Fimmtudagur 16.02.2012 - 23:25 - FB ummæli ()

Grikkland og dýrbítarnir

Mörg grísk börn mæta svöng í skólann og eru svöng allan daginn. Nýlega er hafið starf við skólamáltíðir handa þeim. Tugþúsundir lítilla fyrirtækja hafa farið á hausinn. Þar fór strit og draumar þúsundir fjölskyldna fyrir lítið. Þúsundir ríkisstarfsmanna hafa misst vinnuna. Strax á að segja upp 15.000 manns og til viðbótar 150. 000 fram til 2015. Ríkisstarfsmenn hafa nú þegar þurft að sætta sig verulegar kauplækkanir og fyrirhugað er að lækka laun enn frekar um 22% á næstunni. Eftirlaun sem nú þegar hafa glatað 50% af kaupmætti sínum á einnig að lækka núna um 23%. Starfmenn eru sviftir áunnum réttindum og starfsöryggi sem áunnist hafa með áralangri kjarabaráttu. Starfsmenn eru líka sviftir réttinum til að semja um kaup og kjör. Skattar og gjöld hafa aukist þannig að margir ná ekki endum saman. Velferðakerfi Grikkja var lítið miðað við aðrar Evrópuþjóðir og alvanalegt að foreldrar styrktu börn sín og aldraða foreldra sína. Núna á að skera enn meira niður í mennta-og heilbrigðiskerfinu. Þegar velferðakerfið og efnahagur fjölskyldna er lagður í rúst á hinn almenni Grikki hvergi höfði sínu að halla þegar út af bregður.

Nú þegar hafa 500. 000 þúsund störf farið forgörðum í Grikklandi síðan 2008. Nær annar hver af yngri kynslóðinni er atvinnuleus. Það stefnir í 30% almennt atvinnuleysi. Í lok næsta árs er gert ráð fyrir því að þjóðarframleiðsla Grikkja hafi minnkað um 20%. Í kreppunni miklu minnkaði þjóðarframleiðsla í Bandaríkjunum um 29%.

Það sem nánast enginn skilur er hvernig þjóð í þessum aðstæðum á að vinna sig út úr kreppunni. Fjölmiðlar telja okkur trú um að þjóð sem á varla til hnífs og skeiðar sé líkleg til að vinna sig út úr kreppu. Að þjóð sem er neydd til að selja fyrirtæki sín á brunaútsölu, fyrirtæki sem gefa tekjur til ríkis og einstaklinga. Allar nýjar skuldbindingar grísku ríkisstjórnarinnar skulu meðhöndlaðar af breskum dómstólum, ekki grískum. Þvílík niðurlæging fyrir fullvalda þjóð. Þar með er loku fyrir það skotið að Grikkir geti losnað við ólögmætar skuldir.

Fullyrðingar og áróður fjölmiðla um aðferðir ESB/AGS gagnvart Grikkjum standast ekki nánari skoðun. Þrátt fyrir það eru ýmsir fjólmiðlar og starfsmenn þeirra tilbúnir að segja okkur að þetta sé aðferðin sem beita eigi og eina aðferðin fyrir Grikki. Auk þess telja fyrrnefndir aðilar að Grikkir eigi ekkert betra skilið.

Aðferðir ESB/AGS munu valda gríðarlegum hörmungum, eru ómennskar, brjóta lög, mannréttindi og stjórnarskrá Grikklands.

Sök Grikkja felst í því að hafa þegið boðið í veislu bankanna.

Um 90% af afrakstrinum af öllum þessum aðgerðum ESB/AGS mun verða notaður til þess að greiða eigendum ríkisskuldabréfa. Þeir eru upp til hópa einkabankar. Einhvern afslátt ætla þeir að veita en í staðin fá þeir ný ríkisskuldabréf frá Grikkjum sem skattgreiðendur í Evrópusambandinu munu ábyrgjast. Þar með hefur eðlileg áhætta við kaup á skuldabréfum verið þurrkuð út. Evrópskir bankar geta ekki látið Grikkland falla því þeir hafa keypt tryggingar fyrir tapi sínu hjá bandarískum bönkum. Bandarísku bankarnir hafa veðjað á að Grikkland lafi. Ef Grikkland fellur og evrópskir bankar sækja sitt tryggingafé til bandarískra banka þá falla þeir bandarísku. Þess vegna heimsótti Geithner Evrópu um daginn. Díllinn gengur út á það að láta Grikki lafa nógu lengi meðan hreinsað er til í óreiðunni.

 

Á tíunda áratugnum var S-Kórea í helgreipum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Kosningar voru væntanlegar og AGS neyddi forystumenn stærstu stjórnmálaflokkanna til að skrifa undir loforð um að þeir myndu ekki breyta samstarfinu við AGS eftir kosningar. Almenningur gat því ekki beitt lýðræðinu til að hafa áhrif á framtíð sína.

Evrópusambandið beitir sömu aðferðum í dag á Grikklandi. Kosningar verða sennilega í apríl. Þessa dagana er ESB að þvinga gríska stjórnmálaleiðtoga til að lofa því fyrirfram að engin breyting verði á helstefnu sambandsins eftir kosningarnar í Grikklandi. Nú þegar hefur Antonis Samaras(New Democracy) skrifað upp á. “if New Democracy wins the next election in Greece, we will remain committed to the program’s objectives, targets and key policies”.  Þar með er verið að svifta Grikki þeim lýðræðislegu réttindum að geta með þátttöku sinni í kosningum haft áhrif á framtíð Grikklands.

Þetta segir okkur að ESB telur eins og AGS að lýðræðið sé eingöngu fyrir útvalda. Þessi þáttur í kjarnastefnu ESB/AGS á uppruna sinn í þeim öflum sem ráða lögum og lofum innan þessara stofnana. Þessi öfl eru fjármálaöflin. Þegar kemur að hag fjármálaaflanna þá er lýðræðinu ýtt út af borðinu. Ekki bara lýðræðinu heldur velferð og hamingju heillar þjóðar. Ef fjármálaöflin fá sitt er ESB sama þó að Grikkir eigi ekki fyrir mat, geti ekki kynnt híbýli sín, búi á götunni og að öll uppbygging þjóðfélagsins hverfi ofaní svart gímald bankakerfisins.

Þegar fjármálaöflin eru orðin sátt við tilraun sína á Grikkjum munu þau færa sig til. Ítalía, Spánn og Portúgal eru næst á dagskrá. Síðan munu þau færa sig norður á bóginn, Frakkland og Þýskaland verða þá orðin veikluð og skuldum vafin eftir alla björgunarpakkana. Eftirleikurinn verður því auðveldur.

Öllum með meðalgreind ætti að vera ljóst að fjármálaöflin hafa rænt evrópska draumnum. Til að sá draumur verði einhvern tíman að gagni fyrir almenning í Evrópu þurfum við að brjótast undan oki fjármálaaflanna sem stjórna öllu í Brussel.

Að kalla þessa dýrbíta fasista eða nýfrjálshyggju gaura flokkast undir skreytni. Á venjulegri íslensku kallast þetta bara djöfulsins mannvonska og er framkvæmd af bankavaldinu og Evrópusambandinu í sameiningu og slefan lekur ekki á milli þessara aðila. Almennilegir Íslendingar ættu að vita hvernig umgangast skal dýrbíta.

 

Það verða samstöðumótmæli um alla Evrópu á laugardaginn; http://www.facebook.com/events/300173683376937/

Á Íslandi verða samstöðumótmæli á laugardaginn kl 1530 í Grasrótarmiðstöðinni,

Brautarholti 4.

http://www.facebook.com/events/110020119126970/

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur