Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur útlistaði nýlega í grein í Fréttablaðinu afstöðu sína gagnvart viðskiptafrelsi með löglegar neysluvörur. Í pistli sínum endurómar Gunnar varnaðarorð Borgarlæknis sem benti réttilega á að ,,mjólk væri ekki eins og hver önnur neysluvara“ og varaði því við lokun mjólkurbúða. Auðvitað var bjórinn ekki eins og hver önnur neysluvara í hugum ,,gunnara“ þessa lands og sama átti við um frjálsann opnunartíma veitingastaða. Gunnar segir að:
…árið 1997 höfðu um 50% allra nemenda í 10. bekk neytt áfengis einu sinni eða oftar síðustu 30 daga. Þetta hlutfall var komið í 11% árið 2013.
Heilsuhagfræðingurinn lætur þess ógetið hvernig þessi þróun geti haldist í hendur við að vínbúðum hefur fjölgað um nánast helming á tímabilinu í 48.
Hinsvegar fullyrðir hann að ,,tilfellum um ölvunarakstur“ muni fjölga um 7 sem hlýtur að teljast undarlegt þar sem hið svokallaða ,,aukna aðgengi“ ætti að þýða að fyllibyttur þessa lands þyrftu enn síður að keyra eftir flöskunni en ella. Gróflega áætlað væri hér um að ræða auknkngu sem væri mældi í prómílum og þó svo að efast megi um forsendur hagfræðingsins er vart hægt að ræða hvort slík spá réttlæti einokunarverslanir sem kosta skattgreiðendur yfir 2 milljarða á ári.
Gunnar lætur þess auðvitað ógetið að tóbaksreykingar ungs fólks skuli hafa farið úr rúmum 20% niður undir 5% og það þrátt fyrir að einkaaðilum sé treyst til þess að sjá um smásöluna en ríkisstofnun sér um heildsöluna. Af hverju þessu sé öfugt farið með áfengisverslun er líklega ofvaxið heilsuhagfræðinni.
Ofstæki fólks sem ekki hefur getað séð fótum sínum forráð þegar kemur að umgengni við áfengi er flestum kunnugt. Gunnar segist hafa talið áfengishillumetra í verslunum í Frakklandi en lætur þess þó ógetið að þar hefur áfengisneysla dregist verulega saman undanfarinn áratug. Með sama hætti er þess hinsvegar varla langt að bíða að offitusjúklingar hefji baráttu fyrir ,,skertu aðgengi“ matvæla þar sem ofneysla á mat veldur jú mun fleiri ótímabærum dauðsföllum en ofneysla á áfengi.