Laugardagur 25.12.2010 - 01:40 - FB ummæli ()

Hvernig jól viljum við hafa

Öll fjölskyldan sameinuð á aðfangadag við undirbúning á kvöldinu. Ris Á L´amande með falinni möndlu, möndlugjöfin. Óaðfinnanlegur kalkúnn að hætti húsbóndans. Pakkar, gleði og toppað með heimgerðum ís móðurinnar. Því miður ekki öllum gefið.

Baráttan fyrir bættum heimi verður sérstaklega ágeng á jólum. Jólin eru tengd ákveðnum friðarboðskap og kærleika. Auk þess er vitneskjan um neyð annarra ekki jafn auðmelt og kræsingarnar okkar þegar við minnumst þess að Guð gerðist maður og deildi kjörum með okkur. Mönnum er gjarnara að sitja að sínu en að deila.

Haítí búar lentu í miklum hörmungum á árinu auk Pakistana. Hörmungar þeirra komust í fréttirnar en það er bara brot af öllum sem eru í neyð. Við fréttum minnst af öllum þeim aragrúa sem eiga við sárt að binda. Til að mynda deyja 22.000 börn á dag úr hungri eða sjúkdómum sem auðvelt er að koma í veg fyrir. 80% mannkyns lifir á minna en 10 dollurum á dag. Hvernig jól skapar maður með 300 dollurum á mánuði. Þeir ríku, um 20% mannkyns, hafa 75% af tekjum jarðarinnar og deila því í mjög takmörkuðu magni með hinum.

Annað hvert barn í heiminum lifir í fátækt, kannski halda þau gleðileg jól, ef þau trúa þá á Krist eins og við hin sem höfum það svo gott. „Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þið og þeim gjöra“ sagði Jesús en það er að minnsta kosti ekki að virka í dag. Einhver önnur lög gilda í dag í heiminum um það hvernig maður kemur fram við meðbræður sína.

Megnið af öllum heiminum skuldar peninga í dag. Fátæku löndin skulda svo mikið og borga svo mikið í afborganir af lánum að þau geta ekki fætt né klætt börnin sín. Fjárstreymi úr landi fátæku landanna í formi afborgana af lánum er mun meira en innstreymi af neyðaraðstoð. Undanfarið hafa einnig ríku löndin verið að lenda í sömu skuldagildru. Lettland, Grikkland og Írland. Þar er núna skorið niður hjá almenningi til að greiða afborganir af skuldum. Fleiri rík lönd í Evrópu er væntanleg í hóp skuldugra þjóða. Skuldin er ein megin orsök þess að sárafá börn geta notið jólanna eins og börnin mín.

Trúarlega og siðferðilega er það fordæmt að manneskja svelti í hel fyrir skuldir, skuldir á peningum, og við erum sjálfsagt öll sammála þessu. Þrátt fyrir það segja stjórnmálamenn að við eigum að borga skuldir okkar og nánast án tillits til afleiðinganna. Þar með er verið að styrkja í sessi það viðhorf sem veldur fátækt og dauða um allan heim. Ef allir myndu horfa á skuldina í stærra og hnattrænna samhengi, vitandi að 22.000 börn deyja á dag vegna skulda, þá vaknar vonandi skilningur á því að véfengja réttmæti skuldarinnar.

Ef við ætlum að berjast fyrir betri heimi verðum við að byrja einhverstaðar. Auðveldast er að byrja heima við. Lánadrottnar um víða veröld innheimta sínar skuldir með vöxtum án tillits til þeirra hörmunga og barnadauða sem það hefur í för með sér. Flestir Íslendingar hafa enn nóg að bíta og brenna, þrótt og þrek til að skapa fordæmi. Ef við viljum í hjarta okkar og meinum það að öll börn jarðarinnar njóti sömu jóla og börnin okkar þá er fyrsta skrefið að stöðva banvæna sigurgöngu skuldarinnar, að brjóta ísinn, og segja nei. Okkar nei gæti skapðað fordæmi sem sigraði heiminn og hver veit, kannski munu þá fleiri börn fá að hafa jólin eins og þau sjálf vilja en ekki eins og innheimtumennirnir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur