Föstudagur 30.05.2014 - 18:38 - 10 ummæli

Hættur á Útvarpi Sögu vegna íslam

Undanfarna þrjá mánuði hef ég unnið að uppbyggingu fréttavefjar Útvarps Sögu. Það hefur verið skemmtilegt, en erfitt, tímafrekt og krefjandi starf. Ég hef skrifað fréttir upp úr ævintýralega fjölbreyttum viðtölum við fólk hvaðanæva úr samfélaginu sem hafa verið gestir hins frábæra útvarpsmanns Markúsar Þórhallssonar í morgunútvarpinu, Péturs Gunnlaugssonar og Erlings Más Karlssonar í síðdegisútvarpinu og Höskuldar Höskuldssonar í Bixinu.

Það kom mér á óvart hversu margir fréttafletir hafa komið fram í þessum oftast frábæru viðtalsþáttum. Viðtalsþáttum þar sem fólk fær að njóta sín í tiltölulega löngum viðtölum miðað við það sem almennt gerist í nútímafjölmiðlun.

Eðli málsins vegna þá hafa alls konar sjónarmið komið fram á þessum spennandi vettvangi sem reyndar oft á tíðum hefur ekki notið sannmælis og staðið í harðri baráttu gegn blokkamyndun á auglýsingamarkaði þar sem „litla“ Útvarpi Sögu hefur verið haldið utan við mælingar á notkun ljósavakamiðla þvert á ákvæði samkeppnislaga og þannig verið útilokað frá auglýsingum sem birtingarhúsin hafa haldið um sem er um 80% af auglýsingamarkaðnum. Því gladdi það mitt litla hjarta þegar samkeppniseftirlitið opnaði fyrir aðkomu minni ljósvakamiðla að notkunarmælingum. Nú er sóknarfæri fyrir Útvarp Sögu.

Ég hafði hugsað mér að taka þátt í þessar sókn Útvarps Sögu og var vongóður að fá með mér góðan blaðamann inn á vef Útvarps Sögu, www.utvarpsaga.is , til að þétta þá umfjöllun sem ég hef haldið þar úti undanfarna mánuði og auka fjölbreytni.

En því miður verð ég að segja skilið við Útvarp Sögu.

Ástæðan eru efnistök er varða mosku, múslima og íslam almennt. Ég er ekki sáttur með hvernig Útvarp Saga hefur nálgast það viðfangsefni. Eitt er að vera vettvangur og miðill fyrir ólíkar skoðanir og það er virðingarvert að Útvarp Saga gefur öllum sjónarmiðum vettvang. Annað er þegar það virðist vera að fjölmiðillinn taki sér stöðu með harðri gagnrýni á trúarbrögð og gegn byggingu guðshúss múslima almennt, ekki einungis staðsetningu þess. Ég hef verið hugsi yfir þeirri afstöðu en virði rétt fólks til að hafa slík sjónarmið. En þegar sjónarmið sem ég er andstæður virðist nánast orðið hluti ritstjórnarstefnu fjölmiðilsins þá má túlka það þannig að ég sem starfsmaður á vef Útvarps Sögu sé hluti slíkrar ritstjórnarstefnu og sé henni sammála.

Þá stöðu get ég ekki hugsað mér.

Ég hafði hugsað mér að láta helgina líða og taka þetta upp við það ágæta fólk og frábæru samstarfsaðilja sem ég hef unnið með á Útvarpi Sögu að undanförnu og óska eftir hlutlægari nálgun miðilsins sjálfs á þessu mikilvæga en viðkvæma umfjöllunarefni. Eitt væri að vera vettvangur fyrir ólík sjónarmið, annað að taka stöðu gegn trúarbrögðum og trúarhóp. En eftir atburðarrás dagsins í dag þar sem frétt minni þar sem ég kom á framfæri viðbrögðum Salmann Tamimi á Eyjunni við frétt Útvarps Sögu á utvarpsaga.is „Salmann hlynntur aflimun þjófa í refsingarskyni“ – sem er ein fárra frétta sem ég hef ekki skrifað á þann miðil undanfarna 3 mánuði – var eytt án samráðs við mig þá verð ég að setja punktinn. Samvisku minnar vegna.

Ég er bara ekki reiðubúinn að starfa á fjölmiðli sem virðist taka einarða stöðu gegn starfsemi trúarhóps og virðist frekar kynda undir andúð á ákveðnum hóp Íslendinga og innflytjenda á þennan hátt. Jafnvel þótt einstaklingar innan þess trúarhóps hafi skoðanir sem mér líkar ekki og missi sig í reiðikasti í fjölmiðlum.

Ég er ekki viss um að mínir ágætu vinir á Útvarpi Sögu sjái þessa umfjöllun fjölmiðilsins í sama ljósi og ég og að þeir telji sig ekki ýta undir andúð á múslimum. En ég upplifi þetta á þennan hátt og ég er ekki reiðubúinn að halda að öðru leiti frábæru samstarfi við starfsfólk Útvarp Sögu áfram vegna þessa. Ég vil að það sé 100% á hreinu að ég get ekki stutt mismunun gagnvart trúarbrögðum, kynþætti né kynhneygð.

En ég óska Útvarpi Sögu velfarnaðar í framtíðinni og vona að hinir dugmiklu eigendur og stjórnendur Útvarps Sögu nýti þennan viðskilnað minn á jákvæðan hátt í reynslubanka sínum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Galin ákvörðun að byrja.

    Skárri að hætta.

    En langt í land.

  • Já heill ertu Hallur minn eins og : amma sagði alltaf.

  • Anna Sigríður Guðmundsdóttir

    Við hvað/hverja er Hallur Magnússon hræddur? Það eru því miður margir í sömu sporum og Hallur, ásamt Útvarpi Sögu. Fleiri en flesta á Íslandi grunar.

    Ég stend áfram með Útvarpi Sögu allra sjónarhorna, í stjórnsýslu og samkeppnislaga-svikna og bankarænda landinu Íslandi.

    Það eru allir á einhvern hátt blekktir og sviknir inní stjórnsýsluspillinguna á Íslandi. Sviknir og mafíustýrðir terabuffhamrar lífeyrissjóða/banka-mafíunnar sjá um að þagga niður í öllum einstaklingum, sem vilja vel og gera sitt besta. En sannleikurinn verður þó aldrei drepinn. Hvorki með ofbeldi/kúgunum né þöggun.

    Það er engin ein leið rétt, nema náungakærleiksleiðin fyrirgefandi og auðmjúka.

    Ævintýrin á gönguförinni í lífsins skóla á jörðinni eru þyrnum stráð fyrir alla jafnt, en í mörgum lífum/víddum og gegnum aldirnar.

    En Páfagarðurinn í Róm hefur ekki enn skilið þann stóra sannleika, eða opinberar alla vega ekki þann sannleika? Valdamesta embættið á jörðinni segir ekki satt?

    Ja, Jésús kristur hefði alla vega ekki samþykkt svona Páfa-glæpa-heimsveldi á jörðu!

    M.b.kv.

  • Anna María

    Verð að taka ofan fyrir þér nuna Hallur

  • Af hverju vilja framsókarmenn afturkalla moskulóðina? Það hlýtur að vera vegna einhverra peningahagsmuna framsóknar kartelsins, því aðrar hugsjónir hafa þeir ekki. Finnur Ingólfsson þarf kanski lóðina til að braska með? Einhverjir halda kannski að framsóknarmenn byrji að skreyta sig með myndurm af Breivik, eða gamla eimskipamerkinu eftir kosningar, en það er alveg eins líklegt að þeir skelli sér í búrkur, ef
    lóðir og peningar eru í boði. Framsóknarflokkurinn við vitum alltaf hvar við
    höfum ´hann. Hann er í braskinu og spillingunni.

    • Jóhann Reynisson

      Lagaheimild er ekki fyrir hendi til að afhenda múslimum lóð undir mosku án endurgjalds.
      Það kemur skýrt fram í lögum nr. 35/1970 sem heita, Lög um kristni, að um er ræða að kirkjur fái lóðir án endurgjalds. Múhameðstrú er ekki kristin trú. Moska er ekki kirkja.

  • Þórdís Sigurþórsd.

    Heim­ild fyr­ir því að út­hluta slík­um lóðum end­ur­gjalds­laust er að finna í lög­um um Kristni­sjóð o.fl. nr. 35/​1970 þar sem seg­ir: „Sveit­ar­fé­lög­um kaupstaða og kaup­túna er skylt að leggja til ókeyp­is lóðir und­ir kirkj­ur og und­an­skilja þær gatna­gerðar­gjaldi.“

    Ljóst má vera að upp­haf­lega hafa lög­in verið hugsuð með Þjóðkirkj­una í huga. Síðar var litið svo á að lög­in næðu einnig til til­beiðslu­húsa annarra trú­ar­bragða með skír­skot­un í ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar um jafna stöðu fólks með til­liti til trú­ar­bragða.

  • Ægir Hallgrímsson

    Spurning hvort Íslendingar eigi bara fara alla leið, og banna múslima trú.

  • Anna Sigríður Guðmundsdóttir

    Stjórnsýslu-hnökrað lögleysis-samfélag verður áfram ríkjandi á Íslandi, ef ólíkar skoðanir fá ekki umfjöllun, virðingu, og réttar upplýsingar í fjölmiðlum, á siðferðislegan og fordómalausn hátt.

    Allir vilja innst inni raunverulegt réttlæti.

    Réttlæti krefst gagnkvæmrar virðingu og skilnings, en ekki niðurrifs á ólíkum skoðunum annara.

    Þöggum ekki niður í fjölmiðlum sem gera sitt besta til að halda staðreyndum á lofti.

    M.b.kv.

  • Vilhjálmur Björn.

    „get ekki stutt mismunun gagnvart trúarbrögðum“
    Hár rétt og geta margir tekið undir það, enda er trúfrelsi á Íslandi samk. Stjórnarskrá, samanber 63.gr,innan ákveðinna skilyrða, Ekki má kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða alsherjarreglu.
    Fjökvæni og barnagiftingar, heldurðu að það sé innan alsherjarreglu.
    65.gr. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
    Konur fá ekki að fara inn í Moskurnar, veistu hvar þær iðka trú sína, varla flokkast þetta undir Trúfrelsi,
    Held að þú hefðir átt að biðja Stjórnskipunar og eftilitsnefnd Alþingis að láta kanna fyrir þig hvor þessi túarbrög séu innan ramma Stjórnarskrár, áður en þú sgðir upp hjá útvarpsstöðinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur