Laugardagur 18.02.2012 - 21:26 - FB ummæli ()

Við erum öll Grikkir í dag

Við héldum samstöðufund með Grikkjum í dag í Grasrótarmiðstöðinni. Þar lásum við upp yfirlýsingu frá Greek Debt Audit Campaign sem er að finna á heimasíðu attac Island,

 

 

 

 

 

Ég flutti þar ræðu sem ég birti hér(örlítið stytta).

Við erum komin hér saman í dag til að sýna grísku þjóðinni samstöðu. Við viljum senda henni þau skilaboð að hún er ekki ein í baráttu sinni. Auk þess skynjum við að við erum öll líka Grikkir í dag.

Það sem er verið er gera í Grikklandi í dag er það að grískur almenningur er neyddur til að greiða gríðarlegar upphæðir. Upphæðirnar eru svo hrikalegar að samfélagið verður mergsogið af öllum verðmætum og kostum.

Viðhorf lánadrottna og reyndar sumra annarra til Grikkja er að gríska vandamálið sé eins og hvert annað graftarkýli, stakt kýli á annars fagurri ásjónu evrusamstarfsins. Það eina sem þurfi að gera er að kreista og tæma kýlið og þá sé málið dautt.

Aftur á móti þegar við hin horfum á þetta andlit þá blasir við okkur andlit alsett kýlum. Það glittir varla í heila húð. Þess vegna ætti það að vera öllum augljóst að einhver alvarlegur grunnsjúkdómur sé til staðar. Kýlin eru bara birtingamynd undirliggjandi sjúkdóms, sem líkist krabbameini í eðli sínu.

Ég nefni krabbamein vegna þess að hegðun fjármálaaflanna er keimlík hegðun krabbameins. Ekkert tillit er tekið til umhverfisins og eigingirnin er slík að ekkert innsæi er á afleiðingar gjörða þess. Þetta krabbamein dreifir sér frá þjóð til þjóðar. Þetta krabbamein á sér líka fortíð. Þess vegna þekkjum við og allir geta kynnt sér sögu þess.

Hönnun og eignarhald fjármálaaflanna er hið stóra vandamál. Þeim stofnunum sem tryggja eiga almenningi kjör og réttlæti eru undir hælum þessa kerfis og hugmyndafræði þess. Það má kalla hugmyndafræði þess ýmsum nöfnum en kjarni hennar er eigingirni, heimtufrekja, sjálfselska og algjört tillitsleysi til meðbræðra sinna.

Þeir sem þekkja söguna vita að kreppur í fjármálaheiminum eru mjög algengar og eru frekar reglan en hitt. Einnig vitum við að í öllum kreppum verða þeir ríku ríkari og hinir fátækari. Við vitum að með hverri kreppu aukast völd fjármálakerfisins.

Þeir sem þekkja söguna vita að þær skuldir sem þjóðir eru látnar bera eru að stórum hluta ólögmætar. Þar eru á ferðinni skuldir einkabanka að stórum hluta. Það er verið að ríkissvæða tap einkafyrirtækja eftir misheppnaða þátttöku þess í spilavítinu.

Þeir sem þekkja söguna vita að fjármálaöflin hafa farið land úr landi. Við munum Afríku, S-Ameríku, Asíu kreppuna, Rússland og austur blokkina. Núna er röðin komin að Evrópu.Núna skal hún lögð að velli. Þar skal öllum rétindum almennings eytt til að stórfyrirtæki og bankar geti lifað góðu lífi á kostnað okkar hinna.

Fjármálavaldinu fannst það góð hugmynd að byrja á Lettum og brutu þá niður og hentu þjóðfélagi þeirra aftur um áratugi. Árið 2008 vorum við í Evrópu í losti og sjálfsvorkun og studdum ekki bræður og systur okkar í Lettlandi. Í dag er Grikkland í tilraunarglasinu. Núna skal öllum hugsanlegum kröfum fjármálavaldsins fullnægt, án tillits til hversu galnar þær kunna að vera.

Við sem þekkjum söguna vitum að hér á sér stað mikill afleikur.

Við vitum að Grikkland verður aldrei brotið niður, Grikkland er ósigrandi vígi. Þeim mun aldrei takast áætlunarverk sitt í Grikklandi. Bæði munu Grikkir bíta frá sér en það sem skiptir öllu máli er að þeir straumar sem flæða um Evrópu í dag, til styrktar Grikklandi, eru einfaldlega of sterkir.

Ég held að fjármálavaldið hafi bara ætlað að ráðast á Grikkland.

Ást okkar á lýðræðinu er bundin órjúfanlegum böndum við Grikkland. Árás á Grikkland er um leið árás á okkur öll. Við finnum fyrir sársauka þó að við áttum okkur ekki fyllilega á því hvers vegna. Það er sennilega vegna þess að líkami lýðræðsins nær frá Aþenu til mín og þess vegna finn ég til.

Þess vegna eru ekki 11 milljónir Grikkja í Evrópu.

Sennilega eru við mun frekar 500 milljónir í Evrópu.

Þegar allir þessir grísku „letingjar“ um alla Evrópu munu rísa upp er sigurinn okkar.

Okkur sem þekkjum söguna er farið að renna í grun hver verða eftirmæli innrásar fjármálavaldsins gegn 500 milljónum Grikkja víðsvegar um alla Evrópu,

A bridge too far.

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur