Sunnudagur 28.4.2013 - 00:10 - Lokað fyrir ummæli

Bjarni stýrir XD til sigurs

 

Nú er orðið ljóst, þrátt fyrir að ,,nóttin sé ung“ og breytingar geti komið fram, að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er að stýra flokki sínum til sigurs í þessum kosningum. Sérstaklega er flokkurinn sterkur í kjördæmi formannsins sem er fagnaðarefni. Á sama tíma styrkir Framsóknaflokkurinn sig mikið en ekki eins mikið og kannanir voru að sýna á síðustu dögum og vikum.

Eins og Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins sagði á RÚV í kvöld, virðist VG vera að taka við sem forystuafl á vinstri vængnum af Samfylkingunni sem tapar meiru en aðrir flokkar hafa náð að tapa frá stofnun lýðveldisins skv. orðum Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors í stjórnmálafærði við Háskóla Íslands. Það eru ,,hamfarir“ eins og  Össur Skarphéðinsson orðaði þessa stöðu Samfylkingarinnar í kvöld eftir að fyrstu tölur höfðu borist.

Það er rík hefð og regla á Íslandi að Forseti Íslands veiti stærsta stjórnmálaflokknum fyrst umboð til að mynda ríkisstjórn og því eru hverfandi líkur á öðru en því að Bjarni Benediktsson fái stjórnarmyndunarumboð og verði næsti forsætisráðherra Íslands.

Varðandi stjórnarmyndun framundan er mikilvægt að horfið verði frá breytingum á ráðuneytum sem vinstri stjórnin hafði stuðlað að til að sýnast að vera að spara. Taka á aftur upp 12 ráðuneyti þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti að hljóta 6 ráðuneyti og Framsóknarflokkurinn 6. Ekki gengur að sjávarútvegurinn hafi ekki sérstakan ráðherra og að heilbrigðisgeirinn hafi ekki sérstakan ráðherra ásamt því sem nefna má iðnað og viðskipti. Þessu verður að breyta sem og auðvitað stefnu stjórnvalda.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki síður sigurvegari þessara kosninga en Framsóknarflokkurinn enda að bæta við sig fylgi og þingmönnum þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn þegar hag- og fjármálakerfið hrundi. Framsókn hagnast af því að hafa ekki verið þá við völd þrátt fyrir að hafa verið ríkjandi afl lengi þar á undan.

Það ríkir vinarþel og traust á milli formanna þessara tveggja stærstu flokka og ætti því ekkert að vera til fyrirstöðu varðandi stjórnarmyndum sem byggðist á því að rétta stöðu heimila, efla atvinnulíf og lækka skatta.

Bjarni Benediktsson er að stýra Sjálfstæðisflokknum, stærstu stjórnmálahreyfingunni á Íslandi, til sigurs í þessum kosningum og það er lykilatriðið.

Til hamingju Sjálfstæðisfólk um land allt, til hamingju Bjarni Benediktsson.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 20.4.2013 - 10:43 - Lokað fyrir ummæli

Framsóknarflokkurinn góðu gæddur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins

 

Nú fer að líða að kosningum og fylgi Framsóknaflokksins dalar. Hefur formaður flokksins m.a. bent á að kosningabaráttan gæti orðið ljót og það er satt. Kosningabarátta er oft óvægin og ódrengileg þar sem notuð eru ljót orð og oftar en ekki persónulegar árásir.

Hitt ber einnig að nefna að til eru þeir sem koma með góðlátlegt grín fyrir kosningar til að varpa fram nýjum víddum í annars litlausa og flata kosningaherferð stjórnmálasamtaka. Eitt dæmi um ódrengilegan undirróður er þegar RÚV er að ráðast persónulega á vörubílstjóra með frekar ódýrum spurningum þegar þeir ekki einu sinni voga sér að spyrja útvarspsstjóra um sífelldan halla og yfirkeyrslu hjá RÚV. Það er ljótt.

Varðandi Framsóknarflokkinn er rétt að benda á að þrátt fyrir margt sem má gagnrýna frá fyrri tíð er hann nú skipaður fjölda ungs fólks sem vill vel og fullyrða má að í tíð þessa flokks hefur margt gott áunnist þrátt fyrir allt. Að öðrum ólöstuðum innan þessa ágæta flokks telur pistlahöfundur að Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, sé gæddur góðum eiginleikum sem leiðtogi. Sama má segja um Frosta Sigurjónsson sem komið hefur fram með áhugaverðar nálganir varðandi peningapólitík og stjórn landsmála.

Satt best að segja er rétt að fagna því að ungt fólk eins og framangreindir menn og kjarnakonur eins og Eygló Harðardóttir, Vígdís Hauksdóttir ofl. vilji taka þátt í stjórnmálum á Íslandi í dag.

Viðtalið fræga á RÚV við Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins bendir til þess að ungt og kröftugt fólk er hugsi um hvort það eigi virkilega að leggja út í stjórnmálin og setja þar fjölskylduna að veði. Það er mjög svo virðingarvert af Bjarna að hafa bent á þennan annars augljósa vinkil og í kjölfarið kom á daginn að stór hluti landsmanna vill alls ekki missa Bjarna og styrkti þetta Sjálfstæðisflokkinn.

Hvað Framsóknarflokkinn varðar má telja að aldrei áður í sögu flokksins hefur verið eins gott úrval af góðu og vel meinandi fólki í framboði. Því ber að fagna og hið sama á við um Sjálfstæðisflokkinn. Píratar eru annar flokkur með önnur sjónarmið en fullur af ungu fólki sem frekar er vinstri sinnað og reynslulítið en vel meinandi varðandi sín sjónarmið þó sum séu mjög framandi.

Framsóknarflokkurinn, þrátt fyrir að hafa dalað í könnunum, er góður kostur og virkilega frambærilegt fólk þar á ferð. Pistlahöfundur mun samt sem áður ekki greiða honum atkvæði sitt sökum áherslumunar varðandi skattkerfið en Sjálfstæðisflokkurinn vill skattalækkanir einn flokka sem er hið besta mál auk fjölda annarra þátta sem greinir þessa flokka frá.

VG og Samfylkingin eiga í vanda vegna þess að endurnýjun er fremur lítil innan þeirra vébanda miðað við aðra flokka.

Því má ekki gleyma að Framsóknarflokkurinn er framkvæmdaflokkur, íhald fyrir margra hluta sakir, gætir lands og sjávar og vill fólki þessa lands vel með framfaramál að leiðarljósi. Það er flokkur sem á að starfa með Sjálfstæðisflokknum á næstu misserum enda augljóst hvað allt mannval varðar innan þessara flokka að í slíku samstarfi mætti byggja upp á ný traust og virðingu Alþingis.

Því er Framsóknarflokkurinn góður kostur þó að mati greinarhöfundar ekki sá besti. Sjálfstæðisflokkurinn spannar þau málefni sem henta betur þó svo að sterk tengsl séu á milli málaflokka þessara beggja flokka í stórum dráttum.

Það er gott fólk sem skipar lista Framsóknarflokksins og með þeim orðum vill pistlahöfundur leggja sitt að mörkum til að benda á að hægt er að fjalla um stjórnmál fyrir kosningar á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Gleðilegar kosningar framundan.

Áfram XD !

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 15.4.2013 - 09:58 - Lokað fyrir ummæli

Veirusýking af stofni B

Það er ekkert grín þegar fólk sýkist af alvarlegum sjúkdómum sem jafnvel getur dregið það til dauða eða valdið því alvarlegum skaða til lengri eða skemmri tíma. Þetta þekkir fólk vel og veit að heilsan skiptir miklu máli og aðgát verður að hafa með börnum, óvitum, sem margir hverjir geta ekki og kunna ekki að leita sér hjálpar og fara til læknis í tíma.

Heilsan er mikilvæg og það á bæði við um einstaklinga sem og um stöðu þjóðarbús.

Varðandi þjóðfélög og stjórnmál gildir hið sama. Fólk verður að vera meðvitað og getað mótað sína framtíð. Til þess að svo verði og að velsæld ríki er mikilvægt að velja rétt. Aðeins er um að ræða eitt atkvæði á kjörgenga menn og konur á 4ra ára fresti. Þá er mikilvægt að vera við hesta heilsu bæði á sál og líkama og taka ábyrga afstöðu, ekki satt? Það gefst ekki annað tækifæri fyrr en 4 árum síðar. Þá má fullyrða að heilsu fólks og fénaðar hafi hrakað umtalsvert verði vinstri öfl við völd öllu lengur.

Niðurskurður til heilbrigðismála síðustu 4 ár ber því glöggt vitni.

Hefur pistlahöfundi lánast að taka þátt í því að aka öldruðum og sjúkum á kjörstað á vegum Sjálfstæðisflokksins á árum áður. Það hefur gefist vel og afar ánægjulegt að sjá þegar fólk klæðir sig upp og gengur að kjörborðinu. Það á að sýna valdinu virðingu sem maður beitir kjördag við atkvæðagreiðslu.

Svo íslenska þjóðin gæti öðlast það vald sem hún hefur á kjördag þurfti að berjast fyrir fullveldi og sjálfstæði hennar. Það kostaði forfeður og mæður þessa lands blóð, svita og tár. Því skal ekki gleyma.

Um þessar mundir geisa pestir en ein pestin er talsvert skæðari en önnur og er í raun n.k. veirusýking af stofni B sem hefur gagntekið stóran hluta þjóðarinnar og skapað ólgu. Bestu smitstjúkdómalæknar landsins kunna engin skil á ástandinu og eðli pestarinnar. Hún gæti verið bráðdrepandi segja sumir en aðrir telja þetta smávægilega kveisu, magakveisu.

Þessi pest sem hér um ræðir tengist aðallega Framsóknarflokknum og fólki sem virðist ætla að kjósa þann flokk fremur en aðra mun betri kosti í boði, nú eina ferðina enn. Já, þetta er bráðsmitandi fjandi.

Eru Samfylkingarmenn reyndar margir hólpnir hvað B stofn varðar en ekki hvað ESB stofn veirunnar varðar. Má þar benda á skrif Stefáns Ólafssonar prófessors á Eyjunni nýlega. Það virðast því geisa fleiri en ein bráðsmitandi pest en telja má fullvíst að sú sem er af B stofni er bráðdrepandi svo ekki sé minnst á ESB stofninn sem virðist genginn yfir.

Það vill svo til að hér á árum áður setti Framsóknaflokkurinn fram kosningaloforð um fíkniefnalaust Ísland árið 2000 og fylgdi því síðar eftir með loforði um 90% lán hjá Íbúðarlánasjóði. Félagslega húsnæðiskerfi sveitarfélaga var lagt niður til að Framsóknarflokkurinn næði þessu markmiði. Það var nú meiri vitleysan.

Eitt sinn söng Megas:

Já, droppaðu við hjá dópmangaranum og kýldu á netta nös.

Allir vita sem vilja vita og eru ekki alveg búnir að tapa glórunni vegna sýklaveikinnar af B stofni að það var Framsóknaflokkurinn sem valdi þá leið að skuldsetja heimilinn eins mikið og nokkur kostur var hér á árum áður. Þó þessi flokkur hafi ekki verið við stjórnvölinn rétt fyrir hrun var hann við stjórnvölinn rétt um ári áður en hrunið átti sér stað.

Kæru lesendur, um þessar mundir geisar skæð veira af B stofni á Íslandi.

Við skulum uppræta hana sem fyrst. Látum ekki fjölskyldur landsins lenda í því sama og áður, björgum því sem bjargað verður þrátt fyrir að stjórnmála- og heilbrigðiskerfið virðist í molum eftir fyrstu vinstristjórn Íslands.

Hún getur geisað áfram pestin !

Heimilin eiga betra skilið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.4.2013 - 11:13 - Lokað fyrir ummæli

Afsögn handa RÚV og DV ?

Hin ríkisrekna RÚV fór að spyrja leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í sjónvarspþætti í gær hvort hann ætti ekki að segja af sér eða hvort hann hafi hugleitt slíkt.

Ekki sáu sömu aðilar ástæðu til að spyrja formann Samfylkingarinnar, sem hrynur í fylgi sem aldrei fyrr, að hinu sama og þá sérstaklega í ljósi þess að sá flokkur hefur ítrekað reynt að ,,selja“ Ísland undir ESB á síðustu árum gegn þjóðarvilja.

Bjarni Benediktsson er af öðrum ólöstuðum með vönduðustu stjórnmálamönnum sem völ er á í íslenskri pólitík í dag og hefur verið val á um langa hríð.

Hann á ekki að segja af sér þrátt fyrir niðurrifsöfl sem vilja hann út í stað annars sem þóknanlegri er þeim öflum sem síst ættu að ná völdum í Sjálfstæðisflokknum, þ.e. RÚV og DV.

Sjálfstæðismenn setja hugsjónir sínar ekki á útsölu, hvorki nú, fyrr eða síðar. Sjálfstæðismenn standa með formanni sínum á meðan hann fylgir stefnu flokksins og vinnur að heilindum fyrir land og þjóð. Það gerir Bjarni og hefur vilja, getu og þor til að taka á erfiðum málum sem blasa við. Bjarni er einmitt maðurinn sem þjóðin þarfnast til að taka forystu í næstu ríkisstjórn landsins.

Sjálfsstæðisstefnan undir merkjum atvinnufrelsis, frelsis einstaklingsins til orðs og athafna er ekki að gefa sig og umboð landsfundar var skýrt þegar formaður flokksins var kjörinn.

Hvorki RÚV né DV hafa slíkt umboð frá sjálfstæðisfólki sem starfar um land allt. RÚV og DV hafa umboð frá sínu liði sem liggur ekki á liði sínu í óhróðri af versta tagi, undirmálum og véfréttum. Slíkt hefur ekki heyrst frá tíma kaldastríðsáranna og þá sem hróp og köll frá vinstri til hægri.

Við þekkjum hvernig það allt fór og sjáum einnig þá festu sem leiðtogar þurftu að sýna til að fá Berlínamúrinn rifinn niður. Það breytti lífi þjóðar.

Það kostar því klof að ríða röftum.

Eigi skal víkja !

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.4.2013 - 08:31 - Lokað fyrir ummæli

Norður Kórea og Ísland

Margir Íslendingar þekkja til þess að í hruninu og rétt eftir það var haft í flimtingum að Ísland gæti orðið Kúba norðursins eða Norður Kórea. Mikið var skrafað og gert grín með þetta allt saman. Vinstrimenn af hvaða kyni sem er hlógu að og supu af ríkisstyrktum kaffibollum sínum og borðuðu evrópustyrkta súkkulaðisnúða.

Sjálfum þykir mér afar vænt um það fólk sem hefur þurft að búa við kommúnistastjórnir og á vini frá Kúbu, ættingjar konunnar vinna í Norður Kóreu sem erindrekar annars ríkis og gamlir skólafélagar okkar hjóna frá Pekingháskólaskólaárunum starfa í Suður Kóreu. Síðan á maður vini sem hafa verið ættleiddir eftir áralangt stríð og erfiðleika á Kóreuskaganum þar sem barist var á banaspjótum um frelsi annars vegar og helsi hins vegar. Einn uppáhaldsrétturinn minn er hið kóreska kimchi sem við hjónin eigum hér í krúsum og kunnum orðið að búa til úr kínakáli og chili.

Hinni hreint ágæti dósent við Háskóla Íslands, Birgir Þór Runólfsson, hefur ritað um fátækt og velmegun í frjálsum ríkjum til mótvægis við vin minn og galdrakarlinn Stefán Ólafsson prófessor sem er oftar en ekki á öndverðum meiði við Birgi. Vegna þessarar afstöðu Birgis Þórs hefur ríkisstarfsmaðurinn á RÚV, Egill Helgason, séð ærna ástæðu til höggva í Birgi sem og auðvitað Stefán og nú DV.

Þykir manni miður að þegar vinstri elítan kann ekki lengur að svara fyrir sig bregst hún ávallt með óhróðri, manndrápum eða fangelsunum af litlu tilefni. Nóbelskáldið var nú vitni af einu slíku atviki í Moskvu hér á árum áður.

Við þekkjum slíkt enda virðist stefnt hraðbyr að allt öðru samfélagi en nú er ríkjandi á Íslandi. Hafa færustu skáld og miklir rit- og ræðusnillingar verið kallaðir til verka, fólk með hreint hjarta en skort á skynsemi. Það fer ekki alltaf saman og því getur tilraun af þessum toga leitt til eymdar. Þar er Ísland ekki undanskilið.

Frá landamærunum við frísvæðið Kaesong í Norður Kóreu (Mynd fengin af vefsetri BBC)

Frá landamærunum við frísvæðið Kaesong í Norður Kóreu (Mynd fengin af vefsetri BBC)

Í því tilefni skal bent á að BBC greinir frá í frétt sinni að nú hafi Norður Kórea lokað aðgangi verkafólks frá Suður Kóreu að frísvæðinu Kaesong sem er sameiginlegt atvinnusvæði sem samið var um á friðartímum milli systurríkjanna árið 2004.

Milljarðar dollara verða þarna til en munurinn á því er að verkafólkið frá Suður Kóreu greiðir c.a. 20 til 30% (fyrirvari settur hvað þetta varðar) af tekjum sínum í tekjuskatt en verkafólkið frá Norður Kóreu greiðir 100% í tekjuskatt í ríkissjóð.

Á Íslandi í dag stefnir í að flokkur sem mælir með einkaframtakinu, frelsi einstaklingsins og lágum sköttum verði undir í samkeppni við þekktan vinstriflokk, þ.e. Framsóknarflokkinn. Það er vel þekkt að þegar Íslendingar veita Framsóknarflokknum brautargengi nær spilling hærri hæðum en áður, vinstri stjórnir verða myndaðar þar sem vinstrimenn ganga frjálslega um sameiginlega sjóði skattborgara og sóun eykst í hagkerfinu. Tilraunir varðandi draumsýn formanns Framsóknaflokksins, fyrrum fréttamanns af uppeldisstöðinni RÚV, munu kosta mikið, mjög mikið.

Ef fram heldur sem horfir mun nýja vinstristjórn Framsóknaflokksins geta valdið því að skattprósenta á Íslendinga geti nálgast óðfluga þá prósentu sem verkafólk Norður Kóreu er gert að greiða til ríkisstjóðs þar í landi. Reikna má með að hinn mæti maður Indriði H. Þorláksson muni þá væntanlega mæta og sjá um útdeilingu á þeim fjármunum.

Ætla má að í kjölfarið muni ekki nægja gjaldeyrishöft heldur má reikna með skertu ferðafrelsi þegar fólk fer að flytjast frá landinu, draumalandi vinstrimanna. Í næstu kosningum getur fólk því kosið um frelsi eða helsi. Þitt er valið kjósandi góður.

Sporin hræða.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 2.4.2013 - 10:17 - Lokað fyrir ummæli

Atvinnuleysi innan ESB í hæstu hæðum

Eurostat er hagstofa Evrópusambandsins og tekur saman gögn um margvíslega þætti er varðar rekstur sambandsins rétt eins og Hagstofa Íslands. Nýlegar tölur varðandi atvinnuleysi innan sambandsins sýna að aldrei áður hafi atvinnuleysið mælts hærra en nú. Stendur það í 12% innan evrusvæðisins um þessar mundir og öllu hærra á því svæði en í sambandinu í heild sinni.

Atvinnuleysi í Evrópu - Eurostat apríl 2013

Atvinnuleysi í Evrópu – Eurostat apríl 2013 (smella á mynd til að stækka)

 

Hér má svo sjá skýrslu Eurostat um þetta skelfilega ástand innan ESB: Skýrsla Eurostat um atvinnuleysi innan ESB 

Ekki hlakkar í pistlahöfundi yfir þessu enda um að ræða alvarlegt ástand sem hefur áhrif á fjölda fólks og fyrirtæki. Þetta hefur áhrif á Ísland enda gæti þetta stuðlað að færri ferðamönnum til lengri tíma, verri stöðu útflutningsgreina og svo á Samfylkinguna sem barist hefur fyrir aðild Íslands að ESB og gerir enn.

Rétt er að heimila þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður sem miðast að því að ganga í samband þar sem atvinnuleysi hefur náð hæstu hæðum. Ekkert lát virðist á erfiðleikum innan ESB sem við gætum ,,lent í“ ef aðeins yrðu kjörnir á Alþingi menn og konur sem vilja þjóð sinni sambærilega framtíð og nú er staðreynd hjá þessu blessaða sambandi. Hvar sem menn standa í flokkum eða hvaða hugsjón sem menn kunna að hafa er rétt að þeir hinir sömu meti áhættuna sem aðildinni fylgir, kostnaðinn sem bæði er beinn og óbeinn í formi óvissu sem örðugt er að mæla.

Það er ekki hægt að skrifa sig út úr atvinnuleysi sem þessu hversu góðir pennar og skáld kunna að vera.

Ekki má gleyma því þrátt fyrir allt að innan ESB er unnið að mörgum góðum málefnum t.a.m. er varða neytendur og réttindi þeirra. Vonandi þróast ESB til betri vega en þetta ástand nú er mjög alvarlegt.

Þeir sem hrópa á ESB verða að svara fyrir þetta bæði til lengri og skemmri tíma. ESB á langt í land en það er skiljanlegt að Þjóðverjar vilji aga margar þjóðir innan vébanda þess en er ekki rétt fyrir smáríkið Ísland að hinkra eftir að uppeldið taki enda?

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 30.3.2013 - 09:40 - Lokað fyrir ummæli

Óviðeigandi utanríkisráðherra

Ísland rekur sendiráð víða um heim og m.a. í Kína.

Nýlega tók utanríkisráðherra uppá því að þiggja boð Eista sem er vinaþjóð Íslendinga. Gekk þetta boð út á að skattborgurum í Eistlandi sé gert að greiða í framtíðinni fyrir skrifstofuhúsnæði íslenskra sendierindreka í Kína.

Sjá frétt varðandi málið af vefsetri ráðuneytisins: Eistland býður Íslendingum aðstöðu fyrir sendiráð í Peking

Þetta er fallega hugsað af hálfu Eista en fáránlegt af utanríkisráðherra að taka boði sem þessu enda Ísland sjálfstætt og fullvalda ríki og á að borga sína reikninga sjálft og bera höfuðið hátt. Ef það er ekki hægt og taldið of dýrt á að loka viðkomandi sendiráði. Flóknara er þetta nú ekki.

Telur pistlahöfundur mikilvægt að halda opnu sendiráði í Kína enda mikilvægt markaðssvæði. Tilhögun sú sem var viðhöfð í Berlín er viðeigandi og mun betri en sú sem hér hefur dúkkað upp í þessu ágæta ráðuneyti.

Ef halda á uppi sendiráði í Kína borgum við sjálf fyrir það. Það er ómögulegt að fara að þiggja boð af þessu tagi þrátt fyrir að um sé að ræða vinaþjóð.

Þegar um sjálfstæði Eista er að ræða og sjálfstæði Íslendinga nægir að afhenda blóm sem ták um þakklæti og vináttu. Það að fara að þiggja boð um að skattgreiðendur erlendra ríkja greiði orðið húsaleigu fyrir íslenska skattborgara erlendis er fádæma vitlaust fyrirkomulag.

Þetta fordæmi er ekki viðeigandi og ætti að afþakka með fullri vinsemd og hlýjum hug.

Gangið á Guðs vegum.

Gleðilega Páska !

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 28.3.2013 - 09:06 - Lokað fyrir ummæli

Árangur ríkisstjórnar Íslands

Nýlega las forsætisráðherra úr forsetabréfi og frestaði fundum Alþingis framyfir kosningar.

Lýkur þá tímabili fyrstu tæru vinstristjórnar Íslandssögunnar en sögu Íslands má rekja langt aftur þar sem margt hefur gengið á og miklar hamfarir geysað svo ekki sé minnst á pestir og vosbúð fyrri alda.

Þeir sem kusu þessa stjórn yfir sig eftir hrunið árið 2008 höfðu væntingar um að nútímavæddir rauðliðar gætu bylt kerfinu og búið þannig til betra Ísland. Rætt var um spillingu, kallaður var saman Landsdómur í fyrsta sinn, lofað var efndum vegna stökkbreyttra lána, stefnt að aðild Íslands að ESB og að auki reynt að koma hér á bankakerfi sem fólk treysti á. Einnig var lagt upp með að breyta stjórnarskránni.

Eftirfarandi náðist fram í tíð þessarar ríkisstjórnar:

  • Rannsóknarnefnd sett á laggirnar til að afrita úr Peningamálum Seðlabanka Íslands og prenta skýrslu um efnhag bankakerfisins og viðtöl við ergilega banka- og stjórnmálamenn. Eina sem kom út úr því og eitthvað vit var í var heimspekilega úttektin sem fylgdi með þessum 9 bindum er gefin voru út. Annað var endurtekning, afritun eða tóm vitleysa.
  • Sérstakur saksóknari skipaður (reyndar af fyrri ríkisstjórn). Þessi aðili skilar seint og illa frá sér verki og starfsmenn hans margir uppfullir af umboðsvanda. Embættið yfirheyrir, rannsakar og ákærir í senn sem telja má vera mannréttindabrot.
  • Slitastjórnir og skilanefndir skipaðar án þess að mynda hvata til ljúkningar mála. Þess í stað eru þessir aðilar, sem þar starfa á milljóna launum ár hvert, ekki að leysa mál og senda þau flest frekar til dómstóla þar sem dómarar eru á margfallt lægri launum og dómskerfið uppfullt af málum. Enginn hvati virðist vera til að ljúka málum og semja um þau. Fremur er hvati til að halda þrótabúum gangandi eins lengi og kostur er svo sjúga megi fjármuni frá kröfuhöfum hverjir sem þeir kunna að vera. Má m.a. nefna Dróma sem sérstakt afbrigði af þessu fyrirbæri þar sem starfandi virðast vera trassar í stjórn og aðilar sem njóta í raun fjármuna óbeint frá ríki enda virðist eignasafnið allt enda þar og tjónið (vegna slælegra samninga í upphaf ferilsins) um leið.
  • Dæmt í máli ráðuneytisstjóra sem telja má að varði við mannréttindabrot fyrir Hæstarétti.
  • Landsdómur kallaður saman og uppskeran engin. Einnig miklar líkur á mannréttindabroti í því máli öllu saman.
  • ESB umsóknarferli í gang og eytt þar miklum fjármunum og ekkert komið út úr því annað en umtalsverð sóun á skattfé og tíma embættismanna á Íslandi.
  • Ríkisstjórnin einkavæðir bankana til kröfuhafa með gjafagjörningum á lánasöfn – Stærsta einkavæðing Íslandssögunnar.
  • Icesave var þrívegis reynt að setja ofan í þjóðina með tilsvarandi klækjum.
  • Greitt út til fólks sem sætti illri meðferð í opinberum stofnunum í Breiðuvík og víðar.
  • Vændi gert lögmætt ef það er stundað skv. lögum.
  • Kosningar til stjórnlagaþings sem illa var að staðið og síðar dæmdar ólögmætar.
  • Skipað í svokallað Stjórnlagaráð sem taldi sig hafa fullt umboð þjóðar til að setja henni nýja stjórnarskrá. Miklum fjármunum skattgreiðenda eytt í það verkefni.
  • Gengistryggð lán leiðrétt með dómi þrátt fyrir að reynt hafi verið að standa í vegi fyrir slíku og öllum brögðum beitt.
  • Verðtryggð lán ekki leiðrétt þrátt fyrir að það hafi verið hin ólögmætu gengistryggðu lán sem þöndu út hagkerfið og olli verðbólgu er hækkuðu verðtryggðu lánin og skekkti hagkerfið það mikið að það hrundi lengra niður en ella hefði orðið raunin.
  • Ríkisstjórn Íslands setur svokölluð Árnalög sem Hæstiréttur dæmir ólögmæti og brot á stjórnarskrá.
  • Stjórnarskrármálið eyðilagt af þeim sem töldu breytingar mikilvægar á stjórnarskrá, þ.e. af 24 þingmönnum sem eftir voru á Alþingi og studdu hreinu vinstri minnihlutastjórnina.
  • Jafnréttislög brotin af forsætisráðherra.
  • Enginn spítali í augsýn.
  • Fátækt minnkar ekkert.
  • Engin erlend fjárfesting.
  • Vegir um land allt að gefa sig vegna skorts á viðhaldi.
  • Opnir sorphaugar víða því búið er að loka sorpbrennslum vegna ESB regluverks.
  • Fjölgun stofnanna og flækjustig eykst.
  • Ekkert kjöt mælist í auglýstum kjötréttum á Íslandi.
  • Ekkert virkjað á kjörtímabilinu og ekkert fjárfest í stóriðju.
  • Ríkisfjölmiðillinn RÚV ræðst á iðnað á Íslandi og erlenda fjárfesta ásamt ríkjandi minnihlutastjórnvöldum.

Hér er ekki allt upp talið og hver og einni Íslendingur getur talið upp mun meira hvað varðar árangur þessarar ríkisstjórnar sem brátt víkur fyrir þeim sem þjóðin kýs í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem framundan er.

Njótið nú kosninganna og vill pistlahöfundur fullyrða að framundan séu áhugaverðustu kosningar sem haldnar hafa verið í áratugi. Fjöldi framboða og úrvalið mikið. Framsókn að fá mesta fylgið, smáflokkur sem margir gerðu grín að hér um árið.

Nú er öldin önnur.

Gleðilega Páska !

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 23.3.2013 - 10:07 - Lokað fyrir ummæli

Kastljós ríkisstjórnarinnar

Nú er farið að birta og það er vor í lofti. Börnin eru farin að leika sér úti og gleðjast hér á flötinni í Mosfellsbæ.

Það er gleði í loftinu.

Þrátt fyrir þetta er drungalegt og dimmt yfir ríkisstjórn Íslands og Alþingi. Ríkisstjórnarflokkarnir, með stuðningi Framsóknar og Hreyfingarinnar (a.m.k. lengi framan af), hafa nú ekki aðeins klúðrað eigin málum heldur einnig flestum málum sem liggja nú fyrir Alþingi og skipta tugum.

Stjórnarskrármálið er upp í loft og veldur því m.a. fjöldi breytingatillagna frá stjórnarþingmönnum, nýjum og gömlum stuðningsaðilum stjórnarinnar eins og Hreyfingunni. Stjórnarandstaðan hefur ekkert haft fyrir þessu enda hafa þingmenn ríkisstjórnarinnar séð sjálfir um eyðileggja fyrir sjálfum sér og félögum sínum.

Ekki að undra að ríkisstjórnin hafi þurft að láta kastljós á sig skína enda öll orkan upp urin og hún hætt að láta ,,ljós“ sitt skína. Það er slökkt, það er dimmt.

Kastljós hins ríkisrekna RÚV, sem ávallt skilar tapi þrátt fyrir loforð um annað, hefur nú náð að ljúga hressilega að þjóð sinni fyrir ríkisstjórnina með fréttum um að álversiðnaður skili ekki skatti í ríkissjóð. Jafnvel var reynt að glæpavæða löglega gjörninga og kallaðir til tveir ráðherrar þessu til áréttingar.

Látum nægja í þetta sinn að láta hér fylgja með tengil á frétt af vefsetri álversframleiðandans í Straumsvík, þeim fyrsta og elsta:

Kastljós sagði ekki rétt og satt frá varðandi áliðnað á Íslandi og tekjuskattgreiðslur iðnaðarins almennt á Íslandi. Þykir manni það miður enda verið að villa um fyrir fólki með því að beina ljósinu að surtshelli ríkisstjórnar Íslands.

Nú er aðeins að bíða eftir afsökunarbeiðni frá ritstjóra Kastlóss eða a.m.k. nánari skýringu á þessu skattaútspili í vikunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 21.3.2013 - 20:25 - Lokað fyrir ummæli

Skattaheimska Kastljóss

Kastljós hefur tekið upp nokkur áhugaverð og ógnvekjandi mál m.a. á sviði kynferðisofbeldis og tekist vel upp með að upplýsa um glæpi af þeim toga.

Nú hafa sömu menn tekið upp á því að reyna að glæpavæða stjóriðju á Íslandi með atbeina ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem hafa ekki fengið nokkra fjárfestingu til landsins enda augljóslega afar sérlundaðir ráðherrar, heimóttalegir og illa inní alþjóðafjármálum og viðskiptum.

Telja þeir mikilvægt að girða enn frekar fyrir þann möguleika að stóriðja geti byggst áfram upp á Íslandi og ræða fulltrúar RÚV í Kastljósi um þetta í mikilli meðvirkni um að líkur séu á að um sé að ræða mikinn skepnuskap að hafa tryggt hér atvinnu um árabil og hátæknistörf sem eru varanleg og afar skapandi störf sem gefa í aðra hönd óbeina skatta svo milljörðum skiptir. Það eru hin raunverulegu verðmæti.

Nú er svo búið að þessi heimska, skattaheimska, sé nú að verða að einhverjum trúabrögðum þeirra sem vilja vera áfram vinstrimenn og eyðileggja ekki aðeins íslensku krónuna heldur einnig orðsbor Íslands á erlendum vettvangi. Hér virðist ætlun þeirra að eyðileggja Ísland sem traust land sem treysta má á pólitíska og lagalega sviðinu. Svo virðist sem að pólitíska óvissan eyðileggi nú framtíðaráætlanir fjárfesta í verkefnum sem þurfa að greiðast upp á 20 til 40 árum og langtíma samningum um sölu á afurðum þeirra. Þetta á nú að eyðileggja orðspor Íslands og bæta við ógnarstefnu VG og Samfylkingarinnar varðandi það að eyðileggja sjávarútveginn með ekki ósvipuðum hætti.

Áhættan er margvísleg við að staðsetja sig á Íslandi. Ein helsta áhættan nú er pólitísk áhætta eins og augljóst er. Svo má nefna efnahagslega áhættu, félagslega áhættu, umhverfisáhættu, tæknilega áhættu og lagalega áhættu. Að auki er Ísland langt frá mörkuðum en best væri að staðsetja álver sem næst orkunni og/eða sem næst kaupendum allt eftir því sem við getur átt.

Svo ef Íslendingar vilja losa sig við alla fjárfesta erlendis frá, þannig að enginn komi gjaldeyririnn fyrir hundruð milljarða eins og síðustu áratugi, er hægt að gera Ísland  enn meira óspennandi með skattaheimsku og umræðu sem er afar villandi sbr. þá sem Kastljós hefur komið í gang. Hví í ósköpunum er verið að agnúast út í lögmæta gerninga og lögmæt fjármál?

Nóg er um að ráðherrar atvinnuvega og fjármála séu að tala niður gjaldmiðilinn. Nú virðast þeir með yfirlýsingum sínum slá um sig fyrir kosningar og samhliða að eyðileggja enn frekar fyrir því að fjárfestar geti séð fyrir sér Ísland sem kost í boði.

Það að aðrar reglur gilda í Þýskalandi og Kanada er ekki samanburðarhæft enda höfum við þurft að byggja allt dreifikerfi frá grunni á meðan þessi samanburðarlönd, sem Ísland er borið saman við, hafa mun þroskaðari markaði og fjárfestar líta á sem mun áhættuminni svæði fyrir margra hluta sakir. Þetta skilur ritstjóri Kastljós örugglega ekki enda ekki allir sem átta sig á áhættu, óvissu og tilsvarandi tengslum við fjármál og fjárfestingu. Sérstaklega er þessi skilningur lítill innan stofnunar sem stendur ekki sjálf við eigin áætlanir.

Hefur það gleymst að hundruð milljarða hafa borist í hagkerfið og hunduð manna unnið t.a.m. við stækkun álversins í Straumsvík svo árum skiptir í miðju hruni og frá hruni? Mér þykir nú afar mikilvægt að þeir sem hafa atvinnu af þessu öllu saman standi upp og bendi á að ekki aðeins er verið að veita atvinnu heldur einnig að borga af virkjunum sem standa hér eftir þó ný tækni verði til þess að hætt verði að nota ál og þá eign barna okkar og barnabarna rétt eins og Búrfellsvirkjun sem nú malar gull og að fullu greidd. Þetta er ekki allt ofan á brauð okkar í dag en þeir sem skammsýnir eru hugsa vissulega allt annað og margir aðeins fram að næsta útborgunardegi launa.

Hví má ætla að Kastljós fjalli ekki um þessi áhrif í hagkerfinu? Hver vegna er ekki fjallað um það hvaða áhrif það hefði haft á Ísland og kratabæinn Hafnarfjörð ef Straumsvík hefði bara lokað? Ástæðan var og er enn sú að m.a. hagstæðir samningar hér á landi og góður rekstur gerði gæfumuninn, m.a. vegna þeirra samninga, sem eru þá væntanlega mun betri en þar sem lokað var, t.d. í öðru landi. Þetta þarf ávallt að tryggja til langs tíma.

Svo er það raforkuverðið til heimila á Íslandi sem er hér lægra en í flestum nágrannalöndum okkar vegna þess að stóriðjur á Íslandi hafa gert þessari þjóð ódýrara að fjárfesta í dýrum virkjunum og dreifikerfi á orku um land allt. Þetta gleymist og það gleymist að á meðan aldraðir Bretar þurfa að sækja í stórmarkaði til að hlýja sér á veturna því þeir hafa ekki efni á að borga gas- og rafmagnsreikninga sína vegna hárra orkureikninga. Í sama mund fjallar forstjóri Landsvirkjunar um orkustreng þangað til þess aðeins að hækka orkuverð á Íslensk heimili og Kastjóshópurinn virðist ekki átta sig á þessu enda ekki pólitískt rétt svo stuttu fyrir kosningar.

Svona er RÚV og Kastljós á Íslandi í dag.

RÚV er sjálfumglöð stofnun sem fer sjálf ítrekað framúr eigin áætlun og skilar tapi ár eftir ár eftir ár. Þarna myndast gat ár hvert sem skattgreiðendum er gert að brúa svo þeir þurfi að hlusta á aðra eins skattaheimsku og nú ríður húsum landsmanna.

Sjálfsagt er að fyrirtæki skili tekjuskatti en vita menn ekki að það hefur t.d. Alcoa gert umfram skyldu sína og að uppsafnað tap gæti t.d. verið vegna þess að þar sprakk og brann spennir utanhúss sem kostaði líklega hátt í virði útvarspshússins við Efstaleiti. Þær fjárhæðir sem álver og stóriðja almennt hefur skapað eru margfallt þær milljónir er tekjuskattur hefði gefið í aðra hönd þeim sem fara illa með skattfé borgara þessa lands m.a. við rekstur á RÚV.

Umræðan er sjálfsögð en þá er rétt að meta samkeppnisstöðu Íslands án afar hagstæðra skattakjara sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að hræra í á undanförnum árum og hvaða áhrif útspil hafa á að bæta þá stöðu landsins í hörðum heimi.

Hér á landi er þörf á að byggja upp traust við fjárfesta en ekki að eyðileggja það sjálfum sér til framdráttar svona rétt fyrir kosningar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur