Það er vel til fundið hjá Morgunblaðinu að skipta einum dálki aðra hverja viku milli frelsis og helsis þar sem Sigríður Andersen og Ögmundur Jónasson skiptast á að útlista skoðanir er varða framfarir og afturhald. Í pistli sínum í dag fjallar Ögmundur um sérhagsmuni, nánar tiltekið hagsmuni neytenda af verslunarfrelsi sem augljóslega er mikilvægasta hagsmunamál almennings fyrr og síðar.
Talsmenn helsis tortryggja frelsið á þeim forsendum að á því gætu einhverjir grætt. Rökvillan er hinsvegar sú að ef einhverjir gætu grætt á frelsinu, þá hljóta aðrir að græða á helsinu, nokkuð sem Ögmundur virðist ekki skilja. Ögmundur gerir engar tilraunir til að útskýra hvernig t.d. verslunareigendur myndu græða meira á að selja erlendann kjúkling eða ost í stað innlendrar framleiðslu. Engu skipti þó svo að stjórnendur Haga, Kaupáss, N1 (skv. upptalningu í pistlinum) virðast að öllu jöfnu leggja sig fram um að hampa innlendri vöru umfram erlenda.
Eins og fram hefur komið eiga sumir stjórnmálamenn erfitt með að fóta sig í prósentureikningi. Varlega áætlað er kjúklingur í dag um tvöfalt dýrari vegna tolla. Flestir landsmenn myndu hinsvegar gjarnan vilja kaupa slíka iðnaðarvöru á helmingi lægra verði, þ.e. aðrir en meðlimir í VG auðvitað.
Ef við gefum okkur að tiltekið magn af kjúklingi kosti kr. 1.000 án vsk. og inn í þeirri tölu sé ca. 20% smásöluálagning, liggur fyrir að hlutur verslunarinnar er kr. 200.
Ef sami kjúklingur kostaði helmingi minna eða kr. 500 væri samsvarandi framlegð til verslunarinnar kr. 100.
Öfugt við það sem verslunin berst fyrir þá er hærra vöruverð líklega betra fyrir verslunina heldur en lágt.