Mánudagur 08.10.2012 - 14:43 - 5 ummæli

Mikilvægt val Samfylkingarfólks

Samfylkingin hefur val.  Val um að verða breið fjöldahreyfing til framtíðar eða lítill vinstriflokkur sem þess vegna getur gengið inn í flokksbrotaflokkinn VG.  Átök um hvora leiðina skal fara eru hafin. Þau átök endurspeglast hjá Stefáni Ólafssyni sem reynir í Eyjupistli sínum að gera talsmann breiðfylkingarleiðarinnar tortryggilegan. Stefán vill greinilega fara vinstri leiðina. Líkt og Jóhanna Sigurðardóttir fráfarandi formaður Samfylkingarinnar sem hefur keyrt flokkinn langt til vinstri upp að flokksbrotaflokknum VG.

Þessi vinstri leið er algerlega raunhæfur valkostur í íslenskum stjórnmálum. Slík vinstri sinnuð Samfylking getur ásamt hugmyndafræðilegum systkynum sínum í VG orðið afgerandi, tiltölulega öflugur vinstri flokkur með 15% – 20% fylgi.  Slík flokksbrotablanda yrði þá með frekar sósíalíska hugmyndafræði sem næði inn á vinstri væng sósíaldemókrata á Íslandi. Slík flokksbrotsblanda kæmi stefnumálum sínum einungis á framfæri í samsteypustjórn með frjálslyndum sósíaldemókrötum og miðjufólki. Samstarf yfiir miðjuna yrði ekki valkostur og slík Samfylking mun því oftar en ekki dæma sig úr leik í ríkisstjórnarsamstarfi en gæti gegnt afar mikilvægu hlutverki í stjórnarandstöðu.

Slík leið Samfylkingarinnar myndi sjálfkrafa kalla á nýjan, öflugan, frjálslyndan miðjuflokk sem fyllir tómarúmið sem Samfylkingin annars vegar og Framsóknarflokkurinn hins vegar hafa þá skilið eftir sig á miðju íslenskra stjórnmála. Því Framsóknarflokkurinn getur varla snúið aftur inn á hina frjálslyndu miðju eftir framgöngu sína undanfarin misseri.

Hinn valkosturinn er sú leið Samfylkingarinnar að verða breiður jafnaðarmannaflokkur sem leggur áherslu á samtal og samvinnu mismunandi sjónarmiða  jafnaðarmanna á skalanum sósíalisti yfir til frjálslyndra jafnaðarmanna. Það eru þessháttar stjórnmálasamtök sem Árni Páll Árnason talar fyrir. Jafnaðarmannaflokkur sem vinnur út frá grunngildum sínum sem dekka alla jafnaðarmannaflóruna og getur talað við alla með því sjálfstrausti sem öflugur ríkisstjórnarflokkur þarf að hafa. Slíkur stjórnmálaflokkur myndi leika lykihlutverk sem leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum hvort sem mönnum líkar það betur eður verr. Slíkur flokkur ætti að geta haldið 30% – 35% fylgi og myndi þrengja verulega svigrúm fyrir öflugan, frjálslyndan miðjuflokk. Slík Samfylking yrði oftast raunhæfur valkostur í ríkisstjórn.

Stefán Ólafsson sem vill vinstri  leiðina reynir að veikja Árna Pál og breiðfylkingarleiðina. Hann beitir bolabrögðum með því að segja að Styrmir Gunnarsson og Sjálfstæðismenn séu að velja sér formann Samfylkingarinnar með meintum stuðningi við Árna Pál. Það er einfaldlega rangt hjá Stefáni. Því breið, sterk Samfylking í anda þess sem Árni Páll boðar er miklu öflugri gegn Sjálfstæðisflokki en litli vinstriflokkur Stefáns. Samfylkingarfólk getur valið. Ekki ég og ekki Styrmir. Við erum hvorugur í Samfylkingunni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Haukur Kristinsson

    Pseudo jafnaðarmaðurinn Árni Páll talar mikið um “sjálfsmyndina”.
    Stendur líklega mikið framan við spegilinn og skoðar sína “sjálfsmynd”.
    Er greinilega kominn í hendur PR manna, sem hafa m.a. sagt honum að láta sér vaxa hýjung.
    Árni á að leita sér pólitísks hælis hjá Íhaldinu. Á ekkert erindi í flokki Social Democrata á Íslandi. Superfical guy.

  • Eggert Herbertsson

    Tek undir hvert orð Hallur.

  • Stefán Ólafsson

    Þetta er ósköp villandi upplegg hjá þér Hallur – raunar alveg út í hött.
    Samfylkingin undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er ósköp dæmigerður norrænn flokkur sósíaldemókrata, eins og t.d. Egill Helgason bendir á.

    Þeir flokkar hafa lengst af verið breiðfylkingar og ráðandi ríkisstjórnaflokkar í Skandinavíu, en ekki smáir vinstri flokkar eins og þú segir.

    Ég er nú bara áhorfandi að þessum málum en enginn sérstakur baráttumaður fyrir litlum vinstri flokkum. Lýst betur á breiðfylkingar, svona almennt séð! Held að vinstri menn nái betri árangri ef þeir vinna saman frekar en í sundur.

  • Garðar Garðarsson

    Árni Páll talar lítið um jafnaðarmennsku, félagshyggju og velferð, en talar þess meira um að sækja inn á miðjuna þar sem frjálshyggjan ræður meiru. Árni Páll talar um að það þurfi meiri frjálshyggjutón í Samfylkinguna. Hann vill frekar tala við fólk sem er með aðrar skoðanir en hann, hvað sem það nú svo þýðir.

    Stór hluti þjóðarinnar eru jafnaðarmenn og eru vinstramegin við miðju, og jafnaðrmannaflokkar á norðurlöndum eru taldir til vinstri og eru yfirleitt stórir flokkar.
    Samfylkingin var stofnuð til þess að sameina vinstri menn í einum flokki sem mistókst að hluta, en samt var Samfylkingin stærst í síðustu kosningum og er nú næststærsti flokkurinn í skoðanakönnunum. Samfylkingin vill vera breiðfylking með þyngdarpunktinn til vinstri með jöfnuð og velferð sem helstu baráttumál en er enginn miðjuflokkur þó hún teygi anga síns þangað.

  • Óskar Guðmundsson

    Fínn pistill Hallur.

    Það sem Samfylkingin stendur frammi fyrir nú er hvort skríða egi inní moldarkofana og taka upp árið 1934 aftur eða horfa til framtíðar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur