Föstudagur 20.04.2012 - 20:14 - FB ummæli ()

Skuldin og stjórnarksráin

Skuldin getur verið driffjöður áframhaldandi kreppu almenningi til skelfingar samtímis sem hún er auðlegð lánadrottna. Þess vegna er mikilvægt að skilgreina hverra hagsmuna á að gæta.

Íslendingar og margar aðrar þjóðir hafa upplifað sérstaka tíma á liðnum árum. Það er nánast ofrávíkjanleg krafa lánadrottna að allar skuldir skulu greiddar að fullu. Vandamálið við þá kröfu í núverandi árferði er að hún gerir illt verra.

Þær tekjur sem fara í endurgreiðslu skulda lama hagkerfið því ekki verður til ný framleiðsla né kaupmáttur til að endurreisa efnahag landa í kreppu. Það sem einkennir núverandi kreppu er að ósanngjarnar kröfur lánadrottna ráða ferðinni. Lánadrottnum hefur tekist að ná völdum meðal lýðræðsilegra kjörinna fulltrúa fólksins. Áður fyrr voru skuldir afskrifaðar til koma hjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik en ekki í dag.

Harka lánadrottna í dag er eftirtektarverð. Þeir virðast ekki á neinn hátt blikna við þær hörmungar sem þeir skapa. Þeir geta sætt sig við að fólk verði atvinnulaust, eignalaust og eigi varla til hnífs og skeiðar. Þeir virðast jafnvel ekki gera sér grein fyrir því að meðferðin sem þeir bjóða upp á getur gengið að efnahagskerfinu dauðu.

Þegar Þjóðríki verða skuldsett kemur krafan um sölu auðlinda. Íslenskir lánadrottnar standa svo vel að búið er að bankavæða okkar aðal auðlind sjávarútveginn. Hann er svo skuldsettur að það eru bankarnir sem segja til um hvort breyta eigi fyrirkomulagi sjávarútvegsins. Í þessu dæmi kristallast barátta hins opinbera og einkalánadrottna um að hirða arðinn af auðlindinni. Bankarnir vilja fá sínar vaxtagreiðslur en almenningur skattgreiðslur. Best væri að afskrifa skuldirnar svo almenningur hefði tök á því að fá arð af auðlindinni. Á mörgum öðrum sviðum er búið að drekkja fyrirtækjum og einstaklingum í skuldum svo að afrakstur vinnu þeirra lendir sem afborganir til banka en ekki sem aukinn kaupmáttur sem myndi endurreisa hrunið þjóðfélag.

Vinstri stjórnin var með yfirráð yfir þremur stærstu bönkunum á Íslandi og hefði því getað hagrætt skuldastöðu þjóðfélagsins sem hefði endurspeglast í aukinni hamingju og kaupmætti. Það sýndi sig að stjórnin var leppur lánadrottna því hún stóð fyrir nýrri einkavæðingu á tveimur af þremur bankanna.

Til að breyta stöðu lántakandans þarf að fjarlægja völd lánadrottna yfir lýðræðislega kjörnum fulltrúm almennings. Völd bankanna felast fyrst og fremst í því að þeir framleiða peningana fyrir okkur og því er framkvæmda- og löggjafavaldið háð þeim. Upplifun margra er að það skipti litlu máli að kjósa nýja valdhafa því það séu alltaf lánadrottnarninr sem eigi síðasta orðið.

Ef valdið til að búa til peninga er falið hinu opinbera sem verður að sæta eftirliti almennings þá munu bankar umbreytast úr lokuðum reykfylltum stofnunum í venjuleg  fyrirtæki sem við munum geta ráðið við. Að vera eitthvað að kroppa í þá er harla gagnslaust eins og sagan ber með sér. Þess í stað þarf að breyta grundvellinum að valdi þeirra.

Þess vegna verðum við að færa almenningi  meiri völd en bara það að kjósa á fjögurra ára fresti, m.a. með því að klára nýja stjórnarskrá. Að auka völd almennings og setja valdhöfunum auknar skorður er nauðsynlegt og auk þess skipta 300.000 þúsund manns með raunverulegt vald meira máli en einhverjir þingmenn með takmarkað vald.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur