Sunnudagur 11.10.2015 - 14:46 - FB ummæli ()

Bábiljan um torvelt aðgengi

Sú furðulega bábilja virðist ríkja hér á landi með að embættismenn hins opinbera haldi áfengisneyslu í skefjum með einhverju sem kallað er ,,torvelt aðgengi” Með því að endurtaka kreddurnar nógu oft, breytist þær sjálfkrafa í vísindalega staðreynd.

Ofstækisfólk sem berst gegn viðskiptafrelsi með áfengi (og gjarnan fleiri neysluvörur), klifar í sífellu á hugtökum á borð við að ,,allar rannsóknir“ ýmist ,,sýni“ eða ,,sanni“ að eitthvað sem kallað er ,,aukið aðgengi“ þýði sjálfkrafa aukna neyslu. Önnur ályktun er að hin meinta aukning í neyslunni muni ekki dreifast jafnt heldur lenda alfarið á fámennum hópi áfengissjúklinga sem nái að halda fíkn sinni í skefjum með því að horfa ekki á áfengi í hillurekkum.

Fyrir það fyrsta eru auðvitað engar ,,empirískar“ rannsóknir til sem sýna eða sanna að afnám einokunarverslunar hafi í för með sér aukna neyslu. Það einfaldlega skiptir ekki máli að fullyrða um slíkt ef menn hafa engar tölulegar staðreyndir fyrir sér. Sömuleiðis skiptir engu máli þó viðkomandi beri starfsheitið, læknir, lýðheilsufræðingur eða bara alfræðingur.

Þegar sölutölur eru bornar saman milli sambærilegra landa t.d. eins og Norðurlanda, sést hinsvegar að nær væri að tala um að sala ykist samfara einokunarverslun en dragist saman þar sem viðskiptafrelsi er til staðar. Hér hefur ofstækisfólkið augljóslega endaskipti á veruleikanum.Áfenigssala í lítrum

Þeim sem aðhyllast ríkisforsjárhyggju á sem flestum sviðum mannlegs lífs, er fyrirmunað að líta á einstaklinginn sem grunneiningu samfélagsins, allt snýst um hópa. Þannig verða til stórbrengluð fyrirbæri á borð við ,,jákvæða mismunun“ og neytendur áfengis eru annað hvort fýklar eða verðandi fýklar. Forsjárhyggjusinnum finnst það vera frekja og yfirgangur þeirra sem vilja eiga viðskipti sín á milli með löglegar neysluvörur án afskipta hins opinbera. Á hinn bóginn er það dæmi um umburðarlyndi og víðsýni að beita lögreglu og dómsvaldi til að fyrirbyggja slíkt.

Allir þekkja af eigin reynslu eða afspurn, dæmi um skelfilegar afleiðingar af áfengisfýkn og/eða tilfelli þar sem áfengi hefur stuðlað að einhverskonar ófarnaði með einhverjum hætti. En ef hægt er að taka slík undantekningartilfelli til hliðar, hve stórt er þá vandamálið? Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem fjallar um umfang vímuefnanotkunar í heiminum kemur meðal annars fram að rekja megi 35 af hverjum 100.000 dauðsföllum til neyslu áfengis sem samsvarar 0,0035%. Þó að erfitt sé að meta líf til fjár er augljóslega ekki hægt að réttlæta tilvist einokunarstofnunar sem kostar yfir 2 milljarða á ári að reka með tilvísun í þokukenndar hugmyndir um ótímabæra dauðdaga mælt í prómílum.

Því miður er auðvitað engin leið að reikna nákvæmlega út hver neysla Íslendinga á áfengi er þar sem erlendir ferðamenn eru ekki aðskildir og tollfrjáls varningur er ekki með í tölugögnum. Í öllu falli má gefa sér að heildarneysla hafi sannanlega aukist með tilkomu bjórsins. Þvert ofan í fullyrðingar ríkisforsjárhyggjusinna dróst hinsvegar unglingadrykkja saman auk þess sem vandamál tengt áfengisneyslu jukust ekki. Þær staðreyndir einar og sér sanna að málflutningur dómsdagsspámanna er einfaldlega rangur nú sem fyrr. Aukið aðgengi og aukið framboð hefur augljóslega ekki í för með sér aukin vandamál þó svo að heildarneysla kunni að aukast!

Í sömu skýrslu Velferðarráðuneytis er ennfremur talað um að ,,Rannsóknir hafa sýnt að aðgerðir sem draga úr aðhaldi eru til þess fallnar að auka neyslu hvaða vímugjafa sem um ræðir“. Hinsvegar er ekkert sagt um að hið svokallaða aukna aðgengi muni auka tíðni vandamála tengt áfengisneyslu. Ekki er vitnað í neinar rannsóknir enda engar slíkar til sem standast kröfur um vísindalega sönnun tilgátna. 

Einhver kjánalegasti málflutningur ríkisforsjárhyggjusinna er að viðskiptafrelsi muni hafa þríþætta afleiðingu. Fyrir það fyrsta muni úrval minnka, verð hækka en svo rúsínan í pylsuendanum að sala muni aukast, upphaflega um 30% en sú tala er nú komin í 44% auðvitað allt byggt á áreiðanlegum rannsóknum. Hér er líklega á ferðinni framlag Íslands til Ig Nobelverðlauna í hagfræði.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur