Laugardagur 13.02.2016 - 18:11 - Rita ummæli

Við lifum á undarlegum tímum

„Þetta voru beztu tímar og hinir verstu, öld vizku og öld heimsku, trúarskeið og skeið vantrúar, árstíð ljóss og árstíð myrkurs, vordagar vonarinnar og vetur örvæntingarinnar. Við áttum allt í vændum, við áttum ekkert í vændum, við vorum öll á hraðri leið til himna, við vorum öll að fara beint til helvitis, í stuttu máli sagt, tímarnir þá voru svo líkir því, sem þeir eru nú, að sumir þeirra er mest höfðu sig í frammi, kröfðust þess, að allt væri til góðs eða ills, látið heita annaðhvort í ökkla eða eyra.“ (Lesbók Morgunblaðsins 10. mars 1970. Þýðing Jónasar Haralz á upphafi Sögu tveggja borga eftir Charles Dickens.)

Við lifum á undarlegum tímum, þar sem litlar örður, lítil orð, viðburðir í daglegum athöfnum manna velta samfélagi okkar á hliðina í orðræðu. Menn rjúka upp til handa og fóta, dæma og „fordæma“ í bókstaflegri merkingu út frá einni örðu, einu orði einni athöfn sem sagt er frá í fjölmiðli. Stórir og smáir stökkva upp á nef sér og fella dóma með gífuryrðum svo að sá sem fyrir verður, sá sem virtist hafa fallið um örðuna, sem virtist hafa sagt orðið, gert eitthvað á þann hátt sem greint var frá verður að eilífu ómerkingur og aumur maður.

Dómur felldur og ekki aftur tekinn. Oft er það dómur felldur á fjallinu svo allir heyri en leiðréttingin er gerð í dalnum, jafnvel í kjarri, svo fáir heyra. (Ef leiðrétt er!)  Þeir sem heyrðu dóminn á fjallinu verða áfram engu nær og í þeirra augum verður ómerkingurinn hvort sem það er nú stofnun eða einstaklingur að eilífu svo í huga þeirra.

Það er áhættusamt að lifa og starfa í þess samfélagi þar sem allir geta orðið að skotspæni bæði háir sem lágir, fyrirmenn og alþýðumenn, fólk og fyrirtæki. Allir geta breytt sér á augabragði í dómara, refsivald og útdeilt refsingu með einni handarhreyfingu á lyklaborði. Þetta er ekki samfélag samræmis og samhljóms.

Nýlega hlýddi ég á afar áhugverðan fyrirlestur um samhengi tónlistar og speki Konfúsíusar. Konfúsíus var þeirrar skoðunar að halda ætti samfélagi manna saman með siðum og hefðum frekar en lögum og reglum. Þannig yrði það á ábyrgð hvers og eins að samfélagið héldist saman – yrði samhljóma. Samhljómur samfélagsins væri undir því kominn að hver og einn stæði sig í því að leika á sitt hljóðfæri hina sameiginlegu hljómkviðu og þá er pákan jafn mikilvæg og fiðlan sem leiðir, trompetinn jafn mikilvægur og þríhornið. (Hér verð ég að taka fram að þetta er útlegging mín.)

Margir sem velt hafa fyrir sér íslensku samfélagi tala um að það sé agalaust. Sumir segja að siðleysi sé inngróinn hluti af  því og benda á að hrunadansinn og hrunið séu skýr dæmi um hversu siðleysið var almennt, viðtekið og sjálfsagt. Á hinn bóginn er íslensk samfélagsvitund mjög skynsöm og framfarasinnuð. Mörg dæmi eru um að íslensk vitund og hugsun sé fremri hvað varðar ýmiss samfélagsleg réttindi og skilning á hlutskipt einstaklinga og hópa. Hér er best að vera ekki að taka dæmi.

Það virðist vanta samhljóm og undirliggjandi sið sem stýri gerðum okkar en það virðist einnig vera svo að þegar þarf að taka höndum saman, þá er það hægt. Siðurinn á að vera æðri en lögin því að siðlega þurfum við að ákveða að fara eftir lögum. Ef við viðurkennum ekki lögin og reglurnar sem gilda þá er siðurinn rofinn og dauður. Lög eru ekkert annað en skráning á augljósum siðum sem við teljum svo vera. Lög geta verið flókin og óskiljanleg og um skilning á þeim takast saksóknarar og verjendur á fyrir framan dómara sem eiga að hafa yfirsýn og reynslu til að skera úr hvað rétt er. Lögin eru skráðar leikreglur sem við höfum ákveðið að hafa til að hjálpa okkur við að tryggja samhljóminn en hann er siðurinn.

Mennirnir eru ófullkomnir, því að þeir eru aðeins dýr sem hafa lært að hugsa og fengið meðvitund um sjálfa sig. Menn þurfa því nauðsynlega að koma sér upp siðum, siðvenjum, lögum og reglum til að hjálpa sér, svo að ekki skapist ófriður sem hreinlega getur endað í dauða þeirra eða samfélagsins. Vegna ófullkomleika síns þá verður maðurinn að vera í stöðugri samræðu, með samferðamönnum sínum, með börnum sínum heima í stofunni, í dægurumræðu fjölmiðlanna og á þeim vettvöngum sem stofnaðir hafa verið til að ráða fyrir ríki og sveitarfélögum í lýðræðissamfélagi. Það er í samræðunni sem við styrkjum siðinn sem í raun liggur öllu samfélaginu til grundvallar.

Siðurinn, í okkur hverju og einu er grundvöllurinn og þar hefur Konfúsíus rétt fyrir sér. Kenning Konfúsíusar er eina heimspekikenningin sem hefur haldið saman ríki í yfir 2000 ár og því hlýtur eitthvað að vera í henni sem við getum lært af. Nú er Konfúsíus þriðja stoðin undir kínverska veldinu sem brátt verður voldugasta ríki jarðar en hinar tvær eru kapítalisminn og kenningar Marx og Lenín. (Eins undarlega blanda og þetta er!)

Ef til vill verður það ætíð svo á hverjum tíma mannsandans að mannskepnan þurfi að búa við ótrúlegar andstæður þar sem vit og vitleysa keppa, því að andinn og náttúran í manninum verði ætíð í stöðugri baráttu. Dýrið sem við erum, vill ná völdum yfir andanum og skynseminni. Margir eru fórnarlömb líkama síns (dýrsins) hvort sem það eru fýsnir af einhverjum toga, ánetjun einhvers eða hreinlega græðgi. Samfélagið myndi hins vegar ekki virka nema af því að lang flestir hafa stjórn á dýrinu eða þó að þeir missi einstöku sinnum stjórn á því þá ná þeir flestir völdum á endanum. Siðurinn liggur undir í hinu hugsandi dýri og siðurinn verður til með samræðu því að í samræðunni gerum við tilraunir með ranglæti og réttlæti. Það eru því hættumerki ef kynslóðirnar eru hættar að ræða saman, því að hinir öldnu hafa oft náð góðu viti í tilveruna sem þeir geta miðlað. Það eru líka hættumerki ef menn fullyrða og dæma út frá óathuguðum upplýsingum sem hent er á loft í fjölmiðlum. Slíkar upplýsingar sem menn henda á lofti, haga sér stundum eins og bjúgverplar og lenda í kolli þeirra sem bregðast við.

Um þroska mannsins og baráttu mannsandans segir Konfúsíus:

„Þrennt er það sem hefðarmenn verða að varast. Í æsku þegar ókyrrð er í blóði og vessum, þá verða þeir að vara sig á kynþokka kvenna, þegar þeim hefur vaxið ásmegin og blóð og vessar fyllast þrótti og festu, þá verða þeir að varast baráttumóð, og á gamalsaldri er blóð og vessum hefur hnignað verða þeir að vara sig á ágirnd.“ (Speki Konfúsíusar í þýðingu Ragnars Baldurssonar. Iðunn 1989. bls. 211, kafli XVI -7 )

Ýmsir ráðamenn, bæði formlegir og óformlegir, mættu hugleiða og láta sér að kenningu verða eftirfarandi speki Konfúsíusar:

„Hefðarmaður veltir fyrir sér níu atriðum. Hann veltir fyrir sér hvort honum sé ljóst það sem hann sér, hvort hann heyri rétt það sem honum berst til eyrna, hvort svipur hans sé hlýlegur, hvort hann sé tignarlegur í fasi, hvort hann sé vandur að virðingu sinni í starfi, hvernig hann geti leitað sér upplýsinga ef hann er í vafa, hvort að það leiði ekki til vandræða ef hann reiðist, og hver siðferðisskyla hans sé þegar hann eygir eitthvað sem hann getur öðlast.“ (Speki Konfúsíusar í þýðingu Ragnars Baldurssonar. Iðunn 1989. bls. 211, kafli XVI -10 )

Við lifum á undarlegum tímum þar sem hættur eru við hvert fótmál ef speki er hunsuð.

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur