Mánudagur 18.02.2013 - 22:17 - FB ummæli ()

Það er annar möguleiki í stöðunni

Dögun er nýtt stjórnmálaafl á Íslandi. Kjarnastefna Dögunar segir mikið um áherslumál okkar. Við viljum afnema verðtrygginguna, leiðrétta stökkbreytt lán heimilanna og framkvæma uppstokkun á stjórn fiskveiða á Íslandi. Einnig viljum við raunverulegar lýðræðisumbætur í formi nýrrar stjórnarskár(sjá kjarnastefnu Dögunar).

Því er haldið að okkur að ekki sé um neinn annan möguleika að ræða í stöðunni en að skera niður og auka skatta til að friðþægja bönkum og öðrum lánadrottnum. Það er reynt að kreista sem mest út úr okkur fyrir fjármálavaldið. Það hefur þær afleiðingar að efnahagskerfið á Íslandi fer í frost því mjög margir verða að spara til að komast af.

Fjármálavaldið er með yfirburðastöðu gagnvart almenningi eins og dæmin sanna. Lánadrottnar hafa ýmsa möguleika í stöðunni til að bjarga sér. Gjaldþrota bankakerfi gekk beint í ríkiskassann og dæla hefur þurft með jöfnu millibili peningum í Íbúðarlánasjóð og önnur fyrirtæki og stofnanir. Þrátt fyrir þessar gjafir af hendi almennings er gengið fram af mikilli hörku gegn lántakendum. Uppboð, fátækt og landflótti segir sína sögu.

Dögun telur að nú sé komið að skuldsettum almenningi að fá fyrirgreiðslu sem dugar. Ekkert hálfkák því það hjálpar ekki neinum. Verðtrygginguna verður að afnema. Almenna leiðréttingu lána(sjá aðferðafræði) verður að framkvæma ef friðinn skal halda í þessu landi. Einnig verðum við að setja þak á vexti húsnæðislána.

Almenningur hefur setið á hakanum lengi og ekki síst eftir hrun. Við í Dögun ætlum að breyta. Við ætlum að verja fólkið í landinu og standa með almenningi. Nú stendur almenningur frammi fyrir því að teysta nýju framboði eða gömlu flokkunum.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur