Mánudagur 24.11.2014 - 20:32 - FB ummæli ()

Vímuefnavandi og verslunarrekstur

Oscar Wilde sagði eitt sinn að hann stæðist allt annað en freistingar. Fáir þekkja freistingar jafn vel og stjórnmálamenn. Þó svo að tilgangur Alþingis sé að setja lög og reglur sem tryggja rétt landsmanna, hafa þingmenn ekki staðist þá freistingu að snúa hlutverkinu á haus og þrengt að réttindum borgaranna með lagasetningu sinni. Frelsisskerðingin er hjúpuð göfugum ásetningi til að réttlæta órétt. Ef einhver alþingismaður efast um óréttmæti einokunarverslunar, ætti sá hinn sami að vinda sér beint á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins þar sem flestar hliðar slíks reksturs eru tíundaðar og reyndar sektaðar. Samkeppniseftirlitið hefur reyndar úrskurðað nú þegar að einokun með áfengi er jafn skaðleg og önnur einokun með innsendu erindi til Alþingis.

Sumir óttast að verði einokunarverslun hins opinbera með áfengi lögð af muni vöruverð hækka og úrval minnka. Slíkar bollaleggingar eru auðvitað grátbroslegar en menn gætu þá allt eins spurt hvort bæta mætti úrval og lækka verð á öðrum neysluvörum með einokunarveslunum á fleiri sviðum.

Megináhyggjur einokunarsinna felast í að þeim sem eigi við áfengisvandamál að stríða muni eiga erfiðara um vik með að halda aftur af sinni fíkn fari svo að áfengi verði afgreitt af öðrum en ríkisstarfsmönnum. Að auki muni fleiri verða áfengisfíkninni að bráð ef áfengi verði aðgengilegra.  Þessar áhyggjur standast augljóslega ekki skoðun. Fíknin er réttilega skilgreind sem sjúkdómur og meðhöndluð sem slík. Að spyrða ÁTVR við hlutverk SÁÁ er svipað og að tengja saman Bæjarins Bestu og Hjartavernd. Auðvitað verða ekki fleiri ,,veikir” þó svo að áfengi verði stillt upp í hefðbundnum verslunum frekar en að einhver verði átfíkill af því að horfa á matvæli í verslunum. Ofát veldur mun fleiri ótímabærum dauðsföllum en áfengi. Engum (öðrum en meðlimum VG) dytti þó í hug að torvelda aðgengi átfíkla að matvælum með einokunarmatvöruverslun ríkisins. Ranglega seld lyf geta valdið öruggum dauðdaga en samt dettur engum í hug að einungis félagsmenn í BSRB geti afgreitt lyf. Í annan stað eru allflestir sammála um að ekki sé verjanlegt að selja eða útvega ungmennum undir lögræðisaldri áfengi en eins og allir vita hefur einokunarverslun ríkisins ekkert með slíkt markmið að gera enda síbrotastofnun á því sviði.  Ströng viðurlög eru allt og sumt sem hið opinbera getur viðhaft í því sambandi og tengist augljóslega ekki verslunarrekstri, hvort heldur er opinberum eða einkareknum. Hver hafa annars verið viðurlög við brotum starfsmanna ÁTVR í þessu sambandi og hversu margir hafa hlotið refsingu?

Verslun og viðskipti geta verið mörgum framandi, sér í lagi þeim sem aldrei hafa stundað slíka starfsemi. Þannig átta fáir sig á að t.d. í Bretlandi selst orðið meira af léttvínum á netinu heldur en í verslunum og vínsjóðir eru starfandi víða um heim sem þjóna fjárfestum sem dreifa vilja sparifé sínu með stöðutöku í vínum. Að auki er ýmis verslun og þjónusta viðloðandi vín og það jafnvel á alþjóðavísu. Allir hljóta að sjá að banna slík viðskipti á grundvelli þjóðernis er algerlega galið og getur varla staðist ákvæði EES samningsins. Í þessu sambandi má benda á að einstaklingum hér á landi er heimilt að versla vín og flytja inn til eigin neyslu, af hvaða erlendum vínsala sem er. Viðskipti við innlenda innflytjendur eru hinsvegar bönnuð! Segja að sú hlið málsins sé í takt við þá firru að erlendir áfengisframleiðendur geta auglýst í öllum tímaritum, á netinu og í beinum sjónvarpsauglýsingum en innlendum samkeppnisaðilum er meinað um slíkt jafnræði.

Að leggja stein í götu íslenskrar verslunar hefur hingað til snúist um að hygla úreltu landbúnaðarkerfi með einokun og kvótakerfi. Sama er uppi á teningnum Í tilfelli einokunarverslunarreksturs ÁTVR.  Þar er augljóslega verið að höfða til stórs hóps kjósenda sem hefur réttilega áhyggjur af littlum hópi vímuefnasjúklinga og trúir því að ríkisvaldið nái að torvelda aðgengi sjúkra með rekstri 48 verslana! (til samanburðar rekur Bónus 29 verslanir) og að slíkt hafi sefandi áhrif á áfengissýki! Verslanirnar eru svo staðsettar á bensínstöðum, barnafataverslunum og stórmörkuðum. Vímuefnunum er svo smekklega stillt út í glugga og verslanir auglýstar í bak og fyrir einmitt til að laða að viðskiptavini undir formerkum þess að hefta aðgengi. Af einherjum ástæðum heyrist þó lítið um að ríkið taki yfir rekstur lyfjaverslana til að vinna gegn pillufíkn.

Útstillingargluggi ÁTVR gagnstætt inngangi í Hagkaup

Útstillingargluggi ÁTVR gagnstætt inngangi í Hagkaup

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur