Fimmtudagur 09.10.2014 - 10:30 - FB ummæli ()

Geðveikt ríkisvald

Kleifhugi eða ,, Schizophrenia” er geðsjúkdómur sem lýsir sér þannig að sjúklingurinn fær ranghugmyndir í formi tvöfalds persónuleika.  Um sjúkdóminn hafa verið gerðar bíómyndir eins og Me Myself and Irene þar sem Jim Carey leikur lögreglu sem ýmist telur sig góðu siðprúðu lögguna Charlie eða hinn siðlausa Hank.

Screenshot_100914_103134_AM
 
Fáar þjóðir ættu að þekkja einokun og fákeppni betur en íslendingar.  Líklega er Einokunarverslun Dana þekktust í sögunni og væntanlega fáir sem sjá þann kafla í verslunarsögunni í hyllingum. Þó fynnast enn talsmenn einokunar þótt ótrúlega megi virðast, eins og t.d. í umræðunni um ÁTVR.  Eina hreinræktaða einokunin sem íslendingar búa við í dag er lögskipuð einokun sem hið opinbera hefur komið á með lagasetningu.  Í orði talar hinn auðmjúki Charlie um mikilvægi einstaklinsframtaks, nýsköpunar og samkeppni, allt afsprengi markaðshagkerfis.  Þeir sem halda að löggjafarvaldið, ,,Hank” raunverulega þrái heilbrigða samkeppni ættu að prófa að gefa út gjaldmiðil, selja rauðvínsflösku, opna mjólkursamsölu, rækta sitt eigið kúakyn, stunda löggildingar nú eða bjóða upp á vegagerð. Einokuninni er svo gjarnan pakkað inn í göfugar umbúðir samfélagslegrar ábyrgðar að Orwelskri fyrirmynd. Til að tryggja að hinn almenni borgari leiðist ekki út í ámóta siðlausan rekstur og hið opinbera, rekur svo Charlie Samkeppnisstofnun hvar saman kemur lögreglu og dómsvald til samræmis við þrískiptingu ríkisvaldsins eða þannig. Hank rekur hinsvegar stofnun fyrir þá sem vilja ná sér í lögverndaða einokunarstöðu með útgáfu einkaleyfa af mismunandi gerðum en skilgreining á einkaleyfi er að aðrir eru útilokaðir frá því að veita sömu þjónustu eða framleiða sama hlut og handhafi einka-/einokunar-leyfisins.

Nýjasti leikþátturinn í klofningnum milli Hanks og Charlie er sekt Samkeppnisstofnunar á hinni lögvernduðu ,,sam-sölu” um mjólk en nafnið eitt og sér ætti að gefa nokkuð örugga vísbendingu um eðli starfseminnar.  Upphaf einokunarkerfis í landbúnaði á rætur sínar að rekja til þess tíma þegar Korpúlfsstaðabúið var um það bil að komast í einokunarstöðu í mjólkurframleiðslu fyrir höfuðborgarsvæðið á grundvelli hreinlætis og stærðarhagkvæmni á sama tíma og Sambandið átti undir högg að sækja. Þar þurfti því augljóslega að koma til ,,leiðrétting“ í  þágu neytenda. Seinni tíma rök um matvælaöryggi, hreinleika íslensks landbúnaðar og annað slíkt hafa reyndar nokkuð látið á sjá eftir að upp komst um að íslenska smjörið gat allt eins verið írskt og ,,Íslandsnaut” gat allt eins verið frá Spáni.  

Enn sem komið er hefur fjölmiðlamönnum ekki tekist að finna nema einn viðmælanda sem ekki hafði áttað sig á að landbúnaðarkerfið byggir á einokunarfyrirkomulagi en það er ráðherra samkeppnismála sem hinsvegar telur málið ,,grafalvarlegt” Flestir aðrir myndu líklega telja orðið ,,augljóst” betur lýsandi. Formaður bændasamtakanna bendir hinsvegar á að samkeppnisbrot MS séu unnin ,,af heilindum” og er líklega óþarft að efast um þá fullyrðingu. Landbúnaðarráðherra í hlutverki Hanks hefur boðað að ,,endurskoða” skuli kerfið sem er miður því öllum má ljóst vera að vandamálin með stjórnkerfi landbúnaðarins er auðvitað sú meinloka  að markaðsbúskapur einfaldlega henti ekki.  Stjórnkerfi í landbúnaði er ámóta þarft eins og stjórnkerfi á laxveiðum, matvöruverslun eða dyravörslu.  Kerfið hefur reynst bændum illa og skattgreiðendum afleitlega, það veit Charlie en Hank afneitar áfram veruleikanum enda langt í kosningar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur