Laugardagur 22.03.2014 - 01:43 - FB ummæli ()

Baráttan um brauðið

Pólitísk umræða á Íslandi er frekar sorgleg í dag. Stórir hópar fólks mæta á hverjum laugardegi og mótmæla sviknum kosningaloforðum núverandi stjórnarmeirihluta. Það er gott og blessað, í raun virðingaverð viðleitni í ástundun lýðræðis af hálfu almennings. Á því hefur verið mikill skortur lengi og í raun einkennt íslenskt lýðræði fyrir utan smá gos 2008. Í raun var mun mikilvægara fyrir almenning að mæta á Austurvöll í tíð fyrri ríkisstjórnar og mótmæla sviknum kosningaloforðum. Þá hefði kannski verið einhver von um að bæta kjör þeirra sem minnst hafa úr býtum í samfélagi okkar. Ef sófasócilademókratarnir hefðu mætt á Austurvöll þá hefðu Steingrímur og Jóhanna kannski gert skurk í því að bæta kjör fátækra að einhverju marki. Það mun ekki gerast í tíð núverandi ríkisstjórnar, þar njóta bara ríkir hagsmunaaðilar forgangs.

Ísland er eitt af ríkustu löndum veraldar. Við erum í 16-20 sæti yfir þjóðartekjur á mann. Það finnst engin afsökun fyrir því að fátækt sé á Íslandi. Til að breyta því verða þeir sem sætta sig ekki við fátækt  að mótmæla og þvinga stjórnvöld til að breyta um stefnu. Í raun ætlar enginn stjórnmálaflokkur á Alþingi að breyta þessu því þá yrðu atvinnurekendur að hækka lágmarkslaun og það vill  verkalýðsforystan ekki gera. Ástæðan er einfaldlega sú að verkalýðsforystan og atvinnurekendur deila þeirri sameiginlegu sýn á sjálfan sig að þeir séu hluti af fjármálavaldinu. Þess vegna er Austurvöllur augljós samverustaður fyrir þá sem eru ósáttir við fátækt á Íslandi.

Fjármálavaldið stjórnar íslenskri verkalýðsforystu, stjórnmálaflokkum og atvinnurekendum. Þegar verk framkvæmdastjórnar ESB í viðbrögðum við kreppunni eru metin eru þau flest öll til hagsbótar fyrir fjármagnseigendur, þ.e. fjármálavaldinu. Ef dimmbláir Sjálfstæðismenn stæðu á Austurvelli og mótmæltu því að við værum ekki á leið inní ESB hefði ég skilning á því en þegar ”vinstri” menn hópast til að styðja framgöngu fjármálavaldsins á heimsvísu er mér brugðið.

Kannski fáum við ódýra skinku og Evru einhvern tímann í framtíðinni en við getum útrýmt fátækt á Íslandi í dag. Notum lýðræðið, krefjumst lýðræðis og forgangsröðum rétt kæru félagar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur