Laugardagur 12.5.2018 - 11:43 - FB ummæli ()

RÚV fellur á eigin prófi

RÚV, RíkisÚtvarpVinstrimanna býður landsmönnum upp á kosningapróf í aðdraganda sveitastjórnarkosninga 2018. Prófið er athyglisvert fyrir nokkrar sakir, sumar augljósar og aðrar faldar. Sú staðreynd að margir frambjóðendur eru ekki sammála sjálfum sér gefur prófinu reyndar augljósa falleinkunn.

Eins og oft háttar til er pólitískur áróður stofnunarinnar lævís, ýmist í formi leiðandi spurninga eða þess sem ekki er spurt um eins og hvers vegna sveitarfélög fjölga ekki lóðum, hugsanlega í nýjum hverfum eða með þéttingu til að slá á hækkun húsnæðisverðs.

Nokkur dæmi um leiðandi spurningar:

Er nauðsynlegt að lækka skuldir jafnvel þó að slíkt þýði auknar álögur?

Hér er semsagt gefið að ekki sé hægt að greiða niður skuldir með því að draga saman óþörf útgjöld. Þó eru til fjöldi dæma um sveitarfélög sem einmitt hafa farið þá leið eins og t.d. Árborg sem meira að segja hefur uppskorið mælanlegar framfarir á borð við aukna ánægju íbúa með stjórnsýslu og árangur skólabarna í Pisa könnunum.

Sveitarfélagið ætti að reka öflugan tónlistarskóla

Hver ætli sé munurinn á ,,öflugum“ tónlistarskólum og hinum? Er tilgangur lýsingarorðsins að árétta að einungis hið opinbera geti stundað ,,öflugan“ rekstur? Nú er það svo að fjöldi tónlistarskóla eru reknir af einkaaðlum þó svo að þeir í mörgum tilfellum séu kostaðir með almannafé. Er RÚV að leggja til sveitarfélög taki yfir slíkan rekstur? fari í samkeppni? Svarið er reyndar augljóst, spyrjandinn vill ekki sjá annað en opinberan rekstur.

Sveitarfélagið ætti frekar að leggja áherslu á aukna þjónustu við íbúa heldur en að lækka álögur

Til grundvallar þessari spurningu er sú sannfæring spyrjanda að öllum sköttum sé varið í eiginlega þjónustu sem er auðvitað víðs fjarri. Sem dæmi mætti nefna Reykjavík þar sem útsvarsprósenta er í hæstu lögleyfðu hæðum og fasteignaskattar himinháir, en samt hefur þjónustan versnað svo í valdatíð Dags B. Eggertssonar, að hann þorir ekki lengur að taka þátt í þjónustukönnun sveitarfélaga hjá Gallup. Ennfremur er magnað að borgarbúar njóti í engu hagkvæmni stærðarinnar hjá þessu langstærsta sveitarfélagi landsins.
Kjósendur í Reykjavík geta líka spurt sig hvaða þjónustu þeir fái fyrir þá milljarða sem varið hefur verið í Risarækjueldi, Línframleiðslu eða með höfuðstöðvum OR sem nú á að rífa.
Notendur Ríkisútvarpsins telja vitaskuld að könnun af þessu tagi sé óvilhallur og nákvæmur mælikvarði á afstöðu framboða til sveitarstjórna, til samræmis við lögbundna hlutleysisskyldu ríkisfjölmiðilsins en eins og svo oft áður fær RÚV falleinkunn á því sviði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 18.4.2018 - 15:57 - FB ummæli ()

,,Klandrið“ að baki

Sérstaða kampavíns felst í að vera eina drykkjarvaran sem tengd er við einhverskonar hughrif. Þannig taldi Napóleon að kampavín væri verðskuldað í sigrum en nauðsyn í ósigrum. Árið 2008 lenti íslensk þjóð í banka- og gjaldmiðilsklandri sem sumir hafa viljað kalla hrun þó ekkert hafi reyndar hrunið. Segja má að þjóðin hafi þar reynt að afsanna kenningu Napóleons því eins og sjá má á kampavínsvísitölunni féll innflutningur á kampavíni nokkuð milli áranna 2007 og 2008.

Í öllu falli er ljóst að þjóðin hefur nú tekið gleði sína aftur þar sem innflutningur kampavíns jókst um 50% milli áranna 2016 og 2017. Til að bæta enn betur um er ljóst að minna sykruð kampavín frá handverkshúsum Champagne héraðs ,,Growers Champagne” hafa náð aukinni hlutdeild. Auk þess virðist sem koma Costco hafi valdið því að verð á kampavínum sem erlendis flokkast á lægri endanum hafi heldur lækkað í verði, hvort heldur er í hinni rangnefndu fríhöfn eða einokunarverslunum ríkisins.

Klandrið 2008 er nú orðið að kennsluefni í sagnfræði í skólum landsins sem vekur að sögn lítinn áhuga nemenda sem flestir voru að ljúka hvítvoðungsstiginu þegar einhver bað guð að blessa landið í stað þess að skála fyrir framtíðinni.

Nú er það svo að sama hvernig hlutirnir fara, þá eru alltaf einhverjir sem vissu það en bara komust ekki í tölvuna í tæka tíð. Því miður voru margir, sér í lagi af vinstri vængnum sem náðu ekki að kalla klandrið fyrr en of seint eins og t.d. Gunnar Smári Egilsson en ætla sér ekki að missa af næsta tækifæri og boða heimsendaspá. Meira að segja Þorvaldur Gylfason sem kallað hefur sjö af síðustu þreumur niðursveiflum var of seinn og svo mætti lengi telja. En á meðan hefur þjóðin aldrei haft það betra.

Skál fyrir því!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 8.4.2018 - 14:29 - FB ummæli ()

Kosning um kjarabætur

Í Morgunblaðinu er frétt um að hagsmunasamtök kúabænda hyggist kjósa um fyrirkomulag mjólkurkvóta. Slík kosning er auðvitað sjálfsagt mál þeirra sem þyggja almannafé sér til viðurværis.

Kvóti á matvælaframleiðslu byggir á hugmyndafræði áætlunarbúskaps að sósíalískri fyrirmynd – þess stjórnkerfis sem margir kalla eftir nú til dags. Ekkert takmarkar hinsvegar mjókurframleiðslu annað en eftirspurn neytenda og er því kvótakerfið í raun kvóti á neytendur sem jafnframt  halda uppi hinum miðstýrða áætlunarbúskap.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans kemur fram að:

Mikil óvissa er um þjóðhagslegan kostnað – allratap – vegna stuðnings ríkisins við kúabændur, en líkast til er hann á bilinu frá 1½ milljarði króna á ári upp í rúma 4 milljarða. Hér er um að ræða kostnað neytenda og skattgreiðenda umfram ábata þeirra sem njóta góðs af stuðningskerfinu

Úr því að kúabændur geta kosið um eigið veiðleyfi á buddur landsmanna, væri ekki einfaldlega náttúrulegt framhald að skattgreiðendum yrði gert kleift að kjósa um sama mál, t.d. samfara næstu Alþingiskosningum?

Augljóslega hlýtur að mega gera ráð fyrir stuðningi verkalýðsfélaga við kosningu um slíka kjarabót.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 8.3.2018 - 21:27 - FB ummæli ()

Sögurím

Eftir að Sjálfstæðisflokkur galt afhroð í kosningum 1978 komu nokkrir fulltrúar ungliðahreyfingar flokksins að máli við Gunnar Thoroddsen varaformann flokksins um að hann myndi víkja stöðu. Gunnar tók vel í málaleitan ungliðanna að einu atriði uppfylltu, að bætt yrði við í skipulagsreglur flokksins eftirfarandi ákvæði:

Nú hefur formaður flokksins tapað kosningum og skal þá varaformaðurinn víkja.

Ekki reyndist þörf á að ræða þessa tillögu frekar.

Nýlega lagði dómsmálaráðherra fyrir Alþingi nafnalista yfir umsækjendur um dómarastöður að uppfylltu hæfismati og í anda tíðarandans – um jöfn kynjahlutföll sem Alþingi samþykkti án fyrirvara eða athugasemda þann 1. júní 2017. Um var að ræða lítilsháttar breytingu frá lista sem hæfisnefnd sem dómarar í Hæstarétti höfðu valið án rökstuðnings.

Niðurstaða um þriðjungs þingmanna sem oft er tíðrætt um virðingu Alþingis var að þar sem Alþingi hefði þarna tapað málinu þyrfti ráðherrann að víkja.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 26.2.2018 - 09:24 - FB ummæli ()

Straumhvarfa-óráð.

Í myndinni Annie Hall segir Woody Allen að á árum sínum í opinberum skóla hafi verið sagt að þeir sem ekkert gætu væru kennarar, þeir sem ekki gætu kennt, kenndu leikfimi og þeir sem ekki gætu kennt leikfimi kenndu við skólann hans.

Á heimasíðu Viðskiptaráðs Íslands má finna undir kaflanum ,,Hlutverk og lög” að eitt meginhlutverk ráðsins sé að efla skilning á lágmörkun opinberra afskipta.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs skrifaði nýlega grein í viðskiptablað Morgunblaðsins undir fyrirsögninni ,,Nýtum góðærið til nýsköpunar” sem vissulega væri góð brýning ef henni væri beint til þeirra sem raunverulega skapa eitthvað í hagkerfinu. Í greininni er hinsvegar hvergi minnst á að þörf sé á að hið opinbera hefti ekki nýsköpun eða viðskipti, hvort heldur er með skattpíningu, útþenslu hins opinbera eða íþyngjandi regluverki. Þvert á móti hvetur Ásta til þess að hið opinbera skipi ,,straumhvarfaráð” til að stýra nýsköpun í landinu með enn meiri millifærslum en fyrir eru nú þegar.

Greinarhöfundur hefur alltaf átt erfitt með að skilja hvaða hugmyndafræði býr að baki þeirri hugmynd sumra að hið opinbera geti skapað störf. Fyrir það fyrsta hlýtur að mega færa rök fyrir því að þeir sem á annað borð velja sér hið opinbera sem starfsvettvang, séu að leita sér að öryggi frekar en sveiflukenndum einkarekstri og því sé enn fjarstæðara að stofna til sjálfstæðs reksturs. Hvaða líkur eru þá til þess að upp úr slíkum hæfileikapotti finnist embættismenn sem geti handvalið rannsókn, þróun og nýsköpun sem kostuð er með skattfé annara?

Bréfritari leggur til að eftirtalin grunngildi verði höfð að leiðarljósi þegar Viðskiptaráð skilar frá sér næsta álit.

  1. Lagasetning getur aldrei gert hina fátæku ríka með því að gera hina ríku fátæka. Sama á við um að ný-skapa störf með því að eyða áður sköpuðum störfum.
  2. Það sem einn uppsker án vinnuframlags, þarf annar að vinna fyrir. Hið opinbera getur aldrei gefið neitt nema taka fyrst frá öðrum. Einhverstaðar er vélvirki að gera við bíl og hjúkrunarkona að hjúkra til þess að skapa þá peninga (einnig nefndir skattar)  sem Ásta vill að útvöldum séu færðir í nafni háleitra markmiða.
  3. Auðlegð verður aldrei margfölduð með deilingu.

Í nýjustu bók sinni ,,Á eigin skinni” fjallar Nicholas Taleb um að ekki eigi að hlusta á ráð annara heldur gerðir. Í þeim anda væri hollast að horfa til þeirra sem raunverulega skapa eitthvað með því að leggja eigið fé og tíma að veði en slíkir biðja sjaldnast um samkeppni frá hinu opinbera hvort heldur er við nýsköpun eða annað. Er Viðskiptaráð starfsvettvangur þeirra sem vilja leggja eitthvað að mörkum og byggja upp eða þeirra sem standa með betlistaf við ráðuneyti og aðra opinbera sjóði í von um ölmusufé eða bitlinga og vegtyllur?

Upphaf endaloka samfélagsins er þegar helmingur þess trúir að eigin vinnuframlag sé óþarft vegna þess að hinn helmingurinn muni sjá þeim farborða. Skapandi helmingurinn sér því fram á tilgangsleysi eigin vinnuframlags þar sem aðrir uppskera afraksturinn.

Groucho Marx sagðist aldrei vilja tilheyra hópi sem vildi hafa einstakling eins og hann innan sinna raða. Er Viðskiptaráð félagsmönnum sínum samboðið?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.12.2017 - 21:26 - FB ummæli ()

Furðufréttir úr Árborg

Nýlega birtist á forsíðu morgunblaðsins undarleg frétt um ,,fordæmalausa fjölgun“ íbúa í Árborg sem nýlega var á gjörgæsludeild félagsmálaráðuneytisins ásamt fleiri sveitarfélögum á leið í greiðsluþrot.

Nýr meirihluti sem tók við stjórnartaumunum árið 2010 var því nauðbeygður til þess að skera niður úgjöld sem samkvæmt viðteknum lögmálum stjórnsýslufræða hefði því átt að þýða að skerða hefði þurft þjónustu við íbúa. Við nánari athugun kom þó í ljós að útgjöld jafngiltu ekki þjónustu.

Af þeim aðgerðum sem gripið var til má nefna:

  • Stjórnunarstöðum var fækkað um 50%
  • Framkvæmdastjóri sveitarfélagsins tók við hlutverki bæjarstjóra.
  • Yfirbygging á skólastarfi eins og skólaskrifstofa var aflögð.
  • Starf umhverfisfulltrúa sem stundaði m.a. rannsóknir á áhrifum af bráðnun Grænlandsjökuls á sveitarfélagið var lagt niður.
  • Fjöldi gæluverkefna var aflagður og skuldir greiddar niður.
  • Engin býr á tjaldstæðum sveitarfélagsins.
  • Skattar voru lækkaðir.

Í framhaldinu hefur svo íbúum fjölgað enda þjónusta hins opinbera í engu síðri en áður sem meðal annars birtist í betri útkomu úr Pisa könnun nemenda, (eitt þriggja sveitarfélaga á landinu) og aukinni ánægju íbúa samkvæmt mælingu Gallup.

Niðurstöður Gallup

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 19.11.2017 - 00:49 - FB ummæli ()

Svör til þess er ekki veit

Steingrímur J Sigfússon varpar upp nokkrum athyglisverðum spurningum í pistli í Morgunblaðinu undir þeim formerkjum að þar ,,spyrji sá er ekki veit” Grundvallarspurning Steingríms er hvort það fái staðist að flokkar geti kennt sig við hugtök eins og framfarir, frelsi, jafnvel liti, og með þeirri aðgreiningu gefið til kynna að aðrir flokkar séu andstæðingar slíkra markmiða. Til dæmis ef einn flokkur segist vera „grænn“ séu aðrir flokkar ekki grænir, svo dæmi sé tekið af handahófi.

Merkimiðapólitík

Dæmi sínu til stuðnings nefnir Steingrímur hvort „brennivín í búðir“ geti flokkast sem frelsismál og spyr hvort svonefnd lýðheilsusjónarmið séu þá andstæð frelsi. Stjórnmálaflokkar sem kenna sig við einstaklingsfrelsi, viðskiptafrelsi og skýra þrískiptingu ríkisvalds eru í öllum grundvallaratriðum flokkar framfara og hamingju. Þetta hafa ótal rannsóknir og tölfræðiúttektir, þar sem borin eru saman ríki, sem aðhyllast stjórnarfar Steingríms og félaga, og hinna, sem fetað hafa braut frelsisins, leitt í ljós. Stjórnmálamenn eins og Steingrímur, sem berjast gegn öllum slíkum málum, eru að jafnaði andstæðingar hagsældar, hamingju og framfara. Auðvitað hafa þeir það ekki að markmiði, en það er óhjákvæmileg afleiðing stefnu þeirra. Ítrekuð og gróf brot Steingríms og félaga á stjórnsýslulögum, eins og með því að siga skattyfirvöldum á pólitíska andstæðinga, grafa svo aukin heldur undan réttarríkinu, sem setur bæði einstaklingana og ríkisheildina í hættu.

Ef leita á skýringa á heilögu stríði Steingríms gegn framförum, stendur sú nærtækust að fyrirspyrjandinn Steingrímur „ekki veit“ og vill ekki vita. Steingrímur var á móti Leifsstöð af því að hann hafði eðli málsins samkvæmt aldrei ferðast í gegnum flugstöðina óbyggða. Steingrímur hafði aldrei lent í því að vera krafinn um greiðslu á tilhæfulausri fjárkröfum á borð við Icesave og vissi því ekki að í slíkum málum leita siðaðir menn til dómstóla.

Reynsluheimur forsjárhyggjusinna

Steingrímur hafði aldrei smakkað bjór á bjórkrá heima í Þistilfirði, nú eða upplifað notalega stund með vinum á þess háttar stað og því datt honum aldrei annað til hugar en að berjast hatrammlega gegn bjórnum og því að aðrir mættu neyta hans í friði fyrir sér. Steingrímur hlustaði hinsvegar á forsjárrök lýðheilsugeirans sem sannfærði hann (og flesta aðra) um að unglinga- og vinnustaðadrykkja færi hér algerlega úr böndunum með tilheyrandi ófarnaði. Þó svo að engar vísindalegar sannanir lægju að baki slíkum álitum frekar en nú þegar viðskiptafrelsi með áfengi er til umræðu. Í því máli treystir Steingrímur einfaldlega ekki á getu einstaklinga til að ráða sínum eigin málum enda væri minni eftirspurn eftir honum og hans líkum í framhaldinu.

Steingrímur spyr hvort „brennivín í búðir“ sé spurning um frjálslyndi. Því er til að svara að þó svo að Steingrímur ekki viti, þá er brennivín, bjór og önnur vín reyndar löngu komin í almennar verslanir hér á landi, nánar tiltekið inni á bensínstöðvum (Kirkjubæjarklaustri), barnafataverslunum (Ólafsvík) og matvöruverslunum, en afgreiðslufólkið við þann enda búðarborðsins eru ríkisstarfsmenn og frekari kröfur um „lýðheilsusjónarmið“ virðist Steingrímur ekki gera. En af því að Steingrímur spyr er hægt að benda honum á eitt stakt dæmi, bara svona til umhugsunar: Á myndinni að neðan má sjá nokkrar vínbúðir. Ein er einkarekin þar sem „brennivíni“ og öðru víni er komið fyrir í aflokuðu rými. Í ríkisverslununum er víninu hinsvegar komið fyrir á haganlegan og söluhvetjandi hátt, gegnt matvöruverslun og svo innan um sælgæti, snyrtivörur og leikföng.

Áfengi í ríkisbúð í flugstöð.    –    Áfengi í ríkisbúð í matvöruverslun á Þórshöfn   –    Áfengisverslun í Costco

 

Svo skemmtilega vill til að Steingrímur var einmitt æðsti yfirmaður Leifsstöðvar þegar brottfararsalnum var breytt í einn áfengisranghala og smökkunarborð með áletrununinni ,,We want you to taste” komið fyrir í komusalnum, allt vafalaust samkvæmt lýðheilsumarkmiðum fjármálaráðherrans.

Hærri áfengisskattur-lægra vöruverð!

Inni í hinni forboðnu einkareknu verslun í Costco eru sömu vörur til sölu og seldar eru í ríkiseinokunarverslunum Steingríms nema varlega áætlað um 20% ódýrar. Sú staðreynd sýnir að hægt væri að hækka áfengisgjald um 6 milljarða án þess að hækka vöruverð!

Þó svo að Steingrími sé auðvitað sléttsama um aukna kaupgetu almennings (öðru nafni framfarir), vitum við að tækifæri til skattahækkana láta VG liðar ekki framhjá sér fara, (auk þess sem sala á eignum ÁTVR mætti nota t.d. til að niðurgreiða nýja málmbræðslu á Bakka svo dæmi sé tekið af handahófi.) Ef Steingrímur myndi spyrja Samkeppniseftirlitið hvort einokunarverslun geti verið neytendum hagfelld, fengi hann vafalítið upplýsingar um að eini tilgangur þeirrar stofnunar er eimitt að fyrirbyggja slíka starfsemi sem hið opinbera sjálft stundar.

Rétt eins og aðrir sem hag hafa af helsi, tekur Steingrímur hinsvegar einokun umfram frjálsa samkeppni, rétt eins og bjórlíkið umfram alvöru bjór forðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.10.2017 - 11:06 - FB ummæli ()

Opið bréf til Ragnars Kjartanssonar

Sæll Ragnar. Mér finnst þú ekki bara frábær listamaður heldur afskipti þín af stjórnmálum einhver þau skemmtilegustu frá því að Jón Gnarr var og hét sem hugsjónamaður.

Þú ert í framboði fyrir VG og styður í verki tillögur flokksins um aukin afskipti hins opinbera af öllum lífsháttum landa þinna auk hærri skatta og jöfnunar ofan frá sem er vel enda treysti ég engum betur til að stjórna mínum lífsháttum í framtíðinni en einmitt Steingrími J Sigfússyni. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir að þú sért sammála stefnu flokksins í fortíð jafnt sem framtíð og sért því einlægur andstæðingur litasjónvarps, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og bjórsins en myndir glaður styðja nýja aðildarumsögn að ESB og leggja nýjar ,,Icesave“ byrðar á almenning færi svo að sambærilegar kröfur byðust utan úr heimi sem tryggt gætu inngöngu. En framtíðin er víst ekki eins og hún var og efni þessa bréfs varðar einmitt tillögur að réttlátara samfélagi sem mér finnst að ykkur í VG hafi yfirsést.

Almennt leggja vinstri menn ekkert til atvinnuuppbyggingar eða hagvaxtar heldur verja sér hlutverk afætunnar, sníkjudýrsins sem nærist á afrakstri þess sjálfsaflafjár sem fólk vinnur sér inn – en ekki þú sem ert búinn að meika það big time, jafnt innanlands sem utan. Maður eins og þú sem ert sannanlega komin með það sem vinstri menn kalla ,,ofurtekjur“ af afrakstri þinnar vinnu ert jafnframt orðin meinsemd í þjóðfélaginu að mati þinna skoðanabræðra, svona svipað og dúkkulísudæmið þarna á Ísafirði sem er að rústa Gini stuðlinum um gervalla Vestfirði.

Af einhverjum ástæðum hefur vinstri mönnum yfirsést að leggja virðisaukaskatt á list auk þess sem listaverk hafa verið undanþegin auðlegðarskatti (ætti með réttu að heita útlegðarskattur) og veit ég að þú myndir vilja efla þann ,,tekjustofn“ sem hið opinbera hefur misst af, er það ekki annars?

Jöfnuður innan listageirans er einnig gríðarlegt vandamál, ekki bara heilt yfir heldur líka kynbundinn. Myndir þú ekki styðja að tekin yrði upp jafntekjuvottun hjá listamönnum eins og í öðrum greinum?

Nú er svo komið að hróplegt óréttlæti er til staðar þar sem einungis hinir efnameiri geti keypt þína list, nokkuð sem kalla mætti skandinavískann sársauka í því norræna velferðarkerfi sem þið í VG viljið skapa. Væri ekki  ráð að fyrir hvert listaverk sem þú seldir, myndirðu ánafna öðru til þeirra efnaminni án endurgjalds?

En yfir á grænu hliðina. Við vitum að þið í VG viljið græða á daginn og grilla á kolagrilli á kvöldin. Ég veit jafnframt að við erum sammála um að af þeim 9.500 milljónum sem þið höfðuð af samlöndum okkar (öðru nafni skattstofnum) var listilega vel varið í að tryggja gróðann af  málmbræðslunni á Bakka til erlendra eigenda.

En af einhverjum ástæðum eru kol undanþegin kolefnisgjaldi þó að kol séu almennt álitin það eldsneyti sem veldur verstri mengun og því engin ástæða til að ,,láta náttúruna njóta vafans“. Við vitum þó auðvitað báðir að það á ekki við um Húsavík enda ,,engin sem lítur á Bakka sem stóriðju“ eins og hún Skatta Kata réttilega sagði.

Árlega eru flutt inn 120.000 tonn af kolum án kolefnisgjalds og mun Bakki einungis bæta 60.000 tonnum þar við í fyrsta áfanga. Þó að við vitum að þið í VG viljið alls ekki skattleggja stóriðjuna, en hvað með kolin sem fara á kolagrillinn ykkar á milli þess sem þið græðið landið, vantar ekki einhvern norrænan sársauka til að draga úr þeim ósóma?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.10.2017 - 17:15 - FB ummæli ()

,,Þingmenn Eldast Illa“

Þeir sem efast um þessa fullyrðingu hins unga þingmanns Steingríms J Sigfússonar í viðtali við

,,Hvað ef sjávarútvegurinn nyti alls afrakstursins sjálfur?“

Helgarpóstinn 1983 þurfa ekki annað en að hlusta á sama þingmann nú 34 árum síðar.

Líklega á engin jafn langan lista af sviknum kosningaloforðum og Steingrímur og þarf ekki að leita lengra heldur en til ,,norrænu velferðarstjórnarinnar“ Um efndir hugsjóna flokksins hélt samflokksmaður Steingríms, Atli Gíslason stutta tölu á Alþingi:

  1. Svik með umsókn um ESB og skilgetið afkvæmi þess Icesave, sem Steingrímur barðist fyrir í þeim eina tilgangi að koma þjóðinni í ESB.
  2. Stóriðja á Bakka, í nafni umhverfisverndarstefnu VG
  3. Skattaafsláttur til stóriðju í nafni skattastefnu VG um að skattleggja allt atvinnulíf.
  4. 11,5 milljarðar í að kaupa upp Sjóvá (Atli hefði getað bætt við stofnun SpKef)
  5. Bankakerfi endurreist með víkjandi lánum og afhent vogunarsjóðum
  6. Seldu skúffufyrirtækinu Magma auðlindir á Reykjanesskaga

Svar Steingríms til flokksfélaga síns var með málefnalegasta móti:

Í enskri tungu er að finna orðið pathetic, ég hygg að ágæt íslenskun á því sé lítilmótlegt

Í viðtalinu við Helgarpóstinn segir hinn ungi Steingrímur:

Það er alltaf verið að tala um tap í sjávarútvegi en aldrei það fjármagn sem fært er til í þjóðfélaginu frá sjávarútveginum. Hvað ef sjávarútvegurinn nyti alls afrakstursins sjálfur? Hvar ætti þá að taka peninga fyrir innflutningi? Verða þeir til af engu? Hvaðan urðu peningar t.d. til í Seðlabankahöllina; bjó Jóhannes Nordal þá til? Ég segi nei“.

Þetta eru auðvitað merkileg orð komandi frá manni sem sér ekkert annað en skattpíningu, nema auðvitað frá stóriðjunni á Bakka sem þingmaðurinn tryggði til að kaupa sér atkvæði í eigin kjördæmi.

Stórgrósserarnir leggja ekki lengur áhættufé í útgerð. Peningarnir leita þangað sem áhættan er minnst og afraksturinn mestur. Þetta er spurning um hvaða óskráð lög eigi að gilda, gróðahyggjan eða mannleg sjónarmið. Mér finnst verið að boða komu nýs Guðs og að Mammoni sé nú sungið meira lof og meiri dýrð en hér hefur áður þekkst“.
Steingrímur boðar nú hækkun fjármagnstekjuskatts sem í dag er 20% auk 1,5% eignaupptöku á ári. Slík skattlagning þýðir á mæltu máli að þegar fjárfestar geta vænst um 2% raunvaxta, mun skattlagning nema meira en 95% af tekjum og það áður en einhver lætur sér detta í hug að greiða sér út arð.
,,Stórgrósserinn“ í þessu dæmi er auðvitað enginn annar en Steingrímur sem ætlar að kaupa sér ,,áhættulítil“ atkvæði með því að ganga milli bols og höfuðs á einkaframtaki.
Þannig eldist Steingrímur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.9.2017 - 13:48 - FB ummæli ()

Nútímalausnir

Sauðfjárráðherra segir að gamaldagslausnir á vanda sauðfjárbænda dugi ekki til. Nær sé að færa bændum 650 milljónir að gjöf frá skattgreiðendum.

Unnsteinn Snorri Snorrason, framvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, segir að því sé ekki um „endurtekið efni“ að ræða.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur