Föstudagur 04.11.2011 - 21:08 - FB ummæli ()

Enginn Frakki kann ensku og Grikkir eru latir…

Ég hef einu sinni komið dagspart til Frakklands. Ég var staddur í Genf í Swiss og fór í siglingu um Genfarvatn. Steig af ferjunni á franskri grund í einhverju pínulitlu þorpi. Við hjónin gengum inn á „Tourist bureau“ til að fá upplýsingar. Þar voru þrjár konur fyrir svörum. Engin af þeim talaði né skildu ensku, alls ekki, ekki aukatekið orð. Við reyndum þýsku, nei þær töluðu bara frönsku!

Ég tel mig þess vegna fullfæran að fullyrða að allir frakkar tala ekki ensku . Sennilega er þeim líka illa við útlendinga, hvað veit maður.

Það er haldið að okkur að Grikkir séu latir, lifi á hinu opinbera og fari á full eftirlaun skömmu eftir fermingu. Rökstuðningurinn er sennilega á pari við ályktun mína hér fyrir ofan um enskukunnátu Frakka. Ef við könnum málið aðeins nánar og athugum hvað felst í tölum OECD. Við skulum skoða fjögur N-Evrópsk lönd(Austurríki, Belgíu, Frakkland og Þýskaland) og fjögur S-Evrópsk lönd(Grikki, Ítalíu,Pórtúgal og Spán).

Þegar vinnustundir á ári eru bornar saman þá vinna Grikkir mest. Þeir vinna reyndar lang mest í allri Evrópu og jafnvel þó víðar sé leitað. Þessar tölur OECD falla illa að þeirri fullyrðingu að Grikkir séu latir, þeir virðast frekar vera sívinnandi, amk miðað við Þjóðverja sem virðast varla dvelja í vinnunni miðað við Grikki.

Atvinnuþátttaka er nokkuð svipuð nema hjá Ítölum. Þjóðverjar virðast bæta sér upp fáar vinnustundir á ári með mikilli atvinnuþátttöku.

Að áliti virtustu aðila(Sarkozy+Merkel) þá framleiða suður-Evrópubúar ekkert meðan þeir hanga í vinnunni. Þjóðverjar aftur á móti spýta út úr sér framleiðslunni eða..

Nei það virðist sem Grikkir hafi vinninginn og að hvorki Þjóðverjar né Frakkar séu neitt spes.

Þá hlýtur orsökin að vera að þessir Grikkir lifi bara á sósíalnum eða..

Nei, norður Evrópuþjóðirnar „eyða“ mun meiri pening af skattfé í sósíal hjálp en Grikkir. Það segir okkur að þegar skorið er niður í litlu veikburða velferðakerfi Grikkja þá er af miklu minna að taka og afleiðingarnar því mun alvarlegri.

Nú er reyndar orðið fátt um fína drætti til að rökstyðja rasískar skoðanir okkar á vinum okkar Grikkjum sem hafa margsinnis boðið okkur velkomna til sín til að njóta sumarleyfis í heimalandi sínu. Þess vegna er það örugglega bruðl þeirra í eftirlaunum sem þeir leysa út um og eftir fermingu, samkvæmt heimspressunni, sem veldur vandamálum Grikkja.

Á Ítalíu er lang flest gamalmenni og þess vegna „eyða“ þeir meir en hinir. Það er langsótt að 1% munur á milli Grikkja og Þjóðverja í útgjöldum til kynslóðarinnar sem skóp velferðina setji þjóð í gjörgæsli ESB/AGS og Seðlabanka Evrópu. Það er a.m.k eitthvað annað sem veldur. Það er verðugt verkefni fyrir raunverulega blaðamenn að kanna hvort fullyrðingar um heilar þjóðir séu sannar eða ekki. Að gæði blaðamennsku í dag sé á pari við rannsóknarblaðamennsku mína á enskukunnáttu Frakka er ákaflega dapurt. Það vekur upp þá spurningu hvort blaðamenn séu skuggi eða sól í tilverunni. Að minnsta kosti er þessi gagnrýnislausi fréttafluttningur af heilli þjóð dæmi um að fjölmiðlar stuðla á engan hátt að eflingu lýðræðis í heiminum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur