Þriðjudagur 25.03.2014 - 23:13 - FB ummæli ()

Bara eitt skot í byssunni

Það var eins og tónninn breyttist í umfjöllun um gjaldeyrishöftin þegar ný ríkisstjórn tók við. Áður var þetta fjarlægt en núna er afnám haftanna frekar á næsta leyti. Síðan þegar Össur er farinn að hotta á klárinn og vill að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig þá fer maður að velta ýmsu fyrir sér. Er rúmur þinglegur meirihluti fyrir afnámi haftanna og hvernig hafa menn hugsað sér útfærsluna? Það er reyndar leyndarmál en hitt er augljóst að sú aðgerð má ekki mistakast, eins og Seðlabankastjóri sagði þá er bara eitt skot í byssunni.

Ef menn ætla að opna á hefðbundin viðskipti með krónur meðan landið er verulega skuldsett og þjóðfélagið rekið á kredít má búast við snörpu falli á verðgildi krónunnar. Það er reyndar óskastaða erlendra fjárfesta og útflutningsgeirans í íslensku samfélagi. Væntingar þessara aðila og staða þjóðarbúsins mun væntanlega ekki breytast á næstunni og þess vegna er spurningin mjög áleitin; hvenær hafa stjórnvöld hugsað sér að afnema höftin? Þar að auki óska lífeyrissjóðirnir eftir meira ”lebensraum” fyrir fjármuni sína(þ.e. okkar).

Hugmyndir um nýkrónu og mismunandi skiptigengi sem sumir hafa rætt um virðist ekki vera upp á borðum hinna háu herra í dag. Lilja Mósesdóttir og fleiri málsmetandi aðilar hafa bent á þessa leið án mikils árangurs hjá elítunni sem mun á endanum ákveða hvaða leið verður farin. Samkvæmt hefðinni munu fjármagnseigendur og sérhagsmunahópar ná sínu fram og almenningur mun blæða.

Ef skotið geigar þá eru afleiðingarnar vel kunnar, krónan fellur, verðbólgan eykst og þar með skuldir allra og kaupmáttur snarlækkar, þ.e. nýtt hrun á pari við það fyrra. Í fljótu bragði minnist ég þess ekki að einhleypur af þessari tegund hafi komið að gagni við fyrrnefndar aðstæður. Er ekki kominn tími til að ræða þessi mál af fullri alvöru í stað þess að beita alltaf frestunaráráttunni ”den tiden den sorgen”. Við verðum að ”feisa” þetta sjálf, ekkert ESB eða Evra reddar okkur, við verðum að taka slaginn við fjármagnseigendur til að verja hagsmuni almennings á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur