Þriðjudagur 08.10.2013 - 23:01 - FB ummæli ()

Að deila og drottna

Þessa dagana er hið ”svokallaða” hrun fimm ára og þar með Búsáhaldabyltingin. Uppi varð fótur og fit, mikil umræða og stór hluti almennings virtist leita svara við stóru spurningunum. Meðan menn veltu fyrir sér grundvallaratriðum höfðu mismunandi pólitískar skoðanir ekki mikil áhrif. Hópurinn var reiðubúinn að vinna saman að því að leita svara og finna lausnir. Sú lausn gekk stundum undir nafninu nýtt Ísland. Síðan var boðað til kosninga og flokkarnir fengu framgang samtímis sem draumurinn um nýtt Ísland dó.

Það voru til margar raddir fyrir hrun sem bentu ítrekað á óréttlætið og hrunið hleypti auknu lífi í þá umræðu. Í kjölfar hrunsins vöknuðu vonir um að hægt yrði að ganga að óréttlætinu dauðu með sameiginlegu átaki fjöldans. Kosningar og orðræðan gerði það síðan mikilvægara að vera í rétta liðinu þannig að fjöldinn tvístraðist. Minniháttar mál skyggðu á mikilvægu málin. Byltingin drukknaði í smáatriðum og sérhagsmunum pólitískrar rétthugsunar með dyggri aðstoð tækifærissinna.

”Að deila og drottna (latína: divide et impera, „deildu og drottnaðu“) er stjórnunaraðferð og hernaðarlist sem byggir á því að sá sem henni beitir reynir að kljúfa andstæðinga sína í hópa og hindra það að hópar andstæðinga hans geti tengst saman og myndað eina heild. Hugtakið er upprunnið hjá Rómverjum sem gerðu það að hornsteini utanríkisstefnu sinnar.” Wikipedia.

Kannski er það eftir allt saman guðleg forsjón að við sitjum aftur uppi með Svarta Pétur í pólitíkinni. Það eru yfirgnæfandi líkur á því að fjöldinn verði svikinn um kosningaloforðin og þá kannski mun hann fara aftur á Austurvöll og mótmæla. Kannski verður bylting af viti. Kannski þarf annað hrun svo að það gerist?

Ætlum við að láta sundra okkur eina ferðina enn? Ef kjörnir fulltrúar stjórna ekki hvar er þá valdið, hver eða hverjir stjórna í raun og veru? Að minnsta kosti er valdið ekki hjá sundruðum almenningi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur