Föstudagur 08.04.2011 - 22:59 - FB ummæli ()

Icesave, Ísland og umheimurinn

Núna er kosningabaráttunni að ljúka og úrslitin algjörlega á huldu enn þá. Það gerir lýðræðið svo spennandi. Það er í algjörri andstöðu við foringjaræðið sem ræður för í íslenskum stjórnmálum. Þar vilja menn helst hafa atkvæðin á hreinu áður en að fundur hefst. Afleiðingin af því er að almennir kjósendur hafa haft tilhneigingu til að fylgja foringjanum án mikillar umhugsunar. Oftar en ekki gert rök foringjans að sínum. Icesave hefur aftur á móti klofið foringa og flokka. Þetta hefur skapað meiri málefnavinnu á leið almennings að niðurstöðu í Icesave málinu. Það er einn af kostunum við Icesave málið.

Það er mjög líklegt að tilraunir einkabanka í Evrópu til að láta skattgreiðendur borga mistök sín muni halda áfram. Þess vegna er það mikill kostur að grundvallaratriðið í Icesave deilunni séu vel kunn íslenskum almenningi. Í Lettlandi, Grikklandi, Írlandi og Portúgal eru „Icesave“ mál í gangi. Þar hefur framkvæmdavald Evrópusambandsins ákveðið að almenningur taki á sig tap einkabanka. Það er gert án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu á vettvangi þjóðþinga né á þingi Evrópusambandsins eins og kemur skýrt fram í grein Evu Joly. Hugmyndafræðin á bak við þá stefnu tilheyrir ekki nokkurri hefðbundinni pólitískri stefnu sem við þekkjum. Michael Hudson fer vel í gegn um grundvöll græðgisvæðingarinnar sem þessi stefna byggir á í grein sem hann birti í dag.

Vinstri menn eru almennt á móti frjálshyggju hvort sem hún er gömul eða ný. Frjálshyggjumenn sem eru sannir í trúnni vilja frelsi bæði til athafna og ábyrgðar. Þess vegna tekur maður tapið sitt á sig en kemur því ekki yfir á aðra.

Þess vegna er það erfitt að koma þeim fyrir í hinu pólitíska litrófi sem vilja að skattgreiðendur taki á sig tap einkabanka.

Það sem framkvæmdavald ESB er að gera í dag er að fjármagna ríkissjóði skuldsettra ESB landa með lánum frá stærstu bönkum Frakklands og Þýskalands. Skuldir viðkomandi landa eru til komnar vegna gjaldþrota banka á heimamarkaði sem fengu lán á sínum tíma frá sömu bönkum. Þess vegna fá stóru bankarnir misheppnaða fjárfestingu sína endurgreidda frá ríkissjóðum viðkomandi landa, þ.e.a.s. það eru almennir skattgreiendur sem borga brúsann. Þar að auki þarf að læka laun, eftirlaun, skera niður velferðarþjónustu og selja eigur almennings til einkafyrirtækja.

Þessi pólitík hefur verið stunduð áratugum saman í þriðja heiminum og er kölluð nýlendupólitík. Núna er þessari pólitík þröngvað upp á vestrænar þjóðir í boði ESB. Það sem er vel þekkt frá þriðja heiminum eru tvö atriði. Mikil fátækt sem afleiðing og hitt að slíkri stefnu er ekki komið á koppinn nema með aðstoð undirgefinni og spilltri valdastétt í viðkomandi löndum.

Við verðum að hætta að refsa íslensku þjóðinni vegna þess að Davíð skautaði létt yfir andstæðinga sína á sínum tíma og snúa okkur að grundvallarmálum, prinsippum. Það er rangt að einkavæða gróðann og samtímis að ríkisvæða tapið. Þess vegna segjum við NEI við Icesave fyrir okkur. Við segjum samt NEI við Icesave fyrst og fremst fyrir þjakaðar vinaþjóðir okkar í ESB, allar þessar þjóðir þrá það að við stöndum með þeim vegna þess að við fáum tækifærið sem þær aldrei fengu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur