Föstudagur 15.05.2015 - 12:50 - FB ummæli ()

Flett ofan af ÁTVR

Eitthvert kjánalegasta plagg sem komið hefur frá Alþingi í seinni tíð er minnihlutaálit skoðanasystkinanna Frosta Sigurjónssonar, Steingríms J. Sigfússonar og Líneikar Önnu Sævarsdóttur vegna frumvarps um afnám einokunarverslunar með bjór, léttvín og annað áfengi. Líklega hafa fáir haft mikið álit á meðlimum VG þegar kemur að viðskiptum enda flokkurinn almennt á móti viðskiptafrelsi sem og einstaklingsfrelsi yfir höfuð. Þar sem Frosti Sigurjónsson kemur úr annari átt, þ.e. einkarekstri og það sem meira er frumkvöðlastarfsemi bundu margir vonir við að hann hefði a.m.k. lágmarksskilning á mikilvægi frjálsrar verslunar.

ForsjárhyggjusinnarÁlit minnihlutans er þversagnakennt í meira lagi. Annarsvegar telja höfundar að óþarfa milliliðum eins og heildsölum muni fækka en hinsvegar muni verð fyrir vikið hækka. Tvöfalt álagningarkerfi er semsagt hagkvæmara en einfalt. Jafnframt spáir minnihlutinn því að verðmunur muni verða á víni í þéttbýli og dreifbýli. (líklega aldrei heyrt eða séð auglýsingar á borð við ,,Bónus, sama vöruverð um land allt“) Fyrir liggur að hægt er að selja rúmmálsfreka en verðlittla vöru á borð við klósettpappír eða morgunkorn á sama verði um land allt. Hinsvegar muni eitthvað allt annað vera uppi á borðinu þegar kemur vöru sem sannanlega er hlutfallslega ódýrara að flytja en flestar aðrar þegar verðmæti og rúmmál er haft til hliðsjónar. Hagræðing samfara aukinni veltu í verslunum muni skila sér í hærra vöruverði svona rétt eins og varð þegar mjólkurbúðum var lokað.

Jafnframt kom fram það álit nefndarmanna að viðskiptafrelsi muni þýða að úrval myndi minnka án þess að það væri rökstutt nánar. Frosti Sigurjónsson sér þar með engin tækifæri í t.d. netverslun. Í framangreindu áliti, kemur fram að nefndarmenn telji að með auknu aðgengi muni neysla aukast um 30% samkvæmt niðurstöðum ,,vandaðra“ rannsókna. Minna og lélegra úrval þýðir semsagt aukin sala! Hinsvegar kemur ekkert fram um til hvaða rannsókna vitnað er þar sem ransakað hefur verið áhrif þess að einokunarverslun með áfengi sé lögð niður.

Nú hefur fyrirtækið Clever Data sent frá sér yfirgripsmikla skýrslu um rekstur ÁTVR þar sem fram kemur að fyrirtækið innheimtir skatt af tóbaki undir því yfirvarpi að um heildsöludreifingu sé að ræða. Segja má að þar ríði þvælan ekki við einteyming því þar með er búið til tvöfalt heildsölukerfi því að auki eru jú starfandi tóbaksheildsalar við innflutning og markaðssetningu á tóbaki. Engin rök eru fyrir heildsölu ríkisins á þessu sviði heldur er hér þvert á móti um að ræða skattheimtu sem ætti að renna í ríkissjóð en ekki til að niðurgreiða sérverslanir með áfengi. Á sama tíma blæs ÁTVR út með fjölda verslana sem nú eru 48 en salan dregst hinsvegar saman. Þannig vinnur stofnunin markvisst að því að auka aðgengi en minnka tekjur sem ekki er beinlínis í anda áfengislaga eða boðskapar ríkisforsjárhyggjusinna.

átvr

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur