Þriðjudagur 16.12.2014 - 16:11 - 1 ummæli

HRINGLSDROTTINSSAGA HRÍMLANDS.

Í Hrímlandi eru tvö héruð og er annað Mondor og þar eru hinir megandi vel en hitt er Aldor þar sem hinir lítt megandi dvelja. Mondorar ráða yfir Aldorum bæði vegna mikilla fjársjóða og svo hins að þeir hafa ævinlega tögl og hagldir í flestu sem þeir vilja. Munnmæli herma að eitt sinn hafi Aldorar ríkt yfir Hrímlandi. Þykir það óáreiðanleg sögn en í henni felst að dag einn muni þeir aftur ríkja yfir Hrímlandi.

Mondorar slæva Aldora með gjöfum og ala á bældum hvötum þeirra til alsnægta. Mondorar koma því svo fyrir að Aldorar hyggi aðeins að kroppum sínum og hverjum þeim nautnum er láti þá gleyma viti sínu.

Margan seiðinn hefur Sagomand hinn hvíti magnað Aldorum svo þeir gleymi viti sínu og hefur hann seiðmann með sér einn mikinn og vel tengdan, og jafnvel betur tengdan, Mondorum en Sagomand hinn hvíti er. Þykir það mikið undur meðal Mondora hvað Sagomand hinn hvíti hefur mikið vald yfir Beromand skáldaða en svo heitir seiðmaðurinn.

Síðasti stóri seiður Sagomands var að gera Aldorum þá trú að þeir ættu meira í bústöðum sínum. Mögnuðu þá Aldorar Sagomand hinn hvíta svo mikið með vilja sínum að jafnvel Beromand hinn skáldaði varð að lúta í duft og sverja Sagomand og Mondor hollustu sína og sinna bláu hersveita. Getur hver maður ímyndað sér skjaldarmerki þeirra en hér verður ekki getið um það svo frásögnin klénist ekki.

Sá er þó munur á eiginlegum völdum Sagomands hins hvíta og Beromands hins skáldaða að hinn fyrrnefndi á illa búnar sveitir úr iðrum jarðar en hinn síðanefndi betur búnar af landi og sjó. Er því með þeim mikill ójöfnuður og er óvíst að þungvopnaðir menn Beromands hins skáldaða séu búnir til að þola lengi miskunnarlaust, flárátt og lítt grundað ofríki Sagomands hins hvíta.

Þá þykir mikið undur á hvern hátt Sagomand hinn hvíti magnar seið sinn því að hann hefur þann vana að stökkva inn á alvöllinn og slá fram romsunni svo að mikið bál verður en hverfur jafnskjótt til tjalda sinna eða búða. Notar Sagomand auga eitt mikið logandi sem horfir um Hrímland og hvarflar það um héruðin, finna menn mikið fyrir því og setur að þeim kjánahroll. Geta menn sig hvergi hrært fyrir ónotatilfinningu á meðan glyrnan er á þeim.

Nú magnar Sagomand hinn hvíti enn mikinn seið. Hyggst hann nú ganga milli bols og höfuðs á öllu því er byggt hafði verið á hinum fornu túnum sem var heilsa, menntun og frelsi. Þá ríkti ögn meiri jöfnuður milli Mondora og Aldora og höfðu hinir síðarnefndu nokkra möguleika til þess að komast til nokkurs frama meðal Mondora. Hitt var einnig að fjársjóðir Mondora voru minni að vöxtum og var því hlutdeild Aldora í Hrímlandi meiri.

Einn af forverum Sagomands hins hvíta var Dagomand hinn hárprúði, einn mikill seiðkarl sem ríkti meðal Mondora og yfir Hrímlandi öllu um áratugi. Vald hans var af allt öðrum toga en Sagomands hins hvíta því að það var af orðkynngi og bölyrðum gert og notaði hann mikið smér. Það var í seið hans er skil urðu gleggri milli Mondora og Aldora. Reyndar fór það svo að Mondorar urðu svo gjálífir af völdum sínum og fjárráðum að þeir átu á sig skít. Féll þá hver um annan þveran svo að Mondorar misstu áhrif sín og völd um tíma. Er sagt að Dagomand hinn hárprúði standi á bakvið Beromand hinn skáldaða og eru það undur og stórmerki því að ekki var hin fyrri vegferð Dagomands hins hárprúða til sóma. Enginn má þó við mögnuðum göldrum í Hrímlandi fremur en öðrum ríkjum í hinum ímyndaða heimi þessarar sögu.

Föruneyti heilsu, mennta og frelsis kom saman nýlega og úthrópaði seiðinn. Vildi föruneytið með samkomu sinni magna upp hvað rangt væri í seiðnum. Ekki mögnuðu þeir gegn öllum seiðnum því að hvorki höfðu þeir afl til þess né vit og þor til að magna gegn öllum Mondorum og því er Sagomand hinn hvíti stendur fyrir. Hvarf svo mögnun þeirra máttleysislega í muldri Hrímverja en svo nefnast þeir er í þvísa landi búa. Föruneyti heilsu, mennta og frelsis tekst ekki að magna upp viljann til að Hrímverjar sameini sín héruð og taki upp einn sið er öllum mætti vel líka þar sem heilsa, menntun og frelsi væri öllum ætlað. Nokkrir Aldorar eiga sér von í brjósti og sumir trúa flökkusögu.

Gengur sú saga meðal Aldora að dag nokkurn muni vitkinn Alsgáður koma í hreysi eitt í dalnum Bag þar sem Frjánn hinn litli býr. Er sagt að Frjánn hinn litli búi yfir töfrasteini og beri í vasa sínum. Steinn þessi hafi þá náttúru, að sé honum kastað í eldgíg verði af svo mikið ljós að nánast allir Aldorar og nokkuð af Mondorum sjái það – sjái ljósið. Helst þó þeir Mondorar er koma af landi og sjó en síst þeir er úr iðrum jarðar koma.

Þetta er því miður saga sem ekki er trúandi á, því að enginn veit hvar Bagdalur er eða hver þessi Frjánn hinn litli er. Fáir eru lifandi meðal Aldora sem hafa séð vitkann Alsgáðan hinn gráa en hver veit. Mega menn vona?

Menn geta aðeins vonað.

Ásgeir Beinteinsson

 

 

Flokkar: Dægurmál · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur