Laugardagur 22.11.2014 - 20:34 - FB ummæli ()

Ferðasaga úr Klettafjöllunum

Í hugum flestra sem reynt hafa verður hugtakið „ómissandi” samofið skíðafríum, hvort heldur er í vinahópi eða fjölskylduferð.

IMG_0759

Tær stemning á toppnum

Tilfinningin við að standa á fjallstoppi í tæru lofti og óendanlegu útsýni er óviðjafnanleg. Þeim sem ekki hafa stigið á skíði í langan tíma er óhætt að treysta á að það að skíða er ekki ósvipað og að hjóla, þ.e. gleymist ekki eftir fyrstu grunnkennslu. Hraða og áreynslu geta svo allir stýrt eftir eigin höfði en fullyrða má að fátt jafnist á við dæmigerðan skíðadag þar sem saman fer áreynsla og afslöppun í góðum félagsskap.

Einn stærsti kosturinn við Klettafjöllin í Bandaríkjunum er snjórinn og þá nánar tiltekið s.k. púðursnjór sem hentar miðlungs og betri skíðamönnum afar vel sér í lagi utan troðinna brauta en einnig mætti nefna ameríska gestrisni og þjónustulund sem alltaf er til staðar. Þess skal þó getið að troðnar brautir eru að sjálfsögðu einnig í boði í öllum flokkum. Fyrir byrjendur er afar hentugt að taka fyrstu skrefin í mjúkum snjó en bréfritari hefur aldrei náð að upplifa hart færi í Klettafjöllunum. Besti tíminn til að upplifa púðursnjó, eða léttari útgáfuna ,,kampavínspúður“, er seinnihluta janúar auk febrúar þó reyndar snjói einnig mikið í mars sem þó er sólríkari. Sá er þetta ritar hefur undanfarin aldarfjórðung ferðast árlega til flestra stærstu skíðasvæða báðum megin við Atlantshafið.

Kampavínspúður

Kampavínspúður

Dagur 1

Eins og vænta mátti hafði snjóað gríðarlega í Klettafjöllunum eða um 5 metra og spáð var um 50 cm snjókomu á fyrsta degi ferðarinnar. Eðli málsins samkvæmt var því talsverð eftirvænting í hópnum í upphafi ferðar. Líklega má flokka sem eitt af undrum veraldar að flogið skuli vera frá litlu landi eins og Íslandi til Denver í beinu flugi!

Til að gera sem minnst úr tímamismun var ákveðið taka daginn snemma í ferðinni enda reglumenn á ferð sem sækja lítið í s.k. „apres ski“ sem er fínt heiti yfir s.k. fyllerí í lok skíðadags. Að auki er nokkuð fullsannað að tími er afstæður og fjörlegasta mannlífið er milli 4 og 8 seinnipart dags og því lítið sem tapast á að ganga snemma til náða. Þar sem útlit var fyrir talsverða snjókomu á nokkrum hálendisvegum var ákveðið að gista í Georgetown,gömlum námabæ í um 45 mínútna fjarlægð frá Denver. Um bæinn var eitt sinn ritað að „Men are cheaper than timber. Wood for shoring is dear and scarce. Greedy men are cheap and plentiful.“

Georgetown

Georgetown

Sem betur fer er engin sérstök byggðastefna við lýði í Bandaríkjunum og því þurfa samfélög að finna sér nýjan tilgang ef aðstæður breytast. Slíkt þýðir að stundum leggst byggð af en oftar uppskera menn með „skapandi eyðileggingu“. Georgetown er gott dæmi um slíkt þar sem haldið hefur verið í afar fallega bæjarmynd með varðveislu gamalla húsa, lesta og verslunarhátta og er hiklaust hægt að mæla með viðkomu þar auk þess sem frumstæð en afar frambærileg gisting er í boði.

Eins og menn þekkja er flest stórt í Ameríku, þ.m.t. bílar á borð við Cheverolet Suburban sem henta einstaklega vel fyrir fjóra farþega og umtalsverðan farangur.

Chevrolet Suburban fullhlaðinn.

Chevrolet Suburban fullhlaðinn.

Dagur 2

Þegar við mættum á matargerðarmusterið Happy Cooker í Georgetown rétt fyrir kl. 7, var eldhússtýran upptekin við að moka heimreiðina og því ekki búið að opna. Eftir 5 mínútna hverfisbíltúr var hinsvegar hægt að ganga þurrum skóm inn í salinn og panta Egg Benedict ásamt beikoni og uppáhelltu kaffi í ómældu magni. Aðrir voru ekki á ferðinni og kyrrsæld því allt að fullkomin á stað þar sem tíminn virðist hafa staðnæmst en gestrisnin ekki.

„Hlíðar-fjöll“ borgarbúa kallast Winter Park og eru í um 2 klst. fjarlægð frá Denver. Segja má að hér séu fjöllin há en verðin lág en að auki er í gildi samningur fyrir handhafa lyftukorts í Hlíðarfjalli í Akureyri sem segja má að séu bitastæð vinabæjarskipti. Um er að ræða alls sjö samtengd fjöll aðgengileg frá nýlega byggðum hótel og þjónustukjarna með fjölda hótela og veitingastaða, allt í göngufæri. Besti veitingastaðurinn í fjallinu er Sunspot sem býður einfalda kaffiteríu sem og veitingastað þar sem þjónað er til borðs. Til stóð að bæta við nýrri kláfferju, veitingastað og fjölga troðurum fyrir tímabilið. Winter Park býður upp á prýðis aðstöðu fyrir byrjendur og miðlungs skíðamenn auk góðra ,,off piste“ svæða fyrir þá sem lengra eru komnir. Í miðri viku eru hér fáir og oft finnst manni maður hafi fjallið út af fyrir sig.

IMG_0451

Dagur 5

Eftir fjögurra daga skíðun í WinterPark er förinni heitið til stærsta samfellda skíðasvæðis Bandaríkjanna, Vail. Að vanda er dagurinn tekinn snemma og morgunverður snæddur á hinu upprunalega Hard Rock Café í Empire sem segja má að sé stórt nafn á litlum bæ (400 manns). Nafn veitingastaðarins er dregið af vinnsluaðferð námamanna sem jafnframt bjuggu í bænum þegar silfurnámur gáfu vel af sér á þessum slóðum.

IMG_0443

Hið upprunalega Hard Rock Café

Hið þurra loftslag í Vail gerir að verkum að -18 gráðu frost gerir ekkert annað en að létta snjóinn enn frekar en honum kyngir einmitt niður við komuna á Marriott hótelið í Vail. Því liggur beinast við að forðast troðnar brautir og stefna beint á Bluesky Basin, bakgarðinn, sem einn og sér væri myndarlegt skíðasvæði. Efstastigs lýsingarorð falla hér á borð við „fullkomnun“ og „meiriháttar“ en svona skíðasvæði verður líklega aldrei lýst með orðum frekar en öðrum meistaraverkum.

Ljóst er að í Vail fara saman magn og gæði, a.m.k. mælt í skíðabrekkum.

Nýjasti veitingastaðurinn í Vail heitir því hógværa nafni „10“ og er í miðri brekku. Vart er hægt að hugsa sér meiri íburð, gestum er boðið upp á inniskó fyrir borðhald og skíðaskó í geymslu á meðan snætt er. Vert er að geta að vínlistinn er eins og matseðillinn (upp á 10) með góðu úrvali vína úr flestum heimshlutum. Kobe hamborgari stóð vel undir væntingum og reyndar gott betur og sama mátti segja um íburðarmiklar flatbökur, pastarétti, steikur og sjávarrétti.

Glæsilegri veitingastað er vart að finna á skíðastað. Verð á réttum á bilinu $12-$39 verður að teljast hóflegt a.m.k. á íslenskan mælikvarða. Gríðarlegt úrval veitingastaða og hótela í hæsta flokki finnst í Vail en fyrir útsjónarsama er sömuleiðis nóg af ódýrari valkostum sér í lagi í eldri hluta bæjarins þar sem er gnægð verslana og veitingastaða fyrir allar þarfir. Þess má geta að rekstrarfélagið Vail Resorts tekur á móti fimm milljón gestum árlega til Colorado.

Dagur 7

Eftir stutta viðkomu í GlenwoodSprings, sem státar að sögn af stærstu hitaveitu-sundlaug heims, er rennt inn í líklega mest umtalaða skíðabæ heims, Aspen. Á rólegum degi eru hér líklega fleiri einkaþotur á flugvelli bæjarins en reiðhjól á ársfundi VG. Samt er bærinn afar upprunalegur enda hafa yfirvöld gengið svo langt að úthýsa öllum nýbyggingum (sem seljast á allt að $40m) upp í hæðirnar báðum megin í dalnum. Við innritum okkur á nýjasta hótelið í bænum, Limelight, sem er í göngufæri mitt á milli tveggja þeirra lyfta sem ná niður í bæinn úr Aspen Mountain sem er eitt fjögurra fjalla sem saman mynda skíðasvæðið. Hin eru Aspen Highlands, Buttermilk og Snowmass, hvert með sína sérstöðu en mynda samanlagt eitt stærsta skíðasvæðið í Bandaríkjunum. Svæðin eru það stór að flestir þurfa a.m.k. tvo daga til að fara yfir hvert og eitt en rútur og hótelbílar keyra gesti á milli á öllum tímum.

Um kvöldið fáum við boð um að öllum hótelgestum GB Ferða sé boðið í ,,first tracks“ þ.e. að fara með starfsmanni svæðisins upp í fjallið fyrir opnun og ná fyrstu ferð í ósnertu púðri. Þar sem spáð er að snjó kyngi niður um nóttina, þurfti ekki að greiða atkvæði um þessa tillögu.

Í Aspen er ætlast til þess að hinir ríku og frægu fái að vera í friði fyrir myndavélum og eiginhandaráritunum sem hópurinn reyndar virðir tilneyddur vegna vankunnáttu á því sviði.

Compromise silfurnáman í Aspen

Compromise silfurnáman í Aspen

Bærinn byggðist upp á silfurnámum sem flestum hefur verið lokað í dag ef frá er talið að á sumrin er hægt að fara í magnaðar skoðunarferðir í vögnum hundruð metra niður í yfirgefnar námur sem hentar þeim sem búa yfir meira af spennuþrá en innilokunarkennd.

Dagur 8

Eftir hnédjúpan púðurmorgun í Aspen Mountain er hádegisverður á fremur uppsköluðum veitingastað, Ajax Tavern, sem áfastur er við eitt besta hótel bæjarins Little Nell sem nýlega var endurinnréttað fyrir litlar $18 m! Ilmur af trufflusveppum í salnum er kunnuglegur enda einn þekktasti réttur staðarins parmesan og trufflubaðaðar franskar kartöflur. Matseðillinn er dæmigerður fyrir hádegisstaði af betri tegundinni, ostrur, steikur, hamborgarar og vínseðill í hæsta klassa.

Hluti af endurgerð hótelsins fólst í uppgerð á vínkjallara sem stendur gestum til boða, hvort heldur er í stutta vínsmökkun fyrir mat eða stærri yfirferð. Ólíklegt er að betri vínseðil sé að finna á skíðahóteli auk þess sem uppsetningin er eins og best verður á kosið. Þess má geta að Aspen tekur á móti einni milljón ferðamanna árlega. Það vakti því athygli undirritaðs að forráðamenn staðarins eru afar ánægðir með að Icelandair skuli bjóða upp á flug til Denver sem gefur Evrópubúum hentugan valkost á flugi með einni millilendingu í Keflavík.

Að afloknum skíðadegi er mætt á Little Nell í vínsmökkun í vínkjallara hótelsins. Eftir kampavínsglas á barnum liggur leiðin út um bakdyr inn í vörumóttöku, niður starfsmannalyftu og nokkra ranghala heyrast taktfastir tónar frá rapparanum Tupac innan úr vínkjallaranum. Fyrir valinu er Nuits St. Georges „Les St. Georges“ frá Thibault Liger Belair árgerð 2007, hreint út sagt frábært vín.

Vínsmökkun á Little Nell

Vínsmökkun á Little Nell

Vínþjónn hússins, (sem að sjálfsögðu er Master Sommelier), upplýsir okkur að næsti gestur á undan hefði m.a. drukkið Grand Echezeaux frá Romaneé Conti árgerð 1937 að andvirði $25.000. Vínlagerinn samanstendur af gríðarlegu úrvali vína frá öllum heimshlutum með sérstaka áherslu á Búrgúndí hérað í Frakklandi.

Aspen er allt í senn venjulegur og upprunalegur bær með mikinn sjarma, gríðarlegt úrval veitingastaða af öllum tegundum auk verslana allt frá Prada og Ralph Lauren niður í J Crew og Gap, og rétt eins og í Vail er hér talsvert næturlíf. Eitt fallegasta hótel veraldar er krúnudjásn bæjarins, Hotel Jerome sem jafnframt er á söguminjaskrá byggt 1880. Gistingin er ekki ódýr en óviðjafnanleg og hugsanlega eftirminnileg því sögur fara af draugagangi frá þeim tíma þegar hótelið þjónaði hlutverki líkhúss. Drykkur á barnum hér er algerlega ómissandi.

Aspen_Boutique_Hotels__Luxury_Lodging_in_Aspen_-_Hotel_Jerome

Hótel Jerome

Dagur 9

Heiðskýrt púður

Enn snjóar þegar hótelskutlan skilar okkur í Aspen Highlands um 10 mínútum áður en lyfturnar opna. Förinni er að sjálfsögðu heitið í „Skálina“ eða Highland Bowl sem er svört „tveggja demanta“ brekka (kannski nær að segja brekkur) Í 47 gráðu halla komast snjótroðarar ekki niður og því skíða menn algerlega á eigin vegum hér og reyndar alveg í eigin heimi að auki. Talsverður vindur stendur á fjallið sem feykir lausum snjó yfir í sjálfa skálina þannig að ljóst er að alger veisla er framundan. Eftir 20 mínútna göngu með skíðin á bakinu, í strekkingsvind og stórhríð eftir einstigi ofan á fjallinu er hæsta tindi náð í um 3.900 metrum. Ferðin niður er einfaldlega fullkomin, mittisdjúpur en fisléttur púðursnjór í hrikalegum bratta, ósnortnum snjó og ekki sálu að sjá. Við þessar aðstæður er ekki um neitt annað að hugsa en að komast sem fyrst upp aftur, hugsun sem reyndar hefur sótt á alla tíð síðan.

Ferðaskrifstofan GB Ferðir hefur í samstarfi við Icelandair boðið hentugar skíðaferðir til Colorado í mismunandi verðflokkum. Í vetur hefur verið boðið upp á vikulegar ferðir á tímabilinu 3. jan – 8. mars í 8 nætur (7 skíðadagar). Allar ferðirnar eru með laugardagsbrottför sem er þægilegur dagur, með heimferð á sunnudegi viku síðar og lent í Keflavík að morgni mánudags.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur