Fimmtudagur 07.04.2011 - 21:48 - FB ummæli ()

Icesave og einíngarbönd

Það er einhver hluti Íslendinga sem ætlar að segja já á laugardaginn vegna samviskubits, við erum svo vond þjóð, við kusum svo vondar ríkisstjórnir sem einkavæddu bankana. Þess vegna er það ekki nema sanngjarnt að við borgum sem mest. Ef engin neyðarlög hefðu verið sett hefðu Icesave innistæðueigendur í Bretlandi og Hollandi bara fengið 674 milljarða. Vegna neyðarlaganna munu þeir fá 1175 milljarða ef við segjum nei. Aftur á móti ef við segjum já þá munu þeir fá enn meira, hversu mikið veit enginn því það er blancó tékki.

Neyðarlögin valda því að Icesave innistæðueigendurnir fá meira en reglur ESB gera ráð fyrir. Hugsanlegt er að aðrir innistæðueigendur á sama markaði finnist þeir sviknir því þeir sem settu inn á Icesave fá mest til baka vegna bankahrunsins haustið 2008.

Það er svolítið sérstakt fyrir mig sem hef alltaf kosið þá sem hafa lent í stjórnarandstöðu s.l. 30 ár að ég beri ábyrgð á því að Davíð Oddson hafi einkavætt íslensku bankana. Einnig að þjóðin hafi dirfst að sniðganga andstæðinga Davíðs í pólitík og á því ekkert annað skilið en að borga Icesave er rugl. Það er hámark ruglsins að núverandi stjórnvöld sem skömmuðust yfir einkavæðingunni eru núna að ríkisvæða tap nýfrjálshyggjunnar.

Um alla Evrópu er verið að skella tapi einkabanka á skattgreiðendur. Á liðnum áratugum hefur alda einkavæðingar gengið yfir Evrópu undir tryggri stjórn ESB. Núna er sama samband að ríkisvæða tapið með fyrirmælum um niðurskurð á velferðarkerfinu. Eftir seinna stríð kom alda samstöðu meðal þjóða Evrópu. Þá náðust mörg af þeim réttindum sem við göngum að sem gefnum í okkar daglega lífi. Fjármálaöflin og stórfyrirtækin hafa markvisst unnið að endurheimt valda sinna og orðið vel ágengt.

Stór hluti þjóðarinnar virðist ætlar að stuðla að því að mistökin sem einkavæðing bankanna hafði í för með sér verði lögð á almenna skattgreiðendur á Íslandi. Rökin eru þau að við vorum svo vond að leyfa einkavæðinguna að við eigum ekkert betra skilið. Við sjáum afleiðingarnar í Lettlandi, Grikklandi, Bretlandi og Írlandi. Þar er mistökum einkavæðingarinnar dælt yfir þjóðirnar miskunnarlaust. Þessar þjóðir hvetja okkur til að segja Nei. Okkar NEI mun gefa þeim viðspyrnu í réttindabaráttu þeirra og okkar. Þá baráttu kjósum við aldrei í burtu með Já-i því henni lýkur aldrei. Er ekki full þörf á einíngarböndum á nýjan leik?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur