Miðvikudagur 20.07.2016 - 13:14 - FB ummæli ()

Ögmundur og Regnbogabörnin

Einn merkasti stjórnmálamaður sögunnar Ronald Reagan sagði eitt sinn að einhver hræðilegustu orð í enskri tungu rúmuðust í einni setningu ,, Hæ, ég er frá hinu opinbera kominn til að hjálpa“

Liðsmenn VG eru bókstaflega talandi dæmi um þessa fullyrðingu. Ögmundur Jónasson sem ekkert aumt má sjá, skrifar pistil í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni ,,MS í einelti“

Ögmundur og liðsmenn í VG eru eins og allir vita ákafir baráttumenn fyrir hagsmunum neytenda, sjúkra og náttúrunnar en skattgreiðendur eru reyndar bara ,,tekjustofn“ (nema stóriðja sem fær niðurfellda skatta og niðurgreidd jarðgöng og koma málinu augljóslega ekki við).

Ögmundur veit sem er að ríkisrekstur er alltaf óhagkvæmur og getur aldrei staðið undir sér nema með lögum sem fyrirbyggja það sem hann kallar „frelsiskreddukjaftæði“. Gildir þá einu hvort um er að ræða einokun í dreifingu á neysluvörum eins og áfengi, mjólk eða á öðrum sviðum. En rétt eins og George Orwell skrifaði í 1984, þá er stríð friður, fákunnátta er styrkur, þrældómur er frelsi og hefði auðvitað átt að bæta við að einokun er samkeppni.

Nú er það svo að Ögmundur og félagar á Alþingi reka einmitt Samkeppnisstofnun fyrir almannafé sem ætlað er það meginhlutverk að fyrirbyggja þann sama rekstur og þingmenn stunda sjálfir, þ.e. fákeppni og einokun. Ögmundur er svo að sjálfsögðu fyrirmynd annara þegar kemur að hollustuháttum, hvort heldur er í umgengni um áfengi eða neyslu matvæla og augljóslega þess umkominn að hafa vit fyrir öðrum. Óhætt er að segja að Orwellskari verði sjálfhverfan varla hjá Ögmundi eða hans stærstu bræðrum.

Í grein sinni kemur Ögmundur fram með nýjar kenningar um hvernig skilgreina má samfélagslegann ábata af einokun og það eina hugtak sem er djöfullegra en samkeppni, þ.e. arðsemi. MS er þóknanlegt Ögmundi af því að hagnaður af veltu er ekki nema 1%. Þannig munu fleiri sektir og hærri starfslokasamningar starfsmanna auðvitað bæta reksturinn á þann mælikvarða. Önnur nýstárleg barbabrella er að eigendur MS gjaldfæra hagnað í formi vörukaupa sem auðvitað lýtur miklu betur út heldur en hefðbundnar arðgreiðslur og margir mættu taka til fyrirmyndar. Önnur ,,lágverðsbrella“ er að láta neytendur borga tvisvar fyrir mjólkurfernuna, fyrst með sköttum og síðan við búðarkassann.

Væntumþykja Ögmundar um barnafjölskyldur og þá sem eiga við einhverskonar veikleika að stríða er auðvitað óumdeild. Þannig skattleggur Ögmundur soya og hrísmjólk um tugi prósenta, eingöngu af umhyggjusemi fyrir þeim barnafjölskyldum sem glíma við mjólkuróþol.

Næst kemur svo deild fyrir niðurbrotna einokunarforstjóra hjá Regnbogabörnum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur