Föstudagur 18.03.2011 - 22:49 - FB ummæli ()

Lilja er sigld

Lilja Mósesdóttir kemur fram með tillögur sem snúast um að leysa aðsteðjandi vanda þjóðarinnar. Hugmynd hennar um að taka upp nýjan gjaldmiðil á Íslandi hefur valdið miklum viðbrögðum. Menn hafa sammælst um að gera lítið úr henni og rangtúlkað hugmyndir hennar. Atgangurinn hefur verið það mikill að augljóst er að hugmynd Lilju er mjög hættuleg og þar af leiðandi mjög góð.

Það sem gerir málið erfitt í umræðu er að grunnhugtökin eru ekki vel kunn í umræðunni. Fullt tilefni er að ræða um hvað peningar eru, hver býr til peninga og hver stjórnar magni peninga í umferð í þjóðfélaginu?

Gróft má skipta peningum í tvennt. Um 2-5% af peningum í umferð eru seðlar og mynt, þetta sem við handfjötlum og fáum út úr hraðbönkunum. Þá peninga má Seðlabanki Íslands eingöngu framleiða og stjórnar því magni þeirra peninga í umferð. Seðlabankinn miðar magnið við að viðskipti geti farið fram án vandkvæða og myndi því prenta meira ef á þyrfti að halda.

Hinn hluti peninganna eru svokallaðir bankapeningar, þ.e. um 95%. Það eru peningar sem eru til í bókhaldinu-rafrænir. Þessa peninga búa bankarnir til og bankarnir stjórna magni þeirra.

Bankarnir geta engöngu búið til peningana sína með því að skuldsetja viðskiptavini sína. Það er, til að banki búi til peninga verður einhver að taka lán. Þess vegna eykst peningamagn í umferð þegar bankar lána mikið og minnkar þegar bankar lána lítið. Þegar peningamagn minnkar eins og í dag þá eigum við í stökustu vandræðum með að stunda viðskipti. Ástæðan er ekki skortur á vilja, verkefnum, vinnuafli né hráefni heldur skortur á peningum. Þar sem bankarnir blésu út bankabóluna og sprengdu hana líka þá stjórna þeir magni peninga í umferð og örlögum okkar hinna líka. Við erum öll hérna með öll okkar tæki og tól en skortir bara peninga til að skiptast á verðmætum.

Þess vegna verðum við að skilja peninga, að þeir eru í raun verkfæri. Það að hæðast að skynsamlegri notkun verkfæra eins og menn reyna að gera við hugmyndum Lilju sýnir mikið ábyrgðarleysi. Almenningur á Íslandi í dag er farinn að sannfærast æ betur að allar hugmyndir sem koma almenningi til góða eru annaðhvort hlægilegar eða óframkvæmanlegar. Lilja er sigld kona og veit sínu viti en ef fram heldur sem horfir verðum við mörg hver sigld til annarra landa að meira eða minna leyti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur