Föstudagur 31.10.2014 - 11:29 - FB ummæli ()

Ákveðni og Frekja

Líklega koma ofangreind tvö hugtök fyrir á hverjum degi í pólitískri umræðu en mörkin eru oft óljós. Á sálfræðivefnum www.persona.is má finna eftirfarandi skýringu:

Hvað er heilbrigt og sjúklegt fer stundum eftir því hvað við komumst upp með. Hvar eru mörkin milli hins jákvætt hlaðna orðs ákveðni og frekjunnar sem er með neikvæða hleðslu. Ákveðni þýðir líklega meira það að standa á sínum rétti, en viðurkenna rétt hins líka, enda þótt þar geti maður stundum lent út við ystu mörk. Frekjan eða óhófleg stjórnsemi er þá notað yfir hegðun sem fer yfir mörkin gagnvart hinum, tekur ekki tilfinningar [hagsmuni] hins aðilans gildar.

Illugi Gunnarsson hefur þann allt að því sérstæða eiginleika á meðal þingmanna að láta sig hagsmuni skattgreiðenda varða og á stundum beitt fyrir sig ákveðni í þeim efnum. Illugi er nánar tiltekið þeirrar skoðunar að einstaklingum sé betur treystandi til að ráðstafa sínu sjálfsaflafé en öðrum, hvort heldur er til að fara í bíó eða annað.

Nýlega bárust fréttir af því að Illugi hefði lent upp á kant við fulltrúa frekjunnar, Benedikt Erlingsson kvikmyndagerðamann. Framkoma Benedikts minnti auðvitað á frekjukast ofdekraðs barns sem lítur á skattfé almennings sömu augum og ómálga börn líta á nammibar í verslun. Líklega hefur sjaldan verið eins ljóst hve sárt það er að tapa einhverju sem maður á ekki eins og þegar frekjubarnið Benedikt lýsti skoðunum sínum á hinum meinta niðurskurði til kvikmyndagerðar. Reyndar er undarlegt að þegar útgjöld hins opinbera eru aukin út og suður að þá skuli hugtakið ,,niðurskurður” á sjálfsaflafé skattgreiðenda ekki vera notað en það er líklega eitthvað allt annað mál.

Kvikmyndagerðarfólki og reyndar öllum sem vinna við einhverskonar menningu er tíðrætt um gríðarleg menningarverðmæti og marföldunaráhrif. Sú hagfræðikenning að hver króna sem slitin er úr buddum launafólks og gefin til kvikmyndagerðarmanna, hreinlega fimmfaldist ætti að vera framlag íslendinga til Ig Nóbel verðlaunanna. Hæfisskylirði eru reyndar að rannsóknir þurfa að vera óviljandi fyndnar. Sem dæmi má nefna að inn í þau margföldunaráhrif er tekin velta allra auglýsingastofa, fjarskiptafélaga osfrv. Þannig er fundið út orsakasamhengi á milli gjafafés til kvikmyndagerðar og SMS skeytasendinga. Sama á svo við um birtingarkostnað á auglýsingum í fjölmiðlum. Á móti margfeldisáhrifunum liggur svo hin hlið málsins að haldi fólk eftir sínu sjálfsaflafé muni það samstundis brenna peningaseðlunum með tilheyrandi stöðnun fyrir hagkerfið.

Gildi landkynningar er svo blásið út auk þess sem að því er látið liggja að kvikmyndaiðnaðurinn sé svo aumur, þ.m.t. Hollywood að útilokað sé að taka hér upp bíómyndir án niðurgreiðslna hins opinbera. Í því sambandi geta menn spurt sig hversu oft kvikmyndir hafi orðið kveikja að ferðalögum á tökustað bíómyndar á erlendri grundu nú eða jafnvel hvort menn yfir höfuð spái í hvar bíómyndir eru teknar hvort heldur er í sýndarveruleika stúdíóa eða í veruleika.

Úr niðurgreiddu upphafsatriði Hollywoodmyndarinnar Promotheus sem hefst við Dettifoss og nágrenni. Hvað skyldu margir bíógestir hafa ákveðið að ferðast á tökustað í Skotlandi eftir að hafa séð myndina?

landkynning_png

Skotlandskynning

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur