Sunnudagur 28.09.2014 - 11:56 - FB ummæli ()

Viðskiptafrelsi

Frumvarp Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um afnám einokunarverslunar ríkisins með áfengi er í raun einfaldara mál en ætla mætti.  Þegar öllu er á botnin hvolft skiptir engu máli hver skoðun fólks kann að vera á gæðum þjónustunnar, hvort verð muni hækka eða lækka eða hvort félagsmenn í BSRB séu líklegri til að fara að lögum heldur en verslunarfólk VR, hvort úrval muni batna eða hver áhrif verða á landsbyggðina.  Grundvallarspurningin er einfaldlega, til hvers höfum við ríkis-vald og hvað réttlætir að valdi sé beitt gegn viðskiptum tveggja fullveðja einstaklinga með löglega vöru eða þjónustu? Jafnvel þó svo að menn geti pakkað einokun og höftum í fallegar umbúðir á borð við að ,,þjóðin njóti arðsins” (sem hún auðvitað gerir ekki) eða ÁTVR sé rekið með ,,samfélagslega ábyrgð” (sem aðrir geri ekki) að þá skiptir það bara einfaldlega engu máli.

Allir eru sammála um hlutverk ríkisvaldsins til þess að tryggja með dómsvaldi að viðskipti geti aldrei talist lögleg ef annar aðilinn er þvingaður til viðskiptanna eða blekkingar séu viðhafðar.  Umdeilanlegra er hvort réttlætanlegt sé að beita valdi með afnámi atvinnufrelsis á grundvelli siðferðis (t.d. bann við einkadansi) eða vegna þess að vinsældir tiltekins lögaðila hafi náð svo langt að viðkomandi sé í s.k. ,,markaðsráðandi stöðu”  Siðleysi er orð sem oft er notað með hálfkæringi en orðið nær augljóslega yfir þá staðreynd að ríkið skuli stunda rekstur sem það svo meinar öðrum að taka þátt í, með aðferðum sem það sjálft dæmir aðra til refsingar fyrir.

Margrét Tryggvadóttir skrifar undarlega grein á vefritinu Herðubreið gegn verslunarfrelsi með áfengi.  Margrét er fyrrum sjálfstæður verslunarrekandi sem líklega hefur tekið eigið frelsi til verslunarreksturs sem gefin hlut eins og sjálfsagt er.  En eins og forræðishyggjusinnum er tamt, getur hún illa unað öðrum að búa við sama frelsi og hún kýs sér sjálf.  En Margrét er ekki bara fyrrum verslunarmaður heldur er hún líka fyrrum þingmaður sem hefur látið til sín taka í stórum málum á Alþingi.  Af mörgu mikilvægu mætti nefna frumvarp um að skylda flutningafyrirtæki til að sundurgreina reikninga og að Íslendingar viðurkenni þjóðarmorð á Armenum.  Margrét tekur það fram að hún ,,nennti svo sem ekki að setja mig vel inn í hvernig þetta væri hugsað” en henni þætti þó rétt að heimila brugghúsum að selja beint sína framleiðslu.  Merkilegt nokk þá telur Margrét að einokun í mjólkuriðnaði komi neytendum verr en þegar kemur að áfengi og rökstyður þá afstöðu sína að ÁTVR borgi ,,leigu laun og hita”!

Ríkisforsjársinnar benda á að áfengi sé ekki eins og hver önnur neysluvara.  Atvinnu og viðskiptafrelsi eru sömuleiðis ekki eins og hver önnur réttindi heldur eru þau stjórnarskrárvarin og það ekki að ástæðulausu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur