Sunnudagur 23.09.2012 - 10:39 - 8 ummæli

Undanhald frá Reykjavík

Framsóknarflokkurinn er greinilega búinn að gefast upp á því verkefni sem flokkurinn hefur barist í undanfarna áratugi. Það er að tryggja fótfestu í Reykjavík. Framsóknarflokkurinn missti borgarfulltrúa sinn í síðustu kosningum og nú hefur Sigmundur Davíð ákveðið að taka engan séns á að falla í komandi Alþingiskosningum.

Formaður Framsóknarflokksins sem hefur búið á höfuðborgarsvæðinu allan þann tíma sem hann hefur búið á Ísland hefur nú ákveðið að yfirgefa kjördæmi sitt í þéttbýlinu og sækjast eftir öruggu sæti á lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Eftir situr hinn umdeildi sunnlendingur og mágkona Guðna Ágústssonar hin röska Vigdís Hauksdóttir. Hennar er að verja undanhaldið.

Mér þykir þetta sorglegt því gegnum tíðina hefur Framsóknarflokkurinnn átt mikið erindi við höfuðborgarsvæðið. Reyndar var Framsóknarflokkurinn fyrstur flokka til þess að vinna sérstaka höfuðborgarstefnu sem var bara harla góð!

Það er ekki gott að segja hvað veldur því að Framsóknarflokkurinn gefur nú höfuðborgina upp á bátinn. Kannske hefur áherslubreyting flokksins frá hófsamri, frjálslyndri miðjustefnu orðið til þess að forysta flokksins hefur séð að tangarhaldið í Reykjavík væri hættulega veikt. Formanninum sé ekki fórnandi í tvísýnum kosningum í Reykjavík.

Þessi sérstaka uppgjöf mun hvorki verða formanni flokksins né Framsóknarflokknum í heild til framdráttar því þótt flokkurinn muni ná að halda sjó á landsbyggðinni þá breytir hann ekki þeirri staðreynd að mikill meirihluti kjósenda býr á höfuðborgarsvæðinu.

En kannske vill Framsókn bara enda sem lítill landsbyggðarflokkur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Leifur Björnsson

    Sannur og góður pistill.

  • Haukur Kristinsson

    Þingeyingar hafa löngum sent sína heimamenn á þing. Karl Kristjánsson og Guðmundur Bjarnason voru okkar menn í samfellt 38 ár.
    Nú á að bjóða okkur sifurskeiða gutta frá Reykjavík, lítt menntaðan ræfil, sem hefur aldrei dýpt hendinni kalt vatn og hlaut formannsstól Framsóknarflokksins vegna digra Kögunarsjóða.
    Ó-nei, Þingeyingar munu ekki láta bjóða sér slíkt.

  • @Haukur

    Hafðu engar áhyggjur. Hann mun fyrir það fyrsta brjóta lög og ekki flytja lögheimili sitt heldur bara þiggja dreifbýlisstyrkinn sinn og búa áfram í Reykjavík.

    Í öðru lagi munu einu málin sem hann hugsanlega hefði áhuga á – á ykkar svæði – eru mál sem skapa honum atkvæði.

    Allt annað mun hann láta algerlega afskiptalaust svo þú getur andað rólega.

    Þetta er að vísu framtíðin ef okkur tekst ekki að sópa fjórflokkunum út á hafsauga, íslensku þjóðinni til heillla. En þá verðum við að eiga fólk sem hefur sannfæringu og siðferði að leiðarljósi en ekki eigin hagsmuni eingöngu.

  • Hallur Magnússon

    Hef annars staðar fengið viðbrögð við þessari grein.

    Þar hefur ma. komið fram staðhæfingin „Framsókn hefur lengi verið tímaskekkja!“.

    Sú staðhæfing er röng.

    Undanfarna áratugi hefur flokkurinn verið margslunginn. Það var styrkur hans.

    Það sem var helsti styrkur flokksins var rótgróið umburðarlyndi og áhersla á samvinnu í víðasta skilningi þesshugtaks..

    En flokkurinn var margslunginn. Í honum voru mjög sterk, frjálslynd alþjóðlegasinnuð miðjuöfl sem áttu mikið erindi við þéttbýlið. Í honum voru einnig mjög sterk, dálítið stjórnlynd, hófsöm þjóðleg öfl sem vildu jafnvel rétta (jafnvel leiðrétta) hag landsbyggðarinnar og mismunandi þjóðfélagshópa með handafli.

    Það sem sameinaði þessa hópa var umburðarlyndi, gagnkvæm virðing og vilji til samvinnu.

    Þessi blanda Framsóknar átti mikið erindi til þjóðarinnar bæði á landsbyggðinni og í þéttbýlinu. Þessi Framsóknarflokkur var EKKI tímaskekkja.

    Hins vegar hefur þetta jafnvægi innan flokksins hrunið – umburðarlyndið horfið og samvinnan einungis í orði en ekki á borði. Það er ein meginástæða stöðu flokksins í dag.

    Þá hafa þau sjónarmið komið fram annars staðar að sterkir sérhagsmunaaðiljar hafi átt sterk ítök í flokknumþ

    Það er sannleikskorn í því að ákveðnir sérhagsmunagæsluaðiljar hafi átt sterk ítök í Framsókn. Grunnurinn er hins vegar sá sem ég lýsi að framan.

    Ekki gleyma að sambærilegir sérhagsmunagæsluaðiljar hafa haft mikil ítök í Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og VG – ekki síður en Framsókn.

    Sú röksemd að Framsókn hafi þess vegna á undanförnum áratugum verið tímaskkkja umfram hina flokkana stensti því ekki.

    Hver staðan er í dag ætkla ég ekki að dæma um.

  • Aðalatriðið er ekki Framsóknaraflokkurinn, heldur hvort kjósendur í NA-kjördæmi láta bjóða sér frambjóðanda með fortíð og sögu SDG.
    Ferill þeirra feðga í stjórnmálum er byggður á Kögunarpeningunum. Hvernig þeir voru fengnir hefur verið rakið skilmerkilega af Teiti Atlasyni, Agnesi Bragadóttur og fleirum.
    Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort SDG nær að skapa sér trúverðurgleika fyrir norðan.
    Lágmarkið er að hann láti mynda sig við að hjálpa sauðfjárbændum við tilhleypingar í desember. Væri forvitnilegt að sjá Kögunarbarnið í því hlutverki.

  • Framsóknarflokkurinn er portkonan í íslenskri pólitík – alltaf tilkippileg í bólið
    með hverjum sem er – sé bara nógu vel boðið.

  • stefán benediktsson

    Framsóknarflokkurinn var sannarlega boðberi og pólitískur armur samvinnustefnunnar, en gekk líka af henni dauðri með því að beygja hana undir flokksstýrt miðstýringarvald SÍS.
    Samvinnuhreyfingin sem er enn mjög öflug víða í heiminum er persónulegt, dreifstýrt, ópólitísk fyrirbæri og tilraunir til að beintengja hana pólitískt bera dauðann í sér.

  • Sigurjón

    Það þýðir ekkert að rekja hvað Framsókn var áður. Það er liðin tími. Ætti ekki jafnglöggur maður og Hallur þess í stað að upplýsa okkur um hvaða átakalínur eru í Framsókn núna? Hvað er að gerast núna?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur