Þriðjudagur 5.11.2013 - 09:09 - FB ummæli ()

Nýr Landspítali STRAX

Nýr Landspítali STARX

Fyrir liggur forhönnun að nýjum og glæsilegum Landspítala, háskólasjúkrahúsi, sjá: http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/forsida/.  Gert er ráð fyrir að sjúkrahúsið rísi í áföngum og leysi af hólmi stóran hluta starfsemi núverandi Landspítala sem á 17 stöðum í 100 byggingum á höfuðborgarsvæðinu.  Ekki þarf því að bíða – forhönnun fyrsta áfanga er lokið og unnt að hefjast handa um leið og Alþingi hefur tekið um það ákvörðun.

Í kjölfar hrunsins 2008 var horfið frá smíði nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut.  Verkefninu var síðan hleypt af stokkunum á nýjan leik í nóvember 2009 með viljayfirlýsingu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra og lífeyrissjóða um fjármögnun verkefnisins.

Árið 2010 voru samþykkt lög nr. 64/2010 um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.  Opinbert hlutafélag, Nýr Landspítali ohf  – NLSH, tók til starfa í samræmi við viljayfirlýsinguna og nefnd lög í júlí sama ár.  Félagið hefur að markmiði að bjóða út byggingu nýs Landspítala og er heimilt að gera samninga til að ná markmiðum sínum á sem hagkvæmastan hátt.  Þó er ekki heimilt að hefja framkvæmdir að loknu útboði fyrr en Alþingi hefur heimilað þær með lögum. Í vor ákvað Alþingi að falla frá ofangreindri leiguleið.  Var lögum frá 2010 því breytt þannig að verkefnið er nú hefðbundin ríkisframkvæmd.  Forgangsröðun Alþingis, er varðar fjárheimildir í fjárlögum, ræður því framkvæmdahraða og er því óvíst hvenær unnt er að hefjast handa.

Hagkvæm framkvæmd

Í grein sem Alma D. Möller, yfirlæknir á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut, skrifaði í sumar, segir að í skýrslu norsks ráðgjafafyrirtækis sé áætlað, að rekstrarlegur ávinningur verði um 2,6 milljarðar á ári.  Hagræðing til ársins 2050 sé að nettónúvirði 2,3 milljarðar sem þýðir að hagræðing af byggingunni gerir betur en að greiða upp byggingarkostnað.  Væri ekkert byggt, er niðurstaða samsvarandi núvirðisreiknings neikvæð um 25.3 milljarða.  Það er því mun hagstæðara að byggja nýtt en að hafast ekki að og er þá hagur sjúklinganna og starfsmanna ekki reiknaður til fjár.  Samkvæmt nýrri áætlun er kostnaður við byggingu fyrsta áfanga 48 milljarðar og kostnaður vegna tækjakaupa, endurnýjunar eldra húsnæðis og fjármögnunar um 36 milljarðar.  Gert er ráð fyrir að byggingartími fyrsta áfanga sé 5 ár.  Nettónúvirði reksturs Landspítala án nýbyggingar er hinsvegar verulega neikvætt.

Í greininni bendir Alma D. Möller á færa leið til að fjármagna byggingu nýs Landspítala: að íslenskir lífeyrissjóðir láni fé til framkvæmdanna.  Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna sé áætluð um 150 milljarðar á ári og fjárfestingatækifæri séu fábreytt.  Sjóðina skorti heimild til að fjárfesta í erlendum eignum og tryggir fjárfestingakostir séu fáir innanlands.  „Líklegt er að þátttaka í fjármögnun slíkrar framkvæmdar myndi tryggja ávöxtun sem væri í takt við þá áhættu sem þessari fjárfestingu er samfara.  Þar að auki er þetta samfélagsleg fjárfesting og til hagsbóta fyrir umbjóðendur þeirra, lífeyrisþega,“ segir í greini Ölmu D. Möller.  Og hún heldur  áfram:

„Fyrir liggur endurskoðun fjárreiðulaga.  Er rætt um að þeim verði breytt þannig að ríkisstofnanir í A-hluta færi fullt rekstrar- og eignabókhald.  Ef fasteignir LSH yrðu settar í sérstakt fasteignafélag, t.d. NLSH ohf., þá gæti Landspítalinn fengið bygginguna til afnota gegn leigugjaldi en byggingin yrði færð til eignar hjá fasteignafélaginu. Þá gæti t.d. NLSH ohf. tekjufært leigu frá Landspítalanum sem dygði til að greiða niður fjármagnskostnaðinn á skilgreindum notkunartíma eignanna.  Slíkar lagabreytingar myndu gera leiguleiðina mögulega.“

Nýr Landspítali STRAX

Undir þessi orð má taka.  Nú hafa tíu þingmenn lagt fram þingsályktunartillögu um byggingu nýs Landspítala þar sem segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi byggingar nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja byggingu hans strax að því loknu.  Nýr Landspítali ohf eða ríkissjóður fái heimild til að taka lán fyrir byggingarkostnaði, hvort heldur er beint hjá traustum lánveitendum eða óbeint með milligöngu ríkisins.

Heilsugæsla frá vöggu til grafar er einn af hornsteinum samfélagsins.  Traustur Landspítali sem miðstöð lækninga og rannsókna er undirstaða heilsugæslu í landinu.  Alþingi þarf nú að sameinast um smíði nýs spítala og gera lífeyrissjóðum kleift að lána til framkvæmdanna.  Leiðin er greið og bygging nýs Landspítala við Hringbraut þolir enga bið.

höfundur er formaður Hollvinasamtaka líkarþjónustu

Flokkar: Stjónmál

Sunnudagur 13.10.2013 - 00:39 - FB ummæli ()

Ný viðhorf í heilbrigðismálum – ný heilbrigðisáætlun

Evrópudeild Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar WHO hefur mótað nýja stefnu í heilbrigðisþjónustu sem nefnd er Health 2020.  Þar er lögð áhersla á, að aðildarríki stofnunarinnar vinni að samræmdum aðgerðum og sameiginlegri stefnu með það að markmiði að styrkja heilbrigðisþjónustu landanna í samvinnu við notendur – sjúklinga og aðstandendur þeirra – og blása nýju lífi í starf heilbrigðisstofnana.

Notendamiðað heilbrigðiskerfi

Meginmarkmið stefnunnar er að auka áhrif sjúklinga og aðstandenda þeirra á lækningu og meðferð sjúkra og deyjandi.  Hærri lífaldur, áhrif mengunar og umhverfis á heilsufar, breyting á búsetu, efnahagsleg mismunun og minna fjármagn til heilbrigðisþjónustu í kjölfar óreiðu í fjármálaheiminum hafa gert slíka stefnumótun enn meira aðkallandi en áður.  Þá hafa tækniframfarir, ekki síst á sviði samskiptatæki, aukið kostnað við heilbrigðisþjónustu, en jafnframt opnað nýjar leiðir til að samþætta ólíkar greinar og auka samstarf heilbrigðisstofnana um alla álfuna.  Einnig hefur almenningur vegna aukinnar þekkingar gert kröfu um gagnsæi á öllum stigum heilbrigðiskerfisins og krafist aukinna áhrifa á mótun þess og rekstur.

Heilbrigðisþjónusta frá vöggu til grafar

Heilbrigðisþjónusta frá vöggu til grafar er einn af grunnsteinum samfélagsins.  Alþingi hefur látið undir höfuð leggjast að móta heildarstefnu í heilbrigðismálum við breyttar aðstæður, s.s. breytingar á búsetu, breytta atvinnuhætti, breytt mataræði andspænis þeirri dýru en dýrmætu staðreynd að fólk lifir lengur.  Nýir sjúkdómar hafa komið fram vegna breyttra samskipta, breyttra viðhorfa og breyttra lifnaðarhátta.  Mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum á Íslandi er því knýjandi nauðsyn þar sem tillit er tekið til breytta þarfa og breyttra viðhorfa undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi.

Ný heilbrigðis- og velferðaráætlun

Á síðasta Alþingi lagði velferðarráðherra fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisáætlun til ársins 2020, en fyrri áætlun rann út 2010.  Ekki gafst tími til að ljúka umræðu og samþykkja þessa heilbrigðisáætlun.  Það vekur furðu og veldur vonbrigðum að svona skuli staðið að málum í íslensku velferðarsamfélagi: að heilbrigðisáætlun, sem átti að leysa af hólmi fyrri heilbrigðisáætlun, skuli lögð fyrir Alþingi tveimur árum eftir að hin fyrri féll úr gildi.

Nauðsynlegt er að þegar í stað verði mótuð ný heilbrigðis- og velferðaráætlun þar sem tekið er tillit til nýrra viðhorfa.  Aðkallandi er því að Alþingi samþykki nýja heilbrigðis- og velferðastefnu sem mótuð er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi.  Í hinni nýju heilbrigðis- og velferðaráætlun þarf að auka forvarnarstarf og efla þjónustu heilsugæslu og breyta áherslum með auknu aðgengi að ráðgjöf, bæði hjúkrunarfræðinga, lækna, næringarráðgjafa, sálfræðinga og annarra sérfræðinga á sviði heilbrigðisþjónustu.  Heilsugæslan þarf einnig að taka ábyrgð á eftirfylgni og stuðningi við þá sem greinast með lífsstílssjúkdóma eða eru í áhættuhópi og þurfa á einhvern hátt að breyta lifnaðarháttum sínum.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.9.2013 - 21:29 - FB ummæli ()

Tíu þúsund króna seðill Seðlabankans og myndin af Jónasi

MYNDIN AF JÓNASI HALLGRÍMSSYNI

Í dag kom út nýr tíu þúsund króna seðill með mynd af dönskum prentara. Seðillinn er tileinkaður Jónasi Hallgrímssyni, en að sögn Seðlabankans er á seðlinum að finna vísanir í störf Jónasar sem skálds, íslenskumanns, alþýðufræðara og náttúrufræðings.

Nýmæli er að kalla Jónas Hallgrímsson alþýðufræðara og óljóst af hverju það er gert, enda þótt hann hafi þýtt stjörnufræði og sundreglur fyrir almenning. Þá er lóan látin vera einkennisfugl Jónasar – en ekki þrösturinn. Jónas ykir um lóuna í  Heylóarvísu sem endar svo sorglega að skólabörn hafa grátið yfir þessu í 150 ár:

Lóan heim úr lofti flaug,

ljómaði sól um himinbaug,

blómi grær á grundu,

til að annast unga smá

– alla étið hafði þá

hrafn fyrir hálfri stundu!

Ef einhver fugl er hins vegar einkennisfugl Jónasar er það þrösturinn sem hann yrkir um í fyrstu sonnettu á íslenska tungu:

 

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,

á sjónum allar bárur smáar rísa

og flykkjast heim að fögru landi Ísa,

að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

 

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum

um hæð og sund í drottins ást og friði;

kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,

blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

 

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer

með fjaðrabliki háa vegaleysu

í sumardal að kveða kvæðin þín!

 

Heilsaðu einkum ef að fyrir ber

engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;

þröstur minn góður! það er stúlkan mín.

Þrösturinn er því fugl Jónasar.  Einnig má minna á að til er mynd – „ljósmynd“ – af Jónasi, sem þekkt hefur verið lengi, gerð af fyrsta ljósmyndara Íslendinga, Helga Sigurðssyni. Fylgir myndin hér með.

 

En hvers á Jónas Hallgrímsson að gjalda og hvers vegna kynnir Seðlabankinn sér ekki ævi hans og feril áður en ráðist er í þessa ósvinnu, seðlabankastjóri?

Flokkar: Menning og listir

Föstudagur 13.9.2013 - 12:23 - FB ummæli ()

Nýr Landspítali Háskólasjúkrahús

Alma D. Möller, yfirlæknir gjörgæsludeildar Landspítala við Hringbraut, skrifar í dag grein í Morgunblaðið – sem allir ættu að lesa.

Í greininni segir, að ef lífeyrissjóðir landsmanna láni fé til byggingar Landspítala Háskólasjúkrahúss, fái lífeyrissjóðirnir ávöxtun innanlands, ríkið spari fé til lengri tíma og landsmenn eignist nútíma sjúkrahús. Alma færir skynsamleg rök fyrir máli sínu og bendir á að allir hagnist á þessu – og ekki þýði að gefast upp.

Óvanalegt er að lesa grein af þessu tagi um jafn viðkvæmt og vandasamt efni og heilbrigðismál Íslendingar eru. Að mínum dómi er engum vafa undirorpið, að leiðin sem Alma bendir á er fær.

Nú ber öllum að taka höndum saman um að leysa þetta þjóðþrifamál. Lausn þessa máls varðar alla, unga sem gamla – frá vöggu til grafar – og gæti skipt sköpum fyrir ótal margt annað sem vinna þarf til bóta í þessu þjóðfélagi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 29.8.2013 - 10:30 - FB ummæli ()

Hátíð vonar – jafnrétti og bræðralag

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur sýnt vilja sinn í verki, einurð og kjark með því að ætla að flytja ávarp á trúarhátíðinni Hátíð vonar sem haldin verður í Laugardalshöllinni í lok september og er samstarfsverkefni fjölmargra kirkna og kirkjudeilda. Með því segist hún styðja samstarf kristinna safnaða. En auk þess styður biskup raunverulegt skoðana- og trúfrelsi og lætur ekki undan áróðri þeirra fjölmiðla sem ganga erinda trúleysingja í landinu.

Áróður trúleysingja gegn Hátíð vonar er byggð á því að Franklin Graham, sonur Billy Graham, er ræðumaður hátíðarinnar, en hann er mótfallinn hjónaböndum samkynhneigðra og hefur talað opinberlega gegn samkynhneigð.

Áróður trúleysingja gegn Hátíð vonar er enn eitt dæmi þess, að þeir – og aðrir andstæðingar kristinnar trúar og kristinnar kirkju – beita nú þá, sem ekki eru á sömu skoðun og þeir, ofríki á sama hátt og þeir voru áður ofríki beittir. Þetta er ekki í samræmi við skoðana- og tjáningarfrelsi sem á að ríkja.

Fagna ber auknum réttindum einstaklinga hér á landi. Umræðu um mannréttindi, jafnrétti og bræðralag er þó hvergi nærri lokið. Ofstæki og áróður verður hins vegar ekki til að auka bræðralag, jafnrétti og mannréttindi. Allir skulu hafa rétt til að láta í ljós skoðanir sínar. Líka þeir sem eru mótfallnir hjónaböndum samkynhneigðra.

 

 

Flokkar: Menning og listir

Miðvikudagur 28.8.2013 - 23:02 - FB ummæli ()

Reykjavík – höfuðborg allra landsmanna

 

Seint virðist sumum forráðamönnum Reykjavíkurborgar ætla að skiljast, að Reykjavík er höfuðborð Íslands – höfuðborg allra landsmanna – með öllum þeim gögnum og gæðum, kostum og göllum sem slíku fylgir.

Við Akureyringar hefðum gjarnan viljað afsala okkur atkvæðisrétti í Alþingiskosningum til þess að fá löggjafarþingið, stjórnarráðið, Háskóla Íslands og Landspítalann norður og leggja land undir flugvöll – en þess mun ekki kostur.

Enn er af hálfu þessara forráðamanna  Reykjavíkurborgar farið af stað með umræðu um að leggja þurfi Reykjavíkurflugvöll undir byggð til þess að geta gert borgina lífvænlegri. Það eru aðrir hlutir sem gera borg lífvænlega og að því hafa borgarbúar – Reykvíkingar – stuðlað með margvíslegum hætti undanfarna áratugi.

En með því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður í sinni núvarandi mynd, er verið að skera hjartað úr borginni.

 

Flokkar: Stjónmál

Föstudagur 5.7.2013 - 08:44 - FB ummæli ()

Forseti lýðveldisins og Evrópusambandið

Við setningu Alþingis 6. júní sagði forsetinn, að eðlilegt hefði verið að Alþingi skyldi fyrir fjórum árum, þegar örlagaþrungin óvissa ríkti í efnahagslífi okkar og hins vestræna heims, sjá kosti í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, einkum vegna evrunnar sem virtist búa að styrk. Nú blasti annar veruleiki við. Enginn vissi hvernig sambandið kynni að þróast og evrusvæðið byggi við djúpa kreppu. Viðræðurnar hefðu gengið afar hægt og kjörtímabilinu lokið án þess hreyft væri við þáttum sem skiptu Íslendinga mestu. Síðan segir í ræðunni:

Þessi atburðarás, og reyndar líka viðræður mínar við fjölmarga evrópska áhrifamenn, hafa sannfært mig um að þrátt fyrir vinsamlegar yfirlýsingar sé í raun ekki ríkur áhugi hjá Evrópusambandinu á því að ljúka á næstu árum viðræðum við okkur. … Því er í senn ábyrgt og nauðsynlegt að deila þeirri sýn með þingi og þjóð að litlu kann að skipta hvort Ísland kýs að halda viðræðum áfram; mótaðilann virðist í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka þeim á næstu árum.

Þegar forsetinn segir mótaðilann virðast í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka samningaviðræðunum á næstu árum, hafa flestir skilið orð hans þannig, að Evrópusambandið vildi ekki „taka við Íslandi” – á næstu árum.

Í viðtali við RÚV 27. júní vegna Þýkalandsheimsóknar segist forsetinn aldrei hafa sagt „að Evrópusambandið vildi ekki taka við Íslandi” – og bætir við, að óábyrgt sé af Íslandi að fara í viðræður við Evrópusambandið í einhverjum leikaraskap.

Ég sagði í þingsetningarræðunni að það væri margt sem að benti til þess að – og það væri mín ályktun eftir viðræður við marga og það hefur nú styrkst í þessari heimsókn – að af ýmsum ástæðum, sem að ég rakti í ræðu minni, að ekki væri unnt að ljúka viðræðum, nema að ljóst væri að verulegur stuðningur væri meðal Íslendinga fyrir aðild.

Þessi skoðun kemur ekki fram í þingsetningarræðunni heldur sú skoðun að í raun væri ekki ríkur áhugi hjá Evrópusambandinu á því að ljúka á næstu árum viðræðum við okkur.

 

ALVÖRUSAMBAND OG LÝÐVELDIÐ ÍSLAND

Nú er ályktun forsetans „að ekki væri unnt að ljúka viðræðum, nema ljóst væri að verulegur stuðningur væri meðal Íslendinga fyrir aðild” – og hann heldur áfram:

Því það er á vissan hátt óábyrgt af okkur sem þjóð að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið, svona í einhverjum leikaraskap, bara til þess að kanna nú, hvað við kannski fengjum út úr því. Slíkur leikaraskapur er bara ekki gjaldgengur í alvöru alþjóðlegum samskiptum, þó að það kannski passi á Íslandi í umræðunni þar. Við verðum að passa okkar orðspor sem þjóð og sem lýðveldi að þegar við sækjum um inngöngu í aðildarsamband eins og Evrópu þá meinum við það í alvöru.

Í þingsetningarræðunni var það „í senn ábyrgt og nauðsynlegt að deila þeirri sýn með þingi og þjóð að litlu kann að skipta hvort Ísland kýs að halda viðræðum áfram”. Í viðtalinu við RÚV er það óábyrgt af okkur sem þjóð að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið svona í einhverjum leikaraskap bara til þess að kanna nú hvað við kannski fengjum út úr því. Ísland – þar sem leikaraskapur passar í umræðunni innan lands – getur ekki boðið alvörusambandi eins og Evrópusambandinu að kanna hvað fengist kannski út úr samningaviðræðunum

 

EÐLI SAMNINGA

Þegar gengið er til samninga, er verið að kanna hvað fæst út úr samningum. Norðmenn gengu til samninga við EB 1972 og lögðu samninginn fyrir þjóðina sem var felldur vegna þess að kjósendur töldu sig engu bættari. Hið sama gerðist 1993.

Norðmenn fóru ekki í viðræður við „alvörusamband” í einhverjum leikaraskap heldur sem fullvalda þjóð til að kanna hvað fengist út úr samningum. Enginn talaði um, að það væri á vissan hátt óábyrgt af Norðmönnum að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið til þess að kanna hvað þeir fengju út úr samningunum, allra síst þjóðhöfðingi Norðmanna sem lét aldrei hafa neitt eftir sér um afstöðu sína, enda þjóðhöfðingi allra Norðmanna – hvort heldur þeir voru með eða á móti aðild. Auk þess vissi hann, að hann ræður ekki stefnu Norðmanna í stjórnmálum.

Forseti Íslands þarf að gera sér grein fyrir að hann ræður ekki stefnu Íslands í stjórnmálum, heldur kjörnir fulltrúar – stjórnmálamenn – og forsetinn er ekki stjórnmálamaður. Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er „forseti lýðveldisins ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum” og „ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum”. En forsetinn má hins vegar ekki vera ábyrgðarlaus í tali, því við verðum að passa orðspor okkar sem þjóð – og ekki vera með neinn leikaraskap.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 23.6.2013 - 00:44 - FB ummæli ()

Gladíatorar samtímans

Nú stendur yfir „álfukeppni í knattspyrnu“, eins og alþjóð veit – og  jafnvel heimurinn allur. Knattspyrna er skemmtilegur leikur – eins og fótbolti og skylmingar sem við stunduðum á Norðurbrekkunni um miðja síðustu öld. Í þeim fótbolta – knattspyrnunni – var spilað á eitt mark, allir á móti öllum,  og mestu  skipti að sparka sem lengst, eins og KRingar gerðu fyrir sunnan.  Brasilíumenn, Spánverjar og Ítalir eru – eins og gefur að skilja – betri en við KAmenn, að ekki sé talað um Þorpara, Eyrarpúka og aðra horngrýtis Þórsara sem sýndu bæði hörku og ósvífni – og unnu enda okkur Brekkusnigla oftast – ef ekki alltaf.  Amk man ég eftir tapi okkar KAmanna fyrir Þór 13:1 vorið 1950 þar sem ég stóð í marki! Hins vegar hef ég ekki getað varist þeirri hugsun við að horfa á álfukeppnina í knattspyrnu – og raunar fótbolta undanfarin á – að þessir knattspyrnusnillingar séu í raun og veru skylmingaþrælar samtímans – gladíatorar nútíman. Þeir eru að vísu ekki drepnir á vígvellinum en lifa ekki lengi og eru seldir sem þrælar. „Þau eru súr“, sagði refurinn.

Flokkar: Íþróttir · Stjónmál

Fimmtudagur 30.5.2013 - 15:56 - FB ummæli ()

Reykjavík, höfuðborg allra landsmanna

Stundum virðist gleymast að Reykjavík er höfuðborg Íslands og hefur hlutverki að gegna sem höfuðborg allra landsmanna. Stefna núverandi meirihluta í borgarstjórn er enn eitt dæmið um þessa  gleymsku þegar stefnt er að því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður fyrir 2030 til þess að byggja nokkur þúsund manna byggð í Vatnsmýrinni, enda þótt nægilegt byggingarland sé annars staðar á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem með þessu væri er raskað áratuga gamalli borgarmynd.

Með því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður er fótunum kippt undan innanlandsflugi og öryggi landsbyggðar rýrt að miklum mun auk þess sem æfingarflug er gert hornreka. Ofan í kaupið veit enginn hvar nýr flugvöllur ætti síðan að koma.

Þetta háttarlag núverandi borgarstjórnarmeirihluta gerir það enn brýnna en áður að taka skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins til algerrar endurskoðunar og endurskoða samskipti og samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Hins vegar virðist nýr og skeleggur innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, ætla taka hér í taumana, ræða við hlutaðeigandi og leysa málið á farsælan hátt.

Flokkar: Stjónmál

Sunnudagur 28.4.2013 - 22:31 - FB ummæli ()

Þjóðstjórn er leiðin

Fyrir dyrum er stjórnarmyndun eftir stutta en snarpa kosningabaráttu undanfarinna vikna í kjölfar endurreisnarinnar eftir Hrunið, þar sem enginn vissi hvort heldur hann var seldur eða gefinn. Margar leiðir virðast færar.

Skynsamlegasta leiðin – leið sem gæti sameinað þessa sundruðu þjóð – er þjóðstjórn – samlingsregering – eins og við Danir segjum.

Með því að atvinnustjórnmálamenn – alþingismenn sem þjóðin hefur kjörið – sameinist um að finna leiðir út úr vandanum, er von til þess að þessi voðalega þjóð  þrjú hundruð þúsund sérvitra einstaklinga – geti litið á sig sem eina þjóð – er þjóðstjórn. Hafi stjórnmálamenn einhverju hlutverki að gegna, er það að finna sameiginlega leið til framtíðar. Sú leið verður aðeins fundin í þjóðstjórn þar sem allir bera ábyrgð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar