Það var frost og moldarblandaður malarstígurinn var hvítfextur á börmum hjólfaranna sem skreyttu hann ormaskrauti. Það ískraði í lúnu og ryðguðu spjótahliðinu þegar ég gekk inn í garðinn sem skildi á milli lífs og dauða. Þarna var Íslendingum raðað ofan í jörðina tilviljunarkennt eins og þeir væru allir jafnir en eina ójafnræðið var fólgið í legsteinunum. Einstaka alþýðumaður er gerður breiðari en annar á kostnað fjölskyldunnar. Flestir sérkenndir með stuttum minningarorðum eða titli. Ég gekk hægt og virðulega enda varla hægt annað því að stígurinn var svo ójafn að erfitt var að halda jafnvægi á blankskónum. Verkefni mitt á þessum stað var að horfa yfir farinn veg og reyna að skilja. Ég las á legsteinana og gladdist yfir einfaldleika og dramleysi flestra steinanna sem sýndi venjulegt fólk, hverdagshetjur sem höfðu skilað sínu og fengið eftirmæli við hæfi.
(Meistari Zeng sagði: „Það verður að huga vel að útför foreldra og minnast forfeðranna á viðeigandi hátt. Þá hefur alþýðan aftur dygðir í hávegum.“ Speki Konfúsíusar.)
Montsteinar og fullyrðingar um afrek sem voru svo einmanaleg þarna í kirkjugarðinum, þar sem fáir koma, fylltu mig depurð og sorg. Sumstaðar var æðruleysi og auðmýkt hjá þeim sem ég vissi að hefðu unnið afrek og það fyllti mig stolti því að nöfn þeirra voru næg yfirlýsing svo að jörðin virtist heilög og maður laut ósjálfrátt höfði.
Þá kom ég að leiði stjórnmálamannsins. Ég leyfði huganum að reika til baka og setti búta úr ævi hans mér fyrir hugskotssjónir. Ég minntist þess í aðdraganda kosninga einu sinni þar sem hann stóð eins og postulínskrukka ásamt litlum postulínskrukkum sem dönsuðu í kringum hann. Hann hreyfði varla höfuðið þegar hann talaði við hópinn sem sýndi honum áhuga og gleðilæti.
(Meistarinn sagði: „Hefðarmenn eru aldrei ílát.“ Speki Konfúsíusar.)
Alla samkomuna þurfti hann ekki að hreyfa sig því að fólkið kom og malaði í eyru hans á milli þess sem hann tók stórt upp í sig, alhæfði eða sagði brandara á kostnað keppinauta. Hann brosti þegar honum þóknaðist og einstaka sinnum mjakaði hann líkamanum til, þegar jafnstæð krukka ruggaði til hans. Ég man að ég stóð álengdar og velti þessari mynd fyrir mér. Þarna voru flokksmenn hans en um kvöldið átti hann fund með stuðningsmönnum sínum en það var annar hópur og einungis sumir þeirra í flokknum. Þeir skráðu sig samt að hans beiðni til að tryggja að hann kæmist fram fyrir samherjana.
(Meistarinn sagði: „Hefðarmenn ástunda einingu en ekki meting. Smámenni ástunda meting en ekki einingu.“ Speki Konfúsíusar.)
Svo þurfti hann peninga til að standa í kosningabaráttunni og þá voru það vinirnir í bankanum, fyrirtækjunum og þeir sem áttu peninga eða sýsluðu með peninga annarra. Þar dugði brosið og nafnið enda var það þeirra trygging fyrir endurgjaldi þegar þar að kæmi. Allt brambolt hans á postulínsbasarnum snerist um að koma sér á hillu og helst að brjóta hinar krukkurnar. Að vera á tiltekinni hillu gaf alltaf einhverja möguleika. Allir vissu að þeir voru í postulínsbúð en það var bara enginn fíll. Svo kom fíllinn og allt var búið.
Þar sem ég stóð þarna í kirkjugarðinum og hugleiddi örlög hans þá gekk til mín hrokkinhærður þéttvaxinn maður. Hann gekk hægt og ákveðið. Hann átti líka í vanda með ormskreyttan göngustíginn. Það var eins og búkurinn styddi sig við staura en ekki fætur þegar hann færði sig til. Hann andaði djúpt um leið og hann stansaði og á útönduninni spurði hann hvort að maðurinn væri dáinn. Ég gat ekki annað en sagt honum sannleikann.
“Hann veit það ekki!”
(Meistarinn sagði: „Sá sem uppgötvar nýja visku með því að endurskoða hið gamla er efni í kennara.“ Speki Konfúsíusar.)
Speki Konfúsíusar. Þýðing Ragnars Baldurssonar. Iðunn, Reykjavík 1989.
Rita ummæli