Föstudagur 17.06.2011 - 22:13 - FB ummæli ()

17. júní og Samfylkingin

Grikkir eru í miklum vanda þessa dagana og þurfa að taka svipaða ákvörðun og Jón Sigurðsson bræddi með sér skömmu áður en hann stóð upp úr stólnum og sagði, „vér mótmælum allir“. Á ég að standa upp, hugsaði sjálfsagt Jón, og gera mig að fífli fyrir framan establismangið og standa frekar á rétti þjóðar minnar.

Á sínum tíma skildi herforingjastjórn Grikkja eftir sig skuldabagga. Seinni tíma stjórnvöld í Grikklandi þurftu að berjast við þann skuldabagga en í stað þess að skattleggja yfirstéttina juku þau á halla ríkisins. Yfirstéttin hafði notið forréttinda í tíð herforingja og skattleysið bar vott um áframhaldandi forréttindi fram yfir almenning.

Þýskir og franskir bankar dældu inn lánum til Grikklands í bólunni, lánum sem þeir hefðu átt að vita að yrði erfitt að endurgreiða, og núna krefjast þeir fullra endurgreiðslna af            lánunum. Ekki frá þeim aðilum sem þeir lánuðu á sínum tíma því þeir eru gjaldþrota eða geta ekki endurgreitt lánin í dag.

Þess vegna hefur stór hluti skulda einkaaðila í Grikklandi verið þjóðnýttur og ESB hefur fóðrað ríkissjóð Grikkja með lánum til að halda honum á floti vegna mikils halla. Halla sem er tilkominn vegna skulda einkaaðila. Lánin koma frá frönskum og þýskum einkabönkum. Þess vegna fer fjármagnið í hringi í ESB undir handleiðslu Seðlabanka ESB. Skuldir banka og annarra einkaaðila í Grikklandi eru teknar yfir af gríska ríkinu og til að geta staðið í skilum tekur gríski ríkissjóðurinn lán hjá sömu bönkum og töpuðu skuldum sínum hjá einkaaðilum í Grikklandi. Stóru bankarnir hafa bara útvegað sér betri skuldara, þ.e. grísku þjóðina.

Mikið hefði það verið óskandi að Grikkir hefðu verið latari við að skuldsetja sig.

Fjármagnseigendur í Evrópu og Seðlabankis ESB starfa sem tvíburar að því að fullnýta þetta góða tækifæri sem gefst til að sópa til sín eignum gríska ríkissins upp í skuldir.

Þegar Trichet Seðlabankastjóri ESB fjallar um þessa erfiðleika grísku þjóðarinnar þá segir hann að Grikkir verði að standa í skilum. Þar sem Seðlabanki ESB má ekki fjármagna halla ríkissjóða þá verða Grikkir að fá lán hjá einkabönkum Evrópu. Trichet segir að til að geta staðið í skilum verði Grikkir að verða meira samkeppnishæfir. Það merkir að ef afgangur af þjóðarframleiðslu dugir ekki fyrir skuldum verður að auka afgang af þjóðarframleiðslu. Til að auka afganginn þarf að minnka kostnað og hann er eftirfarandi:

  1. Laun,
  2. Félagslegir styrkir og bætur,
  3. Örorka,
  4. Sjúkradagpeningar,
  5. Eftirlaun,
  6. Heilbrigðiskerfið,

Ef minnkun á kostnaði dugir ekki þarf að auka tekjur ríkissjóðs með;

  1. Hækkun á launaskatti,
  2. Auknum óbeinum sköttum,

Ef þetta dugir ekki verða Grikkir að selja eigur sínar:

  1. Land og eyjar,
  2. Ferðamannastaði,
  3. Vatnsveitur,
  4. Rafmagnsveitur,
  5. Samgöngur,
  6. Símafyrirtæki,
  7. Ofl sem Grikkir kunna að eiga.

Þegar öllu þessu er lokið hvað er þá eftir af grísku þjóðinni?

Þetta er krafa Seðlabanka ESB og þeir fylgja þessum kröfum sínum eftir af fyllstu hörku. Seðlabanki ESB vinnur fyrir hagsmuni stóru einkabankanna í Þýskalandi og Frakklandi. Það er að minnsta kosti ekki hagsmunir almennings í Grikklandi sem hafðir eru í huga. Það eru skuldir einkaaðila sem eru ríkisvæddar í Grikklandi til að stóru bankarnir missi ekki spón úr aski sínum.

Það eru runnar tvær grímur á Grikki og þeir hika.

Aðferðir bankakerfisins, við að skuldsetja þjóðir og afnema árangur stéttabáráttu liðinna áratuga og auk þess í leiðinni til að hrifsa til sín eigur almennings í þeim tilgangi að hámarka gróða sinn, hafa engin tengsl við hefðbundna hagfræði né eðlileg viðskipti manna á milli.

Það er ekki nema von að venjulegu fólki blöskri þessi útgáfa af evrópsku samstarfi.

Tricher hefur séð það fyrir og hefur plan í bakhöndinni. Hans hugmynd er að stjaka lýðræðislega kjörnum fulltrúm almennings í burtu og setja í staðinn bankatækna. Bankatæknarnir munu ákvarða hvernig þjóðir Evrópu skulu standa í skilum við einkabankana. Bankatæknar, framkvæmdavald ESB og Seðlabanki ESB munu fá vald til að ákvarða fjármál þjóðríkja í ESB. Þetta vald á að nota til að neyða sjálfstæðar þjóðir til að endurgreiða einkabönkum án tillits til hversu miklar fórnir þær þurfa að færa.

Það er ekki minnst einu orði á Evrópuþingið eða löggjafasamkundur viðkomandi þjóða, stofnanir sem almenningur hefur falið vald sitt tímabundið til að sinna stjórnun fyrir sig. Fjármálaelítan ætlar að frátengja lýðræðið í Evrópu og notar til þess Evrópusambandið. Litið er á hina kjörnu fulltrúa sem þránd í götu góðrar efnahagsstjórnunar og aga í ríkisfjármálum sem allt miðar að því að fóðra einkabanka með öllum hugsanlegum afgangi af þjóðarframleiðslu viðkomandi ríkja.

Ef Grikkir hika þá fá þeir ekki aur og bankakerfi þeirra hrynur. Ef þeir segja nei þá verður þeim hent út úr evrunni og fá drökmuna sína aftur, svo til verðlausa. Þegar nýjar reglur Trichets og Evrópusambandsins verða að raunveruleika munu bankatæknar taka þessar ákvarðanir fyrir Grikki og þing Grikkja mun ekki hafa neina aðkomu að þeim ákvörðunum.

Samfylkingin á Íslandi vill ólm troða íslenskri þjóð inn í einræði bankakerfis Evrópu. Þá munu bankatæknar Trichets ákvarða hvort við borgum Icesave og aðrar skuldir einkabanka. Þar með mun Samfylkingin geta gefið Alþingi Íslendinga, Forseta lýðveldisins og íslenskri þjóð langt nef undir handajaðri Trichets og bankaelítu Evrópu. Þá munu einkabankar Evrópu með ESB sem sitt verkfæri mata krókinn en almenningur mun þurfa að þræla til að halda í sér lífinu.

Það heitir á fínu máli að „auka hagvöxt“.

Þar með eru allar forsendur til staðar til þess að Jón Sigurðsson rísi upp og endurtaki orð sín, „vér mótmælum allir“. Þar sem formaður Samfylkingarinnar stendur yfir moldum hans í dag verða sennilega aðrir að taka að sér og sýna sama hugrekki og Jón forðum og berjast fyrir fullveldi Íslands.

Skuldsettar evrópskar þjóðir berjast nú fyrir tilveru sinni, berjast fyrir fullveldi sínu. Grikkir heyja hetjulega baráttu á götum og torgum Grikklands. Hvort verður sterkara vilji 85% grísku þjóðarinnar eða jarm establismangsins með blinda fjölmiðla, kvíslinga og aðra álitsgjafa af sama gæðaflokki, allt hórur fjármagnselítu Evrópu.

Við stóðum upp í Icesave málinu og núna er röðin komin að Grikkjum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur