Sunnudagur 05.06.2011 - 20:46 - FB ummæli ()

Ræða á Austurvelli 5 júní 2011.

Við erum venjulegt fólk með margvíslegar pólitískar skoðanir en erum þó öll að nálgast sameiginlega niðurstöðu. Sú niðurstaða hefur leyst úr læðingi þann kraft að þúsundir manna mótmæla víðsvegar um Evrópu og setjast að á torgum borga sinna. Við á Íslandi tökum þátt með því að safnast hér saman á Austurvelli í dag. Við erum torg-töku-menn Íslands.

Hver er ástæðan fyrir því að allar þessar þúsundir manna tjalda á torgum Evrópu. Ástæðan er sú sannfæring að bankar og stjórnmálamenn einoki valdið í samfélagi okkar og að við almenningur séum svift því valdi sem lýðræðisskipunin segir að sé okkar.

Demókratía merkir vald fólksins en þrátt fyrir það heyrist ekki rödd okkar, það er ekki hlustað á okkur og hagsmunir okkar ekki virtir viðlits.

Það hefur orðið einkar áberandi í Evrópu á síðustu árum að það skiptir ekki miklu máli hverjum almenningur hefur treyst fyrir valdi sínu. Þrátt fyrir stjórnarskipti hér og þar í Evrópu breytist lítið. Sama uppskriftin er notuð eftir sem áður.

Stjórnmálamennirnir ljúga að okkur fyrir og eftir kosningar og fara svo í einu og öllu eftir því sem bankakerfið segir þeim að gera. Við erum þó ekki alveg hunsuð því við erum látin bera ábyrgðina á því hvernig er komið fyrir heiminum og skulum borga fyrir vitleysuna.

Þessi upplifun að við höfum verið rænd valdinu okkar og því sé komið fyrir í hirslum bankakerfisins hefur sameinað almenning frá öllu litrófi stjórnmálanna. Um er að ræða slíkt grundvallarmál og mikið óréttlæti að almenningur hendir af sér óhreinum skikkjum hinna pólitísku flokka og sameinast í kröfunni um að endurheimta lýðræðið.

Við erum aftur komin á tíma einveldis, bankarnir eru kóngarnir eða einvaldið og við erum aftur komin á byrjunarreit.

Venjulegt fólk gerir sér þá grein fyrir því að þá þarf að sameinast.

Það ætti flestum að vera ljóst að lýðræði okkar samanstendur af fjórum valdaþáttum. Löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi, dómsvaldi og bankavaldi. Ég nefni ekki fjölmiðlana sem vald í lýðræði okkar því að bankavaldið keypti þá fyrir lifandis löngu. Núna erum við að gera okkur grein fyrir því að bankavaldið er líka búið að kaupa framkvæmdavaldið og nægjanlega stóran hluta af löggjafarvaldinu til að ná sínu fram.

Þess vegna er bankavaldið sterkasta valdið í þjóðfélagi okkar þrátt fyrir að dómsvaldið maldi aðeins í móinn stöku sinnum.

Þess vegna eigum að sniðganga strengjabrúður bankavaldsins og einhenda okkur í að skilja hvers vegna bankakerfið hefur þessi völd. Að því loknu eigum við að umstafla valdinu til almennings þar sem valdið á heima.

Vald bankanna stafar af því að þeir hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar. Þeir búa til peningana fyrir almenning, fyrir fyrirtæki og fyrir ríkið. Þeir stjórna magni peninga í umferð. Peningur eru búnir til sem skuld því að allir aðilar í samfélaginu verða að fá þá að láni hjá bönkunum, þ.e.a.s. sem skuld.

Ef þú átt peninga á bankabókinni þinni þá eru þeir peningar til vegna þess að einhver annar setti sig í skuld til að hægt væri að búa til þá peninga.

Ef við reyndum að borga skuldirnar og tækjum alla peningana í heiminum og borguðum með þeim skuldirnar væru samt ekki allar skuldirnar greiddar. Aftur á móti þá yrði enginn peningur eftir og við yrðum aftur að fá peniga að láni hjá bönkunum, sem skuld.

Þess vegna aukast alltaf skuldirnar eftir því sem við búum til meiri peninga því allur peningur sem búinn er til, er búinn til sem skuld, skuldirnar okkar. Þess vegna skulda jarðarbúar alltaf meira og meira.

Þess vegna skiptir ekki máli hvað skuldin heitir, krónur, evrur eða dollarar. Því á meðan við viðurkennum skuldina verðum við að borga hana. Meðan við erum sátt við að einkabankar búa til peningana okkar sem skuld erum við í skuldafangelsi og þar inni ríkir ekkert frelsi okkur til handa þó að við fáum kannski að velja nafnið á hlekkina.

Að peningar séu búnir til sem skuld gerir það að verkum að annað hvort er hægt að minnka skuldirnar eða að auka vöxt hagkerfisins. EN það er ekki hægt að gera hvoru tveggja samtímis. Með vextinum er meira búið til af peningum. Með meiri peningum aukast skuldirnar.  Meðan við skiljum ekki þessa svikamyllu bankanna þá sitjum við í skuldafangelsinu.

Þetta þarf ekki að vera svona því það væri mun hagstæðara fyrir almenning að valdið til að búa til peningana okkar sé hjá okkur. Við gætum búið til peninga án skuldsetningar.

Auk þess gætum við kosið okkur fulltrúa til að sinna þessu valdi fyrir okkur eins og við kjósum okkur fulltrúa til að sinna löggjafarvaldinu. Þá hefðum við eitthvað um peningamál að segja. Bankar eru einkafyrirtæki og við höfum ekkert yfir þeim að segja og þess vegna hafa þeir einokun á fjórða valdinu okkar í lýðræðinu okkar og nota valdið okkar sér og sínum til framdráttar.

Einkabankar eru ekki samfélagslega ábyrgir.

Það er þessi grundvallarskilningur sem endurspeglast í núverandi mótmælum víðsvegar um Evrópu. Fyrst verður almenningur að endurheimta vald sitt til að við getum kallað okkur lýðræðisríki. Valdið situr hjá bönkunum og þangað verðum við að sækja það. Þar sem kosningar hafa ekki áhrif á bankana munu fleiri kosningar ekki hnika valdinu frá bönkunum.

Þegar valdið hefur verið endurheimt og við getum síðan endurreist lýðveldið, þá getum við farið að leika okkur með verkfæri lýðræðisins eins og að skilgreina okkur sem rauð gul græn bleik eða blá og takast á um hvernig við ráðstöfum peningunum okkar. Meðan bankarnir hafa einokun á peningunum okkar er út í hött að við séum að rífast um peninga sem við ráðum ekkert yfir.

Sennilega er það þetta sem almenningur í Evrópu er núna að skilja.

Sameinumst nú sem einn maður um að endurheimta lýðræðið okkar.

Það ætti að vera okkur öllum tilhlökkunarefni að fá raunverulegt tækifæri til að rífast svolítið um ráðstöfun peninga, raunverulegt tækifæri til að stunda pólitík. Raunverulegt tækifæri til að vera byltingasinni, umhverfisvænn, frjálshyggjumaður, krati eða framsóknarmaður.

Meðan bankarnir búa til peningana okkar þá er ekki möguleiki að koma pólitískum draumum sínum á koppinn nema að maður selji bönkunum sálu sína.

Evrópa kallar, raunverulegt Evrópusamband er í uppsiglingu,

Íbúar Evrópu, vaknið!
Sköpum betra líf.
Tjáum okkur.
Komum saman.
Breytum öllu.
Látum verða af því!

Berjumst fyrir raunverulegu lýðræði!
Berjumst fyrir fólkið okkar.

Berjumst fyrir börnin okkar,
Berjumst fyrir friði.
Berjumst fyrir framtíð okkar.
Berjumst fyrir uppfyllingu drauma okkar.
Berjumst fyrir betra lífi fyrir heimsbyggðina alla!

og

Ég er vonsvikinn, reiður og bý með uppgefinn þjóð,

Ég tel að hægt sé að breyta ástandinu,

Ég tel að ég geti komið að liði,

Ég tel að við séum sérstök og okkur sé eitthvað annað ætlað en að sitja í skuldafangelsi

Ég trúi því að önnur heimsmynd sé möguleg,

OG, OG ,

Ég veit að ef við stöndum saman þá getum við það!

TÖKUM VÖLDIN ÚR HÖNDUM LÁNASTOFNANA OG FÆRUM ÞAU Í HENDUR FÓLKSINS.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur