Þriðjudagur 15.02.2011 - 20:41 - FB ummæli ()

Afrakstur heilaþvotts lánadrottna

Umræðan um Icesave skuldina hefði getað orðið mun betri og dýpri. Umræðan hefði mun frekar átt að snúast um eðli, sögu og afleiðingar skulda. Að velta fyrir sér hvað er skuld og hvort við eigum að greiða viðkomandi skuld og lang mikilvægast hvort við getum borgað skuldina. Slík umræða hefði getað fært okkur nær jöfnuði á heimsvísu. Því miður hefur umræðan snúist mest um hvernig við munum borga skuldina.

Að krefjast þess að almennir skattgreiðendur fórni framtíðartekjum og eignum sínum til að greiða skuld sem einkabanki framkallaði er rangt og fengi aldrei staðist fyrir dómi. Sennilegast yrði málinu vísað frá sökum skorts á brotlegu athæfi íslenskra skattgreiðenda. Innst inni eru flestir sammála þessu því réttlætiskennd flestra er svipuð.

Mörg fátæk ríki í dag eru fátæk sökum skulda. Lánadrottnar eru oft á tíðum þau lönd og það Evrópusamband sem vill að við greiðum Icesave. Fyrir þeim væri það stílbrot ef við samþykktum ekki skuldina eins og hefð er fyrir hjá fyrrum nýlendum þeirra. Það sem gerir Icesave sögulegt í þessum samanburði er að Íslendingar hafa möguleika á að kjósa um skuldina og þar með möguleika á að hafna henni. Fátæk lönd heimsbyggðarinnar sem eru að kafna í skuldum ríku landanna hafa aldrei haft möguleika á slíku. Það sem gerir Icesave enn sögulegra er að vinstrið á Íslandi sem barist hefur fyrir afnámi fátæktar um allan heim úr klóm heimskapitalismans vill endilega að íslenskir skattgreiðendur fari sömu leið og fátækir þjáningabræður þeirra út um allan heim.

Þess vegna er umræðan um Icesave brengluð. Vinstri menn ættu eðli málsins samkvæmt að vera að berjast með lítilmagnanum gegn ósvífnum pilsfaldakapitalistum. Það sem afhýðir sósíalisma af heilabúi vinstri manna í dag er ESB umsókn Íslands. Það sem einkennir flesta stuðningsmenn Icesave er að þeir eru stuðningsmenn ESB. Það er mjög líklegt að öll þjóðin segði nei við Icesave ef við hefðum aldrei sótt um ESB.

Þess vegna snýst Icesave um ESB aðild og umræðan markast af því. Þegar Icesave skuldin er orðin að staðreynd gerist í raun tvennt. Í fyrst lagi verður Icesave komið upp á borðið og er orðin raunveruleg skuld sem þarf að takast á við með fjárlagagerð á Alþingi Íslendinga. Hitt er og er bein afleiðing af því fyrra er að þá er Icesave skuldin orðin líkkistunagli fullveldis ríkisins Íslands. Það sem verra er að með samþykki Icesave skuldarinnar á Alþingi Íslendinga eru vinstri menn að svifta fátæka meðbræður okkar um allan heim þeirri von sem vaknaði í brjósti þeirra með andstöðu okkar við Icesave. Þeirri von að fordæmi okkar gæti leyst þá undan skuldahlekkjum þeirra.

Þess vegna hefði umræðan um Icesave átt að snúast um eðli, sögu og afleiðingar skulda.

Því er nefnilega þannig farið að þau lönd sem sitja í skuldasúpu og geta ekki brauðfætt þegna sína af þeim sökum tóku á sig skuld sem virtist lítil og jafnvel viðráðanleg í upphafi. Höfnum Icesave öllum til hagsbóta, nema lánadrottnum og stuðningmönnum þeirra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur