Fimmtudagur 17.02.2011 - 23:06 - FB ummæli ()

Þeir fiska sem róa.

Þetta er grein sem ég skrifaði í júní 2009 og birtist skömmu síðar í Morgunblaðinu. Það voru sárafáir sem skildu hvað ég var að tala um. Ég endurbirti hana núna og tel að fleiri skilji í dag hvað ég er að ræða um, því miður.

Veiðiskapur er sport, beitan er valin af innsæi, fiskurinn þreyttur og síðan dreginn að landi. Þar fær hann síðan náðarhöggið.

Við vorum skuldlaus þjóð og því nokkuð sjálfstæð. Í dag erum við skuldug og ósjálfstæð þjóð. Við bitum á agnið, afbrot okkar var að láta glepjast en núna situr öngullinn fastur og það er sárt. Það er verið að þreyta okkur núna. Stýrivextirnir lækka ekki neitt að ráði. Afleiðingin er að fleiri fyrirtæki komast í þrot. Atvinnulausum fjölgar. Þar með er kominn ásættanlegur grundvöllur fyrir launalækkunum. Af þeim sökum minnka tekjur ríkisins verulega, bæði beinir og óbeinir skattar minnka. Þar með er einnig kominn grundvöllur fyrir launalækkun opinberra starfsmanna og síðan verulegur niðurskurður hjá hinu opinbera. Til að tryggja þetta ástand til frambúðar munum við samþykkja IceSave samninginn í sumar.

Við verðum að framleiða eins mikið af vörum sem gefa gjaldeyri og við getum. Ál og fisk. Það viljum við gera til að standa í skilum. Það vilja líka þeir að við gerum sem voru svo góðhjartaðir að lána okkur til að bjarga okkur frá vandræðunum, sem öngullinn veldur okkur. Því vinnur veiðimaðurinn ötull að því að hámarka afrakstur veiði sinnar. Fljótlega mun þjóðin framleiða eins mikið og hún getur. Þjóðinni mun vera greitt eins lágt kaup og framast er unnt til að halda framleiðslukostnaðinum niðri. Það mun hámarka afraksturinn úr verksmiðjunni Íslandi. Það mun gera okkur kleift að greiða niður lánin og taka ný. Í stað þess að hagnaður okkar, vegna vinnu okkar, fari í okkar vasa mun hann streyma óhindrað í vasa lánadrottna okkar.

Nú er okkur bent á að með aukinni stóriðju muni okkur ganga betur að greiða skuldir okkar. OECD er búið að gefa línuna. Til stóriðju þarf lán. Lánveitendurnir skella okkur í ruslflokk lánshæfismatsins til að stilla af vaxtabyrði okkar, sér í hag. Síðan mun hver stóriðjan af annarri fylgja í kjölfarið og við höfum ekkert um málið að segja. Lánadrottnarnir stjórna og stýra, þannig er það hjá gjadþrota heimilum og eins er það hjá gjaldþrota þjóðum.

Eina spurningin sem út af stendur er hvort eða hvenær þeim þóknast að veita okkur náðarhöggið. Sennilega munu þeir ekki gera það. Mun arðvænlegra er að setja okkur í kvíar til hámarks nytja. Að velta því fyrir sér hvað Davíð, Solla eða Geir gerðu er tímasóun. Jafn glórulaust er að velta sér upp úr því hvað Jóhönnu dettur í hug. Önglar hafa þá náttúru að sitja fastir. Veiðimaðurinn á næsta leik.

Niðurstaðan er sú að íslensk þjóð er komin í kvíar lánadrottna sinna. Við munum strita og púla þangað til síðasta lánið er greitt og það mun taka okkur marga áratugi. Hver er sinnar gæfu smiður…..

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur