þessu erindi. Þá víkur öll fræðimennska og óheilindi bragðarefsins taka við. Þannig eru einmitt flest skrif Hannes Hólmsteins (sjá gott dæmi um slík vinnubrögð hér).

Þeim sem vilja skoða gagnlega bók fræðimanna um orsakir og aðdraganda fjármálakreppunnar á Íslandi skal bent á ritgerðasafn Roberts Z. Alibers og Gylfa Zöega (2011), Preludes to the Icelandic Financial Crisis. Síðan ættu menn að kynna sér rit viðurkenndra fræðimanna á sviðinu, eins og t.d. rit þeirra sem að ofan eru nefndir – og auðvitað skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

 

Fyrri pistill: Miðjan og pólitíska landslagið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 4.5.2013 - 12:46 - FB ummæli ()

Þorsteinn Pálsson gegn leið Framsóknar

Í grein sinni í Fréttablaðinu í dag finnur Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hugmyndum Framsóknar um skuldaleiðréttingu  heimila flest til foráttu. Hann segir eftirfarandi:

„Ný ríkisstjórn verður að svara hvort eigi að setja í forgang: Kröfuna um aukið eigið fé bankanna til að verja almannahagsmuni eða óskirnar um að nota stöðuna til að endurgreiða verðbólgu liðinna ára.“

Svona eru Sjálfstæðismenn. Ef þeir verða ráðandi í ríkisstjórn verður það fé sem kann að koma til ráðstöfunar vegna uppgjörs þrotabúa bankanna notað í þágu fjármálaafla og atvinnulífsins – ekki í þágu heimilanna.

Þorsteinn er stjórnarformaður í banka og vill að því er virðist leggja mesta áherslu á bættan hag bankanna – og einnig á þjóðarsátt um „gríðarlegt aðhald á öllum sviðum“.

Kjarabætur til almennra heimila eru augljóslega neðstar á lista Þorsteins.

Lánastabbinn stæði áfram óskertur og heimilin yrðu áfram blóðmjólkuð, ef Þorsteinn mætti ráða!

Áhersla Framsóknarflokksins á hagsmuni og forgang heimilanna er afar mikilvæg í þessu samhengi.

Vonandi tekst þeim að mynda ríkisstjórn um stefnu sína.

 

Síðasti pistill: Miðjan og pólitíska landslagið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.5.2013 - 11:35 - FB ummæli ()

Miðjan og pólitíska landslagið

Nú þegar uppi eru möguleikar á myndun annað hvort miðju eða hægri ríkisstjórnar er fróðlegt að velta fyrir sér pólitíska landslaginu í víðara samhengi. Hve stór hluti fylgisins er á miðjunni og hve stórt hluti kjósenda styður hægrið og vinstrið? Hver er jarðvegur stjórnarmyndunar og horfur til framtíðar?

 

Stærð miðjunnar

Um daginn sýndi ég greiningu á þróun fylgisins miðað við hægri–miðju–vinstri staðsetningu flokkanna. Þar kom fram að sveiflan í kosningunum nú var sterk sveifla frá vinstri til miðjunnar, en ekki til hægri.

Skipan nýju framboðanna á hægri – vinstri kvarðann byggði á flæði kjósenda milli þeirra (hvaðan kom fylgi nýju framboðanna?). Þar taldi ég Bjarta framtíð og Pírata sem vinstri flokka, vegna þess að flestir stuðningsmenn þeirra komu frá vinstri flokkunum (S og VG). Hins vegar er álitamál hvort þeir séu ekki frekar miðjuflokkar, a.m.k. miðað við lýsingar þeirra sjálfra.

Myndin hér að neðan sýnir fylgi við flokka nú, greint eftir hægri – vinstri staðsetningu (m.v. þeirra eigin lýsingar). Þar má sjá að miðjan er lang stærst (um 44% skv. þessari flokkun). Hlutfall kjósenda sem styðja hægri og vinstri flokkana er svipað, eða um 28-9% hvor fylking. Vinstra fylgið er hins vegar klofnara en hægra fylgið – að vanda.

Stærð miðjunnar

Mynd: Fylgi flokkanna í kosningunum 2013

 

Þegar kjósendur eru í könnunum beðnir um að staðsetja sig sjálfir á hægri – vinstri kvarða þá er það um helmingur sem setja sig á miðjuna (sjá hér). Álíka stór hópur setur sig til vinstri og til hægri (um 25% á hvorn vænginn).

Það er því ljóst að nærri helmingur kjósenda tilheyrir miðjunni í pólitíska litrófinu, hvernig sem talið er, en um fjórðungur telja sig vera vinstri menn og annað eins hægri menn. Íslendingar eru einkum miðjumenn!

Svo getur fylgið rokkað nokkuð milli flokka frá einum kosningum til annarra og vikið lítillega frá hægri–vinstri boxunum, eftir breytilegum áherslum flokkanna hverju sinni.

Þetta þýðir að miðjuflokkur á að geta haft mesta möguleika á að vera stærsti stjórnmálaflokkur landsins – að öðru jöfnu.

 

Pólitíska landslagið

Miðjuflokkar geta ýmist hallað sér til hægri eða vinstri og hægri/vinstri flokkarnir geta verið misjafnlega fýsilegir fyrir miðjufylgið, eftir áherslum og skírskotunum.

Sjálfstæðisflokkurinn færðist mikið til hægri á Davíðs-tímanum, fyrir tilstilli Eimreiðarklíkunnar og frjálshyggjunnar. Hann er enn á þeim slóðum og sökk í kosningabaráttunni djúpt í villur vúdú-hagfræðinnar, sem Arthur Laffer samdi til að réttlæta skattalækkanir til hátekjufólks.

Framsókn var skýr miðjuflokkur fyrir tíma Halldórs Ásgrímssonar, en þá gerðist hún afgerandi hægri flokkur í hinu langa samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Halldór Ásgrímsson skrifaði meira að segja uppá frjálshyggjutilraunina og gerðist talsmaður hugmyndarinnar um fjármálamiðstöðina árið 2006. Skipaði Sigurð Einarsson í Kaupþingi sem formann í starfshópi þriggja ráðuneyta til að útfæra  planið um fjármálamiðstöðina alþjóðlegu. Það var á þeim tíma sem dönsku bankamennirnir vöruðu mjög við stöðunni í íslenska fjármálakerfinu.

Samfylkingin var stofnuð sem vinstri-miðju flokkur, með fyrirmynd í skandinavísku jafnaðarmannaflokkunum. Í tíð Ingibjargar Sólrúnar var Samfylkingin höll undir Blairismann (sem var hægri slagsíða) og taldi sig eiga mesta samleið með Sjálfstæðisflokki. Undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur færðist Samfylkingin nær klassískri stöðu skandinavískra jafnaðarmanna. Í kosningabaráttunni missti Samfylkingin hins vegar sjónar á erindi sínu, taldi ekki ástæðu til að gera meira fyrir heimilin og gerðist nánast eins-málefnis-flokkur með ofuráherslu á ESB aðild. Það var undarleg herfræði.

VG var hugsaður sem félagshyggjuflokkur með umhverfisvernd og kvenfrelsi sem áherslumál. Hann er ekki eins langt til vinstri og Alþýðubandalagið var á árum áður. Eins og í ljós kom er slíkum flokki hætt við að verða vettvangur fólks sem hallt er undir fjölbreytileika og sérvisku og á til að vera óstýrlátt í samstarfi. Flestir sem nú eru áhrifamenn í VG eru þó nokkuð dæmigerðir og geðþekkir norrænir jafnaðarmenn – eins og raunar flestir liðsmenn Samfylkingarinnar og Framsóknar.

 

Baráttan um miðjuna

Með skírskotun til hægrisins og miðjunnar í bland var Sjálfstæðisflokkurinn lengst af lang stærsti flokkurinn, ekki síst í krafti fjármagns, fjölmiðlavalds og hefðar. Nú hefur sú staða hins vegar rofnað tvær kosningar í röð (2009 og 2013).

Þá er svigrúm til breytinga.

Sem skýr miðjuflokkur ætti Framsóknarflokkurinn að eiga raunverulega möguleika á að verða stærsti flokkur þjóðarinnar, jafnvel í svipaðri stöðu og jafnaðarmannaflokkarnir voru lengst af í Skandinavíu. Þeir eru yfirleitt vinstri-miðju flokkar, en Framsókn hefur á síðustu áratugum verið meira hægri-miðju flokkur.

Undir forystu Sigmundar Davíðs er heldur meiri vinstri-svipur á flokknum, með höfuðáherslu á velferð heimilanna (skuldamálin).

Með meiri skírskotun til vinstri en var á tíma Halldórs Ásgrímssonar gæti Framsókn sennilega styrkt stöðu sína sem stór miðjuflokkur til lengri tíma. Klofningur á vinstri vængnum og neikvæð áhrif frjálshyggju á hægri vængnum skapa slík sóknarfæri. Mikið er þó undir því komið að Framsókn takist að efna loforð sín í kosningabaráttunni á farsælan hátt. Það er líka mikið í húfi fyrir heimilin að það takist.

 

Stjórnarmyndun til hægri eða á vinstri-miðjuna?

Flokkarnir eiga ekki fylgið. Það á sig sjálft!

Eftir hrunið og tapað traust er flokkshollusta sennilega mun minni en áður hefur þekkst hér á landi. Fylgið flæðir þá meira til eftir frammistöðu flokkanna.

Lýðræðið á einmitt að snúast um að flokkarnir þjóni kjósendum – tali máli og gangi erinda fjöldans og veiti valdamiklum sérhagsmunum viðnám. Setji almannahag í öndvegi.

Framsókn bauð heimilunum athyglisverða leið til kjarabóta, sem vissulega er þess virði að kanna til þrautar hvort hægt sé að efna farsællega. Sigmundur Davíð og félagar hans hafa sýnt einurð og þrautseigju í því máli. Þjóðin veitti þeim brautargengi í kosningunum.

Það er mikilvægt að vel takist að finna því máli farveg í nýrri ríkisstjórn. Erfitt er að sjá að stefnuáhersla Framsóknar falli vel að loforðum Sjálfstæðismanna um miklar skattalækkanir, sem stefna afkomu ríkissjóðs í voða og munu auka vaxtakostnað hins opinbera (sem þegar er alltof mikill).

Undarlegt var að sjá hve illa forysta Samfylkingarinnar tók í leið Framsóknar fyrir kosningar. Samt var hún í anda norrænnar velferðar, snérist um að setja heimilin í öndvegi. Jafnaðarmenn sögðu að hátekjufólk fengi mest af niðurfellingu skuldanna, ef þær yrðu flatar. En um útfærsluna er auðvitað hægt að semja á annan veg í stjórnarmyndun, t.d. setja þak á upphæð niðurfærslunnar.

Hvers vegna skyldu vinstri- og miðjumenn ekki vilja starfa saman að því að bæta hag heimilanna, ef tækifæri til þess býðst? Væri það ekki eðlilegasta framhald áherslunnar um norrænt velferðarsamfélag?

Ef marka má skrif Paul Krugmans og annarra Keynes-sinna gæti stefna Framsóknar líka verið skynsamleg efnahagsstefna út úr kreppunni.

Vilja vinstri menn frekar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur helgað sig hagsmunum hátekju- og stóreignafólks?

Það má vera að leiðangur Framsóknar lendi í erfiðleikum. Ekkert er öruggt í þjóðarbúskapnum. En halda vinstri menn að þeir fái mikinn stuðning í framtíðinni fyrir að hafa hafnað því að leita allra leiða til kjarabóta fyrir heimilin? Halda þeir að umhyggja fyrir erlendum kröfuhöfum og úrtölur innanlands séu vænleg leið til álitsauka á íslenskum heimilum?

 

Síðasti pistill: Frjálshyggjunni var hafnað

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 1.5.2013 - 10:07 - FB ummæli ()

Frjálshyggjunni var hafnað

Úrslit kosninganna voru stór sveifla frá vinstri til miðjunnar – ekki til hægri.

Framsókn var miðpunktur miðjunnar og setti bætta velferð heimilanna í forgang: víðtæka skuldalækkun, breytt verðtryggingarumhverfi og bætt kjör lífeyrisþega.

Í anda skandinavískra jafnaðarmanna tengist velferðarstefna Framsóknar jákvæðum velvilja gagnvart atvinnulífi og nýsköpun.

Stjórnarflokkarnir vanmátu stöðu heimilanna og Samfylkingin lagði of einhliða áherslu á ESB-aðildina sem kosningamál. Því fjaraði illa undan þeim, einkum Samfylkingu.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði hins vegar ofuráherslu á frjálshyggjutrúboðið og færði það í búning kjarabóta til heimila, í formi skattalækkana. Útfærsla þessara tillagna var hins vegar þannig, að ljóst var að hátekjufólk, fyrirtæki og fjárfestar myndu njóta þeirra að mestu leyti. Ekki venjuleg heimili.

Það var líka reynslan síðast þegar Sjálfstæðisflokkurinn “lækkaði skatta”. Skattbyrði lækkaði einkum hjá hátekju- og stóreignafólki, en hækkaði hjá lægri tekjuhópum og miðjunni.

Ofuráhersla Sjálfstæðismanna á vúdú-hagfræðibrellur (um að skattalækkanir myndu borga fyrir sig sjálfar með göldróttri hækkun skatttekna ríkisins) virkaði ekki. Fólk sá að þetta voru blekkingar, sem myndu leiða til halla á ríkisbúskapnum og í framhaldinu til þrýstings á mikinn niðurskurð í velferðarmálum.

Þó þessi stefna Sjálfstæðisflokksins væri sett í búning seljanlegrar vöru og snerti það sem heimilin vildu fá (kjarabætur), þá sló þetta ekki í gegn.

Frjálshyggjunni var hafnað, því Sjálfstæðisflokkurinn bætti einungis við sig smá fylgi frá afhroðinu í kosningunum 2009 – þrátt fyrir óvinsældir ríkisstjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn situr uppi með næst verstu útkomu sögu sinnar!

Frjálshyggjan fiskaði ekki betur nú en hún gerði strax eftir hrunið, sem þjóðin tengdi við frjálshyggjubraskið í fjármálaheiminum.

Höfnun frjálshyggjunnar er næst stærsta frétt kosninganna – á eftir sveiflunni frá vinstri til miðjunnar.

Þetta er mikilvægt að nefna á hátíðisdegi verkalýðsins, því nýfrjálshyggjan er hugmyndafræði yfirstéttarinnar og ójafnaðarins!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 29.4.2013 - 21:56 - FB ummæli ()

Sterkari staða Sigmundar Davíðs

Nú pæla menn mikið í því, hver fái stjórnarmyndunarumboð og hvor þeirra Bjarna Ben. eða Sigmundar Davíðs fái forsætisráðuneytið, í hugsanlegri ríkisstjórn B og D lista.

Sigmundur Davíð hefur klárlega sterkari stöðu í forystuhlutverkið. Hann hefur fleiri spil á hendi og vænlegri stöðu.

Hvers vegna? Hér eru rökin:

  • Sigmundur Davíð og flokkur hans er ótvíræður sigurvegari kosninganna
  • Sveiflan meðal kjósenda var frá vinstri til miðjunnar, en ekki til hægri. Sjálfstæðisflokkur er enn með fylgi í sögulegri lægð
  • Sigmundur Davíð nýtur miklu meira trausts í embættið en Bjarni Benediktsson meðal þjóðarinnar, skv. skoðanakönnunum
  • Forsetinn sagði að mikilvægt væri að ný ríkisstjórn nyti víðtæks stuðnings í samfélaginu
  • Sigmundur Davíð er með eindreginn stuðning síns flokks á bak við sig
  • Bjarni Benediktsson er með andstöðu gegn sér innan Sjálfstæðisflokksins og þurfti að verjast áhlaupi skuggabaldra í aðdraganda kosninganna, sem nærri felldi hann
  • Samningsstaða Framsóknar er sterkari því Bjarni Ben. á pólitískt líf sitt undir því að komast í ríkisstjórn – sem allra fyrst

Á móti þessu vegur að Sjálfstæðisflokkurinn er sjónarmun stærri að fylgi en Framsókn.

Ekki er líklegt að VG vilji fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki, ef ekki skyldi nást saman með Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Því má ætla að möguleiki Framsóknar á stjórnarmyndun með Samfylkingu og VG sé sterkari, að Sjálfstæðisflokki frágengnum. Það eflir samningsstöðu Sigmundar.

Það er mikilvægt fyrir styrk nýrrar ríkisstjórnar að hún lúti forystu sem er hnökralaus og staðföst.

Þess vegna er staða Sigmundar Davíðs til að fá forsætisráðherraembættið mjög sterk. Að því frátöldu hlyti Framsókn að fá ansi stóra bita í formi stefnuáherslna sinna og mikilvægra ráðuneyta.

Þannig gerast kaupin á pólitísku eyrinni!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar