Miðvikudagur 07.03.2012 - 23:09 - FB ummæli ()

Landsdómur og Svikamyllan

Ég hef gaman af mannkynssögu og tel okkur geta lært mikið af henni. Þrátt fyrir það hef ég ekki haft dug né áhuga til að eltast við frásagnir af Landsdómsmálinu. Ekki að þær séu ekki merkilegar né mikilvægar en einhvern veginn finnst mér þær ekki skipta öllu máli. Það má ekki misskilja mig þannig að ég sé á mótu réttarhöldunum heldur frekar mættu menn kafa dýpra í frásögn sinni af orðum vitnanna.

Þarna mætir rjóminn af íslenskri elítu og hefur það helst að segja; að það var ekki ég eða hvað svo sem ég hefði gert þá hefði ekkert breyst eða bara orðið ennþá verra.

Menn skammast yfir dugleysi viðkomandi einstaklinga sem sátu í mikilvægum embættum hins íslenska stjórnkerfis og stjórnsýslu. Það er þetta með manninn og boltann.

Einstaklingarnir voru í sjálfu sér ekki slæmir en þeir voru staddir í kerfi sem stjórnaði þeim. Kerfið var ekki að þjóna hagsmunum almennings sem var í andstöðu við hlutverk framkvæmdavaldsins. Það er „conflict of intrest“.

Það má kalla eða skilgreina kerfið sem kapítaliskt eða sem nýfrjálshyggju. Það eru reyndar skilgreiningar sem eru full mildar eða upphefjandi miðað við afleiðingarnar. Mun frekar er um að ræða glæpi, rán, mismunun, eigingirni, mannvonsku og kúgun. Þegar bankakerfi kemur sér þannig fyrir í þjóðfélaginu, að tilraun til þess að það sæti ábyrgð gjörða sinna hafi þær afleiðingar að allt þjóðfélagið fari á hausinn og þannig valdi því að kjörninr fulltrúar geta ekkert gert, þá er það ekkert annað en kúgun og svikamylla.

Þess vegna er þessi íslenska elíta í raun að segja okkur að þeir höfðu engin raunveruleg völd í þjóðfélaginu. Fjármálakerfið, eða bankarnir voru búnir að setja upp svikamyllu þannig að tap þeirra lenti á skattgreiðendum og nánast án tillits til hvað íslenskir ráðamenn gerðu . Eins og öllum má því  ljóst vera er að atburðarrásin var og er í höndum fjármálvaldsins. Ef bankakerfið hefði hagað sér af ábyrgð þá hefði aldrei komið til þátttöku skattgreiðenda. Það er nokkuð langsótt að setja dæmið upp þannig að bankarnir megi gera hvað sem er og ef stjórnvöld hafa ekki vit fyrir þeim þá skuli stjórnvöld sett í gapastokkinn.

Að kasta fúleggjum í valdalausa elítu er ekki vænlegt til framfara samfara því sem strengjabrúðumeistarnir frá bönkunum sleppa skaðlausir. Þetta er svipað og að sá sem stelur hangikjötslærinu sleppur en lögreglunni er refsað.

Ef Geir sleppur þá er það kvittun dómsvaldsins að framkvæmdavald Íslands er valdalaust gagnvart bankavaldinu. Ef svo er þá þarf að hafa a.m.k. eina grein um bankavaldið í Stjórnarskrá Íslands vegna þess að það er þá valdamesta valdið í íslenskri stjórnsýslu.

Hvað um það, yfirheyrslurnar eru sjálfsagt allra athygli verðar og munu fá sinn sess í sögubókum framtíðarinnar. Ef orsakatengslin eru ekki skilgreind mun lítil breyting verða til framtíðar. Sá þáttur sagnfræðinnar má ekki gleymast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur