Föstudagur 12.02.2016 - 00:16 - FB ummæli ()

Spilavíti eða samfélagssáttmáli

Laugardaginn 13. febrúar verður fundur um samfélagsbanka í Norræna húsinu kl. 14. Kannski finnst sumum þetta ómerkilegt mál en það leynist margt í þessu máli. Ef fólk veltir fyrir sér öllum þeim kostnaði sem það er að greiða til bankanna þá er hann mikill og fólk kvartar sáran yfir honum. Einnig finnst fólki vextirnir himinháir og ekki er kvartað minna yfir þeim. Ef þú ert einn af þeim sem kvartar undan óréttlæti bankanna þá er hugmyndin um samfélagsbanka eithvað sem þú ættir að velta fyrir þér af alvöru. Ef þú ert sáttur við núverandi bankakerfi skaltu gleyma þessu.

Með samfélagsbanka má minnka þennan kostnað verulega. Ástæðan er einföld, þú ert eigandinn og færð arðinn í eigin vasa. Eigendur samfélagsbanka geta verið ríkið, sveitafélög, jafnvel borgir eða þorp. Þar sem markmið samfélagsbanka er ekki hagnður heldur þjónusta þá er öllum kostnaði við viðskiptamenn haldið í lágmarki.

Samfélagsbanki getur lánað eiganda sínum, t.d. ríkinu eða sveitafélagi og hann getur lánað nánast vaxtalaust. Ef banki sem ríkið á rukkar ríkið um vexti sem lántakenda og vextirnir verða að hagnaði þá fer hagnaðurinn til eigandans, þ.e. ríkisins.  Vaxtakosntnaður jafnast út sem nemur hagnaðinum. Samfélagsbankinn þarf bara fé til að reka sig en ekki að moka inn vöxtum. Þess vegna geta sveitafélög eða ríkið tekið svo til vaxtalaus lán til framkvæmda. Við það minnkar kostnaður á hverri framkvæmd, kannski um allt að helming, og þess vegna getur ríkið framkvæmt mun meira.

Mjög margir hafa verið töluvert æstir yfir því upp á síðkastið að gróði af bankastarfsemi sé ætlaður vinum og vandamönnum. Samfélagsbanki er skapaður með sérstökum lögum þar sem kveðið er á um að hagnaðurinn fari til ríkisins/samfélagsins og markmiðið sé að þjóna almenningi. Markmiðið er ekki að svala óseðjandi þörf einkahluthafa fyrir gróða. Samfélagsbanki er því svarið við þessu óréttlæti. Samfélagsbanki er að sjálfsögðu gagnsær, almenningur hefur aðgang að öllum upplýsingum sem persónuvernd leyfir. Ekkert pukur!

Einfalt en svínvirkar. Til eru samfélagsbankar víðs vegar um heiminn og við í Dögun höfum boði til landsins tveimur erlendum fyrirlesurum til kynna okkur málið. Wolfram Morales kemur frá Þýskalandi og segir okkur frá Sparkasse, samfélagsbanka í Þýskalandi sem eru yfir 400 að tölu. Samfélagsbankar eru ódýrari í rekstri en einkabankarnir og þeir greiða mun meira í skatt en einkabankarnir. Auk þess setja þeir 500 milljónir Evra í sérstök verkefni á ári, eins og listir, íþróttir og fleira. Að lokum þá sýna rannsóknir að þeir skila meiri hagnaði en einkabankarnir. Ellen Brown er lögfræðingur og rithöfundur og hefur samið bók um samfélagsbanka og skrifar mikið um banka og peningamál.

Laugardaginn 13. febrúar í Norræna húsinu kl 14:00.

 

“When a government is dependent upon bankers for money, they and not the leaders of the government control the situation, since the hand that gives is above the hand that takes. Money has no motherland; financiers are without patriotism and without decency; their sole object is gain.” Napoleon.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur