Föstudagur 26.02.2016 - 12:42 - 1 ummæli

Íslandsklukkan

„Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk fyrir gafli Lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni. Henni var hringt til dóma og á undan aftökum. Svo var klukkan forn að einginn vissi leingur aldur hennar með sannindum. En um það er sagan hefst var laungu kominn brestur í þessa klukku og elstu menn þóttust muna hljóm hennar skærari.“ (Íslandsklukkan, þriðja útgáfa 1969, eftir Halldór Laxness.)

Getum við með stolti sagt að klukkan sú arna, lýðræðisklukkan, hljómi enn í vitund okkar? Höfum við ekki brotið allar okkar klukkur? Hvað bendir til að hér í Norður Atlantshafinu búi þjóð sem á sér sögu um lýðvald, annað en frásagnir leiðsögumanna í rútum. Þjóð sem átti klukku sem glumdi þessu lýðvaldi með hreinum tóni.

Hinn hreini tónn réttlætis, lýðræðis og sanngirni verður til staðar á meðan menn hugsa og þroskast og finna til. Á hverjum tíma er það bara spurning um hávaðann í þeim sem telja að þeir nái ekki að graðka til sín nægilegum auðæfum og völdum sem drekkir hinum hreina tóni. Þessi hreini tónn lifir í ungu fólki á hverjum tíma og þá er von. Það bendir margt til að unga fólkið sé að hafna hinum gráðugu og valdasjúku. Unga fólkið er að vísu sjálft að drukkna í hávaða nýrra samfélagsmiðla svo að vonin er veik en hún er þarna. Kannski eru samfélagsmiðlarnir líka að skila einhverjum sannleika um menn og málefni sem kveikir frelsiselda í brjóstum innan um glauminn og sjálfsdýrkunina.

Klukkan glymur okkur í samtímanum, vekur og hvetur til dáða þá sem unna hinum hreina tóni.  „Gamlir stjórnmálaflokkar“ sjá ekki hvað er að gerast, þeir átta sig ekki á hlutverkum sínum og lesa ekki í atburðarásina. Klukkan glymur nú endurbættu lýðræði. Ef ég man rétt þá taldi Karl Marx að kapítalisminn myndi þróast yfir í alræði öreiganna. Karl Marx átti kannski við alræði almennings. Vitneskjan sem almenningur býr yfir sýnir spillingu og illt innræti hinna gráðugu.  Almenningur vill ekki láta valdasýki þeirra stjórna hamingju sinni. Almenningur vill hafa vald á örlögum sínum.

Stjórnmálastarf er mikilvægur hornsteinn góðs samfélags en því miður hefur „gömlu“ stjórnmálaflokkunum ekki tekist að fylgja samfélagsvitundinni og eru dagaðir uppi eins og nátttröll í sólskini morgundagsins. Piratar skynja hvað er að gerast og enduróma greinilega það sem stór hluti almennings er að hugsa ef marka má ítrekað ótrúlegt fylgi þeirra í skoðanakönnunum undanfarin misseri. Nú er lýðræðislegt formleysi þeirra að gera þeim óleik.

Ég starfaði lengi í einum ágætum stjórnmálaflokki og tilheyri honum enn, greiði árgjald og í styrktarsjóð hans. Þessi flokkur var grasrótartengdur en missti tenginguna vegna þess að valdaöfl innan flokksins vildu halda prófkjörum sem leið til að velja fulltrúa sína, þrátt fyrir tillögur í umbótahreyfingu hans. Prófkjörsaðferðin er í eðli sínu þannig að áhugasamir einstaklingar sem hafa sjálfir trú á því að þeir séu vel hæfir, reyna að telja flokksfélögunum trú um ágæti sitt (sem er gott!) en það eru vinir og vandamenn sem ganga tímabundið í flokkinn sem skipta sköpum um hverjir ná markmiðum sínum. Þetta gerir það að verkum að fulltrúarnir hafa ekki þörf fyrir lifandi grasrót hugsandi flokksfélaga. Smátt og smátt finna áhugasamir flokksmenn í grasrótinni að þeirra er ekki þörf nema til að sinna verkum, sjálfboðaliðaverkum. Einkenni á pólitískri flokkshegðun þeirra, sem ná að verða launaðir fulltrúar flokksins á opinberum vettvangi, er að þeir mæta ekki á fundi sem staðfestir tilfinningu almennra flokksmannanna um að ekki sé þörf fyrir umræðu um þjóðfélagsmál. Það er einnig sterkt einkenni á hegðun fulltrúanna að þeir hafa ekki áhuga á skoðunum almennra flokksmanna enda telja þeir sig ekki þurfa á þeim að halda til að ná markmiðum sínum í pólitík. Markmiðum sínum í pólitík!  (Það eru sem betur fer heiðarlegar undantekningar frá þessu.) Eftir ákveðin tíma þá kyrkist flokksstarfið og flokkurinn tapar fylgi sínu.

Tenging við almenning er nauðsynleg hverjum stjórnmálaflokki eða -manni og það verður að þróa leiðir til að finna hæfasta og besta fólkið til að sinna erindi þeirrar hugmyndafræði sem sameinast hefur verið um í stjórnmálaflokki. Ef stjórnmálaflokkur er ekki í raunverulegum tengslum við almenning er hann einskis virði. Gamla aðferðin þegar stillt var upp á lista í reykfylltum bakherbergjum gengur ekki og heldur ekki prófkjörsleiðin eins og hún hefur þróast. Mikilvægt er að tryggja hlustun á kjörum almennings og hugmyndum hans um lífið, tilveruna og hamingjuna. Kannski býður ný tækni upp á að þetta sé hægt. Hvaða flokkur nýtir sér slíkar aðferðir?

Klukkan glymur og tónninn er lýðræði, gagnsæi, réttlæti og heiðarleiki. Það er lýðræðishreyfing í landinu og eitt af börnum hennar er undirskriftarsöfnun Kára Stefánssonar vegna þess að heilbrigðismál á Íslandi eru í ólestri. Fyrir nokkrum misserum breyttu almannamótmæli um tíma atburðarrás í kringum Evrópusambandsmálið. Í þessum málum og mörgum öðrum er alþýðan að krefjast aðkomu. Sumir segja daprir að ekkert hafi gerst þegar hrunadansinn hætti. Jú það gerðist eitthvað, því að kirkja hins gamla tíma sökk ofan í jörðina. Almenningur mun ekki sætta sig við stjórnun sjálfselskandi eiginhagsmunaseggja sem taka bæði fé og sæld til einkaeignar. Ekki er gott ef skipting gæða verður svipuð og var fyrir frönsku byltinguna – við vitum hvernig það fór. 10% Íslendinga eiga 75% af auðnum. Nú eiga 1% jarðarbúa 99% af auð jarðarinnar. Bernie Sanders forsetaframbjóðandi berst nú fyrir millistéttina í Bandaríkjunum sem er horfin. Þetta er ástand í heiminum sem ekki verður við unað. Allir búa við upplýsingar um ástandið sem kveikja munu bál og klukkan glymur.

Samfélags- og fjölmiðlar segja okkur sögur eins og þær berast af vörum fólks hráar og stundum ógnvænlegar. Oft ósannar og fram settar af illu eða fávísu innræti en líka oft sannar og heiðarlegar sem mikilvægt er að heyra af. Það er stórhættulegt að fjölmiðlar skuli ekki standa sig betur í umfjöllun með heiðarlegum rannsóknum á því sem er að gerast. Sterkustu fjölmiðlarnir bjóða of oft upp á míkrófónrannsóknir. Rannsóknin er þá þannig að einn fær að fullyrða eitthvað í míkrófón og síðan er annar fenginn til að bregðast við samtímis eða síðar. Enginn hlutlaus rannsókn fer fram engin blaðamennska. Blaðamenn hafa gleymt siðareglum sínum og þá sérstaklega reglu númer 3. (Heiðarlegum undantekningum fjölgar sem betur fer!)

Formlegir fjölmiðlar magna því miður oft seiði hasars og óánægju í stað þess að vinna vel úr gögnum og rannsaka þau mörgu mál sem vakin er athygli á. Þeirra er að þjónusta almenning með tilgátum um sannleikann í hverju máli og greinandi spurningum til þeirra sem bera ábyrgð. Fjölmiðlarnir eru undirseldir því að lifa af, hafa kannski ekki áhuga og sennilega ekki getu til að vinna vel, því að peningarnir stjórna.

Íslandsklukkan glymur og þar heyrum við tón lýðræðis, gagnsæis og heiðarleika. Það er greinilegt að almenningur hlustar og heyrir og er að bregðast við. Það er von og kannski eigum við enn okkar Íslandsklukku.

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • ,,En um það er sagan hefst var laungu kominn brestur í þessa klukku og elstu menn þóttust muna hljóm hennar skærari.“

    Það sama gæti ég sagt um móðurmálið mitt.

    Því er nú verr og miður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur