Laugardagur 22.10.2016 - 11:05 - FB ummæli ()

Arðurinn til þjóðarinnar

Þó að krónan sé um margt umdeilanlegur gjaldmiðill má þó benda á að sterkari króna færir almenningi aukinn kaupmátt sem er hið eiginlega markmið hagkerfisins. Kaupmáttaraukning er hinn eiginlega mælieining á hið margþvælda hugtak ,,arðinn til þjóðarinnar“

Kaupmáttur

Auðlind er nokkuð gildishlaðið orð sem við notum um hrávörur eða ,,natural resources“ Auðvitað væri það draumastaða ef saman færi einhverskonar lindaruppspretta auðs sem ekki þyrfti annað að gera en að setja á krana og gjaldmæla svona ekki ósvipað og vatnslind sem nánast sjálfkrafa rennur um gjaldmæla sem myndu svo hjá-veita arðinum beint í vasa þjóðarinnar.

Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá er opinberum starfsmönnum flest betur til lista lagt heldur en að skapa arð og skila til þjóðarinnar. Hugmyndin er oft einfaldari í orði en á borði.

Orkuveita Reykjavíkur er einmitt dæmi um slíkt en nýjustu fréttir frá þeirri stofnun herma að skattgreiðendur þurfi að punga út 25 milljörðum til þess að fyrirtækið geti staðið við raforkusölusamning sinn við Norðurál, samning sem fyrirtækið hreppti með því að undirbjóða Landsvirkjun. Líklegt verður að telja að heildarkostnaður vegna Hellisheiðar nemi ámóta upphæð og heildarskuldir félagsins eða um 170 milljörðum og því morgunljóst að eigendur OR (þjóðin) munu aldrei bera krónu úr bítum fyrir stórmennskudrauma Alfreðs Þorsteinssonar og Helga Hjörvars. Það er því ljóst að arðurinn fór aldrei til þjóarinnar heldur til embættismanna sem sólunduðu honum í gæluverkefni. Orkuveitan er því á framfæri skattgreiðenda en ekki öfugt.

Utan úr heimi horfa vinstri menn forviða á drauminn sinn um ,,Sósíalisma 21. aldarinnar“ í Venezueala breytast í þjóðarharmleik þrátt fyrir að allir viltustu draumar um ,,arðinn til þjóðarinnar“ hafi ræst og það á sannanlegum auð-lindum, þ.e. olíu. Sú ,,fyrningarleið“ sem félagshyggjufrömuðurinn Hugo Chavez innleiddi þýðir að olíuframleiðslan hefur dregist saman um 40%. Að auki er svo komið að olíuvinnslan ein og sér stendur ekki undir tilkostnaði.Útgerðin frá lánsfjármagn

Einhver stærsta bábiljan sem flokka má undir yfirvarpið ,,arðurinn til þjóðarinnar“ er afnám kvótakerfis og þjóðnýtingu á kvóta útgerðarfyrirtækja hér á landi.

Enginn hefur þó getað í senn sýnt fram á betra kerfi til stjórnunar fiskveiða og/eða fundið kerfinu neitt annað til foráttu en að vel reknar útgerðir skili arði af því fé sem bundið er í rekstrinum. Öllum má ljóst vera að sú kollvörpun sem lýðskrumsstjórnmálamenn boða verður til þess fallin að arðurinn rennur einmitt til embættismanna til að skapa nýtt styrktarkerfi.

Þess má geta að gróflega talið greiðir útgerðin um 24 Milljarða til samfélagsins árlega og leggur þar að auki til mikið af þeim gjaldeyri sem styrkir krónuna sem aftur eykur kaupmátt alls almennings. Þar með fer arðurinn sannanlega til þjóðarinnar en ekki embættismanna.

Í nýlegri grein spurði Heiðar Guðjónsson ,,Hver er hugmyndafræði embættismanna?“ Auðvitað er djúpt á hugmyndafræði í opinberum rekstri en á því eru þó undantekningar. Þegar kvótakerfinu var komið á, lá sú hugmyndafræði að baki að ríkisvaldið dragi sig út úr atvinnurekstri og þar með afskiptum af þeirri atvinnustarfsemi í þeirri von að innbyrðis hagræðing myndi skapa bættann efnahag og hugsanlega arðsemi í framtíðinni sem á þeim tíma virtist fjarlægur draumur.

Í komandi kosningum verður meðal annars kosið um hvort breyta eigi þeim draumi í martröð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur