Föstudagur 29.10.2010 - 23:42 - FB ummæli ()

Er ekki kominn tími til að hugsa hlutina upp á nýtt

Heimilin eru okkur öllum mjög kær. Þau eru það skjól sem við ölum upp komandi kynslóð sem mun taka við kyndlinum. Minningar okkar flestra hringsnúast um bernskuheimili okkar. Þær ákvarða oft á tíðum hvernig við spilum síðan úr lífinu.

Um 73.000 heimila skulda í húsnæði sínu. Þeir sem skulda munu eiga í árslok 2011 um 6% í húsnæðinu sínu. Árið 2012 mun nánast enginn sem skuldar í sínu húsnæði eiga nokkuð í því. Þá getum við ekki selt ofanaf okkur til að sleppa úr skuldaánauðinni. Önnur birtingamynd er að um helmingur heimila í landinu á ekki fyrir óvæntum útgjöldum. Það er skilgreiningin á lágstétt sem þar með hefur vaxið gríðarlega.

Þetta vandamál er meira en 5000 ára gamalt. Því miður verð ég að hryggja ykkur með því að við Íslendingar finnum sjaldnast upp nýja hluti.

Í Mesopótamíu gerðu menn sér grein fyrir því að skuldir hefðu tilhneygingu til að vaxa hraðar en uppskeran sem stóð undir þeim. Af þeim sökum settu menn fljótlega reglur. Því var fljótlega farið að fella niður skuldir þegar uppskerubrestur var orsökin fyrir vangreiðslu. Þessi barátta milli þeirra sem vildu safna vöxtum sér til handa og hinna sem vildu reka þjóðfélag  þar sem jafnræði gilti milli lánadrottna og skuldara hefur staðið síðan. Til að halda þjóðfélögum saman og í jafnvægi, komst á sá siður að konungar aflýstu öllum óbærilegum skuldum við upphaf  valdatímabils.  Á þann hátt héldust samfélögin saman. Skuldabyrðin varð viðráðanleg. Yfirvaldið gat framkvæmt þetta sökum möguleika á valdbeitingu. Vegna þess að yfirvöld höfðu einkaleyfi á valdbeytingu og lánadrottnarnir urðu að sætta sig við ákvörðun þeirra.

Núna er staðan allt önnur. Í dag hafa lánastofnanir einkaleyfi á valdbeitingu. Steingrímur verður að fylgja þeim að málum því hann hefur ekki það vald sem forverar hans höfðu eða hann hefur ekki kjark til þess til að taka sér það vald.

Þegar hlustað er á málflutning stjórnvalda er augljóst að þau tala máli lánadrottna. Hagsmunasamtök heimilanna reyna að innleiða 5000 ára gamla hugsun en í mun mildara formi gagnvart lánadrottnum en þá var.

Við verðum að finna sátt. Í því sambandi verðum við að sammælast um að kostnaður af lánastarfsemi, vextir og verðbætur, er bara kostnaður, mínus í okkar raunhagkerfi. Framleiðsla er það sem skiptir máli og arðurinn af henni. Í dag fer allur arður sjávarútvegsins inn í bankana í formi vaxtagreiðslna.  Arður álbræðslunnar fer til móðurfyrirtækjanna. Allur arður einstaklinga af heimilunum fer til lánastofnana.

Er ekki kominn tími til að hugsa hlutina upp á nýtt?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur