Sunnudagur 19.11.2017 - 00:49 - FB ummæli ()

Svör til þess er ekki veit

Steingrímur J Sigfússon varpar upp nokkrum athyglisverðum spurningum í pistli í Morgunblaðinu undir þeim formerkjum að þar ,,spyrji sá er ekki veit” Grundvallarspurning Steingríms er hvort það fái staðist að flokkar geti kennt sig við hugtök eins og framfarir, frelsi, jafnvel liti, og með þeirri aðgreiningu gefið til kynna að aðrir flokkar séu andstæðingar slíkra markmiða. Til dæmis ef einn flokkur segist vera „grænn“ séu aðrir flokkar ekki grænir, svo dæmi sé tekið af handahófi.

Merkimiðapólitík

Dæmi sínu til stuðnings nefnir Steingrímur hvort „brennivín í búðir“ geti flokkast sem frelsismál og spyr hvort svonefnd lýðheilsusjónarmið séu þá andstæð frelsi. Stjórnmálaflokkar sem kenna sig við einstaklingsfrelsi, viðskiptafrelsi og skýra þrískiptingu ríkisvalds eru í öllum grundvallaratriðum flokkar framfara og hamingju. Þetta hafa ótal rannsóknir og tölfræðiúttektir, þar sem borin eru saman ríki, sem aðhyllast stjórnarfar Steingríms og félaga, og hinna, sem fetað hafa braut frelsisins, leitt í ljós. Stjórnmálamenn eins og Steingrímur, sem berjast gegn öllum slíkum málum, eru að jafnaði andstæðingar hagsældar, hamingju og framfara. Auðvitað hafa þeir það ekki að markmiði, en það er óhjákvæmileg afleiðing stefnu þeirra. Ítrekuð og gróf brot Steingríms og félaga á stjórnsýslulögum, eins og með því að siga skattyfirvöldum á pólitíska andstæðinga, grafa svo aukin heldur undan réttarríkinu, sem setur bæði einstaklingana og ríkisheildina í hættu.

Ef leita á skýringa á heilögu stríði Steingríms gegn framförum, stendur sú nærtækust að fyrirspyrjandinn Steingrímur „ekki veit“ og vill ekki vita. Steingrímur var á móti Leifsstöð af því að hann hafði eðli málsins samkvæmt aldrei ferðast í gegnum flugstöðina óbyggða. Steingrímur hafði aldrei lent í því að vera krafinn um greiðslu á tilhæfulausri fjárkröfum á borð við Icesave og vissi því ekki að í slíkum málum leita siðaðir menn til dómstóla.

Reynsluheimur forsjárhyggjusinna

Steingrímur hafði aldrei smakkað bjór á bjórkrá heima í Þistilfirði, nú eða upplifað notalega stund með vinum á þess háttar stað og því datt honum aldrei annað til hugar en að berjast hatrammlega gegn bjórnum og því að aðrir mættu neyta hans í friði fyrir sér. Steingrímur hlustaði hinsvegar á forsjárrök lýðheilsugeirans sem sannfærði hann (og flesta aðra) um að unglinga- og vinnustaðadrykkja færi hér algerlega úr böndunum með tilheyrandi ófarnaði. Þó svo að engar vísindalegar sannanir lægju að baki slíkum álitum frekar en nú þegar viðskiptafrelsi með áfengi er til umræðu. Í því máli treystir Steingrímur einfaldlega ekki á getu einstaklinga til að ráða sínum eigin málum enda væri minni eftirspurn eftir honum og hans líkum í framhaldinu.

Steingrímur spyr hvort „brennivín í búðir“ sé spurning um frjálslyndi. Því er til að svara að þó svo að Steingrímur ekki viti, þá er brennivín, bjór og önnur vín reyndar löngu komin í almennar verslanir hér á landi, nánar tiltekið inni á bensínstöðvum (Kirkjubæjarklaustri), barnafataverslunum (Ólafsvík) og matvöruverslunum, en afgreiðslufólkið við þann enda búðarborðsins eru ríkisstarfsmenn og frekari kröfur um „lýðheilsusjónarmið“ virðist Steingrímur ekki gera. En af því að Steingrímur spyr er hægt að benda honum á eitt stakt dæmi, bara svona til umhugsunar: Á myndinni að neðan má sjá nokkrar vínbúðir. Ein er einkarekin þar sem „brennivíni“ og öðru víni er komið fyrir í aflokuðu rými. Í ríkisverslununum er víninu hinsvegar komið fyrir á haganlegan og söluhvetjandi hátt, gegnt matvöruverslun og svo innan um sælgæti, snyrtivörur og leikföng.

Áfengi í ríkisbúð í flugstöð.    –    Áfengi í ríkisbúð í matvöruverslun á Þórshöfn   –    Áfengisverslun í Costco

 

Svo skemmtilega vill til að Steingrímur var einmitt æðsti yfirmaður Leifsstöðvar þegar brottfararsalnum var breytt í einn áfengisranghala og smökkunarborð með áletrununinni ,,We want you to taste” komið fyrir í komusalnum, allt vafalaust samkvæmt lýðheilsumarkmiðum fjármálaráðherrans.

Hærri áfengisskattur-lægra vöruverð!

Inni í hinni forboðnu einkareknu verslun í Costco eru sömu vörur til sölu og seldar eru í ríkiseinokunarverslunum Steingríms nema varlega áætlað um 20% ódýrar. Sú staðreynd sýnir að hægt væri að hækka áfengisgjald um 6 milljarða án þess að hækka vöruverð!

Þó svo að Steingrími sé auðvitað sléttsama um aukna kaupgetu almennings (öðru nafni framfarir), vitum við að tækifæri til skattahækkana láta VG liðar ekki framhjá sér fara, (auk þess sem sala á eignum ÁTVR mætti nota t.d. til að niðurgreiða nýja málmbræðslu á Bakka svo dæmi sé tekið af handahófi.) Ef Steingrímur myndi spyrja Samkeppniseftirlitið hvort einokunarverslun geti verið neytendum hagfelld, fengi hann vafalítið upplýsingar um að eini tilgangur þeirrar stofnunar er eimitt að fyrirbyggja slíka starfsemi sem hið opinbera sjálft stundar.

Rétt eins og aðrir sem hag hafa af helsi, tekur Steingrímur hinsvegar einokun umfram frjálsa samkeppni, rétt eins og bjórlíkið umfram alvöru bjór forðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur