Föstudagur 26.08.2011 - 21:30 - FB ummæli ()

Hver er sinnar gæfu smiður

Peningar eru búnir til af bönkunum, þeir hafa einkaleyfi á því. Þeir geta búið til eins mikið af þeim og þeim sýnist. Þess vegna er ekki skrítið að þeir ráði öllu. Bankarnir stjórna þess vegna ríkisstjórninni og öllu heila klabbinu.

Á netinu má finna óteljandi sögur um hrakfarir einstaklinga í samskiptum sínum við lánastofnanir. Í töflum Seðlabankans og annarra stofnana má finna sívaxandi skuldasöfnun heimila, fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga. Mikill fjöldi gjaldþrota, atvinnulausra og brottfluttra segir sömu sögu. Lánastofnanir draga til sín síðasta lífsneista lántakenda eða þá eigur þeirra ef þeir gefa upp öndina. Bæði lífið og lífsstarfið verður eign bankanna.

Þetta geta bankarnir vegna þess að þeir hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar og rukka þá til baka með vöxtum. Þeir búa til peningana úr engu. Meðan við leyfum þeim þetta munu þeir fegnir halda áfram að græða á tá og fingri. Það skiptir þá engu máli hvort þeim leyfist þetta undir vinstri eða hægri stjórn því meðan stjórnmálamenn láta að stjórn geta þeir blóðmjólkað almenning.

Það eina sem er ekki fyrirséð í þessari jöfnu erum við.

Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort við ætlum að halda áfram að deila innbyrðis eins og gladiotorarnir/skylmingaþrælarnir í Rómaveldi, ætlum við svo að bíða eftir fingri elítunnar, er það umbun okkar í lífinu? Sameiginlegir hagsmunir gladiotaranna var frelsi. Meðan þeir höfðu ekki frelsi skipti pólitísk sýn þeirra engu máli. Sem þrælar voru þeir alltaf skylmingaþrælar elítunnar.

Sem þrælar skuldarinnar erum við gladiotorar/skylmingaþrælar nútímans. Elítan/bankarnir setja fingurinn upp eða niður, borga eða afskriftir. Ætlum við að dansa með eða?

Við eigum val og í því felst ábyrgð okkar. Ætlum við að vera skemmtun elítunnar sem skylmingaþrælar því sú leið er einföld og viðurkennd?  Ætlum við að breyta, bylta og hætta að vera skylmingaþrælar elítunnar, eitthvað sem er öðruvðísi, ekki viðurkennt og veldur því að fingurinn vísar niður.

Er fingur elítunnar upp eða niður meira virði en frelsi okkar?

Við verðum að standa saman. Að vera flottasti Guðmundurinn í hringleikjahúsinu snýst bara um fingur elítunnar. Að hafa skoðanir á því hvort við klæðumst bláum eða rauðum skikkjum í hringleikjahúsinu breytir engu um frelsi okkar gagnvart þrældómi skuldarinnar. Lánadrottnarnir eru litblindir hvort eða er.

Við verðum að standa saman því þá erum við ósigrandi. Að loknum sigri getum við farið í litgreiningu, en ekki fyrr. Þræll er alltaf þræll hverju svo sem hann klæðist.

Ábyrgð okkar er mikil og hún einkennist af því hvort við sjáum okkur sem hóp manna sem vill breytingu, byltinu. Hún einkennist af því hvort okkur tekst að starfa saman að því markmiði að verða frjáls til þess að geta síðar meir skipst á skoðunum sem frjálsir einstaklingar.

Núna virðumst við flest vera upptekin að stúta hvert öðru innan veggja hringleikjahússins með tilliti til ímyndaðs litrófs, til ævarandi skemmtunar fyrir litblinda elítuna í stúkunni.

Sá á kvölina sem á völina..

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur